Trilafon dekanoat

Sefandi lyf | Verðflokkur: G | Lyfseðilsskylt

Virkt innihaldsefni: Perfenazín

Markaðsleyfishafi: Orion Corporation

Trilafon dekanoat inniheldur virka efnið perfenazín. Lyfið er sefandi og það dregur mikið úr sturlunareinkennum sem fylgja geðklofa, oflæti og elliglöpum. Talið er að einkennin komi fram vegna of mikillar virkni ákveðinna taugaboðefna í heila, þaðan sem skapferli, hegðun og skynjun er stjórnað. Perfenazín dregur úr virkni sumra þessara boðefna, aðallega dópamíns og noradrenalíns. Þessi áhrif eru talin skýra verkun perfenazíns á sturlunareinkenni. Perfenazín hefur lítil róandi og svæfandi áhrif. Þar sem áhrifa perfenazíns gætir víða í heila er algengt að sjúklingar sem fái lyfið finni fyrir einhverjum aukaverkunum. Þær algengustu eru hreyfitruflanir, sem líkjast einkennum parkinsonsveiki, og ósjálfráðar hreyfingar. Aukaverkanir koma til af því að perfenazín getur raskað jafnvægi boðefna í heila, þaðan sem stjórnun hreyfinga fer fram.


Notkun á lyfi

Lyfjaform:
Stungulyf með forðaverkun í vöðva.

Venjulegar skammtastærðir:
50-200 mg í senn á 1-4ra vikna fresti.

Hversu langur tími líður uns verkun kemur fram:
Ekki að fullu þekkt.

Verkunartími:
A.m.k. 1-4 vikur.

Þörf á að breyta mataræði meðan lyfið er tekið:
Engin.

Geymsla:
Geymist í lokuðum umbúðum við stofuhita þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Ef skammtur gleymist:
Taktu lyfið um leið og þú manst eftir því. Ef stutt er til næsta skammts skaltu sleppa þeim sem gleymdist og halda áfram að taka lyfið eins og venjulega. Ekki taka tvo skammta í einu.

Hvernig á að hætta töku lyfsins:
Sjúkdómseinkenni geta aftur komið fram þegar töku lyfsins lýkur. Ekki hætta að taka lyfið nema í samráði við lækni.

Ef tekinn er of stór skammtur:
Stakir skammtar sem eru litlu stærri en venjulega ættu ekki að skapa vanda. Ef teknir eru stórir skammtar eða ef vart verður við óvenjuleg einkenni skal hafa samband við lækni

Langtímanotkun:
Notkun til lengri tíma en í nokkra mánuði getur leitt til síðkominna hreyfitruflana (tardive dyskinesia). Þær koma fram sem ósjálfráðar hreyfingar, oftast í andlitsvöðvum. Líkurnar aukast eftir því sem lyfið er notað lengur. Þessar aukaverkanir geta orðið óafturkræfar, en í flestum tilfellum ganga þær til baka á nokkrum mánuðum eftir að lyfjagjöf er hætt. Ungir sjúklingar fá síður þessar aukaverkanir og þær ganga frekar til baka hjá þeim eftir að lyfjagjöf hættir. Þyngdaraukning er sjaldgæf en kemur helst fram ef lyfið er notað lengi.


Aukaverkanir

Allt að 36% þeirra sjúklinga sem taka lyfið finna fyrir aukaverkunum þess á stjórnun hreyfinga, parkinsonslíkum einkennum og ósjálfráðum hreyfingum. Þessar aukaverkanir eru skammtaháðar og líklegri ef dagskammtur er yfir 24 mg.

Aukaverkun Tíðni Leitið til læknis vegna einkenna Leitaðu strax til læknis Hættu strax töku lyfs
Algeng >1% Sjaldgæf <1% Ekki þekkt Sem eru alvarleg Í öllum tilvikum    
Aukin mjólkurmyndun          
Brjóstastækkun karlmanna          
Hraður hjartsláttur        
Hreyfitruflanir, parkinsonseinkenni          
Sljóleiki, þreyta, munnþurrkur          
Útbrot, kláði          
Þvagtregða        

Milliverkanir

Perfenazín eykur áhrif áfengis, svefn- og verkjalyfja.

Sjá öll lyf sem geta haft áhrif á

Má ekki nota með

Getur haft áhrif á


Varúð

Læknir sem ávísar lyfinu þarf að vita hvort
  • grunur leiki á um þungun
  • þú sért með gláku
  • þú sért með hjarta- eða æðasjúkdóm
  • þú sért með langvarandi lifrar- eða nýrnasjúkdóm
  • þú sért með ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju hjálparefnanna
  • þú sért með parkinsonsveiki
  • þú sért með stækkaðan blöðruhálskirtil
  • þú sért með vöðvaslensfár (myasthenia gravis)
  • þú sért með æxli í nýrnahettum
  • þú takir einhver önnur lyf
  • þú sért með skjaldkirtilssjúkdóm
  • þú sért með hvítfrumnafæð

Meðganga:
Nokkur hætta er á því að lyfið hafi áhrif á fóstur.

Brjóstagjöf:
Lyfið berst í brjóstamjólk en í venjulegum skömmtum er ólíklegt að það hafi áhrif á barnið.

Börn:
Lyfið er ekki ætlað börnum.

Eldra fólk:
Auknar líkur eru á aukaverkunum, minni skammtar eru oft notaðir.

Akstur:
Lyfið getur skert athygli og viðbragðsflýti og þar með aksturshæfni.

Áfengi:
Getur aukið sljóvgandi áhrif lyfsins. Ekki neyta áfengis meðan lyfið er tekið.

Íþróttir:
Leyft við æfingar og í keppni.


Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um lyfið er að finna í SPC texta og í fylgiseðli lyfsins, sem má finna á heimasíðu Sérlyfjaskrá. Ef upplýsingar hér stangast á við þær upplýsingar ber að fara eftir SPC texta lyfsins og/eða fylgiseðli.