Fólat er hluti af B-vítamínhópnum, er vatnsleysanlegt vítamín og finnst náttúrulega í ýmsum plöntuafurðum eins og grænmeti, hnetum, baunum, sumum ávöxtum og í ýmsu vítamínbættu morgunkorni. Fólínsýra er tilbúið form af fólati sem notað er til að bæta við matvæli eða notað í fæðubótarefni.
Vítamínið er mikilvægt fyrir myndun DNA og RNA í líkamanum og frumuskiptingu.
Fólat er sérstaklega mikilvægt fyrir þroska miðtaugakerfis fósturs og því ættu allar konur sem hyggjast verða þungaðar að borða fólatríkan mat auk þess að taka fólat (fólinsýru) í töfluformi til að minnka líkur á hryggrauf (e. Spina Bifida).
Ráðlagt er að barnshafandi konur taki 400 míkrógröm í töfluform í að minnsta lagi fyrstu 12 vikur meðgöngunnar. Best er þó að hefja inntöku að minnsta kosti mánuð áður en meðganga hefst.
Þar sem fólat er vatnsleysanlegt vítamín geymir líkaminn aðeins lítið magn í lifur og nýru. Því er mikilvægt að fá vítamínið með fjölbreyttu mataræði. Spínat, brokkolí og salat auk eggja, kjöts og mjólkurvara eru allt fæða sem hefur að geyma fólat.
Skortur á fólati getur komið til vegna fjölmargra þátta, til að mynda ófullnægjandi neysla á fólatríku fæði, meðganga og brjóstagjöf, frásogs- og meltingarvandamál, vannæring, bólgusjúkdómar í þörmum, ákveðin lyf, áfengisneysla og B12-skortur. Ef skoðaðar eru niðurstöður landskönnununar á mataræði Íslendinga má sjá að meðalneysla á fólati er undir ráðleggingum, sér í lagi kvenna á barneignaraldri.
Skortseinkenni geta verið:
- Höfuðverkur
- Meltingaróþægindi og lystaleysi
- Hjartsláttaróregla
- Sjónvandamál
- Þreyta, föl í framan, máttleysi og mæði
- Sár eða rauð tunga, stundum sár í munni
- Geðræn einkenni eins og pirringur, minnistruflanir, pirringur og skapbreytingar. Sér í lagi hjá öldruðum.
- Skortur getur ýtt undir einkenni þunglyndis.
Einkenni skorts á fólati og B12-vítamíns geta verið lík. Taugaeinkenni líkt og náladofi, jafnvægisleysi og skert stöðuskyn benda frekar til B12-skorts en ekki skort á fólati.















