Kopar

Steinefni og snefilefni

  • Kopar

Kopar er málmur og nauðsynlegur líkamanum, m.a. fyrir eðlilega starfsemi hemóglóbíns og við myndun bandvefs.

Kopar er málmur og nauðsynlegur líkamanum. Málmurinn er rauður á lit og er mikið notaður í allskyns málmblöndur í leiðslur og rör sakir mikillar leiðsluhæfni. Kopar er líka að finna með sínki og kallast sú blanda messing. Brons er aftur á móti blanda kopars og tins. Koparsúlfat var á árum áður notað gegn bakteríu- og sveppasýkingum í húð og augum. Það var líka gefið til að framkalla uppköst.

Heiti
Kopar, copper, koparglúkonat.

Uppspretta
Kopar er að finna í mörgum fæðutegundum svo sem innmat (lifur og nýrum), skelfiski, möndlum, hnetum, avókadó, baunum, byggi, sveppum, höfrum, appelsínum, radísum, spergilkáli, hvítlauki, laxi, sjávarfangi, sojabaunum og grænu laufguðu grænmeti. Kopar kemst einnig í fæðuna hjá okkur við að leysast upp úr vatnsleiðslum og eldhúsáhöldum. Meðaleinstaklingur er með 100-150 mg af kopar í kroppnum.

Verkun
Kopar er nauðsynlegur í myndun og fyrir eðlilega starfsemi hemóglóbíns en hemóglóbín flytur súrefni með blóðinu. Kopar gegnir líka stóru hlutverki við myndun bandvefs. Hann er auk þess sindurvari á formi ensíma sem innihalda kopar. Kopar er einnig einn virkasti sindurvarinn í blóði því á formi serúlóplasmíns kemur hann í veg fyrir oxunarskemmdir af völdum járns í líkamanum.

Notkun - verkun

  • Við liðagigt.
  • Við blóðleysi. 
  • Við sárum á húð.


Ráðlagðir dagskammtar

Ungbörn < 6 mán   ---
Ungabörn 6-23 mán 0,3 mg*
Börn 2-5 ára 0,4 mg
Börn 6-9 ára 0,5 mg
Karlar 10-13 ára 0,7 mg
Karlar < 14 ára 0,9 mg
Konur 10-13 ára 0,7 mg
Konur > 14 ára 0,9 mg
Konur á meðgöngu 1,0 mg
Konur með barn á brjósti 1,3 mg

mg = milligrömm

Koparskortur
Koparskortur er afar sjaldgæfur þar sem margar fæðutegundir innihalda kopar. Ekkert þykir mæla með því að bæta þurfi kopar við mat undir venjulegum kringumstæðum. Koparskorts hefur gætt hjá sjúklingum sem fá eingöngu næringu í æð. Helstu einkenni eru blóðleysi, ekki ósvipað því sem kemur fram af járnskorti en beinmassi getur líka minnkað og HDL (góða kólesterólið) lækkað.

Kopareitrun
Of mikill kopar í blóði hefur mælst hjá sjúklingum sem þjást af sjúkdómum sem herja á ónæmiskerfið, nefna má veirusýkingu, liðagigt og rauða úlfa. Ástæða þessa er ókunn. Bráð einkenni kopareitrunar eru frá meltingarvegi eins og niðurgangur og uppköst. Önnur einkenni eru frá nýrum (þvagþurrð), lifur (gula) og blóðrás (blóðþrýstingslækkun).

Aukaverkanir
Aukaverkanir kopars eru tiltölulega fáar en þó getur kopar valdið oxun í líkamanum. Að öðru leyti virðist kopar vera skaðlaus mönnum. Wilson's sjúkdómur er sjaldgæfur erfðasjúkdómur þar sem kopar safnast fyrir í lifur og heila og getur skemmt hvoru tveggja ef ekkert er að gert.

Milliverkanir
Sýnt hefur verið fram á að stórir skammtar af sínki valda koparskorti en svo virðist sem sínk sé einhvers konar andefni kopars. Mörg fleiri efni draga úr flutningi kopars úr meltingarvegi í blóðrás (frásogi), þar má nefna C-vítamín, ávaxtasykur og trefjar.

Frábendingar
Engar þekktar.

Heimildir
H. R. Jóhannesson, S. Ó. Ólafsson. Bætiefnabókin, Handbók um vítamín, steinefni og fæðubótarefni. 1995 Mál og menning, Reykjavík. Bls. 79-80.

R. Marcus, A. M. Coulson. Heamatopoietic agents: Growth factors, Minerals, and Vitamins. Goodman & Gilman´s The pharmacological basis of therapeutics 9th edition. 1996 McGraw-Hill, New York. Bls. 1325-1326.

www.landlaeknir.is

Anna Elín Kjartansdóttir, Valdís Beck og Þóra Jónsdóttir, lyfjafræðingar.

(Ráðlagðir dagskammtar uppfærðir í febrúar 2014 skv. leiðbeiningum frá Embætti landlæknis; Jóna Valdís Ólafsdóttir, lyfjafræðingur).