Vinnustaðurinn

Lyfjuliðið er fjölbreyttur hópur sérþjálfaðs starfsfólks sem á það sameiginlegt að vera umhugað um þitt heilbrigði og vellíðan.

Hjá Lyfju starfa í kringum 350 starfsmenn sem eiga það sameiginlegt að vera umhugað um þína vellíðan. Störf okkar eru fjölbreytt en öll leggjumst við á eitt með það að markmiði að lengja líf og auka lífsgæði Íslendinga.

Við erum með ólíkan bakgrunn og menntun s.s. lyfjafræðingar, lyfjatæknar, förðunarfræðingar, snyrtifræðingar, hjúkrunarfræðingar og viðskiptafræðingar. Við erum 82% konur, meðalaldur er um 40 ár og meðalstarfsaldur okkar er rúm 5 ár.

Fagmennska skiptir okkur öllu máli og því er öflugt fræðslustarf fyrir starfsfólk til að auka þekkingu og færni. Það skiptir okkur máli að starfsfólk Lyfju fái að þróast og vaxa hjá okkur.

Við leggum áherslu á að allt starfsfólk fyrirtækisins sé metið á eigin forsendum, hafi jafna möguleika og njóti sömu kjara og réttinda í starfi og til starfsframa óháð kyni, aldri, uppruna eða lífsstíl. Haustið 2015 fékk Lyfja jafnlaunavottun VR og í febrúar 2018 var Lyfja meðal 20 fyrstu fyrirtækja á Íslandi til að fá jafnlaunavottun Velfarnaðarráðuneytisins.

Við ætlum að hjálpa fólki að lifa heil með því að öðlast betri heilsu, hraustari líkama og meiri vellíðan. Þetta gerum við með þrjú gildi að leiðarljósi:

 • Áreiðanleiki
  Við stöndum við gefin loforð. Viðskiptavinir geta treyst vörunum og þjónustunni sem þeir fá í Lyfju. Gagnkvæmt traust er kjörorð okkar.
 • Umhyggja
  Við uppfyllum þarfir viðskiptavina okkar, leysum úr öllum málum eftir bestu getu og berum virðingu hvert fyrir öðru.
 • Metnaður
  Við leitum stöðugt nýrra tækifæra til að bæta þjónustu, vera framúrskarandi á sviði lyfjasmásölu og uppfylla betur þarfir starfsfólks og viðskiptavina.

Lyfjuliðið

Sýn Lyfju er að lengja líf og auka lífsgæði. Til að vera trú stefnu okkar þá er mikilvægt að við byrjum heima og styðjum starfsfólk Lyfju í þeirra vegferð að bættri heilsu og auknum lífsgæðum. Við leggjum því áherslu á að byggja upp heilsueflandi vinnustað og bjóða starfsfólki fríðindi sem stuðla að bættri heilsu, faglegri þróun og sveigjanleika í lífi og starfi.

Hér er yfirlit yfir þau fríðindi, fræðslu og stuðning sem starfsfólki Lyfju samstæðunnar standa til boða.

Heilsa og vellíðan

Heilsa og vellíðan starfsfólks er okkar hjartans mál og við viljum tryggja að Lyfja sé heilsueflandi vinnustaður.

Heilsustyrkur

Starfsfólk getur sótt um árlegan heilsustyrk að upphæð 30.000 kr. sem gildir í líkamsrækt en einnig á námskeið til að rækja andann svo sem hugleiðslu eða annað sambærilegt. Til viðbótar við heilsustyrk Lyfju getur starfsfólk í mörgum tilfellum sótt viðbótarstyrk til síns stéttarfélags.

Sækja um heilsustyrk.

Sálfræðiráðgjöf

Við göngum öll í gegnum áskoranir í lífinu og til að styðja við starfsfólkið okkar á þeim tímum greiðir Lyfja allt að 3 sálfræðitíma fyrir starfsfólk þegar það þarf á stuðningi að halda.

Þú getur leitað til mannauðssviðs til að fá upplýsingar um þjónustuaðila eða einfaldlega sótt um endurgreiðslu á útlögðum kostnaði vegna sálfræðiráðgjafar hér eða óskað eftir að fá tíma í sálfræðiráðgjöf hjá Auðnast.

Heilsufarsmælingar

Við bjóðum starfsfólki og mökum upp á fríar heilsufarsmælingar í hjúkrunarþjónustu Lyfju og apótekum Lyfju sem bjóða uppá heilsufarsmælingar. Við hvetjum starfsfólk til að nýta sér fríar heilsufarsmælingar, ekki þarf að bóka tíma en gott að hafa í huga að fyrir mælingu á blóðsykri og blóðfitu er mikilvægt að vera fastandi.

Nánar um heilsufarsmælingar.

Skóstyrkur

Skóstyrkur er kjarasamningsbundinn hjá starfsfólki í afgreiðslu og er 4.300 á ári. Við hækkum þessa upphæð í 5.000 á ári eða 10þ.kr. á tveggja ára fresti og allir starfsmenn geta sótt um styrkinn.

Félagsleg heilsa

Heilsa er miklu meira en að hreyfa sig og borða hollt og mikilvægt er að hlúa að félagslegri heilsu starfsfólks. Þar spilar starfsandi og samskipti á vinnustað miklu máli og við leggjum áherslu á að byggja upp vinnustað þar sem starfsfólk upplifir sálrænt öryggi og líður vel. Við tökum stöðuna á þessu í reglulegum starfsmannakönnunum.

Við þurfum líka að gefa okkur tíma til að koma saman og gleðjast. Árlega höldum við veglega árshátíð þar sem starfsfólk Lyfju af öllu landinu kemur saman, auk þess sem öflugt starfsmannafélag heldur félagslífinu gangandi hringinn í kringum landið.

Fjárhagsleg heilsa

Fjárhagsáhyggjur geta verið mikill streituvaldur og haft skaðleg áhrif á heilsu. Til að tryggja að við hugum að heilsu útfrá öllum hliðum tilverunnar þá bjóðum við árlega uppá námskeið í fjármálalæsi fyrir starfsfólk Lyfju.

Lifum og lærum

Öflug fræðsla og símenntun fyrir starfsfólk er grundvallaratriði til að tryggja að við getum veitt viðskiptavinum okkar þá framúrskarandi þjónustu sem við höfum einsett okkur og endurspeglar vilja okkar til að veita ráðgjöf frekar en afgreiðslu. Hér byggjum við góðum grunni sem við viljum efla og styrkja enn frekar. 

Velkomin í liðið

Allir starfsmenn Lyfju fara í gegnum ítarlega nýliðaþjálfun við upphaf starfs, bæði staðbundna og rafræna. Þar er lögð áhersla á að kynna fyrirtækið, stefnu þess og grunnatriði tengd þjónustu og vöruframboði.

Vöruþekking

Við nýtum markaðsáherslur hverju sinni til að dýpka vöruþekkingu starfsfólks og þekkingu á ýmsum heilsutengum málum.

Lyfjuhjartað

Lyfjuhjartað er röð námskeiða sem dýpka faglega þekkingu starfsfólks sem starfar í verslunum Lyfju. Námskeiðin lúta að faglegri þekkingu á launasölulyfjum, bætiefnum og hjúkrun, þjónustu og ráðgjafafærni ásamt öryggisnámskeiði. Markmiðið með námskeiðsröðinni er að efla starfsfólk í starfi, gera möguleika á starfsþróun sýnilegri og markvissari hjá starfsfólki sem sinnir þjónustu við viðskiptavini. Þeir starfsmenn sem ljúka öllum námskeiðunum útskrifast sem sérþjálfaðir starfsmenn.

Námskeiðin eru:

 • Þjónusta- og sala
 • Öryggisnámskeið
 • Lausasölulyf
 • Bætiefni
 • Hjúkrunarvörur

Fagleg símenntun

Við bjóðum reglulega, að lágmarki einu sinni á ári, uppá gestafyrirlesara fyrir lyfjafræðinga.

Leiðtogaþjálfun

Lyfja býður uppá öfluga leiðtogaþjálfun fyrir nýja stjórnendur hjá Lyfju annað hvert ár. Þar er boðið uppá námskeið tengt mannauðsmálum, ráðningum, starfrænni umbreytingu, rekstri og gæðamálum.

Námssjóður Lyfju

Til viðbótar við það fræðslustarf sem við sinnum innan fyrirtækisins þá veitir Lyfja starfsfólki árlega styrki til háskólanáms og fagnáms í framhaldsskóla.

Starfsfólk sem stundar eða hyggur á nám í lyfjafræði, hjúkrunarfræði og heyrnarfræði getur sótt um námsstyrk fyrir skólagjöldum sem greiddur er út í upphafi hvers skóla árs.

Starfsfólk í lyfjatækni- og sjúkraliðanámi getur sótt um námsskyrk fyrir skólagjöldum, námsefni og ferðakostnaði eftir því sem við á.

Starfsfólk getur einnig sótt um styrk fyrir skólagjöldum í Fagnám verslunar og þjónustu.

Starfsfólk sem hlýtur námsstyrk skuldbindur sig til að starfa hjá Lyfju sumarið eftir það námsár sem styrkur er veittur.

Umsókn um námsstyrk vegna skólagjalda

Lyfja og þú

Þarfir okkar eru mismunandi á ólíkum lífsskeiðum og því viljum við leggja áherslu á að geta komið til móts við fólk og styðja við starfsfólk Lyfju á tímamótum bæði innan og utan vinnu.

Starfsmannaafsláttur

Starfsfólk Lyfju fær 20% starfsmannaafslátt af heilsusamlegum vellíðunarvörum hjá Lyfju og Heilsuhúsinu. Starfsmannaafslátturinn gildir fyrir alla búðavöru og lausasölulyf, en gildir ekki með öðrum tilboðum.

Starfsmannaafsláttur gildir fyrir starfsmann, maka og börn undir 18 ára aldri. Starfsmannaafslátturinn gildir í öllum verslunum Lyfju og til að nýta afsláttinn gefur starfsmaður upp kennitölu sína áður en greitt er við kassa.

Breytilegt og sveigjanlegt starfshlutfall

Lyfja býður upp á breytilegt og sveigjanlegt starfshlutfall, mikið af hlutastörfum eru í boði en einnig flakkarastörf þar sem fólk getur verið í breytilegu starfshlutfalli milli mánaðaða, þetta á bæði við um störf við sölu og þjónustu og störf lyfjafræðinga.

Lyfja allan hringinn

Lyfja er með starfsemi hringinn í kringum landið og getur þar af leiðandi gefið starfsfólki tækifæri til að búa á nýjum stað til skemmri eða lengri tíma. Starfsfólk Lyfju getur sótt um að starfa á öðru landssvæði hvort sem er til skemmri eða lengri tíma. Nánari upplýsingar um störf í boði veitir starfsfólk mannauðssviðs.

Sveigjanleg starfslok

Sveigjanleg starfslok eru mikilvægur liður í að styðja við starfsfólk á mikilvægum tímamótum í þeirra lífi. Margir kunna vel að meta að geta minnkað við sig starfshlutfall eða ábyrgð áður en viðkomandi hættir alveg að vinna. Það gefur fólki aðlögunartíma og gefur Lyfju tækifæri til að njóta krafta þeirra aðeins lengur.

Draumaleyfið

Þegar kemur að persónulega lífinu þá gerum við stöðugt auknar kröfur til lífsfyllingar og upplifunar. Draumaleyfið er leið til að koma til móts við starfsfólk sem langar að taka sér tímabundið leyfi og ferðast um heiminn eða upplifa annað sem hugurinn girnist. Starfsfólk getur sótt um launalaust leyfi í lengri eða skemmri tíma til að upplifa eitthvað nýtt án þess að þurfa að segja starfinu sínu upp. Þannig helst ráðningarsambandið þó við getum ekki lofað nákvæmlega sömu vaktarúllunni þegar þú kemur til baka. Nánari upplýsingar veitir starfsfólk mannauðssviðs.

Má bjóða þér vetrarfrí?

Það getur verið flókið að halda apótekunum okkar opnum hringinn í kringum landið yfir sumartímann þegar sumarfrí eru í hámarki vegna lyfjafræðilegrar mönnunar. Við bjóðum því lyfjafræðingum ferðastyrk á móti því að taka frí yfir vetrartímann í staðinn fyrir hásumarið. Um er að ræða 50.000 kr. ferðastyrk fyrir hverja fríviku sem tekin er utan orlofstíma á sumrin, um páska og jól, á móti skuldbindur lyfjafræðingur sig til að taka ekki meira en vikufrí á tímabilinu júní til ágúst á viðkomandi orlofsári.

Við fögnum tímamótum í lífi starfsfólks

Að eignast barn eru ein stærstu tímamót sem flestir upplifa á ævinni og við viljum svo sannarlega samgleðjast nýbökuðum foreldrum í Lyfjuliðinu. Starfsfólk Lyfju fær í fæðingargjöf í formi gjafabréfs frá Lyfju.

Við fögnum einnig stórafmælum og öðrum stórviðburðum í lífi starfsfólks.

Umönnunarleyfi

Þegar árin líða og barna uppeldi sleppir þá taka oft við nýjar skyldur þegar makar eða aldraðir ættingar veikjast og þurfa stuðning. Þetta getur skapað álag og við viljum styðja við starfsfólkið okkar þegar á reynir og því höfum við ákveðið að þegar veikindarétti barna sleppir þá taki við umönnunarleyfi sem miðast við sama dagafjölda og veikindaréttur barna. 

Lyfja og samfélagið

Samfélagsábyrgð er órjúfanlegur þáttur í ábyrgum fyrirtækjarekstri og hluti af okkar daglegu störfum hjá Lyfju enda er Lyfja mikilvægur hlekkur í heilbrigðiskerfinu.

Í okkar daglegu störfum tryggjum við örugga dreifingu lyfja til sjúklinga hringinn í kringum landið og stuðlum að bættri heilsu og vellíðan viðskiptavina með fræðslu og ráðgjöf.

Lyfjabókin

Við höldum úti Lyfjabókinni sem er mikilvæg upplýsingaveita til bæði almennings og fagaðila innan heilbrigðisþjónustu.

Umhverfismál

Þegar kemur að umhverfismálum þá eru lyfjaskilakassarnir og örugg eyðing lyfja klárlega mikilvægasta verkefnið okkar. En Lyfja tryggir einnig kolefnishlutleysi starfsemi félagins í samstarfi við Kolvið.

Jákvæð áhrif á samfélagið

Okkur er umhugað um að starfsfólk Lyfju finni að það geti haft jákvæð áhrif á umhverfið og samfélagið.

 • Þannig gefur starfsfólk Lyfju haft áhrif á hvaða verkefni hljóta styrk úr styrktarsjóði Lyfju.
 • Starfsfólk Lyfju hefur einnig tekið virkan þátt í fræðslu til almennings um ýmis heilsutengd málefni líðandi stundar.