Betri hreyfigeta og minni verkir með Bandvefs­losun

Almenn fræðsla Hreyfing

Bandvefslosun/ Body Reroll er æfingakerfi sem hjálpar að draga úr stoðkerfisverkjum, minnka vöðvaspennu, auka blóðflæði,draga úr streitu, auka hreyfigetu og liðleika og flýta fyrir endurheimt.

Árið 2014 hófst vegferð mín til betri líðan. Ég var að glíma við afleiðingar af bílslysi og þurfti að hætta að vinna og var frá vinnu í 14 ár.

Ég hafði ekki hugsað mér að vinna við heilsurækt en slysið og afleiðingar þess fékk mig til að hugsa betur um hvað við getum gert til að fyrirbyggja stoðkerfisverki, minnka þá verki sem fyrir eru og auka alla almenna vellíðan.

Loks árið 2014 fór ég svo að kynnast æfingum með nuddboltum og fann hversu góð áhrif þær æfingar höfðu á mig. Í framhaldi af því langaði mig að fræðast dýpra um hvers vegna þetta virkar svona vel. Það leiddi mig síðan á slóðir bandvefs kerfisins.

Flestir vita að líkaminn er samsettur úr vöðvum, beinum og taugum en færri vita um hið merkilega kerfi sem bandvefurinn er. Bandvefskerfið er kerfi sem ekki var byrjað að rannsaka að ráði fyrr en upp úr 1960. Fyrir þann tíma var bandvefurinn talinn hafa það eina hlutverk að vera nokkurs konar pökkunarefni utan um líffærin sambærilegt plastinu sem ver sendingar fyrir hnjaski. Í dag vitum við að bandvefskerfið gegnir miklu stærra hlutverki en það, því þetta er kerfi sem tengir allt saman í líkamanum og er í raun límið sem heldur okkur saman.

Bandvefur er stoðvefur sem tengir saman mismunandi vefi og er einnig milliliður í flutningi næringarefna og taugaboða. Ef rennsli milli laga bandvefs minnkar verður vefurinn þurr og stífur. Algengar afleiðingar þess eru síðan bakverkir, höfuðverkir, skert hreyfigeta og aðrir stoðkerfisverkir.


Það er því til mikils að vinna að tryggja að bandvefurinn þorni ekki upp. Mikilvægt er að drekka nægan vökva, eins og vatnið okkar góða, en með því er hins vegar eingöngu hálf sagan sögð. Til viðbótar verðum við nefnilega að ná að koma vökvanum inn í vefjakerfið. Það gerum við með samblandi af teygjum, hreyfingu og nuddi. Það er mér mikilvægt að fólk sé meðvitað um þau merki sem líkaminn gefur frá sér og þannig má læra ýmislegt um líkamann og t.d hvaðan upptök verkja koma. Það var mér mjög mikilvægt að kerfið væri þannig byggt upp að sem flestir gætu tekið þátt og sumir sem finna sig ekki í almennri líkamsrækt byrja oft á þessum æfingum áður en haldið er áfram í frekari þjálfun en það var einmitt ein af því ástæðum sem ég hannaði þetta æfingakerfi svona því ég átti hvergi heima í heilsurækt.

Bandvefslosun/ Body Reroll er æfingakerfi sem hjálpar þér að draga úr stoðkerfisverkjum, minnka vöðvaspennu, auka blóðflæði,draga úr streitu,auka hreyfigetu og liðleika og flýta fyrir endurheimt. Þetta gengur út á að vinna í ró og róa niður taugakerfið, tengjast líkamanum og efla líkamsvitund. Bandvefur er líffræðilegt net sem tengir okkur saman og þess vegna getur stífni í mjöðm leitt upp í bakið og spenna í hnakka valdið höfuðverk.

Kerfið byggir á einföldum æfingum sem henta öllum hvort sem fólk hreyfir sig mikið eða lítið. Notaðir eru mismunandi nuddboltar og hægt er að framkvæma æfingarnar standandi upp við vegg, sitjandi á stól eða liggjandi á dýnu. Einnig skiptir máli að boltarnir séu ekki of harðir og gefi eftir. Mikilvægt er að passa að boltarnir séu staðsettir á vöðvum en aldrei á beinum. Öndun er mikilvægur þáttur í æfingunum sem hjálpar okkur að tengjast líkamanum og vera í núvitund á meðan við nuddum okkur og slökum inn í æfingarnar. Mikilvægt er að passa upp á þrýsting og mjög margir hugsa þegar þeir ganga út úr tímunum að þeir hafi ekki gert mikið en finna svo áhrifin daginn eftir.

10169908Mikil áhersla er lögð á að æfingarnar séu gerðar hægt og rólega og að hlustað sé á boðin sem taugakerfið sendir svo ekki sé farið fram úr getu hvers og eins. Æfingakerfið gengur út á að róa niður taugakerfið, auka líkamsvitund, minnka bólgur, minnka spennu og draga úr streitu. Auka hreyfigetu, liðleika, bæta líkamsstöðu og flýta fyrir endurheimt.

Lífið kastar á okkur fjölmörgum verkefnum og fjölda áskorana og það er mikilvægt að eiga bjargráð til að minnka streitu og láta sér líða vel og þá sérstaklega í þjóðfélagi eins og við búum í þar sem hraðinn er mikill.


Ég er þakklát fyrir hvað þessar æfingar hafa hjálpað mér mikið finnst það forréttindi að geta hjálpað öðrum í þeirra vegferð.

Hekla Guðmundsdóttir, stofnandi Body Reroll og eigandi Bandvefslosunar 

Höfundur: Hekla Guðmundsdóttir | Maí 2024