Einkennin eru sviði og erting í augum og aðskotahlutstilfinning, svona eins og sandkorn í augum. Margir vita ekki að sjónin versnar oft líka og síðan er ekki óalgengt að það leki úr augunum. Við erum nefnilega með tvenns konar tegundir tára sem við getum kallað smurolíu (þykku tárin) og rúðupiss (þunnu tárin). Þegar augun eru þurr þá vantar aðallega smurolíuna. Þegar hana vantar þá verður erting í augunum við að ganga, t.d. úti í roki og þá leka vatnskenndu tárin úr augunum.
Táraframleiðsla getur minnkað af ýmsum orsökum. Í fyrsta lagi minnkar hún með aldrinum. Konur eru oftar með þurr augu en karlmenn vegna mismunandi hormónamagns þar sem estrógen er þurrkandi en testósterón eykur táraframleiðslu. Tölvunotkun getur aukið uppgufun tára og stuðlað að augnþurrki. Fólk blikkar sjaldan augunum við tölvuvinnu. Ákveðin lyf hafa mjög mikil áhrif á táraframleiðslu, eins og t.d. magalyf, bólgueyðandi lyf, ofnæmislyf, þunglyndislyf og krabbameinslyf. Við á Íslandi búum síðan við mikið rok og hér er oft þurrt loft í húsum. Svo geta efni í lofti valdið beinni ertingu, eins og svifryk, dísúlfíð, t.d. í eldgosum og klórgufa í laugunum.
Helsta meðferðin felst í því að gefa gervitár, sem er eins konar smurolíu fyrir augun. Meðhöndla þarf líka hvarmabólgu ef hún er til staðar og mjög gott er að nota heita bakstra og þrifklúta á augun. Mikilvægt er að hvíla reglulega skjánotkun og forðast þurrt umhverfi eftir fremsta megni. Gott er að vera með sólgleraugu úti í roki og sofa með grímu. Athuga þarf hvort hætta megi á lyfjum sem þurrka augun. Stundum þarf að loka táragangaopum með sílíkontöppum. Loks eru til táraframleiðandi dropar, eins og lyfið Ikervis, en þá er miðað við langtímameðferð.
Í lokin þá er vert að geta þess að þurr augu eru miklu algengari en áður var, ekki síst vegna þurrara umhverfis, aukinnar tölvu- og lyfjanotkunar svo eitthvað sé nefnt. Það er mikilvægt að greina orsökina, því hún getur annars vegar lýst sér í minnkandi táraframleiðslu og svo aukinni uppgufun táranna. Meðferðarmöguleikum hefur sem betur fer fjölgað og sníða þarf meðferð að hverjum og einum og með réttri meðferð batna lífsgæði verulega.
