Fljótgerður tikka masala kjúklingur

Uppskrift

  • Tikka-masala

Nýlega kom út bókin Létt og litríkt eftir Nönnu Rögnvaldardóttur og var hún svo vinsamleg að deila einni gómsætri uppskrift með okkur. 

 „Tikka masala-kjúklingur er stundum kallaður hinn nýi þjóðarréttur Englendinga, enda fundinn upp þar í landi þótt ræturnar séu indverskar. Hér er einföld og fljótleg útgáfa af þessum rétti – töluvert léttari en flestar hefðbundnar útfærslur, fitulítil og án rjóma en með skyri.“ 

UPPSKRIFT fyrir 2-3  

2  kjúklingabringur
2 tsk  garam masala
nýmalaður pipar
salt
2 msk olía
1 laukur
3 sm biti af engiferrót
2–3 hvítlauksgeirar
½ –1 chilialdin
1 msk tómatkraftur
½ tsk túrmerik
1 dós tómatar, saxaðir
150 g grænar baunir, frosnar
100 ml  hreint skyr
e.t.v. svolítill sítrónusafi

Aðferð:
Skerðu kjúklingabringurnar í bita. Blandaðu saman garam masala, pipar og salti í skál, settu kjúklinginn út í og veltu honum upp úr blöndunni. Hitaðu 1 msk af olíu á pönnu og steiktu kjúklingabitana í 5–6 mínútur við meðalhita, eða þar til þeir eru rétt steiktir í gegn. Taktu þá af pönnunni og settu til hliðar. 

Saxaðu lauk, engifer, hvítlauk og chili gróft, settu þetta í matvinnsluvél og láttu hana ganga þar til allt er fínsaxað en ekki komið í mauk. Settu 1 msk af olíu á pönnuna, settu laukblönduna á hana, steiktu við meðalhita í 2–3 mínútur og hrærðu stöðugt á meðan. Hrærðu tómatkrafti og túrmeriki saman við og síðan tómötunum. Láttu malla í nokkrar mínútur. 

Settu baunirnar og kjúklingabitana út í og láttu malla í 3–4 mínútur í viðbót. Smakkaðu og bragðbættu e.t.v. með ögn af sítrónusafa. Hrærðu að lokum skyrinu saman við og berðu fram, t.d. með maísflatbrauði og soðnum hrísgrjónum.