Við eyðum sífellt meiri tíma fyrir framan skjái, í vinnu, námi og afþreyingu. Þetta getur haft áhrif á augun. Helstu áhrif skjánotkunar eru þreyta, þurrkur, sviði og stundum höfuðverkur. Þetta hefur verið kallað stafræn augnþreyta.
Ástæðurnar eru helstar þær að við blikkum sjaldnar augum. Blikktíðnin er t.d. miklu lægri en við lestur bóka. Tárin gufa þá hraðar upp. Skjárinn er líka oft of nálægt eða langt frá augum og síðan getur viftan og hitinn frá tölvunni þurrkað upp augun. Ljósin frá skjánum hafa oft truflandi áhrif, sérstaklega blá tíðni. Þetta veldur oft spennu í augum og augnþurrki.
En hvað er til ráða? Jú, við tölum stundum um 20/20/20 regluna. Þ.e. á tuttugu mínútna fresti er gott að horfa á eitthvað í tuttugu feta fjarlægð (um 6 metrar) í tuttugu sekúndur. Mikilvægt er að stilla skjáhæð og birtu frá skjá til að minnka álag á augun. Við þurfum að muna að blikka reglulega til að dreifa tárunum reglulega um augun og svo auðvitað hjálpa gervitár verulega til að draga úr einkennum. Ég líki oft gervitáranotkun við notkun smurolíu, ef við gleymum henni veldur það of miklum núningi á yfirborð augnanna og sjónin versnar. Þetta leiðir til sviða, verkja en hefur líka áhrif á einbeitingu og almennt á vellíðan. Því getum við aukið afköstin hjá okkur með því að nota þessi tiltölulega einföldu ráð og muna: Það er ekki hægt að nota of mikið af gervitárum.
Sérstök gleraugu virðast hjálpa verulega við að skapa vellíðan. Sérstök bláljósasía í gleraugum hefur virkað mjög vel til að halda þreytueinkennum niðri við skjávinnu. Strax eftir 35 ára aldur harðna augasteinarnir það mikið að það er orðin töluverð vinna fyrir vöðvana í kring að stilla augun á skjánum. Því er oft þörf á aukastyrk upp úr þessum aldri, byrja á lágum styrk eins og +1,00D og síðan er hægt að fara upp eftir þörfum. Þetta hvílir augun verulega, minnkar spennu og eykur þægindi.
Meginatriði augnverndar við skjávinnu felast í réttri vinnustellingu og reglulegum hléum. Sérstök gleraugu geta hjálpað verulega, sérstaklega með hækkandi aldri. Allt þetta stuðlar að augnvellíðan við nám, vinnu og afþreyingu.
