Næring og andleg heilsa

1920X1080 43
Elísa Viðarsdóttir
Elísa Viðarsdóttir Næringarfræðingur
19. desember 2025

Fáar rannsóknir hafa verið gerðar hér á landi tengt geðrænum kvillum í tengslum við mataræði. Erlendis höfum við þó mun fleiri rannsóknarniðurstöður undir höndumm og þær benda til þess að mataræði geti bæði haft fyrirbyggjandi og styðjandi áhrif á andlega heilsu. Mikilvægt er að hafa í huga að mataræði kemur ekki í stað meðferðar þegar um klínískt andleg veikindi er að ræða. Ef þú eða einhver sem þú þekkir glímir við alvarleg einkenni kvíða, þunglyndis eða önnur geðræn veikindi er alltaf mikilvægt að leita til fagaðila.

Heilinn er eitt orkufrekasta líffæri líkamans og notar um fimmtung af allri orkuframleiðslu hans. Því er hann mjög næmur fyrir því hvaða næringu við setjum ofan í okkur. Þegar blóðsykurinn sveiflast mikið, til dæmis ef langur tími líður milli máltíða eða grípið er í sykraðan og unninn mat, þá getur það haft bein áhrif á skap, pirring, kvíða og einbeitingu, svo eitthvað sé nefnt. Næringarríkur matur og reglulegt máltíðarmynstur geta því spilað stórt hlutverk þegar kemur að heilsu og vellíðan. Prótein, trefjar og heilkorn eru t.d. frábær næringarefni sem halda blóðsykrinum í jafnvægi og veita okkur stöðuga orku í gegn um daginn. 

Þarmaheilsa spilar líka stórt hlutverk í andlegri líðan. Í þörmunum búa trilljónir baktería sem eiga bein samskipti við heilann í gegnum boðefni og taugakerfið. Um 90% af serótóníni líkamans er framleitt í þörmum, þannig að ef þeir eru í ójafnvægi getur það haft áhrif á skapið. Við getum stutt þarmaflóruna með því að borða meira af trefjaríkum mat og góðgerla eins og lauk, hvítlauk, baunir og heilkorn, ab-mjólk, súrkál, kimchi og kombucha. Litríkt grænmeti dregur líka úr bólgum og hefur jákvæð áhrif á þarmaheilsu.

Fjöldi næringarefna geta haft bein áhrif á andlega heilsu. Omega-3 styður við heilastarfsemi, dregur úr bólgum og getur haft jákvæð áhrif á skap. B-vítamín gera það einnig og ber þar helst að nefna B6, B12 og fólat, þau hafa áhrif á taugaboðefni og skortur getur valdið þreytu og orkuleysi. Magnesíum-afleiður geta hjálpað til við svefn og streitu og haft bein áhrif á taugakerfið. D-vítamín hefur bein áhrif á orkuleysi og járn þá sérstaklega hjá konum á barneignaraldri. Þá er ekki þar með sagt að það eigi að hlaupa út í búð og kaupa öll þessi vítamín heldur þarf hver og einn að meta sína heilsu, mataræði og styðjast við blóðrannsóknir. 

Koffein getur hjálpað til við orkuinntöku og einbeitingu en hjá mörgum eykur það kvíða og spennu, sérstaklega ef drukkið er mikið eða of seint yfir daginn. Helmingunartími koffíns í blóði er langur og getur því haft áhrif inn í nætursvefninn. Þrátt fyrir að viðkomandi geti sofnað þá hefur koffínið truflandi áhrif á gæði svefns. Því er ráðlagt að hægja á koffíninntöku í kring um 13/14 á daginn til að styðja betur við svefngæði og þar með andlega heilsu. Ráðlagt er fyrir flesta að drekka ekki meira en 400 mg af koffíni á dag og 200 mg er ráðlagt fyrir barnshafandi konur.

Vatn skiptir líka máli í tengslum við orku og einbeitingu. Um 1–2% af vökvaskorti getur valdið pirringi, höfuðverk og minni einbeitingu. Ráðlagt er að drekka 2-2,5 l á dag.

Það má ekki gleyma tilfinningalegu áti. Við borðum oft ekki vegna hungurs, heldur geta streita og leiði haft þar áhrif sem og vani eða jafnvel að viðkomandi sé einungis að verðlauna sig. Með því að staldra við og spyrja sig: „Er ég raunverulega svöng/svangur eða eru einhverjar aðrar tilfinningar að banka upp á?“ getum við rofið mynstrið. Að borða reglulega yfir daginn og huga að samsetningu máltíða getur stutt við heilbrigðara samband við mat. 

Að lokum langar mig að nefna nokkur einföld skref sem hægt er að taka í daglegu lífi – og sem henta vel fyrir áskorun um andlega heilsu: Mikilvægt er að leggja áherslu á samsetningu máltíða, borða prótein og trefjar í hverri máltíð, drekka 1–2 glös af vatni með hverri máltíð, bæta litríku grænmeti inn í allar máltíðir dagsins. Takmarka koffein síðdegis og bæta inn í rútínuna mat sem styður við þarmaflóruna.

Næring er ekki töfralausn en hún er öflugt tæki til að styðja við andlega heilsu og vellíðan.

 

D-vítamín

B-vítamín

Vatn skiptir líka máli í tengslum við orku og einbeitingu. Um 1–2% af vökvaskorti getur valdið pirringi, höfuðverk og minni einbeitingu. Ráðlagt er að drekka 2-2,5 l á dag.

Járn

Deila