HVAÐ ER SYKURSÝKI?
Sykursýki (diabetes) er efnaskiptasjúkdómur sem dregur nafn sitt af auknu sykurmagni í blóði. Orsök sykursýki er óþekkt og sjúkdómurinn er ólæknandi en með réttri meðhöndlun er hægt að halda sjúkdómnum í skefjum og koma í veg fyrir fylgikvilla.
Tvær tegundir sykursýkis
Blóðsykur er nauðsynlegur orkugjafi fyrir líkamann. Magn hans ræðst m.a. af mataræði, hreyfingu, áfengisneyslu og streitu, en undir eðlilegum kringumstæðum sjá hormónin insúlín og glúkagon til þess að halda blóðsykurmagni á þröngu bili. Til að blóðsykur nýtist sem orkugjafi þarf hann að komast úr blóðinu og inn í frumur líkamans en lykillinn að því er insúlín sem er framleitt í briskirtlinum. Orsakir sykursýki tegund 1 og tegund 2 eru ólíkar en báðar einkennast af of háum blóðsykri og hættu á langtíma heilsufarsskerðingu.
- Sykursýki af tegund 1 er talin orsakast af sjálfsofnæmi sem veldur því að brisfrumur framleiða lítið eða ekkert insúlín. Eins er talið að umhverfisþættir, t.d. vírus, geti mögulega kveikt á sjúkdómnum. Um 5-10% sykursjúkra hafa tegund 1 og algengara er að þessi tegund komi fram snemma á lífsleiðinni, en hún leggst einkum á börn og ungt fólk.
- Sykursýki af tegund 2 einkennist af viðnámi gegn insúlíni. Brisið framleiðir nóg insúlín, en frumur líkamans verða ónæmar fyrir því, sem þýðir að blóðsykurinn berst ekki inn í frumurnar. Óheilbrigt líferni tengist þessari tegund sem leggst oftar á fullorðna þó algengi fari hækkandi hjá börnum og ungu fólki.
Sykursýki á Íslandi
Algengi sykursýki af tegund 2 meira en tvöfaldaðist í nær öllum aldurshópum hjá bæði körlum og konum á tímabilinu 2005 til 2018. Þá jókst árlegt nýgengi um 2,8% hjá fólki á aldrinum 18-79 ára. Árið 2018 voru 10.600 Íslendingar greindir með sykursýki af tegund 2 og hafði þeim fjölgað um 4.200 manns árið 2005. Ef fram heldur sem horfir má gera ráð fyrir að fjöldi Íslendinga með sykursýki verði kominn í tæp 24.000 manns árið 2040. (Heimild: Læknablaðið 5. tbl. 107. árg. 2021)
Einkenni sykursýki af tegund 2
Fólk með sykursýki getur lært að stjórna meðferðinni sjálft og lifað fullkomlega eðlilegu lífi. Því er mikilvægt að fólk með sykursýki setji sig vel inní sjúkdóminn og taki virkan þátt í að ákveða heilsueflingu og meðferð.
Helstu einkenni:
- Tíðari og meiri þvaglát
- Þorsti
- Þreyta og slappleiki
- Dofi í höndum eða fótum
- Aukin tíðni sýkinga
- Sár gróa hægt
Hafir þú einhver ofangreindra einkenna er ráðlagt að leita til læknis eða heilsugæslunnar.
Skert sykurþol er oft undanfari á sykursýki af tegund 2 og getur gefið vísbendingar um að sjúkdómurinn sé að þróast, en blóðpróf sýna þá gjarnan hækkandi blóðsykur, háar blóðfitur, hækkað LDL-kólesteról og lágt HDL-kólesteról.
Forvarnir og meðhöndlun
Besta forvörnin er ávallt heilbrigt líferni, t.d að hreyfa sig reglulega, borða hollan mat og vera sem næst kjörþyngd. Það dugar þó ekki alltaf til. Sykursýki af tegund 2 er flókinn sjúkdómur sem hegðar sér ólíkt milli einstaklinga. Afar mikilvægt er að ná góðri stjórn á blóðsykri því til lengdar veldur of hár blóðsykur skemmdum á flestum líffærakerfum.
Á undanförnum árum hefur dregið mjög úr hreyfingu fólks og kyrrseta aukist gríðarlega. Regluleg hreyfing er nauðsynleg fyrir andlega og líkamlega heilsu og vellíðan. Hún er ekki aðeins mikilvæg til að sporna gegn fjölmörgum sjúkdómum, heldur veitir hún styrk til að takast á við dagleg verkefni og stuðlar að betri svefni og hvíld almennt. Þekkt er að hreyfing er öflugt vopn gegn streitu og eykur lífsánægju og lífsgæði einstaklinga. Mælt er með því að stunda hreyfingu í 30 mínútur á dag, þrisvar til fimm sinnum í viku ef geta er til, annars eins og geta leyfir, allt er betra en ekkert og oft hægt að setja sér markmið um að auka hana skipulega. (Heimild: www.heilsugaeslan.is )
Sykursýki er meðhöndluð með
- Hollu mataræði
- Reglulegri hreyfingu
- Þyngdarstjórnun
- Streitustjórnun og slökun ásamt góðum svefni
- Blóðsykurmælingum til að fylgjast með þróun
- Lyfjagjöf
Hverjir eru í áhættu að fá sykursýki af tegund 2 ?
Sykursýki er efnaskiptasjúkdómur sem dregur nafn sitt af auknu sykurmagni í blóði. Helstu áhættuþættir sykursýki af tegund 2 eru:
- Ofþyngd eða offita, þá sérstaklega mikil kviðfita.
- Fjölskyldusaga þar sem foreldri, systir eða bróðir hefur greinst með sykursýki tegund 2.
- Hreyfir þig sjaldnar en þrisvar sinnum í viku.
- Saga um sykursýki á meðgöngu.
- 45 ára og eldri, þó börn séu í auknu mæli að greinast með sykursýki af tegund 2.
Gæti ég verið með sykursýki og ekki áttað mig á því?
Í sykursýki af tegund 1 hættir brisið að framleiða insúlín, hormónið sem stjórnar blóðsykri. Í sykursýki af tegund 2 framleiðir brisið insúlín en líkaminn verður smám saman ónæmur fyrir insúlíni. Þróun einkenna koma venjulega hratt fram í tegund 1 en í tegund 2 getur liðið langur tími frá því að blóðsykur hækkar og þar til einkenni koma fram, en ósjaldan greinist tegund 2 fyrir tilviljun í blóðrannsókn.
Heimildir
- www.cdc.gov
- www.heilsugaeslan.is
- www.heilsuvera.is
- www.laeknabladid.is
- www.lyfja.is
- www.diabetes.is