Skýringar

Náttúruvörur

Í þessum texta eru skýringar á því hvernig virkni og skaðsemi náttúruefna er metin. Einnig eru skýringar á einkunnakerfinu sem notað er í textum um náttúruefnin hér á vefnum, og talið hvers konar upplýsingar koma fram undir hverjum undirkafla í þessum textum.

Taktu yfirvegaða ákvörðun
Á þessum síðum er að finna miklar upplýsingar um mörg af helstu og algengustu náttúrulyfjum sem nú eru notuð. Höfundur þessa efnis hefur leitað fanga víða - í gagnabönkum á sviði læknis- og grasafræði, í niðurstöðum frumrannsókna, niðurstöðum yfirvalda og öðrum traustum heimildum - til þess að safna saman eins miklu af áreiðanlegum upplýsingum og framast er kostur. Í fáeinum tilvikum liggja svo ítarlegar upplýsingar fyrir að vandalaust er að taka yfirvegaða ákvörðun um hvort rétt sé að nota viðkomandi náttúrulyf. Því er þó ekki að leyna að í mörgum tilvikum hafa ekki farið fram víðtækar rannsóknir á tilteknu efni og það eina sem hægt er að ganga út frá eru rýrar og jafnvel misvísandi upplýsingar, stundum jafnvel alls engar.

Hér eru teknar saman upplýsingar um þær rannsóknir sem hafa farið fram (eða hafa ekki farið fram) og hverju lyfi er gefin einkunn sem endurspeglar mat höfundar á því hvort tiltekið efni er líklegt til þess að geta komið að gagni eða valdið skaða. Þessar upplýsingar eru settar hér fram til þess að auðvelda lesandanum að taka skynsamlega og ígrundaða ákvörðun um það hvort rétt sé að taka náttúrulyf.

Mat á virkni
Það þarf ekki að koma á óvart að afstaða okkar til lyfja er ákaflega mismunandi. Sumum nægir að vita það eitt að alþýðulæknar um víða veröld hafi notað tiltekna lækningajurt eða náttúrulyf öldum saman til þess að lækna ákveðinn kvilla eða að kunningi eða vinur hafi greint frá því að hann hafi fengið verulega bót meina sinna fyrir slíkan tilverknað. Öðrum nægir ekkert minna en hörðustu gullverðlaunastaðlar í læknavísindum: klínískar, tvíblindar rannsóknir þar sem tekið er slembiúrtak og samanburður gerður með lyfleysu. Enn öðrum nægir svo einfaldlega að fá það staðfest að ólíklegt sé að þeir verði fyrir skaða af því efni sem þeir hyggjast taka inn.

Stundum er hægt með aðstoð vísinda að skýra á skýran og fullnægjandi hátt hvernig og hvers vegna tiltekið náttúrulyf hefur öðlast það orðspor sem raun ber vitni. Í öðrum tilvikum er hægt að beita vísindalegum rökum til þess að benda á hættu sem heilsu manna getur stafað af tilteknu náttúrulyfi. Loks finnast dæmi um að við höfum ekkert að sækja í þekkingarbúr vísindamanna vegna þess að enginn slíkur hefur sýnt efninu áhuga eða komist að einhverju svo markverðu um viðfangsefnið að þeir (eða ritstjórnir vísindatímarita) hafi séð ástæðu til þess að birta það á prenti.

Þegar við leiðum hugann að mikilvægi vísindalegra rannsókna er nauðsynlegt að hafa í huga þann mun sem er á þeim margvíslegu rannsóknarniðurstöðum sem birtast í skýrslum og þá verðum við að ákveða hve strangar kröfur við gerum til sannana. Tökum við aðeins mark á vel útfærðum læknisfræðilegum rannsóknum? Látum við kannski tilraunir á dýrum nægja eða jafnvel aðeins persónulega frásögn?

Eftirfarandi flokkun er gróf röðun mismunandi rannsókna sem eiga það sammerkt að margir vísindamenn teldu niðurstöður þeirra marktækar og áreiðanlegar. Í umfjöllun um náttúrulyfin er þess getið hvers konar rannsóknir hafi verið gerðar á hverju þeirra og hverjar niðurstöðurnar eru.

1. Hæst í þessari flokkun ber þá rannsókn sem ber í huga flestra vísindamanna af eins og gull af eiri; gullmedalían í læknisfræðilegum rannsóknum: víðtæk, lyfleysustýrð, tvíblind rannsókn á mönnum með slembiúrtaki. Yfirvöld lyfjamála í mörgum löndum setja þessa rannsóknaraðferð sem skilyrði. Slíkar rannsóknir ná til svo margra að hægt er með tölfræðilegum aðferðum að greina klínískan mismun ef um hann er að ræða. Þátttakendum, sem uppfylla gerðar kröfur í rannsóknunum, er af handahófi skipt í tvo hópa og fær annar hópurinn það lyf sem rannsóknirnar beinast að, en hinn hópurinn lyfleysu (óvirkt efni sem lítur nákvæmlega eins út og raunverulega lyfið - "þykjustulyfið"). Í lyfleysustýrðri rannsókn eru þeir sem fá lyfið um það bil jafn margir og þeir sem fá lyfleysuna. Greinist áhrif hjá nógu mörgum, sem taka lyfið, umfram þá sem fá lyfleysuna má færa rök fyrir því að meðferðin hafi einhver áhrif. Tvíblind rannsókn merkir að hvorki þátttakendur í rannsókninni né rannsakendur vita hverjir í hópi þátttakendanna fá lyfið og hverjir lyfleysuna, og það dregur úr líkum á skekkjum í niðurstöðum. Í víxlrannsókn taka þátttakendur á víxl lyf og lyfleysu, en þeir vita aldrei hvort þeir taka hverju sinni. Í flestum tilvikum dregur þessi tilhögun úr skekkju í niðurstöðum. Þær rannsóknir takast jafnan best þar sem þátttakendur eru ámóta vel á sig komnir að líkamlegri og andlegri heilsu.

Mörg tilbrigði eru til við þessa klassísku rannsóknaraðferð og nemar í heilbrigðisgreinum verja ótöldum klukkustundum í að freista þess að komast að því hvað það er sem greinir milli vel útfærðra og illa útfærðra rannsókna. Fá náttúrulyf hafa verið rannsökuð þar sem þessari flóknu og vel ígrunduðu rannsókn er beitt, enda er kostnaðurinn iðulega óheyrilegur.

2. Önnur í röð flokkunarinnar er klínísk rannsókn á allstórum hópi manna, án lyfleysu, en framkvæmd af þjálfuðum rannsakendum þar sem virkni og aukaverkanir eru metin á hlutlægan hátt.

3. Þriðja í röðinni er stór, lyfleysustýrð rannsókn gerð á dýrum. Margir eru mjög andsnúnir því að rannsóknir séu gerðar á dýrum og hafna því að nota vörur sem hafa verið prófaðar á dýrum, en enn sem komið er geta hermilíkön í tölvum ekki komið í stað tilrauna þar sem lyf eiga í hlut. Almennt gildir að því meira sem við vitum um áhrif lyfja á dýr þeim mun meira getum við ráðið í áhrif þeirra á menn. Víða á þessum síðum er vitnað í klassíska rannsókn á bólguhemjandi virkni efnis. Rannsóknin fór fram á þann hátt að bólga var kölluð fram í fæti á rottu og síðan var kannað hvaða áhrif efnið hafði á bólguna. Margar lækningajurtir hafa einungis verið prófaðar á nagdýrum. Að sjálfsögðu er neytendum það í sjálfsvald sett hvort þeir kaupa náttúrulyf frá fyrirtækjum sem prófa ekki vörur sínar á dýrum og sem nota ekki afurðir úr dýrum í framleiðslu sína.

4. Í fjórða sæti í flokkuninni eru rannsóknir sem fara fram í glasi (in vitro), sem oft eru nefndar "tilraunaglasarannsóknir". Þessar rannsóknir fara fram í tilbúnu umhverfi, svo sem í tilraunaglasi eða í næringaræti. Andstæða þessara rannsókna nefnast í lífi (in vivo), sem merkir að athuganir eru gerðar á því sem fer fram í lifandi líkama.

5. Í fimmta sæti eru rannsóknir á áratuga- eða aldalangri notkun tiltekins efnis sem hefur verið notað við ákveðnar aðstæður hjá tilteknum þjóðum eða í tiltekinni menningu, en þekktist ekki annars staðar. Sem dæmi má nefna að þjóðir við Miðjarðarhaf og í Kína notuðu basilíkum til að lina magakrampa. 

6. Í sjötta sæti er tiltölulega mikill fjöldi tilvika þar sem óvilhallur sérfræðingur greinir frá augljósum árangri af meðferð með tilteknu efni.

7. Í sjöunda og neðsta sæti í þessari flokkun er algengasta "tegund" rannsókna sem hafa áhrif á neytendur: persónuleg reynsla. Út frá hreinum vísindalegum forsendum eru vísbendingar af þessum toga afar veikar vegna þess að hver einstaklingur er sérstakur og líkaminn vinnur úr lyfjum á mismunandi hátt eftir mönnum og það er misjafnt hvernig við skynjum sjúkleika og hvernig við metum "framfarir". Oft er það svo að líkaminn hristir kvillann af sér óháð því sem við höfumst að. Í þriðjungi tilvika gegna lyfleysuáhrifin töluvert miklu hlutverki.

Hvað varðar virkni náttúrulyfja geta ýmsar breytistærðir komið við sögu. Inniheldur lyfið það sem fullyrt er? Inniheldur það jafnframt annað efni? Inniheldur það annað efni sem gæti jafnvel verið skaðlegt? Yfirleitt fylgjast yfirvöld ekki með gæðum fæðubótarefna. Rannsóknir, sem gerðar voru á vörum sem valdar voru af handahófi, leiddu í ljós að mikill breytileiki var á magni virkra efna í þeim. Rannsókn sem fór fram árið 1995 á vegum tímaritsins Consumer Reports í Bandaríkjunum sýndi fram á að styrkur ginsengs í vörum frá tíu mismunandi framleiðendum var "afar mismunandi".1 Kaupandinn verður sem sagt að treysta á að framleiðandinn segi rétt til um innihald og gæði viðkomandi vöru. Árið 1998 fór fram óháð rannsókn á vegum dagblaðsins Los Angeles Times og þá kom í ljós að jóhannesarjurt frá fjórum framleiðendum af tíu innihélt minna en 90 % af því sem vera átti samkvæmt innihaldslýsingu og að í þremur tilvikum af tíu var minna en 50 % af tilgreindum innihaldsefnum.

Mat á öryggi
Sú skylda hvílir á stjórnvöldum að sanna að efni geti verið skaðlegt og það kemur í hlut neytenda að meta hvaða öryggisstöðlum sé skynsamlegt að fylgja. Lækningajurtir sem hafa verið notaðar kynslóð fram af kynslóð hafa flestar gengist undir afar mikilvægt próf og hafa staðist það: próf tímans. Þótt finna megi undantekningar frá þessari reglu, svo sem valurt (hvað varðar allt annað en útvortis notkun) má gera ráð fyrir því að fólk hefði hætt að nota plöntu sem kallaði fram óbærileg og hættuleg viðbrögð. Margir láta nægja að vita að ekki hafi verið greint frá alvarlegum aukaverkunum.

Það á við um mörg náttúrulyf að vísindarannsóknir hafa ekki leitt annað í ljós en að þau innihaldi ekkert þekkt eitrað efnasamband. Í sumum tilvikum benda niðurstöður dýratilrauna til þess að einhver áhætta geti verið samfara notkun efnis og þá ber að taka þær niðurstöður alvarlega. Mikilvægast er þó að taka til greina vísbendingar þess efnis, úr rannsóknum á mönnum eða úr tilviksrannsóknum, að notkun tiltekins efnis geti valdið alvarlegum aukaverkunum, svo sem lifrarskemmdum. Rannsóknir á mönnum, sem beinast sérstaklega að því að kanna hvort náttúrulyf kalli fram viðbrögð vegna eiturhrifa, hafa aðeins verið gerðar á fáeinum náttúrulyfjum.

Vert er líka að taka afstöðu til ýmissa annarra síður augljósra þátta er varða öryggi náttúrulyfja. Þessir þættir eiga það sammerkt að þeir ættu að opna augu neytenda fyrir mikilvægi þess að kaupa aðeins vörur frá framleiðendum sem leggja metnað sinn í að bjóða gæðaafurðir:

  • Hreinlæti. Er hreinlæti í hávegum haft á framleiðslustað og er einhver hætta á að meindýr spilli hráefnum eða að mengandi efni komist í framleiðsluna?
  • Sanngreining. Ef jurtin er tínd úti í náttúrunni er þá hugsanlegt að sá eða þeir sem tíndu hafi farið plöntuvillt? Er víst að eingöngu hafi verið tínd rétt planta og að hún hafi örugglega verið greind rétt út frá því latneska heiti sem hún gengur almennt undir?
  • Hreinleiki. Inniheldur varan eingöngu þau innihaldsefni sem eru tilgreind í innihaldslýsingu? Er kannski hugsanlegt að með þeim leynist efni sem gætu til dæmis vakið ofnæmisviðbrögð?

Að því er varðar öryggi náttúrulyfja er afar brýnt að hafa það hugfast að margar lækningajurtir og náttúrulyf eru mörg hver öflug lyf sem geta verið hættuleg, einkum ef þau eru ranglega notuð. Lítum til dæmis á marvöndul. Árum saman notuðu lyfjafyrirtæki þessa jurt til að vinna úr henni efedrín - mikilvægt efni sem er notað sem lyf, einkum til þess að hemja bólgu og draga úr blóðsókn og víkka berkjur lungnanna. Alþýðulæknar í Kína hafa notað þessa jurt í þessu skyni þúsöldum saman. Fyrir ekki alls löngu tóku framleiðendur fæðubótarefna að setja efedrín ásamt kaffíni í framleiðslu sína til þess að kalla fram öflug, örvandi áhrif, en þessi blanda getur hins vegar verið skaðleg. Fullyrt er að þessi efnablanda sé örugg svo lengi sem hún er notuð í ráðlögðum skammtastærðum og af heilbrigðu fólki. Marvöndullinn inniheldur hins vegar öflug örvandi efni sem hafa áhrif á miðtaugakerfið og geta hraðað hjartslætti og hækkað blóðþrýsting svo mjög að valdi losti og dauða, einkum ef þessi jurt er misnotuð og tekin í of stórum skömmtum eða blönduð kaffíni eða öðrum örvandi efnum. Talið er að rekja megi dauða tuga manna til neyslu slíkrar efnablöndu, og yfirleitt hefur verið um of stóra skammta að ræða.

Þá skal nefnt að nánast öll efni geta kallað fram ofnæmisviðbrögð. Á þessum síðum er því aðeins getið um slík tilvik að þeirra sé getið í heimildum, eða ef jurtin tilheyrir plöntuætt sem hefur margar ofnæmisvaldandi jurtir innan sinna vébanda, svo sem körfublómaættina, en í henni eru meðal annars prestafíflar, krossfíflar og stjörnufíflar.

Lítið er vitað um áhrif náttúrulyfja á þungaðar konur eða konur með börn á brjósti eða á ung börn. Meðan áhættan fyrir þennan hóp er óþekkt er ekki hægt að mæla með því að hann taki náttúrulyf, því ósennilegt er að hugsanlegur ávinningur vegi þyngra en áhættan sem fylgir töku lyfjanna. Hið sama gildir um aldrað fólk með skerta lifrarstarfsemi, hjarta- og æðasjúkdóma eða aðra alvarlega kvilla. Varnaðarorð koma fram í kaflanum "Skaðleg áhrif: niðurstöður rannsókna" ef áhættan er umtalsverð, en hafðu þessi varnaðarorð í huga varðandi hvaða náttúrulyf sem er.

Nefna má nokkur hollráð sem byggjast einfaldlega á heilbrigðri skynsemi:

  • Ef kona er þunguð, eða hefur grun um að svo sé, er rétt að ráðgast við lækninn. Á meðgöngu skal leita álits hans í öllum tilvikum ef áformað er að taka eitthvert lyf, hvort sem það er lyfseðilsskylt eða ekki, eða náttúrulyf.
  • Gæta skal vel að öllum sárum og hreinsa þau vel áður en eitthvert efni er borið á þau.
  • Ef hósti varir lengur en þrjá daga er hollast að leita læknis.
  • Ef niðurgangur er þrálátur er rétt að leita læknis.
  • Ef vitað er um magabólgu, magasár eða of miklar magasýrur skal forðast að taka jurtir sem innihalda efni sem örva myndun magasýrna, svo sem biturblöðunga (bitters).
  • Varastu þvagræsilyf sem sögð eru megrandi eða grennandi; þyngdartap af völdum slíkra efna felst eingöngu í því að líkaminn missir vatn í einhverjum mæli.
  • Ef einhver er haldinn alvarlegum sjúkdómi sem getur skert hæfni líkamans til þess að vinna úr lyfjum, svo sem sjúkdómur sem lýsir sér í skertri lifrar- eða nýrnastarfsemi, er brýnt að leita álits læknis áður en náttúrulyf eru notuð.


Einkunnakerfið
Hvert náttúruefni fær í þessari bók einkunn frá 1 til 5 og hún ræðst af því hvernig höfundurinn túlkar þau gögn sem liggja fyrir um viðkomandi efni. Einkunnakerfið veitir almenna hugmynd um virkni og öryggi viðkomandi efnis og rétt er að temja sér þá reglu að lesa alla klausuna til að fá yfirlit yfir lyfið og til að kanna hvort þar koma fram sérstakar varúðarreglur. Æskilegast er líka að gefa sér tíma til þess að lesa alla einkunnina í hverju tilviki því að verulegur munur getur verið á náttúruefnunum.

1 = Áralöng notkun og víðtækar, vandaðar rannsóknir benda til þess að þessi vara sé mjög áhrifarík og örugg að því tilskildu að hún sé notuð í því magni sem mælt er með í ábendingunni (ábendingunum) sem koma fram í kaflanum "Gagnleg áhrif á notanda: Niðurstöður rannsókna"

Fá efni hljóta þessa einkunn, en það merkir þó engan veginn að til séu aðeins fáein efni sem eru áhrifarík og örugg náttúrulyf. Skýringin er einfaldlega sú að fá náttúrulyf hafa gengið gegnum þær ítarlegu og víðtæku tilraunir sem nauðsynlegar eru til að sannað teljist á óyggjandi hátt að það verki á þann hátt sem sagt er og hafi engar óvæntar aukaverkanir. Rannsóknir sem tryggja þá niðurstöðu eru hins vegar afar kostnaðarsamar og þess vegna hljóta svo fá lyf einkunninna 1 í umfjöllun okkar.

2 = Að teknu tilliti til fjölda vel útfærðra tilrauna og mikillar notkunar virðist þetta efni vera tiltölulega áhrifaríkt og öruggt að því tilskildu að það sé notað í því magni sem mælt er með í ábendingunum í kaflanum "Gagnleg áhrif á notanda: Niðurstöður rannsókna"

Mun fleiri náttúrulyf fá einkunnina 2 en 1, sökum þess að um þau lyf gilda mun vægari staðlar. Hefðbundin og löng notkun vegur þungt hér, og það er mikilvægur punktur sem menn hafa reitt sig á öldum saman.

3 = Rannsóknir á virkni og öryggi þessa efnis stangast á eða þær eru ekki nægilega miklar til þess að hægt sé að draga af ályktanir af niðurstöðum þeirra.

Það ætti ekki að koma á óvart að meginþorri náttúrulyfja hafnar í þessum flokki. Þessi lyf geta að sjálfsögðu verið bæði áhrifarík og örugg, en þau geta líka verið gagnslaus og jafnvel skaðleg. Við vitum það hins vegar ekki því þær upplýsingar sem liggja fyrir skera ekki úr um það.

4 = Rannsóknir benda til þess að staðhæfingar um áhrif þessa efnis eigi ekki við rök að styðjast, en það er einnig ólíklegt að efnið sé á nokkurn hátt skaðlegt.

Einkunnin 4 gefur til kynna að rannsóknir á efninu eða tilraunir á dýrum eða í tilraunaglösum hafi veitt nægilegar upplýsingar til þess að draga megi þá ályktun að ólíklegt sé að efnið komi í veg fyrir einhverja meinsemd eða lækni hana. Á hinn bóginn hafa rannsóknirnar líka veitt þær upplýsingar að efnið muni að öllum líkindum vera öruggt.

5 = Rannsóknir benda til þess að talsverð áhætta sé því samfara að nota þetta efni, jafnvel þótt fylgt sé leiðbeiningum um magn (skammtastærðir).

Þessi einkunn bendir til þess að jafnvel þótt vísbendingar séu um að viðkomandi efni innihaldi virk og hugsanlega gagnleg innihaldsefni, sem þau gera raunar oft, sé áhættan sem fylgir notkun þeirra tiltölulega mikil.

Efnisflokkar í umfjöllun hvers náttúrulyfs eða efnis
Fjallað er um hvert efni undir eftirfarandi fyrirsögnum:

-Heiti -Fræðiheiti -Önnur heiti -Einkunn -Um jurtina/efnið -Notkun -Helstu lyfjaform -Algeng skammtastærð -Gagnleg áhrif á notanda: Niðurstöður rannsókna -Skaðleg áhrif á notanda: Niðurstöður rannsókna -Tengsl við Ísland (ef um þau er að ræða) -Annað (svo sem víxlverkanir, ef um þær er að ræða).

Heiti
Hér kemur fram algengasta íslenska heiti lækningajurtarinnar eða þess efnis sem um ræðir. Ef jurtin eða efnið hafa ekki hlotið neitt ákveðið fast heiti í málinu verður leitað til sérfræðinga á vegum Íslenskrar málstöðvar, og annarra sem málið kann að varða, og tekið tillit til álits þeirra við val heitisins.

Fræðiheiti
Hér er gefið nákvæmt fræðiheiti (tegundarheiti) hverrar jurtar, það er að segja latneskt heiti hennar með skáletri (ættkvíslarheiti og viðurnafn tegundarinnar) og aftan við það er stöðluð skammstöfun á nafni þess manns sem gaf henni upphaflega fræðinafnið. Þannig er "L." skammstöfun sem vísar til Carls von Linnés (sem nefndi sig á latínu Carolus von Linnaeus), sænska grasa- og dýrafræðingsins og læknisins sem var uppi á 18. öld og lagði grunn að flokkunarkerfi fyrir jurta- og dýraríkið. Hafi fræðiheitinu einhverra hluta vegna verið breytt er nafn upphaflega flokkandans gefið innan sviga. Samhliða fræðiheitinu er tilgreind sú ætt plantna sem jurtin tilheyrir, bæði á íslensku og latínu.

Önnur heiti
Hér er getið annarra heita sem viðkomandi jurt eða efni hefur gengið undir og finnast kunna í öðrum heimildum.

Einkunn
Sú einkunn sem gefin er hér byggist á túlkun á þeim gögnum sem liggja fyrir um virkni og öryggi viðkomandi lyfs.

Um jurtina/efnið

  • Lýsing á jurtinni og umfjöllun um hana og sérkenni hennar.
  • Heimkynni hennar og kjörlendi.
  • Tilgreindir eru þeir plöntuhlutar sem eru notaðir í lækningaskyni og hvernig þeir eru notaðir, það er hvort þeir eru til dæmis þurrkaðir eða notaðir ferskir.

Notkun

  • Greint er frá hefðbundinni notkun jurtarinnar á liðnum öldum, bæði í vestrænum og austurlenskum alþýðulækningum.
  • Ráðleggingar nútímagrasalækna og annarra um notkun jurtarinnar.

Helstu lyfjaform
Tilgreind eru þau form sem eru helst á boðstólum. Ef efnið er bæði notað inn- og útvortis er greint milli hinna ýmsu forma sem eru í boði. Helstu form eru: -Hylki með dufti er að jafnaði það form sem hefur mestan styrkleika, því að við tilreiðslu duftsins er allt leysiefnið, sem er notað til þess að draga út hið virka efni eða hin virku efni jurtarinnar, látið gufa upp. -Seyði er gert með því að sjóða plöntuhluta, oft rótina eða aðra harða plöntuhluta, í vatni og sía síðan vökvann frá. Því lengur sem suðan varir þeim mun sterkara verður seyðið. -Te (grasate) er gert með því að hella sjóðandi vatni yfir jurtina og láta hana liggja í bleyti og styrkleikinn ræðst af því hve lengi þetta er látið standa. Sum efni leysast ekki auðveldlega í vatni og þurfa að standa lengi í vatninu til þess að teið innihaldi nóg af hinu eftirsótta efni eða efnum. -Tinktúra (urtaveig) er efnið þegar það er leyst upp í vínanda og síðan er lausnin þynnt með vatni. -Kjarni er gerður með því að láta vínanda, glýserín, vatn eða annað leysiefni vætla um plöntuhluta eða með því að mýkja þá í þessum leysiefnum. Kjarni er yfirleitt rammari en tinktúra.

Algeng skammtastærð
Eins og yfirskriftin segir til um kemur fram hér hversu stóra skammta er ráðlagt að taka. Þá er miðað við þær skammtastærðir sem algengast er að finna í þeim bókum, sem helst er stuðst við, sem og öðrum heimildum. 

Gagnleg áhrif á notanda
Niðurstöður rannsókna: Umfjöllun um þau gögn sem fundust um viðkomandi efni, allt frá niðurstöðum klínískra tilrauna til rannsóknarniðurstaðna úr tilraunum sem gerðar eru í tilraunaglösum. Ekki er fjallað um hefðbundna notkun eða þá notkun sem mælt er með og kemur fram undir fyrirsögninni Notkun ef engin vísindaleg gögn þar að lútandi liggja fyrir. Lækningajurtir og önnur náttúrulyf hafa iðulega margvíslegt notagildi og ekki er fjallað um öll hugsanleg not viðkomandi jurtar hér.

Skaðleg áhrif á notanda
Niðurstöður rannsókna: Hér koma fram upplýsingar, ef þær liggja fyrir, um hugsanleg eitrunaráhrif efnisins, þar á meðal upplýsingar um niðurstöður úr dýratilraunum og algengar aukaverkanir sem þekktar eru í mönnum. Í sumum tilvikum hafa alls engar rannsóknir farið fram á þessu, og við ekkert er að styðjast annað en margra ára notkun sem bendir til þess að tiltölulega öruggt sé að taka það. Hafi eitthvert náttúrulyf verið notað kynslóðum saman styrkir það vissu manna um að það sé öruggt í notkun. Frá þessu finnast aðeins fáeinar en þýðingarmiklar undantekningar.

Tilvísanir

Tilvísanir í texta benda á sérstaka heimild, oftast vísindatímarit eða eina af meginheimildunum þar sem finna má merkilegt efni. Tilvísanirnar eru jafnframt ætlaðar til þess að auðvelda lesandanum að verða sér úti um frekari fræðslu ef vilji stendur til þess.

1. Consumer Reports, nóvember 1995, bls. 689-705. 2. Los Angeles AP, CNN Interactive, 31. ágúst 1998.