Valhnetu-og bananakaka

Uppskrift

Nanna Rögnvaldardóttir gaf út bókina Sætmeti án sykurs 2015 og var svo vinsamleg að deila einni gómsætri uppskrift með lesendum Lifið heil.

„Eiginlega er þetta krydduð bananakaka. Það er líka hægt að baka hana í jólakökuformi og sleppa kreminu og þá er hún mjög góð með smjöri. En ef þú vilt hafa kökuna tertulegri er hægt að kljúfa botninn í tvennt, gera stærri skammt af kremi – nota 500 g af rjómaosti, 150 ml af sultu og 3 msk af hnetusmjöri – og smyrja hluta af því á milli laga.“

 • 85 g valhnetur
 • 300 g bananar, vel þroskaðir (vigtaðir án hýðis)
 • 3 egg
 • 125 ml olía
 • 1 tsk vanilluessens
 • 250 g heilhveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1 tsk matarsódi
 • 1½ tsk kanill
 • ½ tsk salt

Rjómaostskrem

 • 350 g rjómaostur, mjúkur
 • 100 ml sykurlaus fíkjusulta frá St. Dalfour (eða önnur sulta)
 • 2 msk sykurlaust hnetusmjör

12 stk valhnetukjarnar

Aðferð

Hitaðu ofninn í 175°C. Malaðu valhneturnar fremur gróft í matvinnsluvél og helltu þeim á disk. Maukaðu bananana í matvinnsluvélinni og þeyttu svo eggjum, olíu og vanilluessens saman við. Blandaðu heilhveiti, lyftidufti, matarsóda, kanil og salti saman, ásamt hnetunum, og hrærðu saman við bananablönduna.

Helltu deiginu í meðalstórt, pappírsklætt tertuform og bakaðu kökuna á neðstu rim í um 35 mínútur. Taktu hana út og láttu hana kólna alveg áður en kremið er sett á hana.

Hrærðu rjómaost, sultu og hnetu­smjör vel saman, smyrðu því á kökuna og skreyttu hana með valhnetukjörnum. Ef þú notar aðra sultu en fíkjusultu mætti líka nota annað en hnetusmjör til að bragðbæta kremið, svo sem vanillu.