Ozempic og Wegovy eru lyf sem innihalda virka efnið semaglútíð, sem tilheyrir flokki glúkagonlík-peptíð-1 (GLP-1) hliðstæðna. Lyfið líkir eftir náttúrulega hormóninu GLP-1 sem er losað úr þörmum eftir máltíðir og hefur margvísleg áhrif á stjórnun glúkósa og matarlyst. Semaglútíð hjálpar líkamanum að minnka magn blóðsykurs, eingöngu þegar hann er of hár. Einnig hefur lyfið þau áhrif að minniháttar seinkun verður á magatæmingu fyrst eftir máltíð og þú finnur fyrir seddutilfinningu, minna hungri og löngun minnkar í fituríkan mat.
Ozempic er ætlað til meðferðar hjá fullorðnum með ófullnægjandi stjórn á sykursýki af tegund 2 – annars vegar eitt og sér, ef ekki er hægt að nota annað sykursýkislyf eða sem viðbót við önnur ef þau hafa ekki dugað ein og sér til þess að ná stjórn á blóðsykri.
Samhliða meðferð með Ozempic er mikilvægt að viðhalda heilbrigðum lífsstíl með hollu mataræði og hreyfingu.
Wegovy er lyf sem ætlað er til að stuðla að þyngdartapi og viðhalda þyngd.
Wegovy er viðbót við hitaeiningaskert mataræði og til að auka hreyfingu til þyngdarstjórnunar, þar með talið þyngdartaps og þyngdarviðhalds hjá fullorðnum og unglingum 12 ára og eldri sem uppfylla ákveðin skilyrði. Wegovy getur einnig átt þátt í að koma í veg fyrir hjartasjúkdóma.
Bæði Ozempic og Wegovy eru stungulyf sem eru gefin einu sinni í viku, helst á sama vikudegi. Þeim er sprautað undir húð á kvið, læri eða upphandlegg.
Vegna þess að lyfin valda seinkun á magatæmingu gætu þau haft áhrif á upptöku lyfja inn í líkamann sem eru gefin á sama tíma. Sérstaklega á þetta við um lyf sem þarfnast hraðs frásogs frá meltingarvegi.
Algengustu aukaverkanir þessara lyfja eru einkenni frá meltingarfærum til dæmis ógleði, niðurgangur, kviðverkir, hægðatregða og uppköst og er því mikilvægt að drekka nóg af vökva til að koma í veg fyrir ofþornun. Fyrir flesta eru þessar aukaverakanir þó vægar eða miðlungs alvarlegar og skammvinnar.
Alvarlegar aukaverkanir þessara lyfja má nefna sjónkvilla – sem er fylgikvilli augnsjúkdóms af völdum sykursýki. Alvarleg en sjaldgæf aukaverkun er bráð brisbólga.
Mikilvægt er að tilkynna allar aukaverkanir til lækna, lyfjafræðinga eða hjúkrunarfræðinga til að auka upplýsingar um öryggi lyfsins.
