J Sýkingalyf

Lyf notuð við sýkingum af völdum baktería, sveppa og veira skipast í þennan flokk, ásamt bóluefnum og mótefnum.

J Sýkingalyf

Lyf notuð við sýkingum af völdum baktería, sveppa og veira skipast í þennan flokk, ásamt bóluefnum og mótefnum.

Lýsing – hvers konar lyf tilheyra þessum flokki
Lyf notuð við sýkingum af völdum baktería, sveppa og veira skipast í þennan flokk, ásamt bóluefnum og mótefnum. Þetta er stór lyfjaflokkur og hefur hvað almennasta notkun af því að allir lenda einhvern tíma í því á lífsleiðinni að þurfa að taka sýkingalyf af einhverju tagi.

Algengustu sýkingarvaldar eru veirur og bakteríur. Veirur eru smæstu lífverur sem þekkjast og sjást ekki með ljóssmásjá. Þær eru mjög einfaldar að gerð, eru í rauninni einungis erfðaefni hulin próteinhjúpi. Af þeim sökum eru þær háðar hýsli um orkuframleiðslu og myndun stórra sameinda. Það er því engin furða að lítið sé um lyf við þeim af því að þær hafa fátt sem hægt er að beita lyfjum gegn. Hérna væri hægt að taka kvef sem dæmi, en kvef er líklega algengast allra sýkinga og stafar oftast af völdum veira.

Bakteríur eru einfrumungar en þær eru fullkomnari en veirur að því leyti að þær eru ekki háðar hýsli til að fjölga sér. Þeim er flokkað eftir lögun í kokka og stafi, og líka eftir því hvort þær litist með Grams litun (litunaraðferð). Sveppir eru mjög fjölbreyttir að gerð. Fáir sveppir eru einfrumungar, flestir þeirra eru fjölfrumungar. Aðeins sveppir af einföldustu gerð sýkja menn.

Á húð okkar og í slímhúð finnast alltaf bakteríu- og sveppategundir, þetta er hluti af náttúrulegu flóru okkar og veldur ekki sýkingu nema við mjög afbrigðilegar aðstæður. Aðrar bakteríur og sveppir eru alltaf sjúkdómsvaldandi.

Saga
Til loka átjándu aldar var bólusótt mjög alvarlegur sjúkdómur og oftast banvænn. Þeir sem lifðu sjúkdóminn af urðu alsettir örum og bólum í andliti og oftar en ekki varanlega afskræmdir. Þegar bólusótt hafði herjað tvisvar á sama stað á einum mannsaldri uppgötvaðist að þeir sem höfðu veikst í fyrra skiptið urðu ekki veikir í hið seinna. Sama var uppi á teningnum með kúabólu; þeir sem höfðu veikst af kúabólu, sem er vægari sjúkdómur en bólusótt, urðu ónæmir fyrir hinni hættulegu bólusótt. 

Breskur læknir að nafni Edward Jenner notfærði sér þessa vitneskju árið 1796 þegar hann rispaði vessa sem innihéldu kúabólu í handlegg pilts nokkurs. Nokkrum vikum seinna reyndi hann að smita piltinn af bólusótt sem ekki tókst. Þar með varð fyrsta bólusetningin að veruleika.

Bólusótt geisaði á Íslandi árin 1707-1708 og létust þá 26% landsmanna og það sýnir glöggt hversu skæður sjúkdómurinn var. Nú hefur því verið lýst yfir af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni að bólusótt hafi verið útrýmt úr heiminum, þökk sé bólusetningum.

Seint á 19. öld fóru menn að gera sér grein fyrir því að örverur ollu sjúkdómum. Upp úr því hófst öflugt rannsóknarstarf til að reyna að finna lyf sem hægt væri að nota til að meðhöndla smitsjúkdóma. Súlfalyfin voru fyrstu sýklalyfin sem komu á markað, það fyrsta 1932, og olli það lyf byltingu við meðhöndlun á smitsjúkdómum. Á fyrsta hálfa árinu sem súlfalyf voru í notkun lækkaði dánartíðni vegna barnsfararsóttar úr 23% niður í 5%, og svipaða sögu var að segja af mörgum öðrum sjúkdómum. Í dag eru súlfalyfin lítið notuð og þá vegna ónæmis sem bakteríur hafa myndað gegn þeim, enda hafa önnur og betri lyf tekið við af þeim.

Verkunarmáti
Vegna mismunandi byggingar veira, baktería og sveppa virka ekki sömu lyfin á þessar örverur. Þó er hægt að fullyrða að verkun þeirra sé í grunnatriðum sú sama, að lyfin ráðist inn í stafsemi örverunnar og trufla hana. Sum lyfin hindra fjölgun örverunnar en önnur drepa hana. Stundum fer það eftir styrk lyfsins í blóði hvort verður, að örveran drepist eða hún hættir að fjölga sér.

Algengar aukaverkanir
Algengar aukaverkanir af sýkingalyfjum við bakteríusýkingum eru meltingaróþægindi, ógleði, uppköst og niðurgangur, og líka aukaverkanir frá húð, eins og útbrot og kláði. Með því að taka inn sýkingalyf erum við ekki aðeins að drepa óvelkomna sýkla, heldur líka að ganga á okkar eigin flóru. Ásköpuð flóra einstaklingsins reynist honum hjálparhella, t.d. í meltingarvegi þar sem hún hjálpar til við að melta fæðuna og vernda meltingarfærin. Af þessum sökum er algengt að sýkingalyf hafi aukaverkanir í meltingarvegi. Hægt væri að draga úr þessari hættu með því að neyta lifandi mjólkursýrugerla, oft kallaðir góðgerlar. Þeir fást meðal annars í hylkjum og dufti en finnast einnig í ýmsum mjólkurvörum. Gerlana er best að neyta um tveimur klukkustundum fyrir eða eftir inntöku á sýkingalyfinu svo að sýkingalyfið sjálft drepi ekki góðu gerlana. Góðgerlar sem er í lagi að taka samtímis sýkingalyfjum hefur einnig verið fáanlegir.

Eldri sýkla- og sveppalyf, og þau sem eru notuð á sjúkrahúsum við erfiðari sýkingum, hafa oft fleiri og verri aukaverkanir en nýrri lyfin hafa.
Veirur nota frumur líkamans sem hýsil og í flestum tilfellum þurfa veirulyfin að fara inn í líkamsfrumurnar til að hafa áhrif. Af þessum sökum eru aukaverkanir af völdum veirulyfja oft tíðari og alvarlegri en af öðrum sýkingalyfjum.

Sjá undirflokka.

Almennar leiðbeiningar um notkun
Sýklalyfjaónæmi er ein af helstu alheims lýðheilsuógnum nútímans. Til að minnka hættu á því að lyfin myndi ónæmi er ráðlagt að taka lyfin eins og læknir ráðleggur og alltaf ljúka við skammtinn sem læknir hefur ávísað. Auk þess,sé hætt of snemma á lyfjakúrnum, gæti sýkingin blossað upp á ný og orðið mun erfiðari viðureignar en áður.

Ekki er ráðlagt að taka inn sýklalyf sem ávísað hefur verið á annan einstakling eða að neyta lyfs sem er til uppi í skáp. Greining læknis verður að liggja fyrir áður en meðferð með sýkingalyfjum hefst vegna þess að það þarf að velja rétt sýkingalyf sem virkar á sýkilinn sem er að valda sýkingunni.

Best er að dreifa skömmtum jafnt yfir sólarhringinn, t.d. ef taka á lyfið þrisvar á sólarhring eiga að líða 8 tímar á milli lyfjagjafa. Þetta er gert til þess að það fáist sem bestur árangur.

Mixtúrur koma oft í duftformi og þá er duftið leyst upp í vatni í apótekinu við afgreiðslu lyfsins. Við það skerðist geymsluþol lyfsins og verður oft 1-2 vikur í stað miklu lengri tíma, og þá gæti reynst nauðsynlegt að geyma mixtúruna í kæli. 

Athugið að upplýsingar um geymsluskilyrði og breytta fyrningu fylgir jafnan lyfinu.

Hvað ber að varast
Nokkuð algengt er að sýklalyf valdi ofnæmisviðbrögðum. Gerist það á viðkomandi ekki að nota lyfið aftur til að varna ofnæmislosti sem annars er hætta á að komi. Sé ofnæmi fyrir einu sýklalyfi af ákveðinni gerð skal forðast önnur sýklalyf í sama flokki. Einnig er oft krossofnæmi við aðra flokka sem þarf að taka til greina þegar lyf er gefið. Hafa ber í huga að fæða og ákveðin lyf geta haft áhrif á frásog einstakra sýklalyfja úr maga yfir í blóð. Þetta getur haft umtalsverð áhrif á virkni lyfjanna. Leiðbeiningar um hvort lyfið skal tekið inn með fæðu eða ekki er að finna í fylgiseðil lyfjanna.

Undirflokkar

J01 Bakteríulyf til altækrar notkunar

Bakteríulyf eru notuð til að meðhöndla bakteríusýkingar og til að fyrirbyggja sýkingar þegar sýkingarhætta er fyrir hendi. Þegar lyf er valið þarf að huga að því hvers konar bakteríur eru að sýkja og hvar sýkingin er staðsett. Lyfið þarf að komast í nægum styrk á sýkingarstaðinn og vinna vel á bakteríunni. Bakteríulyf eru mis breiðvirk, en það þýðir það að sum hafi áhrif á fáar bakteríur og önnur virka á margar tegundir. Eftir þessu eru bakteríulyf flokkuð í undirflokka þar sem hver hefur að geyma náskyld lyf og eru hverjir með sína sérstöðu. Sum bakteríulyf er hægt að gefa saman til að ná fram sterkari verkun og önnur má ekki gefa saman af því að þau draga hvert úr virkni hvors annars.

Verkunarmáti lyfjanna er misjafn og fer það eftir eðli bakteríunnar hvar best er að koma höggstað á hana. Lyfin hafa víða áhrif eins og á frumuveggi, frumuhimnu, kjarnsýrusamtengingu, próteinmyndun og frumuskiptingu bakteríunnar. Ástand sjúklings þarf að taka með í reikninginn þegar lyf er valið handa honum. Sé varnarmáttur líkamans í lagi þá er nóg að stöðva vöxt bakteríunnar en sé svo ekki er nauðsynlegt að drepa bakteríuna.

Sýklalyfjaónæmi er vaxandi vandamál meðal okkar og til að stemma stigu við því er æ mikilvægara að vanda val á lyfjum og nota þau aðeins þegar þurfa þykir. Notkun á bakteríulyfjum er mikil og fer sífellt vaxandi, en hún er líka oft á tíðum röng. Ef vel ætti að vera þyrfti áður en meðhöndlun hefst að taka sýni úr einstaklingnum, rækta það og komast að því hvaða baktería það er sem er að sýkja hann svo að hægt sé að velja rétta lyfið strax handa honum. Þegar fyrstu bakteríulyfin komu á markað þekktist lyfjaónæmi ekki, en það breyttist á skömmum tíma af því að bakteríurnar urðu svo fljótar að aðlagast og stökkbreytast, og þar með hættu lyfin að virka.

Þá þarf líka að huga að öðru mikilvægu, en það er að ljúka við skammtinn af bakteríulyfinu sem læknir ávísar. Sjúklingur gæti verið orðinn einkennalaus eftir 2-3 daga á sýklalyfjum en samt ennþá haft undirliggjandi sýkingu sem blossaði upp þegar töku lyfjanna hætti. Að hætta of snemma á lyfjunum hvetur líka til þess að ónæmir stofnar baktería myndist. Nokkrir stofnar vissra baktería eru nefnilega við það að mynda ónæmi gegn öllum sýklalyfjum og þess vegna gæti það orðið mjög erfitt að eiga við slíkar sýkingar. Lyfin sem ennþá vinna á þessum bakteríum er þó verið að reyna að nota dugi ekki önnur lyf.

Form bakteríulyfja er margs konar. Á sjúkrahúsum er oft verið að meðhöndla bráðar og erfiðar sýkingar og til þess að lyfin verki skjótar eru sýklalyfin oft gefin í æð. Sum sýklalyfjanna þola ekki að fara um meltingarveginn og það eitt gæti takmarkað notagildi þeirra við sjúkrahúsin. Oftast eru þó sýklalyf tekin inn í töfluformi, en fyrir börn og þá sem ekki geta tekið inn töflur, eru mörg lyfjanna til sem mixtúrur.

Aukaverkanir af völdum sýklalyfjanna, sem núna eru algengust, eru tiltölulega vægar og alvarlegar aukaverkanir eru furðu fátíðar. Hinar algengustu eru tengdar meltingarfærum, s.s. ógleði, uppköst og niðurgangur. Stundum tekst að draga úr aukaverkunum með því að taka lyfin inn samtímis fæðu. Ofnæmi fyrir lyfjunum er vel þekkt. Sjúklingur gæti fengið ofnæmislost sé honum gefið sýklalyf sem hann hefur ofnæmi fyrir. Húðerting og útbrot eru líka algeng.

J02 Sveppasýkingalyf til altækrar notkunar

Sýkingar af völdum sveppa eru margvíslegar og geta sumar hverjar orðið afar alvarlegar og erfiðar viðureignar. Algengast er að sveppir sýki í húð, nöglum og kynfærum. Meðferð við þessu er tiltölulega einföld þótt stundum taki það langan tíma að losna við sýkinguna. Sveppalyf við þessum sýkingum flokkast með öðrum flokkum, sjá G-Þvag- og kynfæri og kynhormón og D-Húðlyf.

Hérna flokkast sveppalyf sem eru gefin við alvarlegri og dýpri sýkingum. Djúpar sýkingar eru þær nefndar sem grafa um sig í miðtaugakerfi, öndunarvegi, hjarta, þvagfærum, liðum og beinum, kviðarholslíffærum, æðakerfi og augum.

Algengustu sveppalyfin hafa yfirleitt mjög sérhæfð áhrif á sveppi en ekki menn og þar af leiðandi eru ekki miklar eða alvarlegar aukaverkanir með þeim. Lyfin koma í veg fyrir það að efni myndist sem nauðsynleg eru til að frumuveggur sveppsins sé í lagi. Vanti þessi efni lekur frumuveggurinn og það veldur dauða hjá sveppnum. Flest sveppalyfjanna eru breiðvirk og virka á flestar sveppategundir sem sýkja. Eitthvað er um það að sveppir myndi ónæmi gegn lyfjunum en þó er það ekki eins algengt og lyfjaónæmi hjá bakteríum. Komi til þessa gæti reynst nauðsynlegt að grípa til annarra og óalgengari lyfja en þeirra sem hafa verið gefin. Þessi lyf gera aftur á móti ekki greinarmun á milli manna- og sveppafrumna og hafa því mun fleiri aukaverkanir í för með sér en hin algengari hafa.

Helstu aukaverkanir sem sveppalyfjum fylgir koma fram í maga. Þar mætti nefna niðurgang, ógleði og kviðverki. Einnig getur höfuðverkur fylgt. Aukaverkanir eru sjaldnast það miklar að hætta verður töku lyfjanna þeirra vegna.

Algengt er að sveppalyf milliverki við önnur lyf og í ljósi þeirrar vitneskju er brýnt að taka tillit til þess þegar lyfjameðferð er valin.

J04 Lyf gegn mýkóbakteríum

Berklabaktería þessi er af Mýkóbakteríu tegund sem segir að lyf við berklum flokkist hérna. Sum berklalyf virka einnig á aðrar bakteríur og af þeim sökum er stundum gripið til þeirra hafi greinst lyfjaónæmi fyrir hefðbundnari lyfjum.

Lyfin hamla myndun á kjarnsýrum sem aftur dregur úr fjölgun á bakteríunni. Alltaf verður þó að gefa fleiri en eitt berklalyf því að bakteríurnar geta orðið fljótar að mynda ónæmi fyrir lyfjunum. Hversu mikið ónæmi berklabakteríurnar mynda fyrir lyfjum er vaxandi vandamál. Bakteríustofnar hafa til að mynda komið fram í Rússlandi og öðrum austantjaldslöndum sem eru allsendis ónæmir fyrir öllum lyfjum. Til að draga úr líkunum á ónæmi er brugðist við með því að gefa alltaf fleiri en eitt lyf, og líka að reyna að nota lyf sem sjúklingnum hefur ekki verið gefið áður. Lyfjameðferð má heldur ekki hætta of snemma af því að sterkustu bakteríurnar lifa lengst og gætu náð að mynda ónæmi fyrir lyfinu. Meðferð við berklum getur tekið langan tíma enda eru berklar langvarandi sjúkdómur.

Algengustu aukaverkanir eru frá meltingarfærum og húð. Þá er algengt að berklalyf milliverki við önnur lyf og til þess þarf að taka tillit til þegar meðferð hefst.

J05 Veirulyf til altækrar notkunar

Bólusetning er aðalvopnið á móti veirusýkingum því að hingað til hefur ekki verið um auðugan garð að gresja þegar kemur að lyfjum til að meðhöndla þær. Þetta hefur þó breyst mikið eins og sést á mörgum lyfjum sem hafa verið skráð hérlendis síðustu ár. Stór aukning í meðferðarúrræðum fyrir HIV smitaða einstaklinga á stóran þátt í því hversu mjög hefur bæst í hóp skráðra veirulyfja. Horfur smitaðra hafa aldrei verið bjartari en nú enda hefur tekist að hægja mjög á framgangi sjúkdómsins.

Þegar veirur hafa einu sinni sýkt eru þær ætíð til staðar í líkamanum, þær liggja oft í dvala í taugafrumum og sú hætta er alltaf fyrir hendi að sýkingin geti tekið sig aftur upp hvenær sem er. Til að halda sumum veirusýkingum niðri, eins og HIV veirunni, reynist nauðsynlegt að taka lyfin að staðaldri. Lyfin, sem eru hérna á markaði, utan HIV lyfja, eru notuð við sýkingum vegna Herpestegunda og Cytomegaloveira. Það er áherslumunur frekar en stigsmunur á milli lyfjanna, enda virka þau flest á svipaðan hátt.

Á síðustu árum hefur enn einn nýr flokkur orðið til með tilkomu lyfja við inflúensu. Þetta eru lyf sem þarf að byrja að taka innan 48 klst. frá því að einkenna verður vart, og það er líka hægt að taka þau fyrirbyggjandi eftir að hafa umgengist sjúkling, smitaðan af inflúensu.

Veirulyfin virka hvert á sinn hátt, oft hafa þau áhrif á kjarnsýrumyndun veirunnar með þeim hætti að hún nær ekki að fjölga sér eðlilega, eða þá að þau hindra dreifingu veirunnar inn í líkamsfrumur.

Aukaverkanir eru all tíðar, sérstaklega af lyfjum við HIV og lyfjum sem notuð eru á sjúkrahúsum í erfiðari tilfellum. Algengt er að veirulyf hafi áhrif á blóð, æðakerfi, meltingarveg, húð, lifur og miðtaugakerfi, og geta aukaverkanirnar orðið alvarlegar og mjög óþægilegar fyrir sjúkling. Lyf við inflúensu hafa sjaldan aukaverkanir í för með sér.

J06 Ónæmissermi og immúnóglóbúlín

Passífar ónæmisaðgerðir kallast það þegar fólki er gefið immúnóglóbúlín (mótefni) eða ónæmissermi. Aðferðin felst í því að mótefni eru unnin úr mannsblóði og gefin til varnar ýmsum sjúkdómum. Ónæmiskerfi líkamans virkjast þó ekki með þessu móti svo að þessi aðferð veitir aðeins skammtíma vernd, oft um 4-6 mánuði.

Þegar lyfin eru framleidd úr blóði eða plasma manna, er ekki algjörlega hægt að útiloka það að sýkingar berist með þeim. Til að draga úr hættunni á því að smit berist verður val á blóðgjöfum og blóðtökum að samræmst viðurkenndum reglum. Leita ætti allra leiða í framleiðslunni að viðhafa aðferðir sem útrýma eða gera sjúkdómsvalda óvirka.

Ónæmissermi þekkist ekki hér á landi, en nokkur lyf eru á skrá sem innihalda mótefni. Mótefni eru notuð við mótefnaskorti, sem eru annað hvort áunnin eða meðfædd og gefin við blóðflagnafæð svo og við ýmsum heilkennum. Sértækt mótefni er til fyrir lifrarbólgu A ætlað þeim sem hyggja á ferðalög til svæða þar sem hún er landlæg. Mótefnið er líka notað til að draga úr hættu á því að sýkill taki sér bólfestu hafi smit mögulega átt sér stað. Aukaverkanir gætu látið á sér kræla og lýsa sér í eymslum á stungustað, hrolli, vöðvaverkjum, höfuðverk, ógleði og hita.

J07 Bóluefni

Aktívar ónæmisaðgerðir kallast þessar venjulegu bólusetningar sem flestir þekkja til. Gefinn er skammtur af veiru eða bakteríu til að virkja ónæmiskerfið, í þeim tilgangi að framleiða mótefni fyrir viðkomandi smitsjúkdómi. Til er ýmist lifandi eða dautt bóluefni. Lifandi bóluefni eru örverur með lífsmarki en hafa verið veiklaðar með ýmsu móti og geta aldrei orðið nógu kröftugar til að valda sýkingu. Dautt bóluefni samanstendur af dauðum örverum, eða brotum af þeim, og þær geta hins vegar virkjað ónæmiskerfið til mótefnaframleiðslu. Hversu langa vörn bóluefnið veitir fer eftir sjúkdómum. Sum veita vörn í nokkur ár og önnur ævilanga.

Bólusetningum er beitt kerfisbundið hér á landi og ákveðnar vinnureglur í heiðri hafðar við að bólusetja börn, en bólusetningum lýkur um 14 ára aldur. Skipulögðum bólusetningum fullorðinna er ekki til að dreifa en fólki er eindregið ráðlagt að láta bólusetja sig reglulega fyrir ákveðnum sjúkdómum. Ferðalög á framandi slóðir kalla sömuleiðis á bólusetningar.

Börn eru bólusett fyrir kíghósta, barnaveiki, stífkrampa, mænusótt, Meningókokkum C, rauðum hundum, mislingum, hettusótt og Haemophilus inflúensu B. Meningókokkar og Haemophilus inflúensa B geta meðal annars valdið heilahimnubólgu og öðrum alvarlegum sýkingum.

Mikilvægt er að bólusetja þá sem eru veikir fyrir eins og aldraða og þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma er bæla ónæmiskerfið. Sýking sem heilbrigður einstaklingur ræður vel við, eins og t.d. inflúensa, gæti orðið banvæn ef ónæmisbældur eða aldraður einstaklingur ætti í hlut.

Algengar aukaverkanir bólusetninga eru vægar. Þar mætti nefna sem dæmi hita, roða, óværð og útbrot. Alvarlegar aukaverkanir eru mjög sjaldgæfar, en þær koma þó fyrir í einstaka tilfellum og geta leitt til dauða. Hættan af alvarlegum aukaverkunum vegur þó alltaf minna en hættan af sjúkdómunum sem verið er að bólusetja fyrir.

Mikil gróska er í þróun bóluefna. Ekki er látið nægja að horfa til mikilvægis bóluefnanna að koma í veg fyrir sjúkdóma, heldur líka til að meðhöndla sjúkdóma eins og t.d. krabbamein, MS sjúkdóm, eiturlyfjafíkn og sykursýki. Tíminn mun síðan leiða í ljós hvort og hversu fljótt bólusetningar af þessu tagi koma á markað.