Hvað er lyfjaform

Þegar við tökum lyf notum við ekki virkt lyfjaefni eitt og sér heldur ákveðið form sem því hefur verið komið á. Formið getur til dæmis verið tafla, stíll eða mixtúra. Samheiti allra þessara mismunandi forma er lyfjaform. Lyfjaform innihalda virkt lyfjaefni sem læknar sjúkdóm eða dregur úr einkennum hans ásamt óvirkum hjálparefnum af ýmsum toga, svo sem litarefnum, bragðefnum og rotvarnarefnum. Við val á lyfjaformi þarf að taka tillit til margra þátta, svo sem hvar lyfið á verka, við hvaða aðstæður það geymist best og hvernig sjúklingnum hentar best að nota lyfið. Mismunandi lyfjaform hafa verið þróuð með það að markmiði að finna bæði örugga og þægilega aðferð til að gefa lyf við ýmsum sjúkdómum. Mikilvægt er að lyfjaformið auðveldi sjúklingum að nota lyf og að nota þau á réttan hátt. Fylgið alltaf nákvæmlega þeim leiðbeiningum sem gefnar eru með hverju lyfi.

Lyfjaform til inntöku 

Lyfjaform sem gefin eru til inntöku hafa annaðhvort staðbundin áhrif í meltingarveginum eða þau berast gegnum slímhúð meltingarvegar í blóðrás og með henni um líkamann. Töflur eru algengasta lyfjaformið til inntöku og einnig það vinsælasta, en í dag eru um 70% allra lyfja gefin í formi taflna. 

Töflur eru samsettar úr einu eða fleiri virkum lyfjaefnum ásamt óvirkum hjálparefnum, s.s. burðarefnum, bindiefnum, renniefnum, litar- og bragðefnum. Töflur eru mjög margbreytilegar að stærð, lit og lögun. Margar eru með deilistriki (skoru) og þær er óhætt að brjóta í sundur. Ef tafla er ekki með deilistriki ætti ekki að brjóta hana nema öruggt sé að það eyðileggi ekki eiginleika hennar. Töflur eru oft húðaðar með sykri eða öðrum efnum til að fela vont bragð og lykt en það er einnig oft gert til að verja töflur gegn umhverfisáhrifum. Áhrif venjulegra taflna koma oftast ekki fram fyrr en hálfri til einni klukkustund eftir að taflan er tekin inn. Ástæða þess er að taflan þarf fyrst að leysast upp í maga og þörmum svo að virka lyfjaefnið losni frá henni og geti borist gegnum magaslímhúðina í blóðrás og með henni um líkamann. 

Forðatöflur eru frábrugðnar venjulegum töflum að því leyti að lyfjaefnið losnar hægar og jafnar úr töflunum í maga og þörmum. Með því að nota forðatöflur helst lyfið lengur í blóðrás og styrkur þess verður jafnari en ella. Forðatöflur eru oftast hannaðar þannig að í upphafi losnar út nægilegt magn af lyfi til að slá á einkenni en afgangurinn losnar á lengri tíma (oftast 8-12 klst). Þetta gerir það að verkum að forðatöflur eru venjulega teknar sjaldnar yfir daginn en venjulegar töflur. Forðatöflur eru oftast gleyptar í heilu lagi því annars er hætta á að eiginleikar þeirra raskist. 

Sýruhjúptöflur eru húðaðar með sérstakri sýruþolinni húð sem rofnar ekki í súru umhverfi magans. Þessar töflur fara því í heilu lagi gegnum súran magann en húðin leysist upp þegar komið er í basískara umhverfi þarmanna. Sýruþolin húð er t.d. notuð á töflur þegar virka lyfjaefnið þolir ekki mjög súrt umhverfi magans eða ef virka lyfjaefnið ertir slímhúð magans. Alltaf skal gleypa sýruhjúptöflur í heilu lagi annars eyðileggjast eiginleikar þeirra. 

Hylki. Notkun hylkja er gömul aðferð sem notuð var til að gefa bragðvond lyf. Hylkið er í raun eins og húð sem felur vont bragð og lykt og ver lyfjaefnið gegn umhverfisþáttum eins og raka. Hylkið sjálft er oftast gert úr gelatíni (matarlími) og er samsett úr tveimur hlutum þar sem annar hlutinn, lengri og grennri, gengur inn í hinn sem er styttri og breiðari. Til eru forðahylki og sýruhjúphylki sem gegna sama hlutverki og forðatöflur og sýruhjúptöflur. Hylki á að gleypa í heilu lagi. 

Tungurótartöflur eru töflur sem settar eru undir tungu og látnar bráðna þar. Tungurótartöflur er lyfjaform sem notað er fyrir fá lyf og eru svokallaðar sprengitöflur (nítróglýserín) algengasta dæmi þeirra. Þar sem virkt lyfjaefni tungurótartaflna fer ekki niður í meltingarveginn heldur kemst beint í blóðrás gegnum slímhúð munnsins kemur verkun þess oftast mjög fljótt fram. 

Munnlausnartöflur eru töflur sem á að láta leysast í munni og kyngja síðan. Munnlausnartöflur henta þeim vel sem eiga erfitt með að gleypa töflur, t.d. börnum.
 
Freyðitöflur eru töflur sem leystar eru í vatni áður en þær eru teknar inn. Í þessum töflum eru hjálparefni sem gera það að verkum að taflan leysist hratt upp í vatni. Þar sem lyfið er gefið á uppleystu formi gætir áhrifa þess fyrr en ef um venjulega töflu er að ræða. Freyðitöflur er hentugur kostur fyrir þá sem eiga erfitt með að gleypa töflur.
 
Tuggutöflur eru eins og nafnið gefur til kynna töflur sem á að tyggja áður en þeim er kyngt. Algengustu tuggutöflurnar eru vítamíntöflur og flúortöflur fyrir börn.

Lausnartöflur eru töflur sem bæði má gleypa heilar og leysa í vatni. 

Duft er gamalt lyfjaform sem notað var mikið áður en töflur komu til sögunnar en er nú lítið notað þar sem fram hafa komið önnur og betri lyfjaform. 

Kyrni er duft sem hefur verið meðhöndlað þannig að margar smáar duftagnir loða saman í stærri kornum sem öll eru áþekk að stærð. Kyrni er mun vinsælla lyfjaform en duft þar sem auðveldara er að gleypa það en smáar agnir dufts. Til er freyðikyrni, sýruhjúpkyrni og forðakyrni, lyfjaform sem gegna líku hlutverki og sýruhjúptöflur og forðatöflur. 

Mixtúra er samheiti margra fljótandi lyfjaforma til inntöku. Mixtúra inniheldur eitt eða fleiri virkt lyfjaefni og óvirk hjálparefni svo sem bragð- og lyktarefni. Mixtúrur sem hafa stutt geymsluþol eru oft framleiddar sem þurrt mixtúruduft eða mixtúrukyrni sem svo er leyst upp í vökva. Algengasta dæmi þessa eru sýklalyfjamixtúrur sem hafa stutt geymsluþol, 1-2 vikur eftir að duftið hefur verið leyst upp. Mixtúra er oftast skömmtuð eftir rúmmáli í skeið eða mæliglasi. Ein teskeið tekur 5 ml, ein barnaskeið 10 ml og ein matskeið tekur 15 ml. Einnig eru oft notaðar sprautur til að skammta mixtúru, sérstaklega fyrir börn. Mikilvægt er að hrista mixtúru vel fyrir notkun svo að magn lyfs í hverjum skammti verði sem jafnast. Mixtúra hentar vel börnum og öldruðum sem eiga erfitt með að gleypa lyf á öðru formi. 

Dropar er fljótandi lyfjaform sem skammtað er með dropateljara. Mikilvægt er að nota þann dropateljara sem fylgir glasinu svo að stærð dropans og þar af leiðandi skammtur lyfsins sé réttur. 

Lyf til notkunar á húð 

Lausn er þunnfljótandi lyfjaform til útvortis notkunar á húð. Lausn er oftast virkt lyfjaefni í vatnslausn en þó stundum í alkóhóllausn sem borin á húð í þunnu lagi.
 
Áburður (liniment) er þunnfljótandi lyfjaform til útvortis notkunar á húð. Áburður er virkt lyfjaefni í annaðhvort alkóhóllausn eða olíukenndri lausn sem borin er á húð í þunnu lagi. Algengast er að áburður innihaldi sýklalyf sem notað er við unglingabólum eða steralyf sem notað er við exemi í húð og hársverði. 

Úðaáburður er áburður sem úðað er á húð úr úðabrúsa. Við notkun á úðaáburði skal halda úðabrúsanum 15-20 cm frá því svæði sem meðhöndla á og úða nokkrum sinnum. 

Krem er fremur þunnfljótandi lyfjaform til útvortis notkunar á húð. Krem hafa oftast vatnskenndan grunn sem hentar vel ef húðin er ekki of þurr. Einnig eru til krem sem hafa fitukenndan grunn og henta þau betur ef húðin er mjög þurr. Þar sem krem er oftast fremur þunnfljótandi er þægilegt að bera það á húðina, það gengur fljótt inn og smitar lítið út frá sér. 

Smyrsli er fremur þykkt og fitukennt lyfjaform til útvortis notkunar á húð. Smyrsli er oftast notað ef húðin er mjög þurr og hreisturkennd. Fitan í smyrslinu myndar himnu á yfirborði húðarinnar sem hindar uppgufun vökva og bindur þannig raka húðarinnar. Vegna þess hve smyrsli er fituríkt liggur það lengur á húðinni en krem og smitar því frekar út frá sér. Algengt er að sama lyfið sé bæði til sem krem og smyrsli og því má velja það lyfjaform sem hentar best hverju sinni. 

Pasta er mjög þykkt og stíft lyfjaform til útvortis notkunar á húð. Pasta dregur í sig vökva og er aðallega notað til að vernda húðina. Einnig er það notað til að þurrka upp húðsvæði, t.d. áblástur eða unglingabólur. 

Hlaup er hálffljótandi lyfjaform sem notað er útvortis á húð. Hlaup er mjög ríkt af vatni, auðvelt er að bera það á húðina og það smitar ekki. 

Stráduft er fínt þurrt duft sem stráð er útvortis á húð, slímhúð eða sár. 
Forðaplástur er plástur sem inniheldur lyfjaefni sem losnar hægt úr plástrinum og berst gegnum húðina í blóðrás. Forðaplástur á að setja á hreina, þurra og hárlausa húð. Algengasta dæmi um forðaplástra eru hormónaplástrar fyrir konur á breytingaskeiði og nikótínplástrar fyrir þá sem ætla að hætta að reykja. 

Lyf til notkunar í augu eyru og nef 

Augndropar

er fljótandi lyfjaform sem skammtað er með dropateljara í augu. Augndropar eru alltaf bakteríufríir þar til umbúðir eru rofnar. Til að fyrirbyggja bakteríumengun eftir að umbúðirnar eru opnaðar innihalda augndropar í flestum tilfellum rotvarnarefni. Eftir að umbúðir hafa verið rofnar ætti ekki að nota augndropa lengur en 4 vikur vegna hættu á að óhreinindi komist í þá við notkun. Augndropar eru því oftast í litlum umbúðum sem innihalda ekki meira en 4 vikna skammt. Ef augndropar innihalda ekki rotvarnarefni eru þeir framleiddir í einnota umbúðum. Ef nota á fleiri en eina gerð augndropa í einu skulu líða að minnsta kosti 5 mínútur á milli þess að mismunandi dropar eru bornir í augun.  


Augnsmyrsli er smyrsli til notkunar í augu. Augnsmyrsli eru eins og augndropar alltaf bakteríufrí þar til umbúðir eru rofnar. Til að fyrirbyggja bakteríumengun eftir að umbúðir eru opnaðar innihalda augnsmyrsli í flestum tilfellum rotvarnarefni. Eftir að umbúðir hafa verið rofnar ætti ekki að nota augsmyrsli lengur en í 4 vikur vegna hættu á að óhreinindi komist í það við notkun. Þar sem augnsmyrsli eru nokkuð þykkfljótandi er eðlilegt að sjónin verði þokukennd fyrst eftir að þau hafa verið borin í auga. Augnsmyrsli eru notuð í og umhverfis augun eftir því sem við á hverju sinni. 

Augnskolvatn er lausn sem notuð er til að skola augu. Augnskolvatn er bakteríufrítt a.m.k. þar til umbúðir eru rofnar og inniheldur í flestum tilfellum rotvarnarefni. Eftir að umbúðir hafa verið rofnar ætti ekki að nota augnskolvatn lengur en í 4 vikur vegna hættu á að óhreinindi komist í það við notkun.

Augnflögur eru egglaga, þunnar og sveigjanlegar himnur sem komið er fyrir í augnpokanum. Augnflögur eru bakteríufríar og innihalda ekki rotvarnarefni. Virkt lyfjaefni sem er í augnflögum losnar hægt úr þeim í auganu á nokkrum dögum. 

Nefdropar er fljótandi lyfjaform til notkunar í nef. Með nefdropum fylgir oftast dropateljari sem notaður er til að skammta lyfið. 

Nefsmyrsli er smyrsli sem borið er innan í nef. 

Nefúði er lyfjaform sem úðað er í nef með sérstökum skammtaúðara. Notkun nefúða: Hreinsið úr nefinu eins og hægt er, hafið höfuðið upprétt, komið stút úðaflöskunnar fyrir í annarri nösinni og haldið fyrir hina, dragið andann djúpt inn um leið og úðað er. 

Eyrnadropar er fljótandi lyfjaform til notkunar í eyru. Með eyrnadropum fylgir oftast dropateljari sem notaður er til að skammta lyfið. Eyrnadropar eru bakteríufríir a.m.k. þar til umbúðir eru rofnar og innihalda í flestum tilfellum rotvarnarefni. Eftir að umbúðir hafa verið rofnar ætti ekki að nota eyrnadropa lengur en í 4 vikur vegna hættu á að óhreinindi komist í þá við notkun. 

Eyrnasmyrsli er smyrsli sem borið er í eyra. Eyrnasmyrsli er bakteríufrítt a.m.k. þar til umbúðir eru rofnar og innihalda í flestum tilfellum rotvarnarefni. Eftir að umbúðir hafa verið rofnar ætti ekki að nota eyrnasmyrsli lengur en 4 vikur vegna hættu á að óhreinindi komist í það við notkun. 

Lyf notuð í endaþarm 

Endaþarmsstíll

er lyfjaform til notkunar í endaþarm. Stílar innihalda oftast mikið af harðri fitu sem er á föstu formi við stofuhita en bráðnar við líkamshita. Stílar breytast því úr föstu lyfjaformi í fljótandi í endaþarminum og losna þá virku lyfjaefnin sem verka staðbundið (t.d. gyllinæðastílar) eða berast í blóðrás og hafa áhrif víðar í líkamanum (t.d. hitalækkandi stílar). Endaþarmsstílar eru í mörgum tilfellum mjög hentugt lyfjaform fyrir börn og aldraða sem eiga erfitt með að gleypa töflur og þegar einstaklingur er með ógleði og uppköst. Til þess að endaþarmsstíll verki eins og ætlast er til þarf að tæma endaþarminn vel áður en endaþarmsstílnum er komið fyrir.
 
Endaþarmssmyrsli er smyrsli sem notað er í endaþarm og/eða við endaþarmsop. Þegar nota á endaþarmssmyrsli í endaþarm fylgir venjulega stútur sem skrúfaður er framan á smyrslistúpuna og honum svo stungið varlega inn í endaþarminn. Mikilvægt er að þvo stútinn vel með volgu vatni eftir hverja notkun. 

Endaþarmsfroða er lyfjaform sem notað er í endaþarm. Froðunni er komið fyrir í endaþarminum með þar til gerðri skammtadælu, en einnig má bera froðuna umhverfis endaþarmsop. 

Innihellislyf er fljótandi lyfjaform sem ætlað er til innhellingar í endaþarm. Þegar innhellislyf er notað er best að liggja á hliðinni með hnén kreppt. Stútnum á umbúðunum er stungið varlega eins langt og mögulegt er upp í endaþarminn. Umbúðirnar eru kreistar svo innihaldið fari inn í endaþarminn, gætið þess að halda umbúðunum samankreistum meðan stúturinn er dreginn út, því annars er hætta á að lyfið sogist aftur í umbúðirnar. Gætið þess að ef innhellislyf er gefið börnum yngri en 3ja ára á aðeins að láta helminginn af stútnum ganga inn í endaþarminn. 

Lyf sem notuð eru í leg eða leggöng 

Skeiðarkrem

er krem sem notað er í leggöng kvenna. Skeiðarkremi fylgir sérstakt áhald sem kallast stjaka. Stjakan er fyllt af skeiðarkremi og henni stungið varlega inn í leggöngin eins langt og mögulegt er, hún tæmd og dregin út aftur. Stjökuna á að þvo eftir hverja notkun. Skeiðarkrem innihalda oftast sveppalyf eða kvenhormón sem verka staðbundið í skeiðinni. 

Skeiðarfroða er lyfjaform sem er notað í leggöng kvenna. Skeiðarfroða líkist helst mjúku kremi og er notuð staðbundið í leggöng með hjálp stjöku á svipaðan hátt og skeiðarkrem. Skeiðarfroða inniheldur oftast kvenhormón eða sæðisdrepandi efni. 

Skeiðarhlaup er hlaup sem er notað í leggöng kvenna. Skeiðarhlaup er tært eða glært að sjá, mjög ríkt af vatni og inniheldur oftast rotvarnarefni. Það er notað með hjálp stjöku á svipaðan hátt og skeiðarkrem. Skeiðarhlaup inniheldur oftast sæðisdrepandi efni. 

Skeiðarstílar eru fast lyfjaform notað í leggöng kvenna. Skeiðarstílar eru gerðir úr efni sem leysist upp í líkamsvökvum og losna þá virku lyfjaefnin sem verka staðbundið. Oftast er sýrustig skeiðarstíla það sama og í leggöngunum en súrt umhverfi þeirra er góð vörn gegn ýmsum sýkum. Skeiðarstílum er oftast komið fyrir í leggöngum með hjálp stjöku. Skeiðarstílar innihalda oftast sveppadrepandi efni sem verka staðbundið. 

Skeiðarhringur er hringur sem komið er fyrir í leggöngum við leghálsinn. Skeiðarhringur inniheldur kvenhormón sem losna úr hringnum smám saman. Verkun varir í 3 mánuði og þá skal fjarlægja hringinn og setja nýjan. 

Hormónalykkja er lykkja sem inniheldur kvenhormón og komið er fyrir í legi kvenna. Kvenhormón losna úr lykkjunni smám saman á 5 árum og skal fjarlægja hana að þeim tíma liðnum. Hormónalykkja er getnaðarvörn og það er alltaf læknir sem kemur lykkjunni fyrir. 

Lyf sem sprautað er inn í líkamann 

Stungulyf

er fljótandi lyfjaform sem oftast er sprautað í æð eða vöðva eða undir húð. Stungulyf er oftast notað þegar skjótrar verkunar lyfsins er þörf eða ef sjúklingur getur ekki notað önnur lyfjaform af einhverjum ástæðum. Sum lyf, t.d. insúlín, ná ekki tilætlaðri verkun nema þeim sé sprautað í líkamann. Stungulyf eru venjulega í svokölluðum hettuglösum með gúmmítappa og er lyfið þá dregið upp í sprautuna eftir að nálinni er stungið í gegnum tappann. Stungulyf eru einnig oft í lokuðum glerlykjum og þá er stúturinn brotinn af fyrir notkun. Mjög skjót verkun fæst þegar stungulyfi er sprautað í æð (bláæð), sem er mikilvægt t.d. í neyðartilfellum. Þegar stungulyf er gefið í vöðva er sprautað djúpt í beinagrindarvöðva. Stungulyf sem gefið er í vöðva er lengri tíma að ná verkun en hefur oftast lengri verkun en stungulyf sem gefið er í æð þar sem það berst smám saman úr vöðvanum í blóðrásina. Insúlín er dæmi um lyf sem sprautað er undir húð. Fyrir nokkrum árum komu á markaðinn insúlínpennar sem sykursýkisjúklingar nota til að sprauta sig með. Sambærilegir pennar eru nú einnig til fyrir mígrenilyf. Pennarnir eru mun þægilegri og einfaldari í notkun en hefðbundin hettuglös eða lykjur. Mikilvægt er fyrir sjúklinga sem þurfa að sprauta sig að staðaldri að skipta reglulega um stungustað annars er hætta á að þykkildi myndist þar. 

Stungulyfsstofn er duft sem leyst er upp í sérstökum vökva og sprautað inn í líkamann. 

Stungulyfsþykkni er fljótandi lyfjaform sem þynnt er með sérstökum vökva áður en því er sprautað í líkamann. 

Innrennslislyf er fljótandi lyfjaform sem látið er renna hægt í bláæð. Innrennslislyf er oftast að stofni sykur- eða saltlausnir með uppleystum, virkum lyfjaefnum. Oftast er rúmmál innrennslisvökva 100-1000 ml í sérstökum innrennslispokum eða flöskum sem tengdir eru í bláæð með slöngu. Algengt er að innrennslislyf innihaldi t.d. krabbameinslyf eða sýklalyf. 

Innrennslisþykkni er fljótandi lyfjaform sem þynnt er í innrennslisvökva og notað til innrennslis í bláæð. 

Innrennslisstofn er duft sem leyst er upp í innrennslisvökva og notað til innrennslis í bláæð. 

Vefjatöflur eru töflur með forðaverkun sem komið er fyrir undir húð á líkamanum. Virkt lyfjaefni losnar úr vefjatöflum smám saman á nokkrum vikum. Þar sem vefjatöflur eru gerðar úr efni sem brotnar niður í líkamanum þarf ekki að fjarlægja þær eftir að allt virka lyfjaefnið hefur losnað úr þeim. 

Lyf notuð í lungu 

Innúðalyf

er fljótandi lyfjaform til innúðunar í lungu með tækjum sem nefnast innúðastaukar. Innúðalyf innihalda drifefni sem mynda með þrýstingi fínan úða þegar þrýst er á úðastaukinn. Úðinn inniheldur mjög smáar lyfjaagnir sem berast niður í lungnaberkjurnar þar sem þeim er ætlað að hafa áhrif. Mjög mikilvægt er að samhæfa öndun og gjöf innúðalyfs svo að tilætluð verkun fáist af lyfinu. Þetta reynist sjúklingum oft erfitt, sérstaklega börnum og hafa því verið hönnuð hjálpartæki til að auðvelda notkun úðalyfjanna. Dæmi um slík hjálpartæki eru belgir, t.d Volumatic og Babyhaler, sem lyfinu er úðað í og sjúklingurinn andar að sér úr belgnum. 

Innúðaduft er duft í afmældum skömmtum eða hylkjum til innöndunar með sérstökum tækjum. Duftið er mjög smáar lyfjaagnir sem berast niður í lungnaberkjurnar við innöndun. Tækin eru af nokkrum mismunandi gerðum en þau algengustu nefnast diskus og turbohaler. Þessi tæki eiga það sameiginlegt að vera einfaldari í notkun en innúðastaukarnir.