
Í Lyfju appinu getur þú verslað lyfseðilsskyld lyf og fengið þau send frítt heim að jafnaði innan 60 mínútna í stærstu þéttbýlisstöðum landsins eða sótt í næstu Lyfju um land allt þegar þér hentar. Í Lyfju appinu getur þú einnig verslað hjúkrunar- og heilsuvörur og fengið sendar heim.
Hægt er að panta símatíma hjá lyfjafræðingi til að fá ráðgjöf varðandi lyf þér að kostnaðarlausu. Lyfjafræðingur hefur þá samband daginn eftir á þeim tíma dags sem hentar þér. Hægt er að velja tíma virka daga á milli 9-12 og 13-16.
Sálfræðiþjónusta í Lyfju appinu | Nýtt!
Líttu inn á við, hugaðu að þér, fyrir þig.
Viltu bæta andlega líðan en veist ekki hvar á að byrja? Ekki viss um hvað amar að eða við hvern sé best að tala? Þá getur stutt samtal við sálfræðing verið nytsamlegt fyrsta skref.
Þú getur fengið frítt stöðumat strax, eða fjarsamtal við faglærða sálfræðinga innan tveggja vikna. Sálfræðiþjónustan er stafræn, sem þýðir að meðferðin fer fram í gegnum fjarviðtöl. Þjónustan er ætluð einstaklingum 18 ára og eldri.
Stutt ráðgjöf með sálfræðingi er 15 mínútna persónulegt og markvisst fjarviðtal við löggiltan sálfræðing Mín líðan. Nánar um þjónustuna
Í Lyfju appinu getur þú:
- Pantað lyf og lausasölulyf
- Séð hvaða lyfseðla þú átt í gáttinni
- Pantað heilsu- og hjúkrunarvörur
- Fengið lyfin send heim samdægurs í stærstu sveitarfélögum landsins
- Fengið frítt stöðumat strax, eða fjarsamtal við faglærða sálfræðinga innan tveggja vikna. Sálfræðiþjónustan er stafræn, sem þýðir að meðferðin fer fram í gegnum fjarviðtöl.
- Sótt pöntun í næsta apótek Lyfju
- Sótt um umboð til að versla fyrir aðra
- Fengið ráðgjöf sérþjálfaðra starfsmanna í netspjalli Lyfju
- Séð verð á lyfjum og stöðuna í greiðsluþrepakerfi Sjúkratrygginga
- Pantað símatíma hjá lyfjafræðingi til að fá ráðgjöf varðandi lyf þér að kostnaðarlausu.
Algengar spurningar
Þar sem appið sækir heilbrigðisupplýsingar úr miðlægri gátt Embættis Landlæknis, þá eru rafræn skilríki skilyrði fyrir notkun og innskráningu. Hægt er að nálgast rafræn skilríki hjá bönkum, sparisjóðum og Auðkenni. Nú er einnig hægt að skrá sig inn á appið með Auðkennisappinu.
Þegar rafræn innskráning hefur heppnast er hægt að skrá sig með fyrirframvöldum fjögurra stafa lykilkóða, en einnig augn- eða fingrafaraskanna sé það leyft af notanda. Slík innskráning nýtist þegar appið og notað innan fimm klukkustunda frá skráningu með rafrænum skilríkjum af öryggissjónarmiðum.
Ef PIN númerið er gleymt, þá er hægt að taka appið úr símanum og setja það inn aftur. Notendaupplýsingar haldast inni við þessa aðgerð.
Upplýsingar um rafræna lyfseðla og ávísanir eru sóttar úr lyfseðlaskrá Embættis Landlæknis. Upplýsingar um greiðsluþátttöku eru sóttar úr sambærilegri gátt Sjúkratrygginga Íslands, en allar tengingar og vistun gagna hafa verið samþykktar í sérstakri öryggisúttekt. Allar spurningar varðandi gagnaöryggi sendist á lyfja@lyfja.is
Innskráður einstaklingur sér upplýsingar um sig sjálfan og þá aðila sem skráðir eru á sama fjölskyldunúmer. Börn á fjölskyldunúmeri notanda eru sýnilegir upp að 16 ára aldri, en við þann aldur öðlast börn sjálfstæðan rétt til að fá læknisþjónustu án vitundar foreldra/forráðamanna.
Umboðslausn Lyfju er sérsmíðuð lausn sem gerir innskráðum notendum kleyft að sækja um aðgang að lyfjaupplýsingum þriðja aðila. Þegar sótt hefur verið um umboð og það undirritað rafrænt, þá birtist umboðsveitandi í skjámynd innskráða notandans, rétt eins og um aðila á hans fjölskyldunúmeri væri að ræða.
Umboðin eru vistuð í öruggu gagnaskýi, eru sjálfvalin með eins árs gildistíma (sem hægt er að breyta) og afturkallanleg með því að senda póst á appumbod@lyfja.is.
Vegna breytinga á reglugerð um umboð í appi höfum við uppfært umboðsferlið í Lyfju appinu. Nú samþykkir umboðsveitandi tvö umboð. Það er mjög mikilvægt að samþykkja bæði umboðin, umboð til afhendingu lyfja og umboð til upplýsinga úr lyfjaávísanagátt. Það þarf að haka í samþykki neðst á skjánum og staðfesta með rafrænum skilríkjum tvisvar sinnum.
Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) niðurgreiða lyf samkvæmt greiðsluþrepakerfi. Lyfja ber ekki ábyrgð á breytingu á þrepastöðu viðskiptavinar gagnvart SÍ, sem á sér stað frá kaupum til afhendingar vöru, óháð því hvort hún hefur áhrif á verð eða ekki. Endanlegt verð vörunnar miðast ávallt við afhendingu og þrepastöðu viðskiptavinar á þeim tíma.
Lyfja áskilur sér rétt til að hafna keyptri körfu verði endanlegt uppgjör hennar til þess að misræmi myndist gagnvart SÍ frá kaupum að afhendingu.
Ef karfa inniheldur lyfseðilsskyld lyf er ókeypis heimsending á heimsendingarsvæði Lyfju. Heimsending pantana sem innihalda aðeins aðra apóteksvöru kostar 990 kr.
Frí heimsending þegar verslað er fyrir 9900 eða meira í appinu eða netverslun Lyfju.
Á höfuðborgarsvæðinu eru lyf keyrð út alla daga (nema stórhátíðardaga) frá klukkan 10:00 til 22:00. Í Reykjanesbæ, á Selfossi og Akureyri miðast útkeyrslutími við afgreiðslutíma lyfjabúðanna.
Pantanir á höfuðborgarsvæðinu þurfa að hafa borist fyrir klukkan 21:00 til að útkeyrsla sama dag sé tryggð, en eftir það eru þau keyrð út daginn eftir.
Í appinu er hægt að velja um að sækja lyfin í næsta apótek þar sem þau eru til, eða að fá þau send heim í stærstu þéttbýliskjörnum landsins.
- Ef valið er að sækja er hægt að fylgjast með ferli afgreiðslunnar í appinu og sækja vöruna um leið og gengið er inn í lyfjaverslun. Framvísa þarf skilríkjum við móttöku.
- Í heimsendingu þarf að framvísa skilríkjum við afhendingu og skrifa undir móttöku lyfja. Sérstakt eftirlit er með útkeyrslu lyfja, þar sem hvert skref er rekjanlegt og vottuð móttaka vistuð með lyfjaafgreiðslunni. Athygli er vakin á því að sé viðtakandi ekki á staðnum til móttöku, þá eru lyfin send aftur í það apótek sem þau voru afgreidd frá og mótttakandi þarf að nálgast þau þar.
Já, hægt er að smella efst hægra megin og sjá þar ýmsar stýriaðgerðir. Undir liðnum "Færslulisti" er hægt að sjá öll viðskipti sem hafa verið kláruð í appinu.
Þjónustver Lyfju er opið frá 10:00 til 22:00 alla daga nema stórhátíðardaga. Í appinu er einfalt að komast í samband við þjónustuverið í netspjalli Lyfju. Hægt er að senda tölvupóst á lyfja@lyfja.is fyrir allar almennar upplýsingar og ábendingar.
Lyfja er með heimild Lyfjastofnunar til lyfsölu á netinu.
Skilmálar, í stuttu máli
Lyfju appið er hugsað fyrir þig persónulega. Okkur er annt um öryggi upplýsinga þinna og fer appið farið í gegnum reglulegar örygissúttektir hjá óháðum þriðja aðila. Við vinnum allar persónuupplýsingar samkvæmt persónuverndarlögum. Vegna viðkvæmra persónuupplýsinga krefst appið rafrænnar innskráningar á 5 klst fresti fyrir verslun með lyf.
Í skilmálum felst samþykki fyrir einstaka gæða- og ánægjukönnun sem þér er þó auðvitað ekki skylt að svara.
Skilmálar, í lengra máli
1. Almennt
1.1. Þessir skilmálar gilda um sölu á vörum og þjónustu Lyfju hf., kt. 531095-2279, Dalvegi 10-14, 201 Kópavogi („Lyfja“), og eftir atvikum samstarfsaðila Lyfju, í gegnum símaforrit („Appið“), en notandinn („viðskiptavinur“) samþykkir þá með innskráningu og notkun á Appinu. Notkun Appsins er viðskiptavinum Lyfju að kostnaðarlausu.
1.2. Með því að hlaða Appinu niður í snjalltæki sitt, stofna aðgang og nota þá þjónustu sem Lyfja býður með Appinu, lýsir viðskiptavinur því yfir að hann hafi lesið, skilið og samþykkt skilmálana í heild sinni og að hann muni fylgja þeim í hvívetna. Óheimilt er að nota Appið án þess að samþykkja skilmálana.
1.3. Öll notkun Appsins takmarkast við þær aðgerðir sem eðlilegar og löglegar geta talist og þær upplýsingar og þá þjónustu sem boðið er upp á á hverjum tíma.
1.4. Um þjónustu Lyfju gilda að öðru leyti persónuverndarstefna, öryggisstefna og skilmálar Lyfju, sem teljast vera hluti samnings þessa, og eru aðgengileg á vefsíðu Lyfju, www.lyfja.is
2. Þjónustan
2.1. Í Appinu er viðskiptavini gert kleift að eiga viðskipti með vöru og þjónustu Lyfju og eftir atvikum samstarfsaðila í gegnum Appið og nýta aðra virkni sem þar er í boði hverju sinni (saman nefnt „þjónustan“). Í Appinu er m.a. hægt að versla ávísunarskyld lyf og skilgreindar tengdar vörur, auk þess sem boðið verður upp á heimsendingu á pöntunum. Lyfja hefur rétt á því að hafna pöntun í „körfu“ í Appinu sé hún ekki sótt innan sjö (7) daga. Í Appinu er jafnframt boðið upp á spjall fyrir viðskiptavini. Öryggisúttekt hefur verið gerð á Appinu af óháðum úttektaraðila sem er sérfræðingur í upplýsingaöryggi og er úttektin staðfest af Embætti Landlæknis.
2.2. Þjónustan og öll notkun Appsins er aðeins ætluð fyrir viðskiptavininn sjálfan.
2.3. Viðskiptavinur getur veitt þriðja aðila umboð til að eiga viðskipti fyrir sína hönd í Appinu.
2.4. Lyfja ákveður einhliða þá þjónustu sem er í boði hverju sinni og áskilur sér allan rétt til að gera breytingar eða viðbætur við þjónustuna, þ.á m. kröfur til öryggismála.
3. Aðgangur og öryggi
3.1. Viðskiptavinur skilur og samþykkir að hann sé ábyrgur fyrir því að tryggja leynd aðgangsupplýsinga sinna, sem gera honum kleyft að fá aðgang að þjónustu Lyfju í gegnum Appið.
3.2. Við nýskráningu með rafrænum skilríkjum skal viðskiptavinur samþykkja rafrænu skilríkin sem vottunarleið og um leið velja sér fjögurra stafa PIN til að komast inn í Appið. Viðskiptavinur getur jafnframt valið að fara inn í Appið með fingrafara- eða augnskanna í stað PIN númers. Viðskiptavini ber skylda til að halda PIN númerinu leyndu og er óheimilt að veita öðrum aðgang að Appinu. Til að gæta fyllsta öryggis gildir innskráning með rafrænum skilríkjum aðeins í vissan tíma, sem ákveðinn er í samráði við Embætti Landlæknis.
3.3. Til að vernda þau gögn sem eru aðgengileg um viðskiptavin í Appinu og koma í veg fyrir að annar en viðskiptavinur notir Appið er því læst með PIN númeri sem viðskiptavinur velur og aðeins viðskiptavinur mátt hafa vitneskju um. Aflæsing Appsins með PIN númerinu jafngildir auðkenningu frá honum.
3.4. Ef viðskiptavinur verður á einhvern hátt var við að óviðkomandi aðili hafi komist yfir aðgangsupplýsingar hans ber honum skylda til að láta Lyfju vita, auk þess að bera ábyrgð á því að breyta PIN númerinu eða loka fyrir aðgang sinn að Appinu. Mögulegt er að breyta PIN númerinu í Appinu.
3.5. Aðeins er heimilt að setja Appið upp á símtæki sem er í eigu eða í umsjá viðskiptavinar. Ef viðskiptavinur lánar, selur eða heimilar öðrum umráð yfir símtæki sem sótt hefur Appið skuldbindur hann sig til þess að útskrá sig úr eða eyða Appinu áður.
3.6. Aðgangur viðskiptavinar að Appinu gæti rofnað af ýmsum ástæðum, t.d. vélbúnaðarbilunum, tæknilegum bilunum, hugbúnaðarvillum eða kerfisuppfærslum.
4. Ábyrgð og skyldur
4.1. Mikilvægt er að viðskiptavinur tryggi örugga notkun Appsins, m.a. með því að gæta þess að öll notkun samrýmist þessum skilmálum.
4.2. Viðskiptavinur ber fulla og ótakmarkaða ábyrgð á öllum aðgerðum sem eru framkvæmdar eftir að Appið hefur verið virkjað, hvort sem það er með innskráningu með rafrænum skilríkjum, PIN, fingrafara- eða augnskanna.
4.3. Viðskiptavini ber að gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir með viðeigandi persónubundnum öryggisþáttum, s.s. með því að virkja læsingu á snjalltæki.
4.4. Lyfja áskilur sér rétt til að breyta öryggiskröfum sínum án fyrirvara.
4.5. Viðskiptavini er óheimilt að deila eða veita öðrum upplýsingar um persónubundna öryggisþætti sína. Viðskiptavini ber að grípa til nauðsynlegra varúðar- og öryggisráðstafana til að tryggja persónubundna öryggisþætti sína þannig að óviðkomandi aðili fái ekki aðgang að eða vitneskju um aðgangsupplýsingar.
4.6. Ef viðskiptavinur lánar, selur, skiptir um eða heimilar öðrum umráð yfir snjalltæki sem hefur verið tengt við þjónustuna eða ákveður af einhverjum öðrum ástæðum að hætta notkun þess ber honum áður en það er gert að eyða öllum persónulegum upplýsingum úr snjalltækinu, þar á meðal Appinu. Tryggi viðskiptavinur ekki persónubundna öryggisþætti sína í samræmi við framangreint telst það stórkostlegt gáleysi af hans hálfu.
4.7. Gruni viðskiptavin að einhver hafi vitneskju um PIN númer eða aðra persónubundna hætti, s.s. læsingu á snjalltæki, ber honum að breyta þeim og tilkynna Lyfju um slíkt án tafar á netfangið personuvernd@lyfja.is.
4.8. Ef grunur leikur á óheimilli eða sviksamlegri notkun þjónustunnar eða ef brotið er gegn skilmálunum er Lyfju heimilt einhliða og fyrirvaralaust að rjúfa aðgang viðskiptavinar að þjónustunni. Lyfja áskilur sér jafnframt rétt til að rjúfa aðgang að þjónustunni um stundarsakir fyrirvaralaust og án tilkynningar, ef þörf krefur svo sem vegna uppfærslu, breytinga á þjónustunni eða annarra tæknilegra ráðstafana.
5. Takmörkun á ábyrgð Lyfju
5.1. Lyfja ber ekki ábyrgð á notkun viðskiptavinar á Appinu.
5.2. Lyfja ber ekki ábyrgð á eftirfarandi: a) tjóni sem hlotist getur af vanþekkingu, misskilningi eða misnotkun viðskiptavinar eða annars aðila með eða án umboðs á notkunarreglum Appsins; b) tjóni sem hlotist getur af vél- og hugbúnaði eða virkni Appsins; c) tjóni sem hlotist getur af röngum viðskiptum; d) tjóni sem hlotist getur af vanþekkingu, misskilningi, misnotkun eða röngum færslum viðskiptavinar eða annars aðila þegar um er að ræða aðgerðir samkvæmt umboði frá öðrum aðila; e) tjóni sem hlotist getur af galla eða bilun í vél- eða hugbúnaði til móttöku á þjónustunni; f) tjóni sem hlotist getur vegna upplýsinga eða aðgerða þriðja aðila
5.3. Lyfja ber ekki ábyrgð á óþægindum, kostnaði eða öðru fjártjóni, hvort sem um ræðir beint eða óbeint tjón, sem rekja má til lokana, aðgangstruflana eða annarrar röskunar á veitingu þjónustunnar.
5.4. Lyfja ber enga ábyrgð á tjóni sem rekja má til athafna eða athafnaleysis þriðja aðila eða ágalla af þjónustunni.
5.5. Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) niðurgreiða lyf samkvæmt svo kölluðu greiðsluþrepakerfi. Lyfja ber ekki ábyrgð á breytingu á þrepastöðu viðskiptavinar gagnvart SÍ, sem á sér stað frá kaupum til afhendingar vöru, óháð því hvort hún hefur áhrif á verð eða ekki. Endanlegt verð vörunnar miðast ávallt við afhendingu og þrepastöðu viðskiptavinar á þeim tíma. Lyfja áskilur sér rétt til að hafna einstökum viðskiptafærslum í appinu, verði endalegt uppgjör viðskiptanna til þess að misræmi myndist gagnvart SÍ á þessu tímabili.
5.6. Lyfja ber ekki ábyrgð af tjóni sem rekja má til atvika sem stafa af náttúruhamförum, styrjöldum, verkföllum eða vegna atriða sem talin verða falla undir óviðráðanleg tilvik (force majeure). Þá ber Lyfja ekki ábyrgð á tjóni sem kann að hljótast af vegna lagaskyldna sem Lyfju ber að fylgja.
5.7. Ef viðskiptavinur brýtur gegn skilmálum þessum eða öðrum skilmálum Lyfju er Lyfju heimilt að loka fyrir aðgang hans að Appinu. Hið sama á við ef viðskiptavinur verður uppvís að misnotkun eða tilraun til misnotkunar á upplýsingum sem aðgengilegar eru í Appinu.
6. Hugverkaréttur
6.1. Appið er eign Lyfju og óheimilt er að breyta því eða afrita.
6.2. Allur hugverkaréttur sem tengist þjónustunni er eign Lyfju. Í hugverkarétti felst m.a. hvers kyns höfundarréttur, hönnunarréttur, eignaréttur og sérþekking (know-how), vörumerkjaréttur og einkaleyfaréttur, sem og skyld réttindi, hvaða nafni sem þau nefnast, bein eða óbein.
6.3. Notkun Appsins er óheimil ef átt hefur verið við stýrikerfi viðkomandi símtækis eða öryggi þess er ógnað af öðrum ástæðum, svo sem vegna uppsetningar á vafasömu forriti.
7. Persónuvernd
7.1. Við framkvæmd og í tengslum við þjónustuna er nauðsynlegt að vinna ýmsar persónuupplýsingar um viðskiptavin, t.a.m. samskiptaupplýsingar, opinberar upplýsingar, en einnig í ákveðnum tilvikum viðkvæmar persónuupplýsingar, í tengslum við lyfsölu. Þær persónuupplýsingar sem Lyfja fær frá viðskiptavini eða þriðja aðila í tengslum við notkun Appsins og eru notaðar við framkvæmd þjónustunnar eru unnar í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Viðskiptavinur er eigandi þeirra gagna sem unnið er með af hálfu Lyfju í tengslum við þjónustuna.
7.2. Viðskiptavinur samþykkir að Lyfja vinni persónuupplýsingar um hann sem snúa að notkun Appsins í samræmi við persónuverndarstefnu, öryggisstefnu og skilmála Lyfju, sem innihalda ítarlegar upplýsingar um öryggismál og meðferð Lyfju á persónuupplýsingum. Lyfja áskilur sér rétt til að uppfæra stefnur og skilmála sína og er ávallt sú útgáfa í gildi sem aðgengileg er á hverjum tíma á vefsíðu Lyfju.
8. Önnur ákvæði
8.1. Lyfja mun einungis senda viðskiptavini tilkynningar/skilaboð ef hann samþykkir slíkt í Appinu. Lyfju er þó heimilt að senda viðskiptavini árlega gæða- og þjónustukönnun í Appinu, sem verður nýtt í þeim tilgangi að bæta virkni Appsins. Skilaboðin/tilkynningarnar munu varða notkun viðskiptavinar á þeirri þjónustu sem er í boði hverju sinni, s.s. hvar sending viðskiptavinar er stödd í kaupferlinu.
8.2. Lyfja áskilur sér rétt til að bakfæra einhliða viðskipti viðskiptavinar sem framkvæmd eru í Appinu, með því að „hafna körfu“, í ákveðnum þeim tilvikum, s.s. þegar viðskiptin eru ekki í samræmi við reglur, til dæmis ef um er að ræða meira magn en heimilt er að afgreiða úr apóteki; þegar lagerstaða reynist ekki rétt; eða þegar tiltekið lyf er við það að fyrnast og því óheimilt að afhenda það. Við framangreindar aðstæður fer endurgreiðsla til viðskiptavinar fram í gegnum endurgreiðsluferli viðkomandi greiðslumiðlunarfyrirtækis og í samræmi við skilmála þess.
8.3. Lyfja áskilur sér allan rétt til að ákvarða einhliða þá þjónustu sem er í boði í Appinu á hverjum tíma og rjúfa aðgang að upplýsingum um stundarsakir fyrirvaralaust og án tilkynningar ef þörf krefur, svo sem vegna uppfærslu skráa, breytinga kerfis og þess háttar.
8.4. Lyfju er heimilt að breyta skilmálum þessum einhliða hvenær sem er og taka slíkar breytingar gildi án fyrirvara.
8.5. Allar tilkynningar til Lyfju skal senda á netfangið personuvernd@lyfja.is.
8.6. Skilmálar þessir lúta íslenskum lögum. Ef eitthvert ákvæði skilmála þessara verður dæmt ógilt, ólöglegt eða óhæft til fullnustu, dregur það ekki á neinn hátt úr gildi, lögmæti eða fullnustuhæfi annarra ákvæða skilmálanna.
8.7. Rísi mál út af skilmálum þessum skal það rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Skilmálar þessir gilda frá 21. ágúst 2025










