Varúð

Lyfjaheiti er það nafn sem er notað af framleiðanda lyfs þegar lyfið er skráð og sett á markað. Það lyfjafyrirtæki sem þróar frumlyf (fyrsta lyf sinnar gerðar) hefur einkaleyfi á framleiðslu og sölu þess í nokkur ár eftir að það kemur á markað. Þegar einkaleyfi frumlyfs rennur út er öðrum lyfjafyrirtækjum heimilt að framleiða og markaðssetja lyf með sama virka efni, og þá undir öðru heiti. Sama virka efnið getur þannig verið fáanlegt í lyfjum undir mismunandi heitum frá hinum ýmsu framleiðendum. Hafa ber í huga að í bókinni sem og á vefnum er miðuð við þau lyf sem eru skráð og notuð á Íslandi. Þó farið hafi verið vandlega yfir allar upplýsingar og stuðst við áreiðanlegar heimildir ber að hafa í huga að lyfjameðferð er alltaf sniðin að þörfum einstaklings og aldrei verður séð við öllu sem getur komið upp. Ávallt skal fylgja ráðum læknis eða lyfjafræðings ef þau stangast á við þær upplýsingar sem koma fram hér, en rétt er þó að leita eftir skýringum á ósamræminu. 

Lyfhrif 
Áhrif lyfja á líffæri líkamans kallast lyfhrif. Lyf geta aukið eða minnkað þá starfsemi sem fer fram í tilteknu líffæri, en geta ekki breytt hlutverki líffæra. Til dæmis geta lyf aukið eða minnkað þvagmyndun í nýrum, en þau geta ekki valdið því að nýru framleiði neitt annað en þvag. 

Frásog lyfja og dreifing 
Til þess að lyf geti haft tilætluð áhrif þarf það að berast á réttan stað í líkamanum. Yfirleitt miðast lyfjagjöf við það að koma lyfjum í blóðrásina þar sem þau dreifast meira eða minna um allan líkamann. Ef lyf hefur ekki mjög sérhæfð áhrif á tiltekin líffæri valda áhrif þess á önnur líffæri aukaverkunum, og þá getur hentað betur að gefa lyf staðbundið. Eftir að lyf kemst í blóðrásina fer það eftir efnafræðilegum eiginleikum þess í hvaða vefi það berst. Til dæmis eru æðar sem liggja um miðtaugakerfið, þ.e. heilann og mænuna, þéttari en aðrar æðar og mörg lyf komast síður yfir æðavegg þeirra. Lyf skiljast út úr líkamanum eftir tveim meginleiðum. Ef þau leysast vel upp í vatni skiljast þau yfirleitt út óbreytt með þvagi. Ef þau eru hins vegar illleysanleg í vatni eru þau fyrst brotin niður í lifrinni og þeim breytt til að auka vatnsleysanleika þeirra. Í sumum tilfellum eru fituleysanleg lyf skilin út með galli og fara því aftur í gegnum meltingarveginn áður en þau fara út með hægðum. Þegar lyf fara þessa leið getur hluti af þeim borist aftur í blóðrás úr meltingarveginum og þau farið í hringrás á ný. Dæmi um lyf sem fara þessa leið eru getnaðarvarnatöflur, lyfið nýtist betur og því er hægt að nota mjög litla skammta af hormónum til þess að fá tilætluð áhrif. Hringrásin rofnar hins vegar ef viðkomandi fær niðurgang og lyfið getur misst áhrif sín. Breiðvirk sýklalyf valda gjarnan niðurgangi og geta þannig dregið úr verkun getnaðarvarnataflna og annarra lyfja sem fara í þessa hringrás.