Þunglyndi

Geðheilsa Lyfjainntaka

Hvernig virka SSRI lyf á líkamleg einkenni þunglyndis? Er það ekki fyrst og fremst andlega hliðin sem þau bæta úr?

 Við þunglyndi er minna framboð af fríu serótóníni í heilanum en vant er. Serótónín er lykilboðefni fyrir mörg svæði í heilanum, þar á meðal fyrir þau svæði sem skipta mestu máli fyrir tilfinningalíf okkar. SSRI lyfin verka með því að hindra endurupptöku boðefnisins serótónins á taugungamótum heilafrumna. Þar með eykst frítt serótónín í heilanum en það kemur af stað ferli sem dregur úr depurð og kvíða á nokkrum vikum.

Lyfin virka því fyrst og fremst á andleg einkenni þunglyndis en þegar þeim léttir eru líkur á því að líkamleg einkenni geti farið batnandi, t.d. vegna þess að einstaklingur getur átt auðveldara með að koma sér af stað í hreyfingu, orðið jákvæðari og upplifað verki á annan hátt þegar þunglyndi og kvíða linnir.