Sveppasýkingarlyf

Lyfjainntaka

Má karlmaður nota sveppasýkingarlyfið Candizol ef að Pevaryl kremið virðist ekki vera að virka eftir nokkurra (5) daga notkun?
Eru ekki til nein sveppasýkingarlyf fyrir karla önnur en einhver útvortis krem? Því sveppasýking hjá körlum getur leitt upp í þvagrásina og kremið nær augljóslega ekki þangað!

Já, karlmenn mega nota Candizol 150 mg hylki því lyfið er einnig notað við húfubólgu af völdum hvítsveppa (candida balanitis). Skammturinn er 150 mg, tekinn einu sinni. Lyfið fæst án lyfseðils í apótekum og heitir Candizol eða Fluconazol (sama lyfið, mismunandi framleiðendur). Æskilegt er að meðhöndla maka á sama tíma með sama skammti til að fyrirbyggja endursýkingu.

Ef einkennin hverfa ekki við þessa lyfjameðferð ættirðu að hafa samband við lækni.