Almennt um vítamín

Almennt Vitamin 1920X1080
Dögg Guðmundsdóttir
Dögg Guðmundsdóttir Klínískur næringarfræðingur
23. mars 2023
Tengt efni
Heilsan í þínum höndum

Vítamín eru lífræn efni sem eru okkur lífsnauðsynleg, þó aðeins í litlu magni. Hvert og eitt þeirra gegnir mikilvægu hlutverki við að viðhalda samvægi og efnaskiptum líkamans. Sé mataræðið einhæft getur skapast hætta á vítamínskorti sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilsuna, valdið skortseinkennum, sjúkdómum og ef ekkert er að gert jafnvel dauða.

Vítamín fáum við fyrst og fremst úr fæðunni, að undanskildum D-vítamíni sem myndast í húðinni fyrir tilstuðlan sólarljóss.

Vítamínum er hægt að skipta í tvo flokka: vatnsleysanleg og fituleysanleg

  • Vatnsleysanleg vítamín sem við þekkjum best eru C-vítamín og B-vítamínhópurinn, sem saman stendur af B1 (þíamín), B2 (ríbóflavín), B3 (níasín), B6 og B12. Auk þeirra eru það fólat, bíótín og pantóþensýra. Vatnsleysanleg vítamín eru mikilvæg fyrir eðlilegan vöxt og þroska, efnaskipti frumna, ónæmiskerfið, taugakerfið, hjartaheilsu og myndun rauðra blóðkorna.
    Þessi flokkur vítamína varðveitist stutt í líkamanum og ef neysla er umfram þörf sér líkaminn til þess að þeim sé skilað út með þvagi. Þau safnast ekki upp í líkamanum og valda því ekki skaða. Þessi vítamín eru helst að finna í grænmeti, ávöxtum og heilkornavörum auk þess að þau finnast einnig í dýraafurðum, til dæmis í mjólkurvörum, eggjum og fiski.

  • Fituleysanleg vítamín eru A-, D-, E- og K-vítamín. Þau gegna lykilhlutverki í ýmsum ferlum líkamans, meðal annars tengdum sjón, beinheilsu, ónæmiskerfi og blóðstorknun. Ef neysla á þessum efnum er umfram þörf skiljast þau ekki út með þvagi heldur safnast upp í fituvef og lifur. Þannig á líkaminn birgðir sem hann getur nýtt ef þörf er á. Hins vegar ber að varast ofneyslu þar sem of mikil uppsöfnun efnanna getur valdið eitrunaráhrifum og skaða. Fituleysanleg vítamín eru helst að finna í dýraafurðum, til dæmis fiski, mjólkurvörum og eggjum, auk plöntuafurða eins og hnetum, heilkornum, grænmeti og olíum.
Vítamín og bætiefni
Deila