Antepsin, sem inniheldur virka efnið súkralfat, er notað við maga- og skeifugarnarsárum. Lyfið binst betur sködduðum vef í maga og skeifugörn en heilum vef. Verkun lyfsins er staðbundin við meltingarveg og er margvísleg.
Súkralfat myndar verndandi himnu yfir sárin með því að bindast próteinum á yfirborði þeirra. Það hefur sýrubindandi verkun og dregur úr sýrumagni. Súkralfat hefur bein áhrif á ensím í magasafa sem kallast pepsín, og hefur það hlutverk að sundra próteinefnum, en súkralfat minnkar virkni þessa ensíms. Einnig bindur efnið gallsýru. Ef sýrubindandi lyf eru notuð samtímis súkralfati verður að taka þau minnst hálfri klukkustund fyrir eða eftir töku súkralfats. Súkralfat frásogast nánast ekkert frá meltingarveginum.
Notkun:
1 g í senn 2-4 sinnum á dag. Lyfið á að taka ½-1 klst. fyrir mat og fyrir svefn. Takist með vatnsglasi.