D-vítamín

Vitamin 06
Dögg Guðmundsdóttir
Dögg Guðmundsdóttir Klínískur næringarfræðingur
10. september 2025

Vítamínið sem er gjarnan talað um sem sólskinsvítamínið, því sólarljós örvar myndun þess í húðinni. Þó að líkaminn myndi vítamínið í húð er mikilvægt að fá D-vítamín úr fæði, auk þess ættu allir íslendingar að taka inn D-vítamín í formi fæðubótaefna. 

Uppspretta D-vítamíns í fæðu er aðallega úr feitum fiski, eins og lax, makríl og sardínum. Einnig hafa margar matvörur verið D-vítamínbættar, til dæmis mjólk og ýmis morgunkorn

D-vítamín er gríðarlega mikilvægt fyrir beinheilsu, þar sem vítamínið örvar frásog á kalki og fosfór auk þess að stýra efnaskiptum þeirra í líkamanum.

Ráðlagðir dagsskammtar á Íslandi taka mið af legu landsins, þar sem ekki er hægt að nýta sólarljósið allan ársins hring líkt og annars staðar í heiminum.

Embætti landlæknis ráðleggur daglega inntöku á D-vítamíni allt árið:

  • Börn undir 9 ára fái 10 μg á dag, 
  • 10-70 ára fái 15 μg.
  • 71 árs og eldri fái 20 μg á dag. 
  • Mikilvægt er að byrja að gefa ungabörnum D-vítamíndropa frá 1-2 vikna aldri.

D-vítamín er fituleysanlegt vítamín, sem þýðir að líkaminn getur geymt birgðir í fituvef og lifur. Því er mikilvægt að heilbrigðir einstaklingar fari ekki framúr sér í inntöku D-vítamínfæðubótarefna. Slíkt getur valdið eitrun vegna of mikils af kalsíumstyrk í blóði (e. hypercalcemiu) sem getur í framhaldi valdið líkamlegum einkennum á borð við lystaleysi, kviðverkjum, hægðatregðu, miklum þorsta og auknu þvagláti. Auk þess geta komið fram andleg einkenni eins og þunglyndi, áhugaleysi og ruglástand. Það er þó mikilvægt að taka fram að eitrun af völdum sólarljóss á sér ekki stað, þar sem húðin brýtur niður umfram magn D-vítamíns. 

Sé D-vítamínbúskapur líkamans lágur er mikilvægt að ráðfæra sig við lækni. Slíkt þarf að staðfesta með blóðprufu og gæti kallað á inntöku stærri skammta af D-vítamíni tímabundið til að leiðrétta ástandið.

Tengdar vörur
Deila