Arnika

Náttúruvörur

  • Arnika

Arnika er þurrkaðar blómkörfur fjallagullblóms (einnig nefnt sólarljómi) eða annarra tegunda af ættkvísl sólarblóma, en til hennar heyra fjölærar plöntur sem bera skærgul blóm sem minna á baldursbrá. Arnika er notuð m.a. til að hemja bólgu og draga úr sársauka.

Fræðiheiti
Arnica montana L. (fjallagullblóm) og skyldar tegundir, m.a. Arnica fulgens Pursh., A rnica sororia Green., Arnica latifolia Bong og Arnica cordifolia Hook. (hjartagullblóm).
Ætt: Körfublómaætt Asteraceae (Compositae).

Önnur heiti
Sólarblóm, gullblóm.

Ensk heiti Arnica, Leopard´s bane, mountain snuff, mountain tobacco, wolfsbane

Einkunn
Útvortis notkun: 1 = Áralöng notkun og víðtækar, vandaðar rannsóknir benda til þess að þessi vara sé mjög áhrifarík og örugg að því tilskildu að hún sé notuð í því magni sem mælt er með í ábendingunni (ábendingunum) sem koma fram í kaflanum "Gagnleg áhrif : niðurstöður rannsókna".

Innvortis notkun: 5 = Rannsóknir benda til þess að talsverð áhætta sé því samfara að nota þetta efni, jafnvel þótt fylgt sé leiðbeiningum um magn (skammtastærðir).

Hvað er arnika?
Arnika er þurrkaðar blómkörfur fjallagullblóms (einnig nefnt sólarljómi) eða annarra tegunda af ættkvísl sólarblóma, en til hennar heyra fjölærar plöntur sem bera skærgul blóm sem minna á baldursbrá. Jarðstönglar plöntunnar eru einnig notaðir stundum.

Notkun
Um aldir var arnika í öndvegi meðal lækningajurta á Vesturlöndum. Lyfjablöndur til inntöku voru notaðar til að stilla hósta, styrkja hjartað og örva miðtaugakerfið. Landnemar Vesturheims notuðu arniku til að slá á sótthita og örva blóðrásina, oft að læknisráði. Á síðari árum hafa komið fram vísbendingar um að ekki sé heppilegt að nota arniku innvortis og það hefur svert orðstír jurtarinnar.

Lyfjablöndur til útvortis notkunar hafa þó ekki sömu áhættu í för með sér og þær eru mikið notaðar í Evrópu, einkum til að draga úr ertingu, hemja bólgu og lina sársauka. Arnikublöndur hafa verið notaðar til þess að bera á bólgna ökkla, aumar axlir eftir liðhlaup, vöðva sem verkjar í, sára liði liðagigtarsjúklinga, marbletti, sár, skordýrsbit, kýli, bólgna góma og gelgjubólur. Gegn særindum í hálsi ráðleggja sumir grasalæknar að skola kokið með arnikuseyði. Einnig má væta grisjuþófa með seyðinu til að kæla bólgna gyllinæð. Jurtaáburður gegn sóra (soríasis) og exemi inniheldur oft arnikukjarna. Smáskammtalæknar (hómópatar) ráðleggja örlitla skammta af arniku við ýmsum kvillum.

Helstu lyfjaform
Útvortis notkun: Hlaup, seyði (notað í hálsskol, grisjuþófa og bakstra), áburður, tinktúra. Krem sem innihalda arniku eru vinsæl í Evrópu.
Innvortis notkun: Ekki ætti að nota arniku innvortis.

Algeng skammtastærð
Grisjuþófi er vættur með blöndu sem er gerð úr einni matskeið af tinktúru í hvern hálfan lítra af vatni. Seyði er gert með því að nota tvö grömm af arniku í hverja 100 millílítra af vatni. Þegar nota skal arniku í bakstra er tinktúra þynnt þrefalt til tífalt með vatni. Í smyrslum er arnikuolía að hámarki 15% eða 20-25% tinktúra. Ekki skal nota arniku innvortis eða á sprungna húð.

Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Snemma á níunda áratug síðustu aldar gerðu þýskir rannsakendur merka uppgötvun þegar þeir greindu tvö mikilvæg efni í arniku - seskvíterpenlaktónínhelanalín og díhydróhelanalín og afleiður þeirra - en bæði þessi efni minnka bólgu, draga úr sársauka og halda gerlum í skefjum, þótt síðast töldu áhrifin séu væg. 1 Hefðbundin notkun jurtarinnar virðist yfirleitt skynsamleg í ljósi þessarar uppgötvunar, einkum í ljósi þess að áður hafði verið sýnt fram á að arnika inniheldur efni sem draga úr ertingu. Eins og milljónir Evrópumanna grunaði getur arnika sefað einkenni sem fylgja skrámum og verkjum. Þýsk heilbrigðisyfirvöld heimila útvortis notkun arniku til sótthreinsunar og til þess að hemja bólgu og deyfa sársauka. 2

Þótt flestir sérfræðingar telji nú að of áhættusamt sé að taka inn arniku var jurtin líklega notuð þannig fyrrum í ýmsum tilgangi. Dýratilraunir benda til þess að kjarni úr henni auki örlítið viðnám gegn sýkingu (sennilega með því að örva ónæmiskerfið) 3 og að hún geti aukið galllosun, verið þvagræsandi og aukið blóðflæði. 4 Þessi áhrif voru þó yfirleitt tiltölulega væg. Sem dæmi má nefna að í rannsókn sem var gerð um miðjan níunda áratug síðustu aldar á einstaklingum sem þurftu að láta fjarlægja endajaxla fundu þeir sem fengu arniku fyrir meiri sársauka eftir aðgerðina en þeir sem fengu sýklalyf (metrónídasól) eða lyfleysu. 5

Skaðleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Sérfræðingar um allan heim mæla sterklega gegn því að arnika sé notuð innvortis, þar eð lyfjaform hennar sem eru notuð á þann hátt geti ert slímhimnur og valdið sviðakennd í maga, uppköstum, niðurgangi og sljóleika. Samkvæmt tilraunum á smáum dýrum þarf ekki nema um 30 millílítra af tinktúru til að framkalla andnauð, hækkaðan blóðþrýsting og hjartaskemmdir. 6 Of stór skammtur getur verið banvænn. Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna setur arniku á skrá yfir hættulegar plöntur.

Á hinn bóginn virðast flestir þola arniku mjög vel þegar hún er notuð útvortis. Lyfjaform til slíkrar notkunar virðist ekki fela í sér hættu á víðtækri eitursvörun líkamans. Ofnæmisviðbrögð með útbrotum eru hins vegar nokkuð algeng, 7 þannig að þeir sem eru næmir fyrir öðrum tegundum körfublómaættarinnar eða hafa áður reynst haldnir ofnæmi gagnvart arniku ættu algerlega að láta jurtina eiga sig.

Brýnt er að halda sig ávallt við ráðlagða skammta. Hætta er á bólgu, roða, exemi, sársauka, kláða og litlum blöðrum ef arnika er borin oft á húð eða í langan tíma. 8 Áhættan er sérstaklega mikil ef arnika er borin á sprungna eða fleiðraða húð. Sumir grasalæknar mæla gegn því að lyfjaform til útvortis notkunar séu löguð í heimahúsum þar sem þau gætu ert húðina verði þau of sterk.

Sólarblóm á Íslandi
Sólarblóma er getið í nokkrum íslenskum garðblómabókum, meðal annars í Íslensku garðblómabókinni eftir Hólmfríði Sigurðardóttur. Þar kemur fram að arnikunafnið er dregið af gríska orðinu arnakis, sem merkir lambskinn og vísar til loðáferðar laufblaðanna. Af þessari ættkvísl hafa nokkrar tegundir verið reyndar hérlendis, meðal annars alpagullblóm ( A. alpina), fjallagullblóm (sólarljómi), sem fyrr var nefnt, holtagullblóm ( A. frigida), kólgugullblóm ( A. unalaschcensis) og loks sólarblóm ( A. sachalinensis) og þúfugullblóm ( A. longifolia). Ekki er getið um læknandi eiginleika þessara tegunda, en í bókinni Villiblóm í litum er greint frá því að fjallagullblóm (sem heitir sólarljómi í þeirri bók), sem vex villt á meginlandi Evrópu, sé eitrað en hafi fyrrum verið notað til lækninga.

Meginheimildir Bisset, N.E., ritstj. Herbal Drugs and Phytopharmaceuticals. Stuttgart: medpharm GmbH Scientific Publishers, 1994. Blumenthal, M., J. Gruenwald, T. Hall og R.S. Rister, ritstj. The Complete German Commission E Monographs: Therapeutic Guide to Herbal Medicine. Boston: Integrative Medicine Communications, 1998. Duke, J.A. CRC Handbook of Medicinal Herbs. Boca Raton, FL: CRC Press, 1985. Lawrence Review of Natural Products. St. Louis: Facts and Comparisons, febrúar, 1991. Leung, A.Y. Encyclopedia of Common Natural Products Used in Food, Drugs, and Cosmetics. New York: John Wiley & Sons, 1980. Tyler, V.E. Herbs of Choice: The Therapeutic Use of Phytomedicinals. Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1994. Wagner, H. et al. Arzneimittel-Forschung, 35 (7) (1985): 1069-1075. Weiss, R.F. Herbal Medicine. Þýðing A.R. Meuss úr 6. þýsku útgáfunni. Beaconsfield, England: Beaconsfield Publishers, Ltd., 1988.

Tilvísanir 1. V.E. Tyler, The Honest Herbal (Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1992). N.E. Bisset, ritstj., Herbal Drugs and Phytopharmaceuticals. (Stuttgart: medpharm GmbH Scientific Publishers, 1994). S.D. Sokolova et al., Uch Zap Pyatigorskii Farmatsevt. Inst. 5 (1961): 309-316. 2. M. Blumenthal, J. Gruenwald, T. Hall og R.S. Rister, ritstj. The Complete German Commission E Monographs: Therapeutic Guide to Herbal Medicine. (Boston: Integrative Medicine Communications, 1998). 3. H. Buschmann, Fortschritte Vetrinarmedizin, 20 (1974): 98. 4. A.W. Forst, Naunyn-Schmeid, 201 (1943): 242. N.O. Skakun og V.A. Zhulkevich, Farmakologiai I Toksikologia, 18, nr. 2 (1955): 45-46. Bisset, sama heimild. H. Schroder et al., Thrombosis Research, 57 (1990): 839. 5. G.S. Kaziro, British Journal of Maxillofacial Surgery, 22 (1984): 42. 6. A.Y. Leung, Encyclopedia of Common Natural Products Used in Food, Drugs, and Cosmetics. (New York: John Wiley & Sons, 1980). 7. J.C. Mitchell, Recent Advances in Phytochemistry, 9. bindi, V.C. Runeckles, ritstj. (New York: Plenum, 1975). 8. Bisset, sama heimild.

© Þýðing: Hálfdan Ómar Hálfdanarson og Þuríður Þorbjarnardóttir

Frá bandaríska lyfjafræðingafélaginu