D-vítamín

Vitamin 06
Höfundur
Höfundur Lyfja
11. júní 2015

D-vítamín er fituleysanlegt vítamín. Það telst bæði vera vítamín og hormón. Húðin framleiðir D-vítamín og líkaminn geymir vítamínið einkum í lifrinni en líka í fituvef og vöðvum. D-vítamíni er bætt í ýmsa fæðu, svo sem morgunkorn og mjólkurvörur.

Heiti
D-vítamín, calciferol, calcifediol, calcitriol

Uppspretta
Sólarljósið eykur framleiðslu D-vítamíns í húðinni. Þorskalifur, síld, lúða, lax, lýsi, egg og mjólkurafurðir.

Verkun
Stuðlar að vexti og viðhaldi beina. D-vítamín gerir líkamanum kleift að nýta kalk og fosfór til að byggja upp bein með því að auka upptöku kalks og fosfórs frá þörmum.

Notkun - verkun

  • Gefið börnum og ófrískum konum til að fyrirbyggja beinkröm (vansköpun beina).
  • Til að hindra og lækna beinþynningu og beinkröm.
  • Til að koma í veg fyrir kalkskort vegna vanstarfsemi skjaldkirtils.
  • Notað í meðferð við psoriasis.

D-vítamín skortur
Skortur D-vítamíns í fullorðnum getur valdið beinþynningu, beinmeyru, vöðvarýrnun og tannskemmdum. Skortur D-vítamíns í börnum veldur beinkröm eða vansköpun beina vegna kalkskorts.

D-vítamín eitrun
Of stórir skammtar af D-vítamíni verða til þess að of mikið kalk (hypercalcaemia) verður til í blóði sem aftur leiðir til hægðatregðu, þunglyndis, slappleika og þreytu. Ef ástandið er viðvarandi geta kalsíumsölt farið út í nýru og valdið nýrnasteinum og nýrnabilun. Einkenni eitrunar eru: Ógleði, lystarleysi, höfuðverkur og niðurgangur. Alvarlegri eitrunareinkenni eru kalkmyndun í mjúkum vefjum líkamans og lífshættuleg nýrnabilun.

Ráðlagðir dagskammtar
Íslenskir ráðlagðir dagskammtar fyrir D-vítamín hafa verið hækkaðir í 15 míkrógrömm (mcg/µg) fyrir 10 ára og til 70 ára aldurs. Fyrir 71 árs og eldri hefur ráðlagður dagskammtur verið hækkaður í 20 mcg/µg. Fyrir ungbörn og börn 1-9 ára er ráðlagður dagskammtur 10 mcg/µg (skv. Embætti Landlæknis, október 2013 - Upplýsingar um D-vítamín). Almennt er fólki ráðlagt að taka þorskalýsi eða D-vítamínpillur til viðbótar við það sem fæst úr fæðunni. Sérstaklega er mikilvægt að eldra fólk taki D-vítamín til viðbótar við það sem kemur úr fæðunni. Frá 1-2 vikna aldri er ráðlagt að gefa ungbörnum D-vítamíndropa, 10 mcg/µg á dag.

     
Ungbörn <1 árs* 10 mcg 400 AE
Börn 1-9 ára 10 mcg 400 AE
Karlar 10-70 ára 15 mcg 600 AE
Karlar >70 ára 20 mcg 800 AE
Konur 10-70 ára 15 mcg 600 AE
Konur >70 ára 20 mcg 800 AE
Á meðgöngu 15 mcg 600 AE
Með barn á brjósti  15 mcg  600 AE
mcg = míkrógrömm (µg), AE = alþjóðlegar einingar (sama og I.U. eða I.E.) * Frá 1-2 vikna aldri er ráðlagt að gefa ungbörnum D-vítamíndropa (10 mcg/dag).

Aukaverkanir
Engar þekktar nema við ofskömmtun.

Milliverkanir
Sum segaleysandi lyf geta aukið þörf fyrir D-vítamín. Laxerolía og paraffínolía draga úr frásogi D-vítamína.

Frábendingar
Ekki má gefa ungbörnum lýsi og AD-vítamíndropa samtímis vegna hættu á D-vítamín eitrun.

Tengdar vörur
Deila