Toviaz
Þvagfæralyf | Verðflokkur: G | Lyfseðilsskylt
Virkt innihaldsefni: Fesóteródín
Markaðsleyfishafi: Pfizer | Skráð: 1. nóvember, 2008
Toviaz inniheldur virka efnið fesóteródín. Fesóteródín er andmúskarínlyf sem vinnur gegn virkni asetýlkólíns sem er taugaboðefni sem veldur m.a. samdrætti í þvagblöðruvöðvum. Fesóteródín er því notað við ofvirkri þvagblöðru sem veldur því að fólk hefur tíð og bráð þvaglát og þvagmissi. Taugaboðefnið asetýlkólín hefur áhrif víðar í líkamanum. Margar aukaverkanir lyfsins, eins og munnþurrkur og hægðatregða, stafa af því að það dregur almennt úr áhrifum þessa boðefnis, þótt áhrifin verði alltaf mest á þvagblöðruvöðvann.
Notkun á lyfi
Lyfjaform:
Forðatöflur til inntöku.
Venjulegar skammtastærðir:
4-8 mg á dag. Forðatöflurnar skal gleypa heilar með vatnsglasi. Hvorki má tyggja þær, brjóta né mylja.
Hversu langur tími líður uns verkun kemur fram:
Full verkun lyfsins kemur venjulega fram eftir 2-8 vikna meðferð.
Verkunartími:
U.þ.b. 24 klst eftir stakan skammt.
Þörf á að breyta mataræði meðan lyfið er tekið:
Engin. Greipaldinsafi getur haft áhrif á virkni lyfsins. Þess vegna skal forðast að drekka greipaldinsafa.
Geymsla:
Geymist í lokuðum umbúðum við stofuhita þar sem börn hvorki ná til né sjá.
Ef skammtur gleymist:
Taktu lyfið um leið og þú mannst eftir því. Ef stutt er til næsta skammt skaltu sleppa þeim sem gleymdist og halda áfram að taka lyfið eins og venjulega. Ekki taka tvo skammta í einu.
Hvernig á að hætta töku lyfsins:
Ekki hætta töku lyfsins nema í samráði við lækni. Sjúkdómseinkenni geta versnað ef töku lyfsins er hætt of fljótt.
Ef tekinn er of stór skammtur:
Stakir skammtar sem eru litlu stærri en venjulega ættu ekki að skapa vanda. Ef vart verður við einhver óvenjuleg einkenni skal hafa samband við lækni. Stórir skammtar geta valdið krömpum eða öndunarerfiðleikum. Leitaðu neyðarhjálpar strax ef þessi einkenni koma fram.
Langtímanotkun:
Án vandkvæða.
Aukaverkanir
Algengast aukaverkun lyfsins er munnþurrkur og er þá aukin hætta á tannskemmdum. Því er mjög mikilvægt að tannbursta tennur tvisvar á dag með flúortannkremi.
Aukaverkun | Tíðni | Leitið til læknis vegna einkenna | Leitaðu strax til læknis | Hættu strax töku lyfs | |||
---|---|---|---|---|---|---|---|
Algeng >1% | Sjaldgæf <1% | Ekki þekkt | Sem eru alvarleg | Í öllum tilvikum | |||
Augnþurrkur | |||||||
Hraður hjartsláttur | |||||||
Höfuðverkur | |||||||
Meltingartruflanir | |||||||
Útbrot | |||||||
Þvagfærasýkingar | |||||||
Munnþurrkur, þurrkur í hálsi | |||||||
Kviðverkir, hægðatregða, ógleði og niðurgangur | |||||||
Svefnerfiðleikar, sundl | |||||||
Verkir við tæmingu þvagblöðru |
Milliverkanir
Viss sefandi lyf og hreyfiörvandi lyf geta aukið áhrif lyfsins. Ekki er mælt með samhliða notkun á Jóhannesarjurt.
Sjá öll lyf sem geta haft áhrif á
Má ekki nota með
Getur haft áhrif á
- Afipran
- Amitriptylin Abcur
- Anafranil
- Candizol
- Cardil
- Clarithromycin Alvogen
- Clarithromycin Krka
- Diflucan
- Diltiazem HCl Alvogen (áður Dilmin)
- Fluconazol Krka
- Fluconazol ratiopharm (afskráð des 2022)
- Fungyn
- Isoptin Retard
- Klacid
- Klomipramin Viatris
- Noritren
- Rimactan
- Sporanox
- Tegretol
- Tegretol retard
- Tegretol Retard (Lyfjaver)
- Veraloc Retard
- Vfend
- Voriconazole Accord
Varúð
Læknir sem ávísar lyfinu þarf að vita hvort
- grunur leiki á um þungun eða að þú sért með barn á brjósti
- þú sért með gláku
- þú sért með hjartasjúkdóm
- þú sért með langvarandi lifrar- eða nýrnasjúkdóm
- þú sért með ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju hjálparefnanna
- þú sért með ristilbólgu
- þú sért með vöðvaslensfár (myasthenia gravis)
- þú takir einhver önnur lyf
- þú sért með hægðatregðu
- þú sért með meltingarfærasjúkdóm
- þú sért með taugasjúkdóm
- þú eigir í erfiðleikum með að tæma þvagblöðruna alveg
- þú hafir einhvern tíma fundið fyrir minnkuðum þarmahreyfingum
- þú sért með brjóstsviða eða uppþembu
Meðganga:
Takmörkuð reynsla er af notkun lyfsins hjá þungum konum. Lyfið á því ekki að taka á meðgöngu nema brýna nauðsyn beri til.
Brjóstagjöf:
Ekki er vitað hvort lyfið berst í brjóstamjólk. Konur með barn á brjósti eiga því ekki að taka lyfið.
Börn:
Lyfið er ekki ætlað börnum yngri en 18 ára.
Eldra fólk:
Venjulegar skammtastærðir.
Akstur:
Lyfið getur valdið sjóntruflunum, sundli og syfju. Varist því að aka bíl þar til reynsla er komin á það hvaða áhrif lyfið hefur.
Áfengi:
Hamlar myndun vasópressíns í heiladingli og eykur þannig þvagmyndun. Æskilegt er að halda áfengisneyslu í lágmarki meðan lyfið er tekið.
Íþróttir:
Leyft við æfingar og í keppni.
Nánari upplýsingar
Nánari upplýsingar um lyfið er að finna í SPC texta og í fylgiseðli lyfsins, sem má finna á heimasíðu Sérlyfjaskrá. Ef upplýsingar hér stangast á við þær upplýsingar ber að fara eftir SPC texta lyfsins og/eða fylgiseðli.