Get ég heyrt vel alla ævi?

Almenn fræðsla Heyrn

Árið 2050 er áætlað að um 2.5 milljarðar jarðarbúa munu glíma við heyrnarskerðingu og áætlað er að um 700 milljónir þeirra þurfi á einhvers konar heyrnaraðstoð að halda.

Flestir gera sér grein fyrir að mikill skaði getur orðið á heyrn vegna skothvells eða sprengingar. Hljóðkrafturinn er snöggur og mikill. Í þessum tilfellum erum við yfirleitt með heyrnarvarnir og tilbúin að hvellurinn komi. Þegar kemur að hljóðum sem eru lægri virðumst við sýna þeim mun meira umburðarlyndi.

Óvarleg hlustun, þ.e. þegar hljóð er stillt of hátt, of lengi og of oft er stærsta ógnin við heyrn ungmenna í heiminum. Samkvæmt rannsóknum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) er áætlað að um einn milljarður ungmenna sé í hættu á varanlegri heyrnarskerðingu vegna óvarlegrar hlustunar. Eitthvað sem hægt er að koma í veg fyrir með heyrnarvernd og góðum hlustunarvenjum.

Hljóð er mælt í desíbelum (dB) og til að setja það í samhengi er skrjáf í laufblöðum um 10-12 dB, bílflauta um 85 dB og skothvellur um 140 – 170 dB.

Ólíklegt er að hljóð sem eru undir 80 dB eru ólíklegt valdi skemmd á heyrn en um leið og komið er upp fyrir 80 dB í hljóðstyrk er hætta á heyrnarskerðingu.
Það er erfitt að átta sig á hve mörg desíbel hljóðin eru í umhverfi okkar og hvenær við erum farin að ofbjóða heyrninni. Með því að styðjast við snjallsíma og þau forrit sem hægt er að sækja í þá getur þú verið meðvitaðri um hljóðin í umhverfi þínu.
Mörg snjall- eða heilsuúr bjóða líka upp á þann möguleika að hávaðamæla og sum senda tilkynningar ef hljóðið er of hátt. Til dæmis eru algengar hávaðaviðvaranir í heilsuúrum þegar verið er að nota blandara og gera þeyting. 

Ef þú hefur ekki hugmynd um hve hátt þú stillir hljóðið þá ættir þú að miða við að hækka aldrei meira en upp í 60% af því sem tækið getur farið upp í. Vertu með þétt og góð heyrnartól þannig að þú getir hlustað á það sem þú streymir án þess að umhverfishljóð trufli þig. Óþétt heyrnartól geta leitt til þess að þú farir ósjálfrátt að hækka og hækka í hljóðinu. 

 

Hvað máttu vera lengi í hávaða?

Á sjö dögum er ráðlegt að vera ekki meira en:

 

 

  • 75 dB = 127 tímar
  • 80 dB = 40 tímar
  • 90 dB = 4 tímar
  • 100 dB = 24 mínútur
  • 110 dB = 2 mínútur

Á Íslandi eru viðbragðsmörkin 80-85 dB. Við 80 dB er starfsfólki, sem starfar í slíku umhverfi, útvegaðar heyrnarhlífar en við 85 dB er SKYLDA að nota heyrnarhlífar.

 

Langvarandi eða endurtekin dvöl í háværu umhverfi fer að taka sinn toll af heyrn þinni ef þú gætir ekki að því að verja hana. Það er ekki hægt að fá glataða heyrn aftur og þótt heyrnartæki séu alltaf að þróast og verða betri, þá er um gerviheyrn að ræða sem er ekki það sama og náttúruleg og eðlileg heyrn.

Fyrir utan þann skaða sem hávaði eða hljóð getur haft á heyrnina þá eru áhrif hljóðs mun meiri á vitræna getu og andlega og líkamlega heilsu, svo sem raddskaði, aukin streita, verri námsframmistaða, svefntruflanir, eyrnasuð og hækkaður blóðþrýstingur, svo fátt eitt sé nefnt.

Við getum ekki forðast hljóð heimsins en við getum verndað okkur fyrir þeim skaða sem of mikill hávaði getur valdið.

Til umhugsunar:

  • Sæktu app sem mælir hávaða og prófaðu að mæla hljóðstyrk, t.d. á kaffistofunni, tónleikum, leiksvæði eða í verslunarkjarna.
  • Hefur þú hugsað út í hversu hátt þú stillir hljóðið, t.d. þegar þú spilar tölvuleiki eða horfir á TikTok? Nánar hér
  • Hversu oft ferðu á tónleika með engar heyrnarvarnir?

Skoðaðu eyrnatappa sem geta verndað þína heyrn hér

 

Heimildir: