Sendoxan

Æxlishemjandi lyf | Verðflokkur: G/0 | Lyfseðilsskylt

Virkt innihaldsefni: Cýklófosfamíð

Markaðsleyfishafi: Baxter | Skráð: 1. janúar, 1988

Sendoxan inniheldur virka efnið cýklófosfamíð. Nákvæmur verkunarmáti cýklófosfamíð er ekki að fullu þekktur en vitað er að það hindrar bæði vessa- og frumubundið ónæmi og er því notað til að koma í veg fyrir að líffæri sé hafnað í líffæraflutningi. Cýklófosfamíð dregur bæði úr vexti og dreifingu krabbameinsfrumna. Lyfið er meðal annars notað við illkynja eitlakrabbameini, Hodgkinssjúkdómi og hvítblæði. Einnig er cýklófosfamíð notað á illkynja æxli í eggjastokkum, brjóstum, smáfrumum, við lungnakrabbameini og að lokum í ónæmisbælandi meðferð við Wegeners-granúlómatósu. Í sérstökum tilfellum er lyfið gefið við svæsinni iktsýki og rauðum úlfum.


Notkun á lyfi

Lyfjaform:
Töflur til inntöku og stungulyf í æð.

Venjulegar skammtastærðir:
50-200 mg á dag. Stungulyfið er eingöngu notað á sjúkrahúsum.

Hversu langur tími líður uns verkun kemur fram:
Lyfið byrjar strax að virka ef það er gefið í æð en eftir inntöku fer áhrifa að gæta innan 3ja klst.

Verkunartími:
Nokkrar klst.

Þörf á að breyta mataræði meðan lyfið er tekið:
Engin.

Geymsla:
Geymist í lokuðum umbúðum við stofuhita þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Ef skammtur gleymist:
Taktu lyfið um leið og þú manst eftir því. Ef stutt er til næsta skammts skaltu sleppa þeim sem gleymdist og halda áfram að taka lyfið eins og venjulega. Ekki taka tvo skammta í einu.

Hvernig á að hætta töku lyfsins:
Ekki hætta töku lyfsins nema í samráði við lækni.

Ef tekinn er of stór skammtur:
Stakir skammtar sem eru litlu stærri en venjulega ættu ekki að skapa vanda. Ef teknir eru mjög stórir skammtar eða ef vart verður við einhver óvenjuleg einkenni skal hafa samband við lækni.

Langtímanotkun:
Fylgjast þarf reglubundið með fjölda hvítra blóðkorna, svo og lifrar- og nýrnastarfsemi.


Aukaverkanir

Lyfið hefur almennt hemjandi áhrif á frumur í skiptingu og má búast við skammtaháðum aukaverkunum í mörgum líffærakerfum. Þótt lyfið dragi almennt úr útbreiðslu á krabbameinsfrumum hefur myndun annarra illkynja æxla orðið vart á meðan lyfjagjöf stendur.

Aukaverkun Tíðni Leitið til læknis vegna einkenna Leitaðu strax til læknis Hættu strax töku lyfs
Algeng >1% Sjaldgæf <1% Ekki þekkt Sem eru alvarleg Í öllum tilvikum    
Bólga í auga          
Hárlos          
Hiti, slappleiki, lystarleysi og marblettir        
Kviðverkir, hægðatregða          
Lystarleysi          
Ógleði, uppköst, niðurgangur          
Svartar eða blóðugar hægðir, blóð í þvagi        
Útbrot og mikill kláði          
Útbrot, kláði, bjúgur og öndunarerfiðleikar      
Þvagfærasýkingar, blóð í þvagi        
Þvagtregða        

Milliverkanir

Vegna ónæmisbælandi áhrifa lyfsins verður að gæta varúðar við bólusetningu með lifandi bóluefni.

Sjá öll lyf sem geta haft áhrif á

Má ekki nota með

Getur haft áhrif á


Varúð

Læknir sem ávísar lyfinu þarf að vita hvort
  • grunur leiki á um þungun eða að þú sért með barn á brjósti
  • þú sért með blóðsjúkdóm
  • þú sért með hjarta- eða æðasjúkdóm
  • þú sért með langvarandi lifrar- eða nýrnasjúkdóm
  • þú sért með ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju hjálparefnanna
  • þú sért með þvagtregðu
  • þú takir einhver önnur lyf
  • þú sért með einhverja sýkingu
  • þú sért með mergbælingu

Meðganga:
Lyfið veldur fósturskaða. Það er aldrei gefið á meðgöngu. Bæði karlar og konur ættu að nota örugga getnaðarvörn á meðan lyfið er tekið og í minnst þrjá mánuði eftir að töku þess er hætt.

Brjóstagjöf:
Lyfið berst í brjóstamjólk og getur haft áhrif á barnið.

Börn:
Skammtar eru háðir líkamsþyngd.

Eldra fólk:
Venjulegar skammtastærðir.

Akstur:
Aukaverkanir lyfsins geta skert hæfni til aksturs. Ekki aka bíl fyrr en reynsla er komið á það hvaða áhrif lyfið hefur.

Áfengi:
Í litlum skömmtum hefur áfengi ekki áhrif á verkun lyfsins.

Íþróttir:
Leyft við æfingar og í keppni.


Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um lyfið er að finna í SPC texta og í fylgiseðli lyfsins, sem má finna á heimasíðu Sérlyfjaskrá. Ef upplýsingar hér stangast á við þær upplýsingar ber að fara eftir SPC texta lyfsins og/eða fylgiseðli.