AMeltingarfæra- og efnaskiptalyf

Í meltingarfæra- og efnaskiptalyfjaflokki eru margvísleg lyf, bæði lyf sem hafa áhrif á starfsemi meltingarfæranna og lyf við offitu og sykursýki.

A Meltingarfæra– og efnaskiptalyf

Í meltingarfæra- og efnaskiptalyfjaflokki eru margvísleg lyf, bæði lyf sem hafa áhrif á starfsemi meltingarfæranna og lyf við offitu og sykursýki.

Lýsing – hvers konar lyf tilheyra þessum flokki
Í meltingarfæra- og efnaskiptalyfjaflokki eru margvísleg lyf, bæði lyf sem hafa áhrif á starfsemi meltingarfæranna og lyf við offitu og sykursýki. Hormón, önnur en insúlín, lenda þó í öðrum flokkum þótt þau hafi öll áhrif á efnaskipti í líkamanum. Vítamín lenda einnig í þessum flokki. Hægt er að skrá vítamín sem lyf þegar þau eru við skorti eða sjúkdómum sem hljótast af vítamínskorti. Framleiðsla á vítamínum og gæðaeftirlit með þeim lýtur þá hinum sömu reglum og gildir um önnur lyf.

Saga
Flest lyfin eru nýleg og eiga það sameiginlegt að hafa komið á lyfjamarkaðinn á síðustu árum eða áratugum. Sýrubindandi lyf, hægðalyf og insúlín hafa verið hvað lengst á markaði af skráðum lyfjum. Í langan tíma voru t.d. sýrubindandi lyf það eina sem hægt var að fá við of hárri magasýru. Histamínblokkarar komu ekki fram fyrr en á áttunda áratug tuttugustu aldar og prótónpumpuhemlar fylgdu í kjölfarið.

Uppgötvun insúlíns markar stórt spor í sögu læknavísinda. Hana má rekja allt aftur til ársins 1869, eða þegar menn gerðu sér grein fyrir því hvað brisið væri mikilvægt hjá sykursjúkum einstaklingum. Eftir þá uppgötvun fylgdu margar vísindalegar tilraunir uns tveimur ungum Kanadamönnum, að nafni Banting og Best, tókst árið 1921 að einangra safa úr brisi sem lækkaði blóðsykur hjá sykursjúkum hundum. Ári síðar var fyrsti sjúklingurinn meðhöndlaður með góðum árangri og fengu þeir félagar, ásamt samstarfsmönnum, Nóbelsverðlaunin árið 1923 fyrir uppgötvun sína. Í fyrstu var notast við insúlín úr svínum og nautgripum en í dag er erfðatæknin notuð til að framleiða eins insúlín og er í mönnum.

Nýjustu lyfin í flokknum eru lyf við offitu og ný og breytt sykursýkislyf. Mikil gróska hefur verið í meðferð við sykursýki á undanförnum árum.

Verkunarmáti
Lyfin hafa öll áhrif á starfsemi meltingarfæra og efnaskipta í líkamanum, en með ýmsum hætti hvert um sig eins og nánar verður fjallað um á eftir. Þau draga úr seyti eða magni magasýru, draga úr eða auka hreyfingar þarmanna, hafa sýkladrepandi eða örvandi áhrif á meltingu. Insúlín vegur upp skort á insúlíni hjá sykursjúkum og önnur sykursýkislyf auka áhrif insúlíns.

Sjá einnig undirflokka.

Algengar aukaverkanir
Algengar aukaverkanir allra lyfjanna eru óþægindi frá meltingarfærum eins og t.d. hægðatregða af völdum sýrubindandi lyfja. Höfuðverkur, þreyta, svimi og niðurgangur eru líka tíðar aukaverkanir sem fylgja lyfjunum. Of lágur blóðsykur er algengasta aukaverkun sykursýkislyfja.

Sjá einnig undirflokka.

Almennar leiðbeiningar um notkun
Fjöldi lyfja fæst án lyfseðils, sérstaklega sýrubindandi lyf, munn- og tannlyf og hægðalyf. Mjög mikilvægt er að lesa og fylgja vel leiðarvísi lyfja. Ef vafi leikur á notkun lyfsins skal leita til lyfjafræðings eða læknis. 

Það hefur áhrif á virkni sýrubindandi lyfja hvenær þau eru tekin. Ekki á að taka þau inn fyrir eða strax eftir máltíðir af því að þá berast þau hraðar gegnum meltingarveginn. Þá hefur það sýnt sig að sýrubindandi lyf hafi besta verkun séu þau tekin inn 1 klst. eftir máltíð.

Sum lyf við sársjúkdómi í maga- eða skeifugörn er hægt að fá án lyfseðils, í takmörkuðu magni þó. Slíkt fyrirkomulag hentar vel þeim sem áður hafa fengið slík lyf hjá lækni og þekkja einkennin. Lyfin ætti hins vegar einungis að nota í skamman tíma og æskilegt er að leita til læknis fáist ekki bati á tveimur vikum.

Sama gildir um öll önnur lyf í þessum flokki meltingarfæra- og efnaskiptalyfja, alltaf á að fylgja leiðbeiningum læknis um notkun lyfjanna til hins ýtrasta.

Hvað ber að varast
Sýrubindandi lyf geta truflað frásog margra lyfja, s.s. járn- og tetracýklínlyfja. Sum lyf þurfa súrt umhverfi til þess að komast inn í blóðrásina og þess vegna getur verkun þeirra minnkað séu þau tekin með lyfjum sem draga úr magasýrumagni.
Sýrubindandi lyf milliverka við magasýruþolin lyf, þar sem lyfjaform hinna síðarnefndu er hannað til að standast magasýru og leysast upp í basískara umhverfi skeifugarnar og þarma. Séu magasýruþolin lyf tekin með sýrubindandi lyfjum leiðir það til þess að þau leysast frekar upp í maganum en ella. Afleiðingin getur verið sú að magasýruþolna lyfið virki minna eða alls ekki. Vegna þessara hugsanlegra milliverkana er ætíð best að láta líða a.m.k. 2 klst. á milli töku lyfs og sýrubindandi lyfs. Magnesia Medic og Rennie eru dæmi um sýrubindandi lyf.

Sjúklingar með háan blóðþrýsting og þungaðar konur ættu að varast reglulega notkun á sýrubindandi lyfjum sem innihalda töluvert magn af natríum. Mörg sýrubindandi lyf hafa að geyma mikinn sykur og sykursjúkir ættu að hafa það hugfast.

Mörg hægðalyf fást í lausasölu og þau á að nota af skynsemi og aðeins í stuttan tíma í senn án samráðs við lækni. Börnum á ekki að gefa þau nema í samráði við lækni.

Slái ekki fljótt á einkenni er ávallt æskilegast að leita til læknis. Þegar hægðalyf eru gefin í endaþarm á börnum verður að gæta þess að stinga ekki enda túpunnar of langt inn, og muna eftir því að fylgja leiðbeiningum nákvæmlega.
Nokkur lyf eru í formi lausnar, plásturs eða hlaups og verður að gæta þess vel að þau berist ekki í augu.

Sjá einnig undirflokka.

Undirflokkar

Allur framangreindur texti á við öll lyf í flokki meltingarfæra- og efnaskiptalyfja. Allt sem á sérstaklega við einstaka undirflokka kemur hér á eftir:

A01 Munn- og tannlyf 

Munn- og tannlyf eru flest tekin staðbundið og um munn. Um er að ræða lyf til varnar tannskemmdum, sýkla- og sveppalyf við sýkingum í munni eins og tannholdsbólgum, staðdeyfandi lyf, bólgueyðandi lyf og fleiri. Flest lyfin eru í lausnarformi og til munnskolunar. Hér er líka að finna áburði eins og hlaup. Mörg lyfin tengjast tannréttingum og notkun gervitanna. Lyf til varnar tannskemmdum hafa að geyma flúoríð og það verður að gæta þess að fara með þau samkvæmt leiðbeiningum og hafa í huga að lyfin má ekki nota á svæðum þar sem drykkjarvatn inniheldur meira en 0,75 mg/l af flúoríði. Sum lyf sem hér hafa verið upp talin geta valdið dökkum blettum á tönnum. Ýmist hverfa þeir af sjálfu sér eða tannlæknir getur náð þeim af þegar lyfjanotkun lýkur.

A02 Lyf við sýrutengdum sjúkdómum

Sýrubindandi lyf binda magasýru og draga um leið úr óþægindum eins og brjóstsviða. Sömu lyf eru líka gefin við magabólgum, og jafnvel við maga- og skeifugarnarsárum. Flest lyfin eru blöndur saltsambanda, eins og áls, kalsíums og magnesíums, og þau fást öll án lyfseðils í apótekum. Sýrubindandi lyf eru ýmist í tuggutöflum eða mixtúru. Mixtúrur virka fyrr og eru áhrifaríkari en töflur, en töflurnar eru auðveldari í notkun. Sýrubindandi lyf virka betur ef þau eru tekin u.þ.b. einni klukkustund eftir máltíð. Vegna milliverkana lyfjanna við önnur lyf í maga ættu að líða a.m.k. 2 klukkustundir á milli inntöku lyfjanna.

Stór hluti lyfjanna í flokkinum eru notuð við maga- og skeifugarnarsárum og bólgu í vélinda sem stafar af bakflæði magasýru úr maga í vélinda. Tvo meginflokka er um að ræða. Annars vegar histamínblokkara, en það eru lyf sem draga úr magasýrumyndun með því að hindra áhrif histamíns í maga. Histamín er efni sem örvar seyti magasýru. Hins vegar prótónpumpuhemla, en það eru lyf sem hindra seyti magasýru úr sýrumyndandi frumum. Með þessu tekst lyfjunum að draga úr framleiðslu á magasýru, bæði í hvíld og við hvers kyns örvun.

Histamínblokkarar og prótónpumpuhemlar verka lengur en sýrubindandi lyf. Ástæðan er sú að verkun þeirra er ekki háð því hversu lengi þeir eru í snertingu við magainnihaldið. Lyfin hafa þó ekki eins skjóta verkun og sýrubindandi lyf til að slá á einkenni. Reykingar draga úr virkni þessara lyfja. Histamínblokkarar og prótónpumpuhemlar þolast yfirleitt vel.

Hér flokkast lyf við uppþembu og óþægindum vegna aukins lofts í maga og þörmum. Lyfin draga úr yfirborðsspennu í slími í maga og þörmum sem verður til þess að það losnar enn frekar um loftið.

Í sama undirflokki tilheyrir einnig lyf sem eingöngu er notað við bakflæði magasýru í vélinda; það myndar froðukennt lag sem flýtur ofan á magainnihaldinu og hindrar þannig bakflæði þess upp í vélindað.

Að lokum má nefna tvenns konar lyf. Annað sem sakir sýrubindandi áhrifa sinna myndar verndandi himnu yfir sár í maga og skeifugörn. Hitt er eingöngu notað með bólgueyðandi gigtarlyfjum til þess að græða eða koma í veg fyrir bólgu eða sár í maga eða skeifugörn af völdum slíkra lyfja.

A03 Lyf við stafrænum meltingarfærasjúkdómum

Þrenns konar lyf eru hér.

  1. Fyrst ber að nefna lyf sem draga úr sársaukafullum samdrætti í vöðvum meltingarfæra og til að slá á verkina sem fylgja.
  2. Í öðru lagi lyf sem hafa svonefnd andkólínvirk áhrif. Það þýðir að lyfin draga úr áhrifum boðefnisins asetýlkólíns, hafa krampaleysandi verkun og eru gefin við krömpum eða starfrænum truflunum í meltingarfærum og gallvegum. Aukaverkanir fylgja oft lyfjunum og þar mætti nefna munnþurrk og hraðan hjartslátt.
  3. Í þriðja lagi eru lyf sem hraða því að magi tæmist og eru í því skyni gefin við ógleði og uppköstum, svo og vegna bakflæðis til vélinda og seinni magatæmingu. Lyfin auka hreyfingar í vélinda og maga, sömuleiðis spennu í efra magaopi, og með því koma þau í veg fyrir bakflæði frá maga upp í vélinda.

 

A04 Lyf við uppköstum og lyf við ógleði

Lyf við uppköstum og ógleði eru til að fyrirbyggja og til að lækna ógleði og uppköst. Sum þeirra eru notuð við ógleði og uppköstum af völdum lyfja eins og krabbameinslyfja, í geislameðferð eða eftir skurðaðgerðir. Önnur eru við ferðaveiki eins og bílveiki, sjóveiki eða flugveiki. Eitt lyfið er í plástursformi og því er ætlað að vinna á móti ferðaveiki. Gæta verður þess vel að þvo hendur eftir að plásturinn hefur verið settur á og líka það að lyfið berist ekki í augu.

A05 Galllyf og lifrarlyf

Undir þennan flokk falla til dæmis lyf sem notuð eru við gallsteinamyndun og gallrásarbólgu.

A06 Lyf við hægðatregðu

Verkun hægðalyfja er af ýmsum toga spunnin. Sum lyfin auka þarmahreyfingar, mýkja með því hægðir og flýta fyrir losun þeirra. Önnur hafa rúmmálsaukandi áhrif; þau bindast vökva, bólgna út í meltingarvegi og örva með því móti hreyfingar þarma. Enn önnur eru með svokallaða osmótíska verkun, en þá sogast vatn inn í ristil og rúmmál hægða eykst. Við það eflast þarmahreyfingar og um leið losna hægðir. Síðast má telja lyf sem stungið er í endaþarm, þar mýkja þau og smyrja hægðirnar og auka vatnsinnihald þeirra og koma af stað hægðalosun. Þessi lyf eru yfirleitt gefin sem innhellislyf, þ.e. þeim er sprautað inn í endaþarm úr túpu. Gæta verður þess vel að særa ekki þarmaveggi. Einnig verður að hafa það í huga að þarmar barna eru styttri en hjá fullorðnum og því má ekki setja túpuendann eins langt inn í endaþarm á þeim. Hér væri hægt að nefna dæmi um lyfið Microlax, en hjá börnum yngri en þriggja ára má alls ekki stinga túpuenda nema að hálfu inn í endaþarm. Hins vegar á alltaf að tæma túpuna, líka hjá börnum. Það er mjög mikilvægt að þetta sé gert rétt. Vert er að benda á það að yfirleitt er ekki æskilegt að nota hægðalyf fyrir börn nema í samráði við lækni.

Nokkur hægðalyf eru gefin við hægðatregðu, öðrum er ætlað að tæma líkamann af hægðum fyrir skurðaðgerðir, enn önnur eru til að hreinsa þarma fyrir röntgenskoðun eða röntgenspeglun. Hægðalyf sem ætluð eru til þarmahreinsunar á ekki að nota við hægðatregðu.

Hægðalyf á einungis að nota í skamman tíma í senn þar sem langvarandi notkun getur raskað eðlilegri starfsemi þarma og leitt til alvarlegra aukaverkana, svo sem of lágs kalíums í blóði. Þau geta einnig truflað frásog ýmissa lyfja auk þess sem sum lyf geta haft áhrif á verkun þeirra.

A07 Stoppandi lyf, lyf við þarmasýkingum og þarmabólgum

Þrenns konar lyf heyra til þessa undirflokks, lyf við þarmasýkingum, þarmabólgum og við niðurgangi, oft nefnd stoppandi lyf.

  1. Við þarmasýkingum er um að ræða sýklalyf sem eingöngu er ætlað til notkunar við staðbundnum sýkingum í meltingarvegi og sveppalyf við eða til að fyrirbyggja sveppavöxt í meltingarvegi.
  2. Lyf gegn þarmabólgum hafa staðbundin, bólgueyðandi áhrif í þörmum og þau eru ýmist gefin sem endaþarmsstílar, innhellislyf, hylki eða töflur. Bólgusjúkdómar í þörmum stafa af of mikilli virkni ónæmiskerfis sem leiðir til langvarandi bólgna og valda bólgurnar vefjaskemmdum með tímanum.
  3. Stoppandi lyf draga úr þarmahreyfingum, þau eru ýmist notuð við bráðum niðurgangi, svokölluðum ferðamannaniðurgangi, og þá einungis í skamman tíma, eða við langvarandi og alvarlegum niðurgangi. Í þessum flokki var að finna gersvepp sem var gefinn samtímis sýklalyfjameðferð til að fyrirbyggja eða ráða bót á niðurgangi sem gjarnan fylgdi meðferðinni.

 

A08 Lyf við offitu, önnur en sérfæði

Lyf við offitu eru tvenns konar.

  1. Annars vegar er um að ræða lyf með verkun á miðtaugakerfið. Nánar tiltekið hefur lyfið sérhæfð áhrif á virkni taugaboðefnanna serótóníns og noradrenalíns í heila. Það leiðir til aukinnar mettunartilfinningar og viðheldur brennslu í líkamanum, en undir venjulegum kringumstæðum dregur úr brennslu þegar megrun á sér stað.
  2. Hins vegar er um að ræða lyf sem hamlar verkun lípasa, en lípasi er ensím sem brýtur niður fitu í líkamanum. Nái lípasi ekki að virka leiðir það til þess að líkaminn nær ekki sem skyldi að nýta sér fituna.

Lyf þessi eru einungis ætluð offitusjúklingum og of þungum einstaklingum með aðra offitutengda áhættuþætti. Hér er átt við þá sem hafa ekki náð nægum árangri í megrun sem felst í breyttu mataræði, breytingu á lífsstíl og aukinni hreyfingu.
Eins og stendur eru engin skráð sérlyf í þessum flokki.

 

A09 Meltingarlyf, þ.á.m. hvatar (ensím)

Hér er að finna lyf sem innihalda meltingarhvata (ensím) og eru gefin við ýmsu: Við truflunum á meltingu, til að hjálpa til við að nýta fæðu eftir brottnám maga, og þegar briskirtill starfar ekki rétt og fæðan meltist ekki vegna skorts á meltingarensímum frá brisi.

Einnig er hérna lyf við skorti á magasýru og óþægindum í meltingarfærum sem eru tilkomin af þeim skorti.

A10 Sykursýkilyf

Þessum flokki tilheyra sykursýkislyf, bæði insúlín og insúlínvirk lyf, svo og sykursýkislyf til inntöku.

Insúlín er hormón sem myndast í brisi. Hormónið er nauðsynlegt til að sykur í blóði komist inn í frumur þar sem hann nýtist sem orkugjafi. Þegar skortur verður á insúlíni í líkamanum safnast sykur fæðunnar fyrir í blóði og skilst síðan út með þvagi án þess að nýtast líkamanum eins og gerist undir eðlilegum kringumstæðum. Sykursýki orsakast af skorti á insúlíni (tegund I, insúlínháð sykursýki) eða minnkuðum áhrifum þess (tegund II, insúlínóháð sykursýki).

Eina meðferðin við sykursýki af tegund I er að gefa insúlín, slíkt getur gagnast í vissum tilfellum við sykursýki af tegund II. Insúlín er gefið sem stungulyf, og er að finna í mismunandi samsetningum, sum lyfin eru skjótvirk og önnur eru langvirk. Einnig eru til samsetningar af hvoru tveggja, skjót- og langvirkum insúlínum, í því augnmiði að hægt sé að ná sem bestri stjórn á blóðsykri. Einstaklingar með insúlínháða sykursýki þurfa að nota insúlín alla ævi.

Við sykursýki af tegund II eru notuð lyf til inntöku. Sum lyfin auka framleiðslu á insúlíni í briskirtli og hafa hugsanlega líka áhrif á insúlín í vefjum líkamans. Önnur örva losun insúlíns frá briskirtli, og um leið lækkar blóðsykurinn. Helsti galli þessara lyfja er sá að í stórum skömmtum geta þau valdið of mikilli lækkun á blóðsykri og þá gæti skapast alvarlegt ástand. Óreglulegar máltíðir, mikil áreynsla og áfengisneysla auka hættuna á þessu. Enn önnur lyf eru talin lækka blóðsykurinn og það gera þau með því að gera lifrar-, fitu- og vöðvafrumur næmar fyrir insúlíni. Með þessu eflast áhrif insúlíns á vefi líkamans, minni nýmyndun verður á sykri í lifur og dregur úr upptöku sykurs í þörmum. Þar sem lyfin auka ekki framleiðslu á insúlíni er lítil hætta á því að blóðsykur lækki of mikið.

Lyf til inntöku við sykursýki af tegund II eru því aðeins notuð hafi breytt mataræði ekki haft áhrif á gang sjúkdómsins. Sömu lyf virka ekki á insúlínháða sykursýki, eða sykursýki af tegund I.

A11 Vítamín

Mörg vítamín er hér að finna en alls ekki öll. Stundum bregður við að vítamín eru skráð sem lyf við skorti eða sjúkdómum sem hljótast af vítamínskorti. Framleiðsla og gæðaeftirlit þessara skráðra vítamína lýtur þá ætíð sömu reglum og framleiðsla annarra lyfja.

AD-vítamíndropar voru áður fáanlegir og þá ætlaðir ungabörnum til þess að fyrirbyggja skort á A- og D-vítamínum, en skortur á þeim getur orsakað beinkröm.Önnur D-vítamínlyf flokkast hér. Þau eru notuð við sjúkdómum sem koma til vegna truflana í kalkefnaskiptum, sem er talið stafa af of lítilli framleiðslu líkamans á D-vítamíni. Þessi lyf eru þó oftast gefin sjúklingum þegar önnur D-vítamínmeðferð hefur ekki borið nægan árangur, til dæmis hjá einstaklingum með mjög skerta nýrnastarfsemi.

A12 Steinefni

Þessum flokki tilheyra lyf sem innihalda málma sem eru notaðir í læknisfræðilegum tilgangi. Má þar nefna kalsíum, öðru nafni kalk, sem er gefið við kalsíumskorti. Skortur á kalsíum getur m.a. leitt til beinþynningar, en kalsíum er nauðsynlegt fyrir nýmyndun beina. Þá þykir nauðsynlegt fyrir þungaðar konur og konur með börn á brjósti að fá aukið kalsíum. Þeim nægir þó yfirleitt að fá það úr fæðu. Ostar og mjólk eru góð dæmi um kalkríkar fæðutegundir.

Annar málmur í þessum flokki er kalíum. Lyf sem innihalda kalíum eru gefin við hvers kyns kalíumskorti, en þó aðallega til að bæta upp kalíumtap hjá sjúklingum sem taka þvagræsilyf. Þess þarf að gæta vel að rugla ekki saman kalíum og kalsíum!

A13 Styrkjandi lyf

Sem stendur eru engin skráð sérlyf í þessum flokki.

A14 Vefaukandi lyf til inntöku eða inndælingar

Sem stendur eru engin skráð sérlyf í þessum flokki.

A15 Lystarörvandi lyf

Sem stendur eru engin skráð sérlyf í þessum flokki.

A16 Önnur meltingafæra- og efnaskiptalyf

Undir þennan flokk falla til dæmis ýmsar amínósýrur og hvatar (ensím). Eins og er finnast engin skráð sérlyf í þessum flokki.

Nýjungar

Miklar framfarir eru í þróun meltingarfæra- og efnaskiptalyfja. Í því sambandi mætti sérstaklega nefna sykursýkislyf og lyf við sársjúkdómi í maga og skeifugörn. Tilgangurinn með meðhöndlun á sykursýki er að reyna að nálgast verkun hins náttúrulega hormóns sem mest, fækka lyfjagjöfum og einfalda líf sykursýkisjúklinga. Sársjúkdómur í maga og skeifugörn er algengur kvilli sem margir vilja rekja til breyttra lifnaðarhátta þótt búið sé að komast að því að baktería eigi þátt í myndun á maga- og skeifugarnarsárum. Í dag er til blanda nokkurra lyfja, þ.á.m. lyfja úr þessum flokki, sem er notuð til þess að vinna bug á bakteríunni. Framtíðin mun ábyggilega bera ný lyf í skauti sér en hér hafa verið nefnd. Meðal nýrri lyfja í flokki meltingarfæra- og efnaskiptalyfja er lyf við offitu, en það vandamál fer sívaxandi í nútímaþjóðfélögum og væntanlega má búast við fleiri slíkum lyfjum í náinni framtíð.