NTaugakerfi

Öll lyf sem ætlað er að hafa áhrif á taugakerfið tilheyra þessum flokki.

N Tauga- og geðlyf

Öll lyf sem ætlað er að hafa áhrif á taugakerfið tilheyra þessum flokki.

Lýsing – hvers konar lyf tilheyra þessum flokki
Öll lyf sem ætlað er að hafa áhrif á taugakerfið tilheyra þessum flokki. Taugakerfi líkamans skiptist í miðtauga- og úttaugakerfi. Miðtaugakerfið samanstendur af heila og mænu og úttaugakerfið telur taugarnar sem tengja miðtaugakerfið við önnur líffæri. Skyntaugar og hreyfitaugar teljast þannig til úttaugakerfisins.

Starfsemi miðtaugakerfisins byggist á samskiptum taugafrumna. Taugafrumur tengjast við taugamót og þær hafa áhrif á starfsemi annarra tauga með losun taugaboðefna. Taugaboðefni geta ýmist haft örvandi eða letjandi áhrif á aðrar taugafrumur og mörg þeirra eru meira áberandi á sumum svæðum í heilanum en öðrum. Hlutverk hvers boðefnis getur verið mismunandi eftir því hvar þau eru í heilanum.

Oft er hægt að sjá samhengi milli röskunar á virkni ákveðinna boðefna og sjúkdóma. Til dæmis er lítil virkni á taugaboðefninu asetýlkólíni tengd Alzheimer sjúkdómi og þess vegna er hægt að vega einkenni sjúkdómsins upp að einhverju leyti með því að hamla niðurbroti á asetýlkólíni.

Saga
Sjá undirflokka.

Verkunarmáti
Öll lyfin hérna hafa áhrif á starfsemi taugafruma eða virkni taugaboðefna. Taugakerfið er býsna flókið og hversu nákvæmlega lyfin verka er ekki alltaf auðvelt að koma auga á. Þótt hægt sé að greina samhengið milli áhrifanna sem verða á taugaboðefni og sjúkdóma verða breytingarnar á taugastarfseminni oftast lítt sýnilegar. Hægt er að tengja lyfjaáhrif á ákveðin taugaboðefni við virkni þeirra gegn sjúkdómum, t.d. er oft samband milli áhrifa lyfja á virkni serótóníns og áhrifa á þunglyndi, og lyf sem draga úr niðurbroti asetýlkólíns geta gagnast við Alzheimer sjúkdómi.

Algengar aukaverkanir
Aukaverkanir tauga- og geðlyfja eru ekki einsleitar, enda er flokkurinn breiður. Sjá undirflokka.

Almennar leiðbeiningar um notkun
Sjá undirflokka.

Hvað ber að varast
Sjá undirflokka.

Undirflokkar
Allur texti hér að framan á við öll lyf í þessum flokki. Allt sem á sérstaklega við einstaka undirflokka kemur hér á eftir:

N01 Svæfinga- og deyfingalyf

Hér er að finna lyf notuð til svæfinga fyrir aðgerðir og staðdeyfilyf. Staðdeyfilyf sem notuð eru útvortis, þ.e. ekki stungulyf, eru þó flokkuð með húðlyfjum. Svæfingarlyfin eru öll ýmist innöndunar- eða stungulyf, en með slíkum lyfjaformum er auðvelt að stjórna skömmtum hjá meðvitundarlausum sjúklingum.

Tilkoma staðdeyfilyfja og svæfingarlyfja gerbreytti öllum aðstæðum til að framkvæma aðgerðir. Svæfingarlyf komu fyrst fram um miðja 19. öld, en fram að því hafði verið notast við áfengi, ópíum og kannabis til að róa sjúklinga fyrir aðgerðir. Ekkert þessara efna hefur vöðvaslakandi áhrif eins og svæfingarlyfin hafa, og lengd aðgerðarinnar snerist að miklu leyti um það hversu lengi sjúklingur gat þolað sársauka. Auk þessara lyfja voru aðrar aðferðir notaðar, s.s. að rota sjúklinginn með tréskál, og frægur franskur skurðlæknir (Dupuytren 1777-1835) reyndi að vera eins dónalegur og mögulegt var í þeirri von að það liði yfir sjúklinga hans. Eftir að svæfingarlyfin komu fram fóru vandvirkni og nákvæmni að skipta meira máli en hraði við aðgerðir.

Fyrstu svæfingarlyfin voru hláturgas, eter og klóróform, öll notuð sem innöndunarlyf. Hláturgas er enn notað fyrir minni háttar aðgerðir, en ekkert þessara lyfja er skráð hér á landi í dag. Þegar svæfing er framkvæmd með einu lyfi þarf að nota frekar stóra skammta. Því fylgja ýmis vandkvæði við svæfinguna sjálfa auk þess sem sjúklingurinn er lengur að jafna sig eftir svæfinguna. Mjög stórir skammtar valda öndunarbælingu og hjartastoppi.

Nú til dags er lyfjagjöfinni stjórnað mun nákvæmar. Lyf notuð til undirbúnings fyrir svæfinguna og dýpt svæfingar er stýrt eftir því sem við á fyrir hverja aðgerð. Svæfingalæknar stjórna lyfjagjöf sem kallar fram meðvitundarleysi, verkjastillingu og vöðvaslökun fyrir aðgerðir. Hægt er að framkalla þessi áhrif ýmist með einu lyfi eða fleirum. Eins og áður sagði er ekki æskilegt að nota aðeins eitt lyf, en það getur einnig verið varasamt að nota of mörg vegna hættu á milliverkunum.

Verkunarmáti svæfingarlyfja er ekki að fullu þekktur, en svo virðist sem lyfin hindri það að rafboð geti borist eftir taugaendum. Það eru þó engir eiginleikar sameiginlegir með öllum svæfingarlyfjum, þannig að gera má ráð fyrir því að þau verki á fleiri en einn hátt.

Staðdeyfilyf
Fyrsta staðdeyfilyfið var kókaín, sem var fyrst notað af Dr. Carl Koller í Vín 1884 til deyfingar fyrir augnaðgerðir, eftir að hann og Dr. Sigmund Freud höfðu velt fyrir sér þessum möguleika. Í kjölfarið var reynt að hanna staðdeyfilyf sem höfðu minni aukaverkanir en kókaín, sem leiddi til þess að prókaín kom fram 1905 og mörg önnur lyf fylgdu á eftir.

Staðdeyfilyf eru mjög mikilvæg við undirbúning minni háttar aðgerða. Þau koma í veg fyrir að taugar geti sent frá sér boð og koma með þeim hætti í veg fyrir það að boð um sársauka berist frá þeim vef sem er deyfður. Staðdeyfilyfin hafa einnig áhrif á hreyfitaugar og taugar miðtaugakerfisins, en þessar taugar eru ekki jafn næmar fyrir áhrifunum og skyntaugar. Þeir skammtar sem eru notaðir til staðdeyfingar slá því venjulega aðeins út skyntaugar en hafa ekki áhrif á hreyfitaugar.

Staðdeyfilyf byrja almennt að verka innan 5 mínútna og áhrifin vara í um 60-90 mínútur. Í sumum tilfellum eru gefin æðaþrengjandi lyf, t.d. adrenalín, með staðdeyfingu til þess að halda deyfingunni lengur. Æðaþrengjandi lyfin minnka blóðflæði þangað sem deyfingin á að vera og hindra með því að deyfilyfið sé flutt þaðan. Ef æðaþrengjandi lyf eru notuð endist deyfing í um það bil tvöfalt lengri tíma, eða 2-3 klst.

N02 Verkjalyf

Verkir eru algengasta ástæða þess að fólk leitar læknis. Að sjálfsögðu er best að draga úr verkjum með því að meðhöndla orsök þeirra, en það er ekki alltaf hægt og því eru verkjalyf nauðsynleg.

Verkjalyf geta virkað almennt á verki eða verið sérhæfð gegn verkjum af einni orsök, t.d. mígreni. Lyf sem eru ekki flokkuð sem verkjalyf geta þó haft áhrif á verki, t.d. koma flogaveikilyf að gagni gegn taugapínu og viss hjartalyf geta gagnast við mígreniverkjum. Kvíði, ótti, depurð, þreyta og svefnleysi geta lækkað verkjaþröskuldinn og haft áhrif á það hvernig sjúklingur upplifir verki. Með því að ráða bót á þessum kvillum er því hægt að draga úr verkjum eða gera þá bærilegri.

Stærsti undirflokkur verkjalyfja eru svokallaðir ópíóíðar. Þessi lyf eru nefnd eftir ópíumvalmúa (Papaver somniferum), sem morfín er unnið úr. Notkun ópíóíða er forsöguleg, en morfín var fyrst einangrað úr ópíumvalmúa 1806. Síðar (1975) uppgötvaðist að efni sem hafa svipuð áhrif og morfín myndast í líkamanum, en heitið endorfín er stytting á "endogen morphine" eða innlægt morfín. Morfín er sterkt verkjalyf sem er notað við svæsnum verkjum, t.d. vegna krabbameins. Auk beinna verkjastillandi áhrifa hefur morfín, og flestir aðrir ópíóíðar, róandi verkun, sem getur komið að gagni í verkjameðferð.

Aukaverkanir morfíns eru ógleði, uppköst, hægðatregða, blóðþrýstingslækkun, slæving hósta, víma og höfgi. Einnig er hætta á öndunarbælingu við stóra skammta. Morfíni fylgir mikil ávanahætta og fráhvarfseinkenni koma fram þegar notkun er hætt.

Aðrir ópíóíðar eru náttúruleg og efnafræðilega samtengd lyf sem hafa sams konar verkunarmáta og morfín. Verkjastillandi áhrif þessara efna geta verið miskröftug og verkunartími þeirra mislangur. Aukaverkanir lyfjanna eru að mörgu leyti frábrugðnar aukaverkunum morfíns, en helsta markmið með þróun nýrra ópíóíða er að búa til sterk, verkjastillandi lyf sem eru laus við ávanahættu og aukaverkanir morfíns, s.s. öndunarbælingu og hægðatregðu.

Þessi verkjalyf eru notuð við meðalsvæsnum eða slæmum verkjum. Þol myndast gegn verkjastillandi áhrifum lyfjanna, en það og ávanahætta takmarka notagildi þeirra í langtímameðferð. Annar undirflokkur verkjalyfja inniheldur lyf sem hamla myndun prostaglandína. Prostaglandín eru efni sem stjórna mörgum ferlum í líkamanum, þau valda t.d. sótthita, kalla fram bólgusvörun við sýkingu eða áverka, stjórna samdrætti í legvöðva og viðhalda magaslímhúð. Við áverka eða ertingu á vefjum líkamans myndast prostaglandín sem kalla fram bólgu og gera sársaukataugar næmari fyrir frekara áreiti. Lyf sem hamla myndun þessara prostaglandína geta því slegið á verki. Prostaglandín hafa væntanlega einhverju hlutverki að gegna varðandi sársaukaskynjun í heilanum, en þau áhrif eru ekki þekkt. Flest lyf sem hafa þennan verkunarmáta eru þó ekki flokkuð með verkjalyfjum, heldur eru þau í flokki M (stoðkerfi), þá sem bólgueyðandi lyf og gigtarlyf.

Almennt má gera ráð fyrir því að ópíóíðar hafi meiri áhrif á verki sem eiga upptök sín í innyflum, meðan lyf sem hamla myndun prostaglandína hafi meiri áhrif á verki sem eiga upptök sín í vöðvum, beinum, liðamótum og húð.

Þriðji undirflokkur verkjalyfja eru lyf sem hafa sérhæfð áhrif á mígrenihöfuðverk. Mígrenihöfuðverkir stafa af sársaukafullri útvíkkun æða umhverfis heilann. Sérhæfð mígrenilyf hafa áhrif á þessar æðar og valda því að þær víkka síður út og draga þannig úr verkjum. Til eru bæði fyrirbyggjandi lyf sem eru tekin að staðaldri og lyf sem eru aðeins tekin í upphafi höfuðverkjakasts. Yfirleitt er byrjað að nota skammverkandi lyf sem eru tekin eftir þörfum, en séu mígreniverkir mjög tíðir eru fyrirbyggjandi lyf notuð.

Almenn verkjalyf, bæði ópíóíðar og bólgueyðandi verkjalyf, eru oft notuð gegn mígreniverkjum, og hafa gjarnan meiri áhrif á höfuðverkina þegar þau eru gefin í samsetningu með koffeíni. Þar sem ógleði fylgir gjarnan mígrenihöfuðverkjum getur hjálpað mikið að gefa lyf gegn ógleði með verkjalyfjunum. Lyf í öðrum lyfjaflokkum geta einnig gefið góða raun sem fyrirbyggjandi gegn mígreniverkjum, s.s. viss blóðþrýstings- og flogaveikilyf.

Ergotamín er lyf með almenn æðaþrengjandi áhrif sem hefur verið notað gegn mígreni síðan 1920. Það er notað gegn tilfallandi verkjum, en er ekki nothæft sem fyrirbyggjandi lyf. Áhrif þess á æðar vara mun lengur en meðal mígreniverkur og í of stórum skömmtum veldur það ógleði og höfuðverk, sem eru hvort tveggja einkenni mígrenis. Þessu fylgir hætta á því að sjúklingur haldi að lyfið hafi ekki haft áhrif og freistist því til að taka enn stærri skammta. Í mjög stórum skömmtum getur lyfið heft blóðflæði til útlima svo mikið að drep myndist í þeim. Þetta er afar sjaldgæft, en hættan er meiri sé lyfið notað daglega í langan tíma. Ergotamín er ekki skráð á Íslenskan markað í dag.

Þau mígrenilyf sem eru mest notuð nú til dags eru lyf sem hindra sérhæft útvíkkun æða umhverfis heilann. Það er því lítil hætta á aukaverkunum vegna almennrar æðaþrengingar af völdum þessara lyfja. Fyrsta lyfið í þessum flokki var súmatriptan, en auk þess eru nú skráð þrjú önnur lyf hér á landi, rizatriptan, almotriptan og eletriptan. Þessi lyf hafa mest áhrif á meðalslæmt eða slæmt mígreni, en virka ekki betur en almenn verkjalyf gegn vægu mígreni. Lyfin slá á mígrenihöfuðverki í langflestum tilfellum sem þau eru notuð og ef eitt þeirra ber ekki árangur útilokar það ekki að hin virki.

Önnur mígrenilyf eru mun minna notuð. Helsta notagildi þeirra er sem fyrirbyggjandi meðferð gegn mígreniköstum, þegar verkjaköstin eru mjög tíð eða þegar önnur lyf koma ekki að gagni. Í flokki annarra mígrenislyfja má telja eitt jurtalyf sem hefð er fyrir sem inniheldur þurrkaða glitbrá.

N03 Flogaveikilyf

Flogaveiki stafar af röskun á starfsemi taugafruma í heilaberki. Flog eru tímabundið ástand þar sem hópar taugafruma í heilaberki senda taktföst boð samtímis til annarra tauga. Þessi röskun getur ýmist verið staðbundin (hlutaflog) eða náð yfir nær allan heilabörkinn (alflog). Einkenni flogaveiki fara eftir því á hvaða svæði þau verða og því hlutverki sem það svæði gegnir.

Flog geta verið misalvarleg, allt frá því að vera eins konar breyting á meðvitund í það að valda krampaköstum og meðvitundarleysi. Flog sem eiga upptök sín á afmörkuðu svæði geta dreifst yfir heilabörkinn og valdið þannig alvarlegri einkennum en annars. Skurðaðgerðir gegn flogaveiki koma stundum til greina þegar flog eru bundin við lítið afmarkað svæði.

Lyfjameðferð gegn flogaveiki miðar að því að hindra þær breytingar sem verða á starfsemi taugafruma í flogaveiki, almennt með því að minnka næmi þeirra fyrir áreiti. Markmiðið er að koma í veg fyrir flog, en í flogaköstum er hægt að nota róandi lyf sem slá á krampa. Val á lyfjum gegn flogaveiki fer eftir einkennum og tegund floga. Oft þarf þó að reyna nokkur lyf áður en viðunandi árangri er náð.Í sumum tilfellum þarf að nota fleiri en eitt lyf að staðaldri. Lyfjameðferðin er því oft nokkuð einstaklingsbundin. Það erfiðar meðferðina að flogaveikilyf valda flest óþægilegum aukaverkunum s.s. sljóleika og þyngdaraukningu, en af þeim orsökum er reynt að nota eins litla skammta af lyfjunum og hægt er. Ef flog koma alltaf á sama tíma dags þarf að miða meðferðina við það og taka lyfin þannig að áhrif þeirra séu kröftugust þegar mest hætta er á flogum.

Flog geta komið fram þegar töku lyfs er hætt, sérstaklega þegar hætt er að taka lyfin skyndilega. Það þarf því alltaf að minnka skammta smám saman, hvort sem verið er að skipta um lyf eða hætta alveg. Af sömu ástæðu þarf að taka lyfin reglulega og gæta þess að missa ekki úr skammta.

Flogaveikilyf geta örvað lifrarstarfsemi og þar með niðurbrot margra lyfja í lifur, t.d. getnaðarvarnalyfja. Lyfin geta einnig örvað eigið niðurbrot í lifrinni og því þarf að auka skammta af þeim smám saman til að vega upp á móti þessum áhrifum þangað til að jafnvægi er náð.

Oftast er ekki þörf á því að nota fyrirbyggjandi lyf gegn flogaveiki ævilangt. Ef meðferð ber árangur og engin flog koma fyrir svo mánuðum skiptir, má íhuga að hætta lyfjanotkun. Oft er hægt að hætta lyfjanotkun eftir 1-4 ára meðferð. Það er sérstaklega æskilegt að börn séu ekki of lengi á lyfjunum þar sem þau geta dregið úr námshæfni þeirra. Þegar hætta á meðferð er dregið úr skömmtum á nokkurra mánaða tímabili áður en notkun lyfsins er alveg hætt.

Flogaveiki hjá börnum
Flogaveiki er meðhöndluð á sama hátt hjá börnum og hjá fullorðnum. Það er þó sérstaklega reynt að takmarka skammta af lyfjunum og fylgjast vel með því hvenær má reyna að hætta lyfjameðferð.

Flogaveiki og meðganga
Flogaveikilyf geta aukið hættuna á fósturskaða. Það er þó ekki ástæða til að hætta notkun flogaveikilyfja á meðgöngu þar sem flog geta haft skaðleg áhrif á heilsu móður og fósturs, nema um sé að ræða vægt tilfelli flogaveiki. Reglan er sú að einfalda meðferðina og reyna að komast af með eitt lyf í sem minnstum skömmtum. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir flogaveikar konur að taka fólínsýru á meðgöngu, þar sem fólínsýra er mikilvæg fyrir eðlilegan þroska fósturs og sum flogaveikilyf örva niðurbrot hennar í lifur.

Flogaveikilyf berast í brjóstamjólk, en í venjulegum skömmtum er lítil hætta á því að það hafi áhrif á barnið. Kostir við að gefa ungabörnum brjóst vega þyngra en hættan á því að lyfin hafi sljóvgandi áhrif á þau.

Flogaveiki hjá eldra fólki
Eldra fólk er að jafnaði viðkvæmara fyrir aukaverkunum flogaveikilyfja en yngra fólk. Það er algengt að fólk yfir 60 ára aldri þurfi að hætta meðferð vegna aukaverkana, sem er mjög slæm staða og brýnt að finna betri leiðir til að meðhöndla flogaveiki hjá þessum aldurshópi.

Önnur not fyrir flogaveikilyf
Flogaveikilyf hafa einnig gagnast í meðferð gegn geðhvörfum, þar sem þau virðast hafa fyrirbyggjandi áhrif. Lyfin hafa einnig sýnt notagildi gegn taugaverkjum.

N04 Lyf við Parkinsonsveiki

Sjúkdómseinkenni Parkinsonsveiki stafa af ójafnvægi milli taugaboðefnanna asetýlkólíns og dópamíns þar sem samhæfingu hreyfinga er stjórnað í heila. Magn dópamíns minnkar en vægi asetýlkólíns verður þá hlutfallslega of mikið. Í Parkinsonsveiki er þetta vegna hrörnunar þeirra taugafruma sem framleiða dópamín.

Lyfjameðferð gegn Parkinsonsveiki miðar að því að vega þetta ójafnvægi upp. Fyrsta lyfið sem sýnt var að hefði áhrif á einkennin var levódópa, en það virkar sem forefni fyrir dópamín og eykur þannig myndun þess í heilanum. Dópamín hefur áhrif víða í líkamanum og margar aukaverkanir levódópameðferðar stafa af almennt aukinni dópamínvirkni, t.d. á blóðþrýsting. Levódópa er enn miðpunktur meðferðar við Parkinsonsveiki.

Levódópa er eingöngu notað með öðrum lyfjum sem hindra niðurbrot þess og ummyndun í dópamín utan miðtaugakerfisins. Þetta hefur þau áhrif að hægt er að nota minni skammta en annars þyrfti og að dregið er úr aukaverkunum meðferðarinnar.

Aukaverkanir lyfsins, svo sem ósjálfráðar hreyfingar og geðræn áhrif, ágerast með tímanum. Þessar aukaverkanir verða til þess að minnka verður skammta af levódópa en þá er hægt að bæta öðrum lyfjum við meðferðina til þess að halda einkennum sjúkdómsins niðri. Engu að síður kemur endanlega að því að hætta verður meðferð með levódópa vegna þessara aukaverkana. Af þessum ástæðum er reynt að draga það að hefja levódópameðferð sem lengst í meðhöndlun Parkinsonsveiki.

Önnur lyf við Parkinsonsveiki
Lyf sem draga úr virkni asetýlkólíns geta einnig haft áhrif á það ójafnvægi sem myndast í Parkinsonsveiki. Asetýlkólín er taugaboðefni sem hefur áhrif mjög víða í líkamanum og því er hætta á aukaverkunum vegna þessara lyfja töluverð. Aðeins eitt lyf með þessa verkun er skráð hér á landi.

Lyf sem hamla niðurbroti dópamíns eða líkja eftir áhrifum þess eru notuð gegn Parkinsonsveiki. Þessi lyf hafa ekki jafn mikil áhrif og levódópa en reynt er að nota þau í upphafi meðferðar þangað til þau duga ekki lengur til að slá á Parkinsonseinkennin. Lyfin eru einnig notuð samhliða levódópameðferð til þess að hægt sé að nota sem minnsta skammta af levódópa.

Enn sem komið er eru ekki til nein lyf sem hægja á gangi sjúkdómsins. Sjúkdómurinn versnar smám saman og því þarf að nota sífellt stærri lyfjaskammta til að halda einkennunum niðri. Þar sem þau lyf sem nú eru notuð gagnast aðeins tímabundið er ekki byrjað að meðhöndla veikina fyrr en einkenni hennar koma í veg fyrir að sjúklingurinn geti sinnt einhverju sem er honum mikilvægt.

Rannsóknir beinast nú helst að því hvernig hægt er að halda einkennunum niðri í lengri tíma og að því hvort hægt sé með einhverjum hætti að hægja á framgangi sjúkdómsins

N05 Geðlyf (psycholeptics)

Geðrofslyf (antipsychotics), líka kölluð sefandi lyf, lyf eru notuð gegn geðklofa og sturlunareinkennum. Sturlunareinkenni geta komið fram vegna geðsjúkdóma, s.s. geðklofa og oflætis (maniu), en einnig vegna notkunar vissra lyfja og fíkniefna. Mörg sefandi lyf hafa jafnframt uppsöluhemjandi og róandi verkun og eru þá stundum notuð sem slík. Lyfin eru þó sjaldan notuð að staðaldri við öðrum sjúkdómum en geðklofa.

Geðklofi er mjög alvarlegur sjúkdómur sem hefur mikil áhrif á líf sjúklingsins og fjölskyldu hans. Sjúkdómurinn er oftast langvarandi og flestir geðklofasjúklingar hafa einhver einkenni sjúkdómsins ævilangt. Áður en sefandi lyf komu til sögunnar voru fá úrræði við geðklofa, og sjúklingar gjarnan lokaðir inni á hælum til langs tíma. Fyrsta sefandi lyfið kom á markað um 1950, en nú er töluverður fjöldi lyfja í þessum flokki á markaði. Eldri sefandi lyfjum var gróflega skipt í tvo flokka, háskammta og lágskammta lyf, eftir því hversu stóra skammta þurfti að nota af lyfjunum til að slá á einkenni sjúkdómsins. Nokkur munur er á verkunarmáta háskammta og lágskammta lyfja, og þar með á algengustu aukaverkunum þeirra. Lágskammtalyfin eru sérhæfðari, hafa sterk áhrif á viðtaka fyrir boðefnið dópamín í framheilanum, meðan háskammtalyfin hafa áhrif á viðtaka fleiri boðefna. Áhrif á dópamínviðtaka eru þó gegnumgangandi hjá sefandi lyfjum og virðast vera nauðsynleg fyrir virkni gegn geðklofa og sturlunareinkennum.

Af einkennum geðklofa hafa sefandi lyf mest áhrif á spennu, ofvirkni, árásargirni, ofskynjanir, ranghugmyndir, svefnleysi, lystarstol, hlédrægni, hirðuleysi, neikvæðni og einangrun. Lyfin hafa aftur á móti minni áhrif á innsæi, dómgreind, minni og áttun.

Þær aukaverkanir sem draga mest úr notagildi sefandi lyfja eru hreyfitruflanir. Hreyfitruflanir þessar líkjast einkennum Parkinsonsveiki, en sá sjúkdómur stafar af hrörnun tauga sem framleiða dópamín, á því svæði í heila sem stjórnar fínstillingu hreyfinga. Nokkuð sterk tengsl eru á milli þess hversu mikil áhrif lyfin hafa á dópamínviðtaka og hversu gjarnan þau valda hreyfitruflunum sem aukaverkunum. Þar sem lágskammtalyfin hafa sterkari áhrif á dópamínviðtaka valda þau frekar hreyfitruflunum en háskammtalyfin. Háskammtalyfin hafa aftur á móti frekar róandi áhrif, blóðþrýstingslækkandi áhrif, valda munnþurrki og hægðatregðu.

Einar alvarlegustu hreyfitruflanir sem lyfin geta valdið koma fram eftir nokkurra mánaða eða ára notkun, og kallast því síðkomnar hreyfitruflanir (tardive dyskinesia). Einkennin eru oftast ósjálfráðar hreyfingar eða kippir í andliti og hálsi, en þessi einkenni geta verið óafturkræf. Þessi einkenni versna oft þegar meðferð er hætt.

Nýrri sefandi lyf, ýmist kölluð "óvenjuleg sefandi lyf" (atypical neuroleptics) eða önnur kynslóð sefandi lyfja, valda þó síður hreyfitruflunum. Áhrif þeirra á virkni taugaboðefna í heilanum eru nokkuð frábrugðin áhrifum eldri lyfjanna, bæði háskammta og lágskammta lyfja. Þau hafa mikil áhrif á ákveðna undirtegund viðtaka fyrir boðefnið serótónín í heilanum, en minni áhrif á dópamínviðtaka. Verkun gegn geðklofaeinkennum er þó að minnsta kosti jafn mikil og verkun eldri lyfjanna. Þessi lyf eru þó töluvert dýrari en eldri lyfin og það má hafa það í huga að minni reynsla er af notkun þeirra.

Kvíðastillandi lyf og svefnlyf eru flest af sama flokki lyfja, en það eru svokölluð bensódíazepín lyf. Lyfin hafa öll róandi, kvíðastillandi, krampastillandi og svæfandi verkun, en eru missérhæfð og verkunartími þeirra er mislangur. Áhrif þessara lyfja eru rakin til þess að þau auka áhrif gamma-amínó smjörsýru (GABA), hamlandi boðefnis í heila.

Lyf í þessum flokki sem hafa skamman verkunartíma þykja almennt henta betur sem svefnlyf, en þau sem hafa lengri verkunartíma geta hentað betur sem róandi lyf eða gegn kvíða. Lyfin geta einnig komið að gagni við krömpum vegna flogaveiki, en hafa takmarkað notagildi sem fyrirbyggjandi lyf í flogaveikimeðferð.

Ávanahætta fylgir notkun bensódíazepínlyfja. Þessi hætta eykst eftir því sem lyfin eru notuð lengur og því sem skammtar stækka. Einnig virðist vera nokkuð meiri hætta á misnotkun þeirra lyfja sem hafa stuttan verkunartíma en þeirra sem verka lengur. Nú síðustu ár hefur því verið unnið að því að hanna lyf sem hafa kosti bensódíazepín lyfja en eru laus við ávanahættu. Þetta hefur leitt af sér þróun nýrra lyfja sem hafa svipað notagildi sem svefnlyf, en ávanahætta af völdum þeirra virðist vera töluvert minni.

Svefnlyfin í þessum flokki henta ekki til langtímameðferðar. Þetta stafar af þolmyndun, þ.e. þol myndast gegn áhrifum þeirra, en ávanahættan dregur einnig úr notagildinu. Ef um langvarandi svefnleysi er að ræða er nær að reyna að komast að orsökum þess og meðhöndla þær, en ýmsir sjúkdómar geta valdið svefnleysi, t.d. þunglyndi.

N06A Þunglyndislyf

Þrátt fyrir miklar rannsóknir og töluverðan árangur í meðhöndlun þunglyndis er ennþá ekki með fullu vitað hver líffræðileg orsök þunglyndis er. Margir þættir koma til greina, en kenningar um orsakir þunglyndis hafa meðal annars stuðst við verkunarmáta þunglyndislyfja og áhrif þeirra á starfsemi taugafruma. Það er þó ljóst að einhverjar breytingar verða á heilastarfsemi í þunglyndi og að hægt sé að vega þessar breytingar upp með lyfjagjöf. Heilinn er þó mjög flókið líffæri og það er erfitt að sjá heildaráhrif þess að breyta einum þætti í starfsemi þess. Það er þó vonast til þess að frekari rannsóknir, m.a. á erfðamengi mannsins, leiði orsakir þunglyndis í ljós.

Fyrstu lyfin sem voru notuð með einhverjum árangri gegn þunglyndi voru svokölluð þríhringlaga geðdeyfðarlyf. Nafn flokksins er tilkomið vegna efnafræðilegrar byggingar þeirra. Lyfin hafa áhrif á flest einkenni geðdeyfðar, bæta skap, auka líkamlega virkni, bæta matarlyst og auka áhuga á daglegu lífi. Þessi áhrif koma aðeins fram hjá sjúklingum með geðdeyfð en sjást ekki ef heilbrigðir taka lyfin. Helsti gallin við þessi lyf er sá að aukaverkanir vegna þeirra eru nokkuð tíðar og að töluverð hætta er á eiturverkunum ef stórir skammtar eru teknir.

Nú hafa komið fram mörg fleiri þunglyndislyf sem hafa svipaða virkni og eldri lyfin gegn þunglyndi en færri aukaverkanir. Almennt hafa nýrri lyfin sérhæfðari verkun á virkni taugaboðefna í heila en þríhringlaga lyfin hafa. Áhrifin eru þannig bundin við færri boðefni og/eða afmarkaðri staði í heilanum.

Sá flokkur þunglyndislyfja sem mest er notaður núna eru lyf sem hafa sérhæfð áhrif á virkni taugaboðefnisins serótóníns. Fyrsta lyfið með þennan verkunarmáta sem kom á markað var flúoxetín (Flúoxetín Actavis, Fontex, Seról eru dæmi um lyf sem innihalda flúoxetín). Notkun þess varð mjög útbreidd á skömmum tíma og í kjölfarið fylgdu mörg lyf með svipaðan verkunarmáta. Önnur þunglyndislyf sem hafa komið fram hafa ýmist áhrif á taugaboðefnið noradrenalín eða bæði á noradrenalín og serótónín.

Nýrri lyfin eru ekki laus við aukaverkanir þótt þær séu færri en hjá eldri lyfjunum. Algengustu aukaverkanir nýrri þunglyndislyfja eru ógleði, pirringur, þreyta og svefnleysi. Þessar aukaverkanir eru mest áberandi í byrjun meðferðar en líða oftast hjá á fyrstu vikunum. Aukaverkanir sem geta komið fram seinna eru þyngdaraukning, orkuleysi og minnkuð löngun eða geta til kynlífs. Ef þessar eða aðrar aukaverkanir eru miklar eða valda áhyggjum er ástæða til að hafa samband við lækni. Þá er metið hvort það þarf að breyta skömmtum, gefa önnur lyf með þunglyndislyfinu eða að skipta um lyf.

Ef töku þunglyndislyfja er hætt skyndilega geta komið fram einkenni á borð við svima, kvíða, pirring, þreytu, ógleði, vöðvaverki og óróa. Hættan á þessum einkennum er mismikil eftir lyfjum, skömmtum og hversu lengi meðferðin hefur varað. Það er því mikilvægt að ráðfæra sig við lækni og meta það hvort ástæða er til að minnka skammta smám saman áður en meðferð er hætt.

Áhrif lyfjanna á þunglyndi koma yfirleitt ekki fram fyrr en eftir nokkurra vikna meðferð. Sum lyfin geta þó slegið á önnur einkenni mun fyrr eins og kvíða eða svefntruflanir.

N07 Önnur lyf með verkun á taugakerfið

Í flokki tauga- og geðlyfja eru ennfremur lyf við heilabilun, hjálparefni til að hætta reykingum, lyf við svima, örvandi lyf og kólínvirk lyf sem hafa sömu verkun og taugaboðefnið asetýlkólín.

Örvandi lyf eru fyrst og fremst notuð gegn ofvirkni hjá börnum. Lyfin hjálpa börnunum að halda athygli og einbeitingu og auðvelda þannig nám og samskipti við aðra.

Hjálparefni til að hætta reykingum eru tvenns konar, nikótínlyf og búprópíón. Nikótínlyf með nikótíni sem innihaldsefni slá á fráhvarfseinkenni og löngun í tóbak meðan fíkillinn sigrast á vananum að reykja. Meðal lyfja gegn nikótínfíkn er lyfið vareniclin. Lyfið binst sama viðtaka og nikótín í líkamanum þannig þegar einstaklingur neytir nikótíns mun það síður virkja dópamínkerfið sem er veitir áhrif nikótíns. Búprópíón er upphaflega þunglyndislyf og er enn í flokki þunglyndislyfja, en það hefur einnig áhrif á nikótínfíkn og getur hjálpað fólki að hætta að reykja. Verkunarmáti þess er ekki að fullu þekktur.

Lyf við heilabilun eru notuð gegn Alzheimersjúkdómi. Lyfin hindra niðurbrot taugaboðefnisins asetýlkólíns, en minnkuð virkni þessa boðefnis er eitt einkenni sjúkdómsins.

Aðeins eitt lyf er skráð á Íslandi við svima. Lyfið víkkar vissar æðar í líkamanum, þar á meðal til innra eyra þar sem jafnvægi er stjórnað. Talið er að notagildi lyfsins byggist á þessum áhrifum á blóðflæði í innra eyra.

Aðeins eitt kólínvirkt lyf er skráð á Íslandi. Lyfið er notað við þvagteppu eða þarmalömun, en asetýlkólín örvar samdrátt í þvagblöðru og hreyfingar í þörmum..

 

Nýjungar

Mögulegt er að rannsóknir á erfðamengi mannsins komi til með að auðvelda rannsóknir á orsökum sjúkdóma sem hrjá miðtaugakerfið. Lífeðlisfræðilegar breytingar sem verða á starfsemi heilans eru í mörgum tilfellum ekki vel þekktar og sömuleiðis er verkunarmáti margra geðlyfja óskýr. Hingað til hefur verið reynt að skýra verkun geðlyfja með áhrifum þeirra á tiltekin taugaboðefni, en heilinn er gríðarlega flókið líffæri og það má gera ráð fyrir að þær breytingar sem lyfin valda beint gefi ekki endilega heildarmynd af áhrifum þeirra.