Hemóglóbín er prótein sem má finna í rauðum blóðkornum og flytur súrefni frá lungum í vefi líkamans. Járn er því afar mikilvægt og skiptir máli að magn þess í blóði sé hvorki of lítið né of mikið.
Flestir geta fengið nægilegt járn úr fjölbreyttu mataræði. Járn úr dýraafurðum, eins og kjöti, kjúklingi og fiski, á líkaminn auðveldara með að frásoga. Járn úr plöntuafurðum, til dæmis baunum, hnetum, dökku súkkulaði og spínati, á líkaminn erfiðara með að frásoga. C-vítamíni ríkur matur, eins og ávextir, getur bætt upptökuna. Ýmsar tegundir morgunkorna eru einnig járnbættar.
Járnskortsblóðleysi er ástand sem skapast þegar járn skortir í blóði. Ástæðan fyrir því getur verið ófullnægjandi neysla á járni úr mataræðinu. Ástæðan getur verið einnig vegna blóðtap af völdum tíðarblæðinga eða blæðinga í meltingarvegi.
Járnskortsblóðleysi er algengara hjá konum en körlum, sér í lagi hjá konum á frjósemisaldri og á meðgöngu. Orsakir geta verið járn-, B12 og/eða fólatskortur. Því er mikilvægt að fylgjast með járnbúskap á meðgöngu.
Séu hemóglóbíngildi undir 115 g/L hjá konum eða undir 130 g/L hjá karlmönnum gæti verið um að ræða járnskortsblóðleysi.
Einkenni geta verið:
- Þreyta og orkuleysi
- Mæði og andþyngsli
- Föl húð
- Hraður hjartsláttur
- Pirringur eða fótaóeirð
- Mjög dökkar, jafnvel svartar hægðir
Ef mataræði er einhæft eða skortur á járnríkri fæðu í mataræðinu gæti verið gott að taka járnfæðubót reglulega. En mikilvægt að fá úr því skorið með blóðprufu hjá lækni.
Ef taka þarf inn járnfæðubótarefni er gott að taka C-vítamín samhliða til að ýta undir frásog járnsins. Gott er að taka fæðubótarefnið 2 klukkutímum eftir mat eða 30-45 mínútum fyrir matmálstíma.
Of mikið járn getur hlaðist upp í líkamanum og valdið skaða. Járnofhleðsla einkennist af of miklu frásogi járns, umfram þörf. Slíkt ástand getur verið ættgengt og mikilvægt er að meðhöndla það eins fljótt og kostur er.
Einkenni járnofhleðslu geta verið:
- Þreyta og slappleiki
- Liðverkir
- Ógleði, kviðverkir og hægðatregða