Meðferð húðar eftir sólböð

Ferðir og ferðalög

  • Solbad

Sól, saltur sjór, vindur og hiti valda því að húðin þornar. Eftir sólböð eða útiveru í sól þarf húðin því á raka að halda í formi rakakrema eða krema sem sérstaklega eru ætluð á húð eftir sólböð, oft kölluð “after-sun” krem.

Einnig er gott að nota gel sem unnið er úr Aloe Vera plöntunni en það er bæði rakagefandi, græðandi og kælandi, sérstaklega ef það er geymt í ísskáp fram að notkun.

Ef húðin hefur fengið á sig of mikla sól, kemur það fyrst í ljós eftir nokkra klukkutíma.

Rauða húð og sviða má lina með rakakremum, “after-sun” kremi eða geli sem unnið er úr Aloe Vera plöntunni. Sums staðar erlendis eru einnig seld krem sem eru staðdeyfandi og draga þannig úr óþægindum. Það ætti ekki að fara í sólbað eftir að hafa nota slíkt krem þar sem líkaminn finnur þá ekki fyrir því ef húðin brennur enn frekar.

Sólbruni lýsir sér með brennandi tilfinningu, kláða og jafnvel stingjum í húðinni. Í verstu tilfellum myndast vökvafylltar blöðrur. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir sól hafa sumir tilhneigingu til að fá sólarexem með tilheyrandi kláða. Sólbruna og sólarexem má meðhöndla með vægu sterakremi sem inniheldur hydrocortison (t.d. Mildison Lipid). Kremið er þá borið á viðkomandi svæði 1-2svar á dag í nokkra daga. Það má ekki nota sterakrem nálægt augum eða á augnlok.

Ef að sólbruni eða sólarexem er mikið eða á stóru svæði, ef viðkomandi er barnshafandi eða barn undir 2 ára aldri, ætti að hafa samband við lækni áður en meðhöndlað er.