Efnaskiptaaðgerðir eru samheiti yfir aðgerðir sem notaðar eru í meðferð við offitu. Nokkrar mismunandi aðgerðir standa til boða en algengastar eru magahjáveita, magaermi og míníhjáveita. Allar fela þær í sér að stór hluti magans er fjarlægður. Í magahjáveitu- og míníhjáveituaðgerðum er að auki gerð breyting á meltingarveginum þannig að maturinn fer ekki í gegnum skeifugörn og efsta hluta smáþarmanna. Þessum breytingum fylgir að einstaklingurinn getur borðað minni skammta og frásog næringarefna er minna. Breytt mataræði og inntaka bætiefna eru lykilatriði fyrir langtímaárangur.
Fyrst eftir aðgerð er algengt að fólk verði síður svangt en finni fljótt fyrir seddu. Ef ráðleggingum um fæðuval og fæðuvenjur er ekki fylgt er hætta á að lenda í vítahring lystarleysis og ógleði.
Almennar ráðleggingar um mataræði eftir efnaskiptaaðgerð
Fyrstu 2-4 vikurnar þarf maturinn að vera fljótandi, stappaður eða mjúkur. Eftir 4 vikur ættu flestir að geta borðað hefðbundinn mat án vandræða. Mikilvægt er að mataræðið sé próteinríkt og innihaldi kolvetni í hæfilegu magni. Algengt er að fólk þoli sykur og fitu illa.
Þar sem magamálið hefur minnkað er mikilvægt að borða oftar yfir daginn í minni skömmtum. Ágætt er að miða við að hver máltíð sé um 200 g og góð þumalputtaregla er að próteingjafi sé um helmingur af máltíð, t.d. kjöt, fiskur, baunir, egg og hnetusmjör. Til að hafa betri stjórn á skammtastærðum getur verið gott að nota minni disk. Einnig er mikilvægt að drekka reglulega yfir daginn.
Vítamín- og steinefnaskortur eru algengir kvillar eftir efnaskiptaaðgerðir. Þess vegna er mikilvægt að taka bætiefni ævilangt; fjölvítamín, D-vítamín, B12-vítamín, járn og kalk eða sérhæfð vítamín (e. bariatric multivitamins). Reglulegar blóðprufur eru mikilvægur þáttur í eftirliti þar sem ráðleggingar um vítamín og steinefni eru aðlagaðar að hverjum og einum.
Tillaga að matseðli yfir daginn
Tillaga | |
Morgunmatur | Hafragrautur eða AB-mjólk með múslí eða 1 egg og 1/2 ávöxtur. |
Millibiti | Skyr eða próteindrykkur |
Hádegismatur | Kjöt, fiskur, kjúklingur eða baunaréttur með elduðu rótargrænmeti eða gróf brauðsneið með smjöri og osti og 1/1-1 ávöxtur. |
Millibiti | Grænmeti með hummus eða hnetur og fersk ber |
Kvöldverður | Kjöt, fiskur, kjúklingur eða baunaréttur með fersku salati eða súpa og gróf brauðsneið með áleggi. |
Millibiti | Harðfirskur eða hrökkbrauð með áleggi |
Gott markmið: drekka 1 glas af vatni á milli máltíða
Algeng vandamál og lausnir við þeim
Vökvaskortur – helstu einkenni eru höfuðverkur, svimi og dökkt þvag. Mikilvægt er að reyna að drekka a.m.k. 1,5-2 L/dag. Einnig getur verið þörf á að bæta við vökva með söltum, t.d. íþróttadrykkjum eða nota freyðitöflur í vatni.
Hægðatregða – fyrsta ráð er að auka vökvainntöku og trefjaneyslu. Næsta skref er að drekka sveskjusafa og takmarka neyslu á mjólkurafurðum. Ef það dugar ekki til er þörf á að nota hægðalosandi lyf.
Niðurgangur – linar hægðir eru algengar fyrstu vikurnar eftir aðgerð. Vökvi tapast með niðurgangi og þess vegna er mikilvægt að drekka vel. Ekki er æskilegt að drekka með mat þar sem það getur ýtt undir niðurgang. Einnig getur verið gagnlegt að takmarka eða forðast vörur sem innihalda mjólkursykur (laktósa) og/eða sætuefni. Ef breytingar á mataræði draga ekki úr niðurgangi er mikilvægt að leita til læknis.
Ógleði eða uppköst – gott ráð er að borða litla bita, tyggja vel og borða rólega. Ekki drekka með mat. Stress og kvíði geta aukið á ógleði. Stundum er þörf á ógleðistillandi lyfi tímabundið.
Brjóstsviði – misjafnt er hvaða matvörur valda brjóstsviða, þess vegna getur verið gott að skrá niður hvaða matvæli það eru og forðast þau. Ráðlagt er að taka lyf sem draga úr myndun magasýru fyrstu þrjá mánuðina eftir aðgerð og jafnvel lengur.
Sturttæming maga (e. dumping syndrome) – er samheiti yfir einkenni sem geta komið fram þegar matur færist of hratt úr maganum og yfir í smáþarma. Einkenni geta verið skyndileg seddutilfinning, ógleði, uppþemba, niðurgangur, svimi, þreyta og hraður hjartsláttur. Þessi einkenni koma oftast fram 10-30 mínútum eftir máltíð. Stundum koma þau fram 1-4 klukkustundum síðar vegna skyndilegs ójafnvægis í blóðsykri. Yfirleitt líða þessi einkenni hjá á 15-20 mínútum og það getur hjálpað til að leggjast út af smástund en til að forðast þessi einkenni er gott að borða rólega og minni skammta, takmarka sykur og fitu og drekka ekki með mat.
Samantekt
Minni máltíðir oftar yfir daginn. Borða 5-6 litlar máltíðir á hverjum degi, láta ekki líða meira en 3 klst. á milli máltíða. Mikilvægt er að borða hægt og tyggja matinn vel.
Próteinríkt mataræði og hæfilegt magn kolvetna og ómettaðrar fitu. Dæmi um próteinríkar fæðutegundir eru kjöt, fiskur, baunir, egg og hnetusmjör. Mikilvægt er að forgangsraða flóknum kolvetnum eins og grófum kornvörum, ávöxtum og grænmeti. Ólífuolía, feitur fiskur, avókadó og hnetur eru rík af ómettaðri fitu.
Takmarka viðbættan sykur. Takmarka gosdrykki, sælgæti, kex og kökur. Matur sem er bæði feitur og sykurríkur er þekktur fyrir að valda óþægindum (t.d. marengstertur og rjómaís).
Drekka að lágmarki 1,5 L/dag. Vatn er besti svaladrykkurinn en margir hafa þörf fyrir að drekka drykki sem innihalda sölt. Ágætisviðmið er að drekka ekki 30 mínútum fyrir og eftir máltíð.
Vítamín og önnur bætiefni daglega ævilangt. Fylgja ráðleggingum fagfólks og gera breytingar í samræmi við nýjustu blóðprufur.
Eftirlit. Nýta eftirlit fagfólks sem stendur til boða eftir aðgerð.