Heyrnar­tækið þitt

Allt sem þú vissir ekki að þú þyrftir að vita um heyrnartækið þitt

Fræðslumyndbönd Heyrn

Heyrnartækið er í hnotskurn mjög lítið hljóðkerfi með hljóðnema, magnara og hátalara. Þetta tæki mun magna hljóðin sem þig vantar, þannig að öll heyrnartæki eru sérsniðin að heyrnarskerðingu notandans. Af þeim sökum geta aðrir ekki notað þau þar sem engir tveir eru með nákvæmlega sömu heyrnarskerðinguna.

Hljóðneminn í heyrnartækinu fangar hljóðið og hljóðbylgjurnar eru svo endurmótaðar í rafboð. Magnarinn í heyrnartækinu eykur merkið áður en það er endurmótað aftur og síðan sent í hlustina í gegnum hátalarann.

Við mælum með að þú lesir handbókina sem fylgdi heyrnartækjunum til að kynnast heyrnartækinu þínu betur. Mikilvægustu hlutirnir sem þú þarft að hafa í huga eru móttakari (hátalari), kúplar og hlustarstykki.

Það er mjög mikilvægt að hreinsa og skoða heyrnartækin reglulega. Ekki þvo heyrnartækin, notaðu heldur lítinn örtrefjaklút til að strjúka yfir þau til að fjarlægja óhreinindi og ganga úr skugga um að heyrnartækið virki rétt. Ef þú ert með RITE-heyrnartæki, með móttakara og kúplum, þarftu að hreinsa/skipta um kúpul reglulega. Þegar þú fjarlægir heyrnartækið fyrir svefninn skaltu skoða kúpulinn og fjarlægja öll óhreinindi og eyrnamerg sem er til staðar. Mælt er með því að skipta um kúpul á tveggja til þriggja mánaða fresti og henda þeim gamla. Undir kúplinum er mergsía. Hún tryggir að eyrnamergur komist ekki djúpt inn í hátalarann og skipta þarf um hana á 4 til 8 vikna fresti. Móttakarinn (hátalarinn) ætti að endast í nokkur ár, en ef eitthvað er að honum þarftu að hafa samband við okkur svo við getum hjálpað þér.

Ef þú ert með sérsniðið hlustarstykki og slöngu þarftu að skipta um slönguna á fjögurra til sex mánaða fresti. Ef það verður mislitt og hart er kominn tími til að skipta um það! Þegar það er orðið svona eru hljóðgæðin slæm og truflanir og hljóðleki kunna að eiga sér stað.

Einnig þarf að hugsa um hleðslutæki hleðsluheyrnartækja. Ef hleðslutækið er með loki skaltu hafa það lokað, hvort sem það er ekki í notkun eða er með heyrnartæki í hleðslu. Það er gert til þess að ryk og óhreinindi safnist ekki upp inni í því. Þurrkaðu af hleðslutækinu að innanverðu ef þörf krefur. Fjarlægðu alltaf eyrnamerg af kúplunum áður en heyrnartækin eru hlaðin, þetta kemur í veg fyrir að hann safnist upp inni í hleðslutækinu.

Sérsniðna hlustarstykkið þarf einnig að hreinsa af og til. Ef þú horfir á það sérðu í flestum tilvikum bæði loftræstiop og rás þar sem hljóðið kemur út. Hvort tveggja þarf að hreinsa. Taktu það af eyrnakrækjunni/slöngunni. Settu heyrnartækið á öruggan stað á meðan hlustarstykkið er hreinsað. Notaðu milda sápu og volgt vatn til að þvo hlustarstykkið varlega. Notaðu loftblásturstæki fyrir heyrnartæki til að fjarlægja vatn úr hljóðrásinni og loftræstiopinu. Leyfðu því að þorna yfir nótt áður en það er sett aftur á slönguna og heyrnartækið. Hægt er að nota lítinn bursta eða svipuð verkfæri til að fjarlægja eyrnamerginn utan af eða innan úr sérsniðna hlustarstykkinu ef þörf er á.

Ekki geyma heyrnartækin inni á baðherbergi. Ekki hlaða þau inni á baðherbergi. Gufa úr sturtunni getur eyðilagt heyrnartækin að innan. Fjarlægðu heyrnartækin á meðan þú notar snyrtivörur. Hársprey, ilmvatn og rakspíri gætu t.d. stíflað hljóðnema heyrnartækisins. Fjarlægðu heyrnartækið þegar þú notar hárþurrku.Þú ættir einnig að halda heyrnartækinu frá gæludýrum. Algengt er að gæludýr nagi heyrnartæki og skemmi þau.

Ef þú ert með heyrnartæki með rafhlöðum þarftu að skipta um þær reglulega. Nokkrar rafhlöðustærðir eru til; 

  • Númer 10 (gular) endast yfirleitt 3 til 5 daga
  • Númer 312 (brúnar) endast yfirleitt 3 til 10 daga
  • Númer 13 (appelsínugular) endast yfirleitt 6 til 14 daga
  • Númer 675 (bláar) endast yfirleitt 9 til 20 daga

Geymdu rafhlöðurnar rétt; ekki geyma þær í ísskáp. Þær ætti að geyma við stofuhita á þurrum stað. Þegar búið er að fjarlægja plastið af nýrri rafhlöðu er rafhlaðan virk. Fjarlægðu plastið og bíddu í um 5 mínútur áður en þú setur rafhlöðuna í heyrnartækið.

Skoðaðu rafhlöður hér

Netverslun_kubbar_800x300