Questran (Afskráð feb 2019)

Blóðfitulækkandi lyf | Verðflokkur: 0 | Lyfseðilsskylt

Virkt innihaldsefni: Kólestýramín

Markaðsleyfishafi: Bristol-Myers Squibb

Kólestýramín, virka efnið í Questran, er notað til þess að minnka blóðfitu. Áhrif þess eru bundin við meltingarveginn þar sem það bindur gallsýrur og veldur því að þær skiljast út með hægðum í stað þess að líkaminn nýti þær aftur. Gallsýrumyndun í líkamanum eykst til þess að vega tapið upp, en kólesteról er notað til að mynda gallsýru. Við þetta gengur á kólesterólbirgðir líkamans og blóðfitan minnkar. Questran er gefið sjúklingum sem hafa of mikla blóðfitu þegar breytingar á mataræði og aukin hreyfing hafa ekki borið tilætlaðan árangur. Það er helst notað þegar blóðfituaukning er ekki mjög mikil. Í vissum tilfellum er kólestýramín notað með öðrum blóðfitulækkandi lyfjum. Kólestýramín er einnig notað við sumum tegundum lifrarbilunar.


Notkun á lyfi

Lyfjaform:
Skammtar til inntöku.

Venjulegar skammtastærðir:
8-16 g á dag skipt í 2-3 skammta. Lyfinu er hrært saman við vökva fyrir inntöku.

Hversu langur tími líður uns verkun kemur fram:
Um 1 mánuður.

Verkunartími:
Kólesterólmagn í blóði fer aftur í sama horf og það var á tæpum mánuði eftir að töku lyfsins er hætt.

Þörf á að breyta mataræði meðan lyfið er tekið:
Minni fituneysla er hluti af meðferðinni. Drekktu mikinn vökva með lyfinu.

Geymsla:
Geymist í lokuðum umbúðum við stofuhita þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Ef skammtur gleymist:
Taktu lyfið um leið og þú manst eftir því. Ef stutt er til næsta skammts skaltu sleppa þeim sem gleymdist og halda áfram að taka lyfið eins og venjulega. Ekki taka tvo skammta í einu.

Hvernig á að hætta töku lyfsins:
Ekki hætta töku lyfsins nema í samráði við lækni, annars er hætta á því að sjúkdómurinn versni.

Ef tekinn er of stór skammtur:
Stakir skammtar sem eru litlu stærri en venjulega ættu ekki að skapa vanda. Ef teknir eru stórir skammtar eða ef vart verður við einhver óvenjuleg einkenni skal hafa samband við lækni.

Langtímanotkun:
Aukaverkanir frá meltingarvegi takmarka langtímanotkun lyfsins. Kólestýramín getur minnkað upptöku A, D og K vítamína og fólínsýru. Ráðlegt er að taka inn aukaskammta af þessum vítamínum meðan lyfið er tekið. Æskilegt er að fylgst sé reglulega með blóðfitu meðan á meðferð stendur.


Aukaverkanir

Lyfið dreifist ekki um líkamann og því eru aukaverkanir þess að mestu bundnar við meltingarveginn. Algengasta aukaverkun er hægðatregða og kemur fram hjá 20-50% þeirra sem taka lyfið í upphafi meðferðar en minnkar síðan með tímanum.

Aukaverkun Tíðni Leitið til læknis vegna einkenna Leitaðu strax til læknis Hættu strax töku lyfs
Algeng >1% Sjaldgæf <1% Sem eru alvarleg Í öllum tilvikum    
Ákafur magaverkur      
Meltingartruflanir, vindgangur        
Niðurgangur, hægðatregða        
Ógleði og uppköst        
Útbrot, kláði, bjúgur og öndunarerfiðleikar    

Milliverkanir

Kólestýramín getur dregið úr upptöku margra lyfja ef þau eru tekin samtímis. Þess vegna á að taka önnur lyf a.m.k. 1 klst. áður en kólestýramín er tekið eða 4-6 klst. eftir að kólestýramín er tekið.

Sjá öll lyf sem geta haft áhrif á

Má ekki nota með

Getur haft áhrif á


Varúð

Læknir sem ávísar lyfinu þarf að vita hvort
  • grunur leiki á um þungun
  • þú sért með harðlífi
  • þú sért með langvarandi lifrar- eða nýrnasjúkdóm
  • þú sért með ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju hjálparefnanna
  • þú takir einhver önnur lyf

Meðganga:
Takmörkuð reynsla er af notkun lyfsins hjá þunguðum konum.

Brjóstagjöf:
Lyfið berst ekki í brjóstamjólk.

Börn:
Minni skammtar eru notaðir.

Eldra fólk:
Auknar líkur eru á aukaverkunum.

Akstur:
Lyfið hefur ekki áhrif á aksturshæfni.

Áfengi:
Í litlum skömmtum hefur áfengi ekki áhrif á verkun lyfsins. Neysla áfengis er þó óæskileg fyrir þá sem þurfa á lyfinu að halda vegna áhrifa áfengis á lifur.

Íþróttir:
Leyft við æfingar og í keppni.

Annað:
 


Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um lyfið er að finna í SPC texta og í fylgiseðli lyfsins, sem má finna á heimasíðu Sérlyfjaskrá. Ef upplýsingar hér stangast á við þær upplýsingar ber að fara eftir SPC texta lyfsins og/eða fylgiseðli.