Snjallsíminn er að eyðileggja líkamsstöðu þína – og skapið!

Næring

  • Snallsiminn_april_2016

Það er ekki að ástæðulausu að foreldrar minna börn sín sífellt á að rétta úr öxlunum, að ganga ekki um eins og hengilmæna. Rannsóknir sýna nefnilega að slök líkamsstaða eins og að hengja haus og síga niður í öxlunum getur haft slæm langtíma áhrif á líkamann. 

Rannsóknir benda einnig til að slök líkamsstaða getI einnig haft neikvæð áhrif á sálaralífið. Nú þegar allir eiga snjallsíma og grúfa sig yfir hann í tíma og ótíma hefur líklega aldrei verið jafn mikilvægt að minna sig á það sem foreldrar okkar minntu okkur á í sífellu; að rétta úr bakinu og vera beinn í öxlunum. 

Hvar sem við erum, sjáum við fólk í kringum okkur grúfa sig yfir símann sinn. Sérfræðingar eru farnir að gefa þessari líkamsstöðu nöfn á borð við „iPosture“ (iLíkamsstaða), „text neck“ (sms háls) og „iHunch“ (iHengilmænu). Kannski er „símastelling“ góð íslenskun á þessum orðum. 

Meðalhöfuð vegur um 5-5,5 kg. Þegar við höllum höfðinu fram um 60 gráður eykst álag á vöðvana í hálsinum upp í 30 kg. Sérfræð­ing­ar eins og sjúkraþjálfar og kírópraktorar tala um að bogið bak, eins og þeir sáu áður fyrr á ömmum og langömmum, sést nú hjá unglingum. Afleiðingin er vöðvabólga, stífur háls, jafnvel bogið bak og fleiri líkamskvillar sem valda vanlíðan. 

Þegar við erum sorgmædd þá hengj­um við haus. Það sama gerum við þegar við erum hrædd og berskjölduð. Þá hafa rann­sóknir sýnt að þynglyndi dregur einnig fram þessa stellingu; að hengja höfuð, láta axlirnar síga og halda olnbogunum upp að síðum. Sú staða er óhuggu­lega lík símastellingunni, eða iHengil­mænunni. 

Vondu fréttirnar eru hins vegar þær að slæm líkamsstaða skapast ekki bara af slæmu sál­rænu ástandi, heldur getur líkams­staða einnig haft áhrif á sálartetrið. Þannig að símastellingin er ekki bara vond fyrir líkamann heldur ennig sálarlífið. 

Rannsókn, sem var birt í Health Ppsychology á síðasta ári, leiddi í ljós að það að sitja uppréttur geti verið einföld aðferð til þess að taka betur við sálrænu álagi. Niðurstöður annarrar rannsóknar sem birtist á síðasta ári leiddu í ljós að það að hengja haus (e. slouching) getur haft slæm áhrif á minnið. Niðurstöður þessara rannsókna benda til þess að símastellingin og það að vera sífellt að athuga símann auki neikvæðni og hafi slæm áhrif á samskipti við aðra. 

Það er þó ljóst að símar og önnur snjalltæki eru komin til að vera og því erfitt að neita sér um að nota slík tæki. Til þess að minnka áhrif þeirra á líkamsstöðuna er gott að venja sig á að vera bein(n) í baki þegar við notum þessi tæki. 

Að lokum; næst þegar þú teygir þig eftir síman­um skaltu muna að hætt er við að þú dettir í símastellinguna. Sú stelling getur haft slæm áhrif á skap, minni og jafnvel hegðun. Líkamsstaða þín mótar stöðuna á sálarlífinu og gæti því verið lykillinn að betra skapi og auknu sjálfsöryggi.