Donepezil Actavis

Lyf við heilabilun | Verðflokkur: G | Lyfseðilsskylt

Virkt innihaldsefni: Dónepezíl

Markaðsleyfishafi: Actavis | Skráð: 1. maí, 2009

Alzheimerssjúkdómur er eitt algengasta form heilabilunar og lýsir sér í truflun á minni, hegðun og athöfnum daglegs lífs. Einstaklingar með Alzheimerssjúkdóm verða fyrst fyrir truflunum á skammtímaminni, síðar fylgja breytingar á hegðun og færni til þess að lifa daglegu lífi. Ástæður sjúkdómsins eru ekki að fullu skýrðar og við honum er engin lækning. Ein skýringin er sú að það verði skortur á taugaboðefninu acetýlkólíni í vissum stöðum heilans, aðallega heilaberki og svokölluðum dreka í heila (hippocampus). Acetýlkólín er brotið niður af ensíminu acetýlkólínesterasa. Dónepezíl, virka efnið í Donepezil Actavis, hemur verkun þessa ensíms, hægir þar af leiðandi á niðurbroti acetýlkólíns og eykur um leið magn þess í heila. Með þessu móti tekst að bæta vitsmunalega færni sjúklinga með Alzheimerssjúkdóminn. Dónepezíl er notað við vægum til meðal alvarlegum Alzheimerssjúkdómi. Áhrif lyfsins eru mjög einstaklingsbundin. Lyfið læknar þó ekki Alzheimerssjúkdóminn og ennþá hefur ekki fundist lyf sem gerir það. Lyfið getur engu síður hægt á framgangi sjúkdómsins og bætt líðan sjúklinganna í ákveðinn tíma.


Notkun á lyfi

Lyfjaform:
Töflur til inntöku.

Venjulegar skammtastærðir:
5-10 mg í senn að kvöldi rétt fyrir svefn. Töflurnar takist með vatnsglasi.

Hversu langur tími líður uns verkun kemur fram:
Mjög einstaklingsbundið, en stöðug blóðþéttni næst eftir um 3 vikur.

Verkunartími:
Ekki að fullu þekktur.

Þörf á að breyta mataræði meðan lyfið er tekið:
Engin.

Geymsla:
Geymist í lokuðum umbúðum við stofuhita þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Ef skammtur gleymist:
Taktu lyfið á venjulegum tíma næsta dag og haltu síðan áfram að taka lyfið eins og venjulega. Ef fleiri en einn skammtur gleymast í röð skaltu hafa samband við lækni. Ekki taka tvo skammta í einu.

Hvernig á að hætta töku lyfsins:
Ekki er æskilegt að hætta töku lyfsins nema í samráði við lækni.

Ef tekinn er of stór skammtur:
Stakir skammtar sem eru litlu stærri en venjulegir ættu ekki að skapa vanda. Ef teknir eru mjög stórir skammtar eða vart verður við óvenjuleg einkenni skal strax hafa samband við lækni.

Langtímanotkun:
Lyfið er óhætt að nota í langan tíma, svo lengi sem það sýnir árangur, og er það mat læknis hvenær skal hætta töku þess.


Aukaverkanir

Aukaverkun Tíðni Leitið til læknis vegna einkenna Leitaðu strax til læknis Hættu strax töku lyfs
Algeng >1% Sjaldgæf <1% Ekki þekkt Sem eru alvarleg Í öllum tilvikum    
Áverkar af völdum slysa          
Gula          
Höfuðverkur, þreyta, svimi, svefntruflanir          
Krampar        
Kvef          
Lystarleysi          
Ógleði, uppköst, niðurgangur og kviðverkir          
Sinadráttur, verkir          
Svartar eða blóðugar hægðir        
Útbrot, kláði          
Yfirlið          
Æsingur, ofskynjanir, árásarhneigð        
Þvagleki          

Milliverkanir

Varast ber að nota dónepezíl með lyfjum sem hafa áhrif á virkni acetýlkólíns, en það eru helst sefandi geðlyf, sum meltingarfæralyf, svo sem cisapríð, og parkinsonslyfið bíperíden (Akineton). Einnig er mögulegt að dónepezíl milliverki við mörg flogaveikilyf og sum hjartalyf.

Sjá öll lyf sem geta haft áhrif á

Má ekki nota með

Getur haft áhrif á


Varúð

Læknir sem ávísar lyfinu þarf að vita hvort
  • grunur leiki á um þungun eða að þú sért með barn á brjósti
  • þú sért með astma eða annan lungnasjúkdóm
  • þú sért með flogaveiki
  • þú sért með hjarta- eða æðasjúkdóm
  • þú sért með maga- eða skeifugarnarsár
  • þú sért með ofnæmi fyrir einhverjum lyfjum
  • þú sért með þvagfærasjúkdóm
  • þú takir einhver önnur lyf
  • þú sért með skerta lifrarstarfsemi

Meðganga:
Takmörkuð reynsla er af notkun lyfsins hjá þunguðum konum.

Brjóstagjöf:
Ekki er vitað hvort lyfið berst í brjóstamjólk.

Börn:
Lyfið er ekki ætlað börnum.

Eldra fólk:
Venjulegar skammtastærðir.

Akstur:
Lyfið getur valdið þreytu, svima og sinadrætti og því skert aksturshæfni. Læknir ætti að meta hæfni Alzheimerssjúklings til aksturs.

Áfengi:
Ekki neyta áfengis meðan lyfið er tekið.

Íþróttir:
Leyft við æfingar og í keppni.

Annað:
Vegna sjúkdómseinkennanna er nauðsynlegt að umsjónarmaður sjúklingsins fylgist með lyfjatöku.


Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um lyfið er að finna í SPC texta og í fylgiseðli lyfsins, sem má finna á heimasíðu Sérlyfjaskrá. Ef upplýsingar hér stangast á við þær upplýsingar ber að fara eftir SPC texta lyfsins og/eða fylgiseðli.