Járn

Steinefni og snefilefni

  • Jarn

Járn er snefilefni og nauðsynlegt líkamanum. Járn er í blóðinu í próteinsambandi sem kallast hemóglóbín og það er líka í öllum rauðum blóðkornum.

Hemóglóbín flytur súrefni til vefja líkamans og koldíoxíð frá frumum líkamans.

Heiti

Járn, iron, ferrous sulphate.

Uppspretta

Innmatur svo sem lifur og hjörtu, rautt magurt kjöt, haframjöl, eggjarauður, ostrur og þurrkaðir ávextir.

Verkun

  • Nauðsynlegt fyrir myndun hemóglóbíns. 
  • Nauðsynlegt fyrir myndun bandvefs í líkamanum.

Notkun - verkun

  • Við blóðleysi vegna járnskorts sem gæti stafað af langvarandi blóðmissi, aukinni þörf á járni eins og við þungun og ónógri neyslu á járni í fæðu. 
  • Styrkir ónæmiskerfið.

Ráðlagðir dagskammtar

Ungbörn 0-6 mánaða  ---
Ungbörn 6 mánaða til 5 ára 8mg
Börn 6-9 ára 9mg
Konur 10-13 11mg
Konur 14-60 ára 15mg
Konur 61 árs og eldri 9mg
Þungaðar konur* 15mg
Konur með barn á brjósti 15mg
Karlar 10-17 ára 11mg
Karlar eldri en 18 ára 9mg

* Til að járn sé nægilegt meðan á meðgöngu stendur þurfa járnbirgðir líkamans við upphaf meðgöngu að vera um 500 mg. Hluti kvenna getur ekki fullnægt aukinni járnþörf á meðgöngutíma með venjulegu fæði og þarf því að taka járn aukalega.

Margar konur geta ekki svarað aukinni járnþörf á meðgöngu í matarræði og er því ráðlagt að taka aukalega 30-60 mg af járni á dag. Þörf mjólkandi mæðra eykst ekki verulega fyrir járn en gott þykir að taka járn í nokkurn tíma eftir barnsburð.

Tíðablæðingar og járntap vegna þeirra geta verið mjög breytilegar meðal kvenna. Það þýðir að sumar konur þurfa á meira járni að halda með fæðunni en aðrar. Ef nýtanleiki járns er um 15% ættu 15 mg á dag að fullnægja járnþörf 90% kvenna á frjósemisaldri. Sumar konur þurfa meira járn en þær fá úr venjulegu fæði.

Ráðlögð neysla fyrir konur eftir tíðahvörf er 9 mg á dag.

Járnskortur

  • Veldur blóðleysi/blóðskorti sem lýsir sér í þreytu og slappleika. 
  • Þeir sem eiga á hættu að fá járnskort eru ungabörn og börn yngri en tveggja ára, unglingsstúlkur, þungaðar konur, konur fyrir tíðahvörf og aldraðir. Konur í íþróttum sem byggjast á miklu þoli eiga líka á hættu að fá járnskort.

Járneitrun

  • Einkenni eitrunar koma einkum fram í magaverkjum, niðurgangi og blóði lituðum uppköstum, þá getur járn einnig horfið úr vefjum. 
  • Járneitrun getur leitt til truflana í starfsemi hjarta og lifur. 
  • 2-10 grömm af járni geta valdið banvænni eitrun í börnum sé þess neytt í einu. 

Aukaverkanir

Hægðatregða, svartar hægðir, niðurgangur, brjóstsviði, ógleði og magaverkir.

Milliverkanir

  • C-vítamín eykur frásog járns frá þörmum, þess vegna er gott að taka C-vítamín með járni. 
  • Sýrubindandi lyf geta dregið úr frásogi járns, þess vegna þurfa að líða 1-2 klst. milli inntöku járns og sýrubindandi lyfja. 
  • Asetýlsalisýlsýra (t.d. Aspirin Actavis®) getur haft áhrif á frásog járns. 
  • Járn getur bundist við tetrasýklínsambönd (sýklalyf) og þannig hamið frásog þeirra. 1-2 klst. verða því að líða milli inntöku járns og tetrasýklínsambanda.

Frábendingar

Engar þekktar.

Skoðaðu Járn sjálfsprófið frá Prima hér


Heimildir

R. S. Hillman. Hematopoietic agents. Goodman & Gilman´s The pharmacological basis of therapeutics 9th edition. 1996 McGraw-Hill, New York. Bls. 1317-1325, 1549.

H.P. Rang, M.M. Dale og J.M. Ritter. Pharmacology 4th edition. 1999 Churchill Livingstone, Edinburgh. Bls. 329-331.

H. R. Jóhannesson, S. Ó. Ólafsson. Bætiefnabókin, Handbók um vítamín, steinefni og fæðubótarefni. 1995 Mál og menning, Reykjavík. Bls. 70-73.

www.landlaeknir.is

Anna Elín Kjartansdóttir, Valdís Beck og Þóra Jónsdóttir, lyfjafræðingar.

(Ráðlagðir dagskammtar uppfærðir í febrúar 2014 skv. leiðbeiningum frá Embætti landlæknis; Jóna Valdís Ólafsdóttir, lyfjafræðingur).