Afipran

Lyf gegn starfrænum meltingartruflunum | Verðflokkur: G | Lyfseðilsskylt

Virkt innihaldsefni: Metóklópramíð

Markaðsleyfishafi: Takeda | Skráð: 1. mars, 2013

Afipran er gefið við ógleði, uppköstum og meltingartruflunum. Metóklópramíð, virka efnið í lyfinu, hefur bein áhrif á meltingarveginn þar sem það örvar hreyfingar í vélinda, maga og görnum. Auk þess eykur það líka spennu í efra magaopi. Þetta veldur því að maginn tæmist hraðar og kemur í veg fyrir bakflæði magainnihalds í vélinda. Metóklópramíð vinnur mikið á ógleði. Það er af þeim sökum gefið við ógleði sem stafar m.a. af mígreni eða kemur í krabbameinsmeðferð. Aukaverkanir lyfsins valda yfirleitt litlum óþægindum. Þó geta í sumum tilfellum komið fram vöðvakrampar í hálsi eða andliti. Krampar þessir eru algengari hjá börnum og fólki undir tvítugu og tíðari við stærri lyfjaskammta.


Notkun á lyfi

Lyfjaform:
Töflur og stungulyf

Venjulegar skammtastærðir:
Við ógleði og uppköstum: 20-120 mg á dag í 1-4 skömmtum. Við mígreni: 20 mg í upphafi mígrenikasts.

Hversu langur tími líður uns verkun kemur fram:
Áhrif á magatæmingu: 1-3 mín. eftir gjöf í æð, 5-15 mín. eftir gjöf í vöðva, 60 mín. eftir inntöku og 1-3 klst. eftir gjöf í endaþarm.

Verkunartími:
U.þ.b. 8 klst.

Þörf á að breyta mataræði meðan lyfið er tekið:
Engin.

Geymsla:
Geymist í lokuðum umbúðum við stofuhita þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Ef skammtur gleymist:
Notaðu lyfið um leið og þú manst eftir því. Ef stutt er til næsta skammts skaltu sleppa þeim sem gleymdist og halda áfram að nota lyfið eins og venjulega. Ekki nota tvo skammta í einu.

Hvernig á að hætta töku lyfsins:
Hætta má notkun lyfsins þegar einkenni eru ekki lengur til staðar.

Ef tekinn er of stór skammtur:
Stakir skammtar sem eru litlu stærri en venjulega ættu ekki að valda óþægindum. Stórir skammtar valda frekar sljóleika eða vöðvakrömpum. Ef stórir skammtar hafa verið notaðir eða vart verður við þessi einkenni skal hafa samband við lækni.

Langtímanotkun:
Hreyfitruflanir af völdum lyfsins eru líklegri ef það er notað í langan tíma. Meðferð skal ekki standa lengur en í 3 mánuði. Metóklópramíð er sjaldan notað í langtímameðferð.


Aukaverkanir

Aukaverkanir koma fram hjá 11-20% þeirra sem taka lyfið. Flestar þeirra koma frekar fram eftir því sem skammtar eru stærri.

Aukaverkun Tíðni Leitið til læknis vegna einkenna Leitaðu strax til læknis Hættu strax töku lyfs
Algeng >1% Sjaldgæf <1% Sem eru alvarleg Í öllum tilvikum    
Aukin mjólkurmyndun hjá konum        
Brjóstastækkun hjá karlmönnum        
Niðurgangur        
Ósjálfráðar hreyfingar      
Tíðateppa        
Útbrot, kláði, bjúgur og öndunarerfiðleikar    
Vöðvakrampar, skjálfti, óróleiki        
Þróttleysi, syfja        
Hækkun líkamshita      
Meðvitundarleysi, rugl, ofskynjanir      

Milliverkanir

Ef metóklópramíð er notað samtímis sefandi lyfjum er meiri hætta á aukaverkunum, s.s. hreyfitruflunum. Samhliða notkun miðtaugakerfisbælandi lyfja og metóklópramíð getur aukið aukaverkanir á miðtaugakerfið. Samhliða notkun andkólínvirkra lyfja og morfínafleiða hindrar áhrif metóklópramíðs á þarmahreyfingar.

Sjá öll lyf sem geta haft áhrif á

Má ekki nota með

Getur haft áhrif á


Varúð

Læknir sem ávísar lyfinu þarf að vita hvort
  • grunur leiki á um þungun eða að þú sért með barn á brjósti
  • þú sért með langvarandi lifrar- eða nýrnasjúkdóm
  • þú sért með ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju hjálparefnanna
  • þú sért með parkinsonsveiki
  • þú sért með æxli í nýrnahettum
  • þú hafir einhvern tíma átt við þunglyndi að stríða
  • þú hafir fengið krampa eða sért með flogaveiki
  • þú takir einhver önnur lyf
  • þú sért með blæðingar eða teppu í meltingarvegi

Meðganga:
Nokkur hætta er á því að lyfið hafi áhrif á fóstur.

Brjóstagjöf:
Lyfið berst í brjóstamjólk og getur haft áhrif á barnið.

Eldra fólk:
Minni skammtar eru oft notaðir.

Akstur:
Lyfið getur haft sljóvgandi áhrif og því er ekki ráðlegt að aka bíl fyrr en ljóst er hvaða áhrif lyfið hefur.

Áfengi:
Dregur úr gagnlegum áhrifum lyfsins en eykur sljóvgandi áhrif þess. Ekki neyta áfengis meðan lyfið er notað.

Íþróttir:
Leyft við æfingar og í keppni.


Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um lyfið er að finna í SPC texta og í fylgiseðli lyfsins, sem má finna á heimasíðu Sérlyfjaskrá. Ef upplýsingar hér stangast á við þær upplýsingar ber að fara eftir SPC texta lyfsins og/eða fylgiseðli.