H Hormónalyf, önnur en kynhormónar

Undir þennan flokk falla frekar fá lyf en margbreytileg. Öll eru þau hormón, önnur en kynhormón og insúlín, eins og heiti flokksins ber með sér.

H hormónalyf, önnur en kynhormónar

Undir þennan flokk falla frekar fá lyf en margbreytileg. Öll eru þau hormón, önnur en kynhormón, eins og heiti flokksins ber með sér.

Lýsing – hvers konar lyf tilheyra þessum flokki
Undir þennan flokk falla frekar fá lyf en margbreytileg. Öll eru þau hormón, önnur en kynhormón, eins og heiti flokksins ber með sér. Í sumum tilfellum eru lyfin hin sömu hormón og líkaminn býr til en líka framleidd hormón eins og til að mynda með hjálp erfðatækni. Ný hormón eru tvenns konar. Annars vegar eru hormón sem líkjast líkamshormónum, hins vegar önnur ólík líkamshormónum en gegna svipuðu hlutverki og þau fyrrnefndu. Ýmislegt fæst með því að þróa ný hormón, þau verða virkari, hæfari til inntöku, keppa við önnur hormón líkamans o.s.frv.

Hormón getur skort eða þau vantar með öllu í líkamann af ýmsum ástæðum, en stundum er líka um að ræða offramleiðslu á ákveðnum hormónum í líkamanum. Hormónaskort verður að bæta líkamanum upp og að sama skapi verður að koma í veg fyrir virkni hormónanna sé of mikið til af þeim.

Lyf flokkast hérna sem eru notuð við kvillum sem tengjast hormónum heiladinguls og undirstúku.

Önnur lyf í hormónalyfjaflokki, önnur en kynhormón, eru lyf sem notuð eru þegar um of- eða vanstarfsemi skjaldkirtils er að ræða, lyf sem verka á kalsíumjafnvægi líkamans, blóðsykurshækkandi lyf og barksterar. Notagildi barkstera er afar fjölbreytt og ásamt skjaldkirtilshormónum eru þeir í hópi algengustu hormónalyfja. Barkstera er einnig að finna í húðlyfjum (D), augnlyfjum (S) og öndunarfæralyfjum (R).

Flest hormónin eru gefin sem stungulyf en einstaka hormón er hægt að taka inn.

Saga
Skjaldkirtilshormónið týroxín er það lyf sem lengst hefur þekkst allra hormónalyfja en fyrir u.þ.b. 100 árum tókst að einangra týroxín úr skjaldkirtlinum. Lengi vel var skjaldkirtill úr sláturdýrum þurrkaður og muldur og duftið síðan notað til að meðhöndla vanstarfsemi í skjaldkirtli. Enn í dag þekkist það að vinna týroxín úr skjaldkirtli sláturdýra en það er líka framleitt á tilraunastofum.

Sífellt eru að bætast við ný lyf sem falla í þennan flokk hormónalyfja. Aukin þekking á hormónabúskap líkamans og erfðatækni gerir það kleift að hægt er að framleiða fleiri og kröftugri lyf til að meðhöndla æ fleiri sjúkdóma en fólki hafði nokkru sinni látið sig dreyma um áður. Á níunda áratugnum varð fyrsta barnið búið til með glasafrjóvgun. Síðan þá hefur stór flokkur lyfja sprottið upp samhliða tækni- og glasafrjóvgunum. Eftirspurn er mikil eftir nýjum og betri lyfjum, enda er ófrjósemi vaxandi vandamál í heiminum í dag. Nokkur þeirra lyfja flokkast hérna en flest teljast þau til flokksins þvag- og kynfæri og kynhormóna (G).

Verkunarmáti
Hormón eiga það eitt sameiginlegt að vera framleidd í kirtlum sem síðan seyta afurðum sínum, hormónunum, út í blóðið þar sem þau ferðast til annarra líkamshluta, bindast viðtökum, og hafa um leið áhrif á þá. Sum hormón virka á afmörkuðum svæðum í líkamanum, eins og í skjaldkirtli, kynkirtlum eða nýrum, sem önnur hafa víðtækari áhrif og verka í flestum vefjum líkamans, eins og t.d. barksterar. Ekki er hægt að lýsa einhverjum einum verkunarmáta lyfjanna í þessum flokki af því að þeir eru eins margvíslegir og lyfin eru mörg. Lyfin eiga nefnilega fátt annað sameiginlegt en að vera hormón. Sjúkdómarnir sem þau eru notuð við eru sömuleiðis eins margir og lyfin eru mörg. Mörg lyfjanna eru varasöm sé ekki haft eftirlit með sjúklingnum á meðan á lyfjameðferð stendur, og lyfin eru öll lyfseðilsskyld.

Flest lyfin sem eru í flokki H01, eða hormónar heiladinguls og undirstúku og hliðstæður þeirra, eru einungis útgefin og notuð undir handleiðslu sérfræðinga í viðkomandi greinum læknisfræðinnar.

Algengar aukaverkanir
Aukaverkanir lyfjanna eru afar misjafnar. Sumum fylgja afar vægar aukaverkanir og eru sjaldgæfar með ráðlögðum lyfjaskömmtum. Samfara öðrum lyfjum koma oft verri og alvarlegri aukaverkanir og þær eru algengar.

Sjá undirflokka.

Almennar leiðbeiningar um notkun
Lyfin geta reynst mjög viðkvæm og nauðsynlegt þykir að geyma þau við réttar aðstæður. Algengt er að lyfin séu viðkvæm fyrir hita og mörg þeirra geymast best í kæliskáp. Þegar nota þarf sprautur til að gefa lyf með þarf að gæta fyllsta hreinlætis og nota nýjar nálar til að minnka möguleika á sýkingarhættu. Sum lyf á að leysa upp og þá fær einstaklingur í hendur pakka sem hefur að geyma svokallaðan stungulyfsstofn, en það er lyfið frostþurrkað ásamt leysi. Til að blöndunin verði rétt er mikilvægt að lesa leiðbeiningar vel.

Hvað ber að varast
Mörg lyfin geta orðið varasöm ef ekki er haft nákvæmt eftirlit með sjúklingi á meðan á meðferð stendur. Alltaf skal fara að öllu eftir leiðbeiningum læknis, þetta gildir bæði um notkun lyfsins og skammtastærðir þess.

Undirflokkar

H01 Hormón heiladinguls og undirstúku og hliðstæður þeirra

Í undirstúku verða til ýmis hormón sem verka á heiladingul. Heiladingull skiptist í fram- og afturhluta og saman framleiða þeir alls níu mismunandi hormón. Með boðum frá hormónum í undirstúku losna hormónin, þau dreifast út í blóðið og virka á mismunandi staði í líkamanum. Víðtæk verkun fæst af hormónum úr heiladingli. Í kjölfar lyfjagjafar með slíkum hormónum fylgir þar af leiðandi mikil hætta á aukaverkunum sem sumar hverjar geta orðið alvarlegar. Af þessum sökum eru fæst hormónanna í þessum flokki notuð að staðaldri, heldur er um tímabundna meðferð að ræða.

Vaxtarhormón (Growth hormone) er framleitt í heiladingli og er nauðsynlegt börnum til að þau vaxi eðlilega, ásamt því sem hormónin hafa ævilangt áhrif á próteinmyndun og sykurbúskap líkamans. Sé skortur á hormóninu einhverra hluta vegna verður að bæta líkamann upp skortinn. Skortur á vaxtarhormóninu getur bæði komið fram hjá börnum og fullorðnum. Vaxtarhormón er einnig notað til að meðhöndla vaxtartruflun vegna Turner og Prader-Willi heilkenna, og líka við vaxtartruflun sem stafar af langvarandi skertri nýrnastarfsemi. Algengar aukaverkanir eru bjúgur, ofnæmi fyrir lyfinu og erting á stungustað, en vaxtarhormón verður að gefa sem stungulyf. Aukaverkanir af lyfinu geta orðið margar og alvarlegar. Blessunarlega eru þær fátíðar sé rétt farið með lyfið.

Byrji offramleiðsla vaxtarhormóns á fullorðinsárum verða hægfara breytingar á útliti sem kallast æsavöxtur (acromegaly). Við þetta stækka hendur, fætur, nef, augabrúnir, eyru og haka, húðin verður dökk og gróf og röddin rám. Lyf sem hindra myndun vaxtarhormóna eru sömuleiðis gagnleg við æsavexti, og sömu lyf eru líka notuð til að meðhöndla vissar tegundir krabbameins og innvortis blæðingu. 80% sjúklinga finna fyrir a.m.k. einni aukaverkun af lyfjunum, þar af koma 50% aukaverkana frá meltingarfærum og lýsa sér í niðurgangi, kviðverkjum og ógleði. Viðbrögð á stungustað geta komið fram eftir innspýtingu. Þær aukaverkanir verða yfirleitt vægar og skammvinnar.

Flóðmiga og ósjálfráð næturþvaglát koma til vegna truflana á hormónabúskap vasopressins. Afbrigði vasopressins eru gefin til að auka vökvaupptöku í nýrum í því skyni að draga úr þvagmyndun. Helstu aukaverkanir eru höfuðverkur, kviðverkir og ógleði. Meðferð með vasopressini er tiltölulega einföld sé miðað við meðferð með öðrum lyfjum þessa flokks. Hægt er að taka vasopressin í töfluformi og aukaverkanir verða ekki eins alvarlegar. Þá er hægt að nota vasopressin afbrigði til að meðhöndla blæðingar í vélinda af því að það dregur úr portæðarþrýstingi og veldur æðasamdrætti.

Oxytósín er hormón sem örvar losun á mjólk úr brjóstum þegar barn er lagt á brjóst, og það veldur líka samdrætti í legi. Hægt er að gefa oxytósín til að auðvelda brjóstagjöf, sömuleiðis til að hindra það að bólgur komi í brjóst vegna mjólkurstíflu. Lyfið er þá gefið með því að úða því í nef. En það er líka hægt að flýta fyrir eða koma af stað fæðingu með því að gefa oxýtósín í æð. Aukaverkanir af oxytósíni eru sjaldgæfar.

Gónadótrópín er losunarhormón (GnRH) og kemur úr undirstúku heila. Hlutverk þess er að losa LH og FSH hormón úr heiladingli. LH og FSH eru hormón sem stjórna þroskun eggja í eggjastokkum. Lyf sem líkjast GnRH eru notuð til að stýra egglosi við glasafrjóvgun, þau geta minnkað æxli í legi og eru notuð við legslímuvillu. Flestar aukaverkanir tengjast minnkaðri estrógenframleiðslu og koma fyrir hjá allt að 70-80% sjúklinga.

Lyf sem hindra myndun á gónadótrópínleysandi hormónum eru notuð við tæknifrjóvgun til að koma í veg fyrir ótímabært egglos. Þau eru notuð samhliða lyfjum sem örva þroska eggbúa. Þegar eggbúin hafa verið örvuð nægjanlega og þau orðin nógu þroskuð er hætt að gefa lyfið og þá verður egglos. Tæknifrjóvgunin er síðan framkvæmd um það leyti sem egglosið fer fram. Algengasta aukaverkunin er væg og skammvinn verkun á stungustað og getur lýst sér í hörundsroða, kláða og bólgu. Einstaka sinnum geta þó svokölluð eggjastokkaoförvunarheilkenni orðið, en það er eðlileg áhætta sem fylgir örvunaraðgerðinni.

H02 Barksterar til altækrar notkunar

Barksterar skiptast í sykurhrífandi og salthrífandi stera. Sykurhrífandi sterar eru miklu algengari en hinir, en þeir síðarnefndu eru nær eingöngu notaðir við einum sjúkdómi, Addison's sjúkdómi. Í Addison's sjúkdómi eyðileggjast nýrnahetturnar og þær verða vanmáttugar að gegna hlutverki sínu sem þeim er ætlað, að framleiða hormón, eða öðru nafni, barkstera. Oftast má leita orsaka sjúkdómsins til sjálfsofnæmis þar sem ónæmiskerfi líkamans ræðst á sínar eigin nýrnahettufrumur og skemmir þær. Kortisól heitir eitt hormónið sem nýrnahetturnar framleiða, afleiða þess er notuð við Addison's sjúkdómnum, en sjúkdóminn þarf að meðhöndla ævilangt. Þegar lyfið er notað í ráðlögðum skömmtum verður sjaldnast vart við aukaverkanir.

Sykurhrífandi sterar hafa mikið og fjölbreytt notagildi. Hérna flokkast þeir eftir því hvort þeir eru til innstungu eða eru teknir um munn. Sykurhrífandi sterar hafa ónæmisbælandi verkun með því að bæla myndun á efnum sem framkalla bólgur og virkja ónæmiskerfið. Þeir hafa almennt sömu áhrif og svokallaðir sykursterar sem myndast í nýrnaberki. Lyfin virka bólgueyðandi, kláðastillandi og ofnæmishemjandi. Ef hættuástand er um að ræða og verkun verður að koma tafarlaust t.d. við ofnæmislosti eða svæsnu astmakasti er gripið til stera til innstungu. Sterarnir eru líka notaðir eigi að ná fram verkun á afmörkuðu svæði eins og í lið. Hvers kyns ofnæmi er hægt að meðhöndla með sterunum, má þar nefna fæðuofnæmi, lyfjaofnæmi, sjálfsofnæmi og astma. Sjúkdómar, sem sterar eru notaðir við, eru margir. Hér má nefna bandvefssjúkdóma, eins og liðagigt og Lupus (Rauðir úlfar), ýmsar tegundir krabbameina, bólgur í ristli (Colitis ulcerosa), húð- og augnsjúkdóma. Þeir eru líka notaðir í ónæmisbælandi meðferð eftir líffæraflutninga og við krónískri lifrarbólgu svo að fá dæmi séu tekin. Í skammtímameðferð með barksterum er lítil hætta á aukaverkunum, líka þótt stórir skammtar séu notaðir. Tíðni aukaverkana eykst aftur á móti í langtímameðferð. Hinar helstu koma fram á æðakerfi, efnaskiptum, innkirtlum og stoðkerfi.

H03 Skjaldkirtilslyf

Skjaldkirtilslyf geta bæði verið gefin við ofstarfsemi og vanstarfsemi skjaldkirtils.

Sé um vanstarfsemi að ræða framleiðir skjaldkirtillinn ekki nægjanlegt týroxín. Týroxín er eitt fárra hormóna sem hægt er að taka inn í töfluformi, það er tekið inn einu sinni á dag og þykir því frekar auðvelt að meðhöndla vanstarfsemi í skjaldkirtli. Mikilvægt er að stilla vel skammta og það gæti tekið einhvern tíma. Týroxín til inntöku er einnig notað við stækkun á skjaldkirtli sem er með eðlilegum efnaskiptum, eða svonefndum euthyroid goiter. Lyfið er gefið í margs háttar tilgangi eins og eftirfarandi upptalning ber með sér: Til að fyrirbyggja bakslag eftir skurðaðgerðir vegna skjaldkirtilsstækkunar, sem bælingarmeðferð við krabbameini í kirtlinum, uppbótarmeðferð samtímis skjaldkirtilshamlandi lyfjum við ofstarfsemi og að hjálpa til við sjúkdómsgreiningu fyrir skjaldkirtilsbælandi próf. Með venjulegum skömmtum eru litlar líkur á aukaverkunum en séu skammtar mjög stórir, eða þeir séu auknir hratt í upphafi meðferðar, aukast líkur á aukaverkunum eins og frá hjarta- og miðtaugakerfi.

Sé um ofstarfsemi skjaldkirtils að ræða er oftast gerð aðgerð til að minnka kirtilinn eða notast við geislavirkt joð til að bæla starfsemi hans. Á meðan aðgerðar er beðið eða hún ekki framkvæmd, þarf að notast við lyf. Lyfið bælir starfsemi kirtilsins með því að draga úr upptöku á joði í kirtlinum og framleiðslu hans á forefni týroxíns. Með þessum hætti stuðlar lyfið að því að letja framleiðslu á skjaldkirtilshormónum og hægja á virkni kirtilsins um leið. Helstu aukaverkanir eru ofnæmi, hiti og liðverkir, sérstaklega í þumalfingri.

Hvort sem verið er að meðhöndla of- eða vanstarfsemi skjaldkirtils er nauðsynlegt að fylgjast með blóðþéttni týroxíns í líkamanum. Það er gert með því að fara reglulega í blóðprufu og láta mæla blóðþéttnina.

H04 Briskirtilshormón

lúkagon er framleitt í brisi, það berst síðan til lifrar með þeim afleiðingum að glúkósi losnar úr glúkósageymslum líkamans. Glúkagon er notað sem lyf, gefið í sprautuformi verði sykursjúkur einstaklingur, sem notar insúlín, fyrir alvarlegu blóðsykurfalli. Helstu orsakir blóðsykurfalls eru þær að insúlínið hefur verið rangt skammtað, máltíð sleppt eða meiri hreyfing er en venjulega. Við blóðsykurfall eykst hjartsláttur og svitamyndun, sjáöldur víkka, hegðunarbreytingar verða (einstaklingur virkar sem drukkinn) ásamt öðrum einkennum sem endar að lokum með meðvitundarleysi. Við gjöf glúkagons hækkar glúkósastyrkur í blóði og sjúklingur nær sér á nýjan leik. Alvarlegar aukaverkanir eru mjög sjaldgæfar, ógleði og uppköst gæti þó stundum komið fram. Glúkagon er líka hjálpartæki til að hindra hreyfingar hinna ýmsu líffæra og vöðva í sjúkdómsgreiningum eins og í röntgen- og sneiðmyndatökum og speglunum.

H05 Lyf sem verka á kalsíumjafnvægi líkamans

GKalsítónín er framleitt í skjaldkirtli og gegnir lykilhlutverki í efnaskiptum steinefna og beina. Kalsítónín hindrar beinvefsniðurbrot beinæta (osteoclasta), örvar beinmyndun beinkímfrumna (osteoblasta) og þetta tvennt verður til þess að kalsíum hverfur ekki eins mikið úr beinvef. Kalsítónín er notað við Pagetssjúkdómi, en hann er þrálátur beinsjúkdómur sem veldur því að eðlileg endurnýjun beina fer úr skorðum. Kalsítónín eykur líka nýrnaútskilnað kalsíums og fosfats. Hormónið er oft notað til að minnka kalsíummagn í blóði sem á það til að verða stundum of hátt ýmissa orsaka vegna. Aukaverkanir eru vægar og skammvinnar og koma fram sem ógleði og hugsanlega uppköst.