Langtíma áhrif ADHD lyfja

Geðheilsa Lyfjainntaka

Mig langar til þess að forvitnast hvort vitað sé um langvarandi áhrif Concerta, Ritalin etc. á heilann, og ef svo er, hver eru þau? Þá á ég við einstaklinga sem eru ekki með ADHD. 
Eru þau eins og skynörvandi/hugvíkkandi (e. psychodelic) lyf, þ.e. áhrifin geta verið að flýta fyrir undirliggjandi geðrænum sjúkdómum?

Mjög lítið er vitað um langvarandi áhrif Metýlfenídats (Methylphenidate) á heilsu einstaklinga sem nota þesskonar lyf að staðaldri skv læknisráði, og enn minna um þá sem nota þau án læknisráðs. 

Ástæðurnar fyrir því er líklegast mikill kostnaður við umfang þannig rannsókna, sem og margvíslegra utanaðkomandi þátta sem geta skekkt niðurstöðurnar. Vegna þessarra þátta þá er vonlaust að vonast til þess að þessar rannsóknir verði gerðar á þeim sem ekki fá Metýlfenídat skv læknisráði.

Ég fann ekki mikið af gögnum um áhrif af langtímanotkun af Metýlfenídati. Þær niðurstöður sem ég fann stönguðu á við hvort aðra. Það eina sem ég fann var tiltölulega ný rannsókn sem sýndi fram á að langtímanotkun (um 12 mánuðir) á Metýlfenídati var aukning á dópamín flutningsgöngum (transporter). Þetta gæti leitt til minni virkni lyfsins og aukið einkenni sjúkdómsins. Hér er doi númer greinarinnar; dx.doi.org/10.1371/journal.pone.0063023

Í gegnum tíðina hafa komið fram upplýsingar um að notkun á Metýlfenídati bæði auki líkurnar og minnki líkurnar á því að sjúklingur leiðist út í neyslu á ólöglegum vímuefnum. Þær rannsóknir sem hafa verið gerðar hingað til hafa ekki sýnt fram á samband milli þessarra þátta. 

Vísbendingar eru þó um að noktun Metýlfenídats án læknisráðs auki líkurnar á því að viðkomandi þrói með sér einhverskonar fíkn. 

Ég fann því miður engar upplýsingar um hvort lyfin flýttu fyrir geðrænum, undirliggjandi sjúkdómum. Væri það raunin væri lyfið eflaust tekið af markaði.