L Æxlishemjandi lyf og lyf til ónæmis­bælingar eða ónæmis­temprunar

Hér flokkast æxlishemjandi lyf, lyf til ónæmisbælingar og lyf sem örva ónæmiskerfið.

L Æxlishemjandi lyf og lyf til ónæmisbælingar eða ónæmistemprunar

Hér flokkast æxlishemjandi lyf, lyf til ónæmisbælingar og lyf sem örva ónæmiskerfið.

Lýsing – hvers konar lyf tilheyra þessum flokki
Hér flokkast æxlishemjandi lyf, lyf til ónæmisbælingar og lyf sem örva ónæmiskerfið. Flest lyfin í þessum lyfjaflokki tilheyra þó flokki æxlishemjandi lyfja.

Æxli geta annað hvort verið góðkynja eða illkynja. Góðkynja æxli geta verið fjarlægð með skurðaðgerð og ekki þarf að koma til frekari meðferðar, eða þau eru meðhöndluð með lyfjum. Illkynja æxli þarf að fjarlægja með skurðaðgerð, geislun og/eða lyfjameðferð. Góðkynja æxli samanstendur af frumum, áþekkar frumunum í vefnum sem æxlið er vaxið frá og starfa eins og þær. Frumurnar vaxa frekar hægt og dreifast ekki til annarra líffæra. Illkynja æxli er andstæða hins góðkynja æxlis. Frumurnar sem það myndar eru harla ólíkar frumum líffærisins sem æxlið vex í og þær fjölga sér hratt og stjórnlaust. Frumurnar dreifast til annarra líffæra og mynda meinvörp eftir ýmsum leiðum. Æxli kallast ekki krabbamein nema það sé illkynja. Illkynja æxli eru misalvarleg og dánartíðni af völdum þeirra er mjög breytileg. Hæstu dánartíðni hefur lungnakrabbamein. Reykingar er helsti áhættuþáttur krabbameinsins.

Saga
Lyfjameðferð við krabbameini er að verða æ mikilvægari og það skýrist af sífellt hærri tíðni krabbameina í heiminum. Flestir krabbameinssjúklingar ganga núna í gegnum lyfjameðferð, ólíkt því sem áður tíðkaðist af því að þá var skurðaðgerð helsta meðferðin sem völ var á við krabbameini. Með aukinni þekkingu á líffræðilegum eiginleikum krabbameinsæxla, og á starfsemi frumna almennt, er mönnum kleift að búa til sértækari og betri lyf en nokkru sinni þekktust áður.

Eituráhrifum sinnepsgass á dýr var fyrst lýst á 19. öld. Sú uppgötvun leiddi til þess að sinnepsgas var notað í efnahernaði í Heimsstyrjöldinni fyrri, og þá vegna ertandi áhrifa þess á húð, augu og öndunarveg. Það var samt ekki fyrr en þá að menn uppgötvuðu almennilega eituráhrif þess á líkamann, eins og ónæmisbælingar áhrif og áhrif gassins á meltingarveg. Á millistríðsárunum var mikil rannsóknarvinna unnin og mörg afbrigði sinnepsgasa þróuð sem endaði með því að sum lyfin voru reynd í klínískum prófunum um 1940. Útkoman markaði upphaf lyfjameðferðar gegn krabbameini og enn þann dag í dag eru nokkur afbrigði sinnepsgass í notkun. Um miðja síðustu öld komst síðan þróun nýrra krabbameinslyfja á skrið og mörg lyf litu dagsins ljós.

Verkunarmáti
Eðlilegar frumur og krabbameinsfrumur eru næstum því eins, það sem skilur þær á milli er það hversu hratt þær skipta sér. Frumuskiptingu er flokkað í nokkra fasa, sum æxlishemjandi lyf virka sérhæft á frumur í einum fasa sem önnur virka á frumurnar í öllum fösum. Lyf með sérhæfða verkun á einn fasa virka nokkuð sérhæft á frumur sem skipta sér hratt. Aftur á móti skiptir það ekki máli fyrir lyf með verkun á frumur í öllum fösum, þau virka líka á frumur sem skipta sér títt. Með tilliti til þessa ættu sérhæfðu lyfin því að hafa frekar áhrif á krabbameinsfrumur og þar af leiðandi að hafa ekki eins miklar aukaverkanir í för með sér og lyfin sem ekki virka sérhæft.

Sum illkynja mein eru háð hormónum og á yfirborði meinanna eru sérstakir hormónaviðtakar. Æxlishemjandi lyf sem eru notuð við hormónaháðum krabbameinum eru sérhæfðari en önnur æxlishemjandi lyf og hafa ekki eins almenna verkun.

Ónæmisörvandi lyf eru oft gefin með æxlishemjandi lyfjum til að minnka líkur á aukaverkunum af því að æxlishemjandi lyfin drepa frumur ónæmiskerfisins rétt eins og aðrar frumur líkamans.

Ónæmisbæling þjónar þeim tilgangi að minnka svörun ónæmiskerfisins þegar það starfar ekki rétt, eða til að koma í veg fyrir að líffæri hafnar ígræðslu við líffæraígræðslu.

Sjá undirflokka.

Algengar aukaverkanir
Eðlilegar frumur og krabbameinsfrumur eru næstum því eins, það sem skilur þær á milli er það hversu hratt þær skipta sér. Frumuskiptingu er flokkað í nokkra fasa, sum æxlishemjandi lyf virka sérhæft á frumur í einum fasa sem önnur virka á frumurnar í öllum fösum. Lyf með sérhæfða verkun á einn fasa virka nokkuð sérhæft á frumur sem skipta sér hratt. Aftur á móti skiptir það ekki máli fyrir lyf með verkun á frumur í öllum fösum, þau virka líka á frumur sem skipta sér títt. Með tilliti til þessa ættu sérhæfðu lyfin því að hafa frekar áhrif á krabbameinsfrumur og þar af leiðandi að hafa ekki eins miklar aukaverkanir í för með sér og lyfin sem ekki virka sérhæft.

Sum illkynja mein eru háð hormónum og á yfirborði meinanna eru sérstakir hormónaviðtakar. Æxlishemjandi lyf sem eru notuð við hormónaháðum krabbameinum eru sérhæfðari en önnur æxlishemjandi lyf og hafa ekki eins almenna verkun.

Ónæmisörvandi lyf eru oft gefin með æxlishemjandi lyfjum til að minnka líkur á aukaverkunum af því að æxlishemjandi lyfin drepa frumur ónæmiskerfisins rétt eins og aðrar frumur líkamans.

Ónæmisbæling þjónar þeim tilgangi að minnka svörun ónæmiskerfisins þegar það starfar ekki rétt, eða til að koma í veg fyrir að líffæri hafnar ígræðslu við líffæraígræðslu.

Sjá undirflokka.

Almennar leiðbeiningar um notkun
Flest æxlishemjandi lyf eru stungulyf og eingöngu ætluð til notkunar á sjúkrahúsum. Þau eru mjög vandmeðfarin og það er aðeins á færi sérþjálfaðs starfsfólks að gefa þau og meðhöndla. Reglulega þarf að fylgjast með fjölda hvítra blóðkorna af því að líf sjúklings gæti verið í hættu fari þau niður fyrir ákveðin mörk.

Meðferð með æxlishemjandi lyfjum gæti leitt til ófrjósemis og kanna ætti möguleika á því að frysta sæði eða egg áður en meðferðin hefst.

Lyfin í þessum flokki geta öll orðið hættuleg heilsu manna séu þau ekki tekin rétt og leiðbeiningum lækna ætti alltaf að fylgja til hins ýtrasta.

Hvað ber að varast
Bæði karlar og konur verða að nota örugga getnaðarvörn meðan á meðferð með æxlishemjandi lyfjum stendur, og í a.m.k. í 3-6 mánuði eftir að henni lýkur því að lyfin valda flest fósturskaða. Á þessu tímabili eru sjúklingar móttækilegri fyrir sýkingum og ættu að forðast umgang við þá sem eru smitberar.

Undirflokkar

L01 Æxlishemjandi lyf

Æxlishemjandi lyf, einnig kölluð krabbameinslyf, eru mörg og hafa misjafna virkni. Flest þeirra eru eingöngu notuð á sjúkrahúsum þar sem þau eru gefin sjúklingi með vissu millibili yfir ákveðið tímabil. Mjög misjafnt er eftir sjúkdómstilfellum og lyfjum hversu langt líður á milli gjafa og hve lengi meðferðin varir. Sumar meðferðir byrja með gjöf, stungu- eða innrennslislyfi í æð, vöðva, mænugöng eða þvagblöðru, en viðhaldsmeðferð með töflum er í framhaldi af því. Oft eru fleiri en eitt lyf notuð samtímis eða þá að geislameðferð eða skurðaðgerð er beitt samhliða lyfjagjöf.

Verkunarmáti lyfjanna verður að vera þekktur þegar beita á fjöllyfjameðferð. Velja þarf saman lyf hvert með sinn verkunarmáta til þess að virkni þeirra leggist saman og þau vinni ekki hvert á móti öðru. Með því að beita fjöllyfjameðferð fæst betri og kröftugri meðhöndlun. Í meðferð þarf einnig að taka tillit til þess í hvaða ástandi sjúklingur er og hvaða úrræði á stuðningsmeðferð eru tiltæk sem verja sjúklinginn gegn eitrunaráhrifum krabbameinslyfjanna. Eins og við er að búast eru sjúklingar í lélegu líkamsástandi lengur að taka við sér og þeim er hættara við aukaverkunum eins og hita og sýkingu. Líkamsástand skiptir því máli enda reynist stundum nauðsynlegt að kanna hjarta-, lifrar- og nýrnastarfsemi áður en lyfjameðferð er valin og það að starfsemi lungna sé eðlileg. Lyfjaskammtar eru annað hvort ákveðnir út frá líkamsyfirborði eða þyngd.

Æxlishemjandi lyfjum má skipta í nokkra undirflokka eftir verkunarmáta lyfjanna. Markmið lyfjanna er þó hið sama, að koma í veg fyrir frumuskiptingu í æxlinu og þar með dreifingu krabbameinsins. Alkylerandi efni alkylera, eða breyta, erfðaefninu DNA, þ.e. ákveðinn hluti af lyfinu tengist við DNA, sem við þessa breytingu getur ekki afritast og vöxtur frumunnar stöðvast. Andmetabólítar hafa áhrif á ensím sem fruman nýtir sér við gerð núkleotíða (byggingareiningar erfðaefnanna DNA og RNA) og tengingu þeirra í DNA og RNA. Jurtaalkalóíðar eru lyf unnin úr plöntum sem hafa áhrif á örpíplur frumnanna og hemja með því frumuskiptingu. Platínu-sambönd hafa nánast sama verkunarmáta og alkylerandi efni. Antracýklín og skyld efni skjóta sér inn í DNA og brengla lögun þess. Afleiðingar þessa innskots eru verulegar truflanir á myndun DNA, myndun RNA fyrir tilstilli DNA og myndun próteina. Flokkar æxlishemjandi lyfja eru fleiri, hér hefur aðeins verið fjallað um þá helstu.

Aukaverkanir krabbameinslyfja eru að mestu þær sömu fyrir öll lyfin þótt sum lyfin hafi hærra hlutfall aukaverkana en önnur. Mest áhrif hafa lyfin á frumur sem skipta sér hratt, eins og hárfrumur, beinmerg og frumur í meltingarvegi. Hármissir er mjög oft fylgikvilli meðferðar ásamt ónotum í meltingarvegi sem koma fram í meltingartruflunum, velgju, niðurgangi og uppsölu. Sár gróa hægar. Ógrynni af þvagsýru losnar þegar frumurnar deyja og getur það orsakað þvagsýrugigt. Ónæmiskerfið bælist út af hægari frumuskiptingu í merg og því fylgir aukin smithætta. Þá geta lyfin valdið ófrjósemi og fósturskemmdum og ráðlegt er að nota getnaðarvörn meðan á meðferð stendur.

L02 Innkirtlalyf

Krabbamein í blöðruhálskirtli og brjósta- og legkrabbamein kvenna eru oft hormónaháð. Það þýðir að til þess að krabbameinsfrumurnar vaxi og fjölgi sér þurfi þær karlhormón (testósterón) sé krabbameinið í blöðruhálskirtli eða kvenhormón (östrógen) sé það í brjóstum eða legi.

Lyf með verkun á innkirtla eru oftast notuð í framhaldi af sprautu- eða geislameðferð, og er það langtímameðferð. Verkun lyfja miðast að því að draga úr magni eða virkni kynhormónanna til að koma í veg fyrir stækkun á hormónaháðum æxlum. Gónatótrópín RH lík efni örva seytingu testósteróns til að byrja með en með tímanum lækka testósteróngildin og verða eins og eftir brottnám eistna. Tímabundin aukning testósteróns í sermi á fyrstu viku meðferðarinnar getur valdið auknum sjúkdómseinkennum. Það má koma í veg fyrir þau með því að gefa and-andrógen með lyfinu í upphafi meðferðar.

And-östrógenar og and-andrógenar (testósterón er andrógen) keppast um að bindast viðtökum östrógens og testósteróns. Eftir að hafa bundist viðtökunum blokka þau fyrir kynhormónin sem ná þar með ekki að virka og miðla áhrifum sínum á frumuna.

Að loknum tíðahvörfum kvenna myndast östrógen aðallega vegna verkunar ensíms sem breytir andrógenum í östrógen. Lyf sem kallast hvatahemlar sjá um að bæla þessa myndun östrógens með því að gera ensímið sem til þarf óvirkt. Með þessum hætti er myndun östrógena bæld í brjóstvef og sjálfu krabbameinsæxlinu hjá konum sem komnar eru yfir tíðahvörf.

Aukaverkanir sem konur finna fyrir bera vott um östrógenskort, líkt og við tíðahvörf. Má þar nefna hitakóf, sársauka við samfarir vegna þurrks í fæðingarvegi, blettablæðingar, þyngdaraukningu, liðverki, höfuðverk, þreytu, tilfinningalegt ójafnvægi og svefntruflanir. Karlar finna helst fyrir hitakófum og andlitsroða. Kynhvöt og kyngeta minnkar, spenna myndast í brjóstum og þau stækka. Stundum fylgir mjólkurflæði úr brjóstum.

L03 Ónæmisörvandi lyf

Þættir til örvunar ónæmiskerfisins eru notaðir fyrirbyggjandi gegn sýkingum eftir eða samfara krabbameinsmeðferð. Hlutverk hvítra blóðkorna er að verja líkamann gegn sýkingum og ýmsum aðskotaefnum. Krabbameinslyf bæla ónæmiskerfið, hvítum blóðkornum fækkar og það getur verið lífshættulegt. Meðhöndlun með ónæmisörvandi efnum í tengslum við krabbameinslyfjagjöf minnkar líkur á fækkun hvítra blóðkorna og sýkingum sem því tengjast. Eftir beinmergsflutning tekur það beinmerginn ákveðinn tíma að starfa að nýju. Ónæmisörvandi lyf stytta tímann sem fækkun á hvítum blóðkornum varir og minnkar líkur á fylgikvillum. Fjölgun á hvítum blóðkornum sést eftir 1-4 daga eftir að byrjað er að gefa lyfin og er verkunin skammtaháð.

Helstu aukaverkanir ónæmisörvandi lyfja eru hiti, þreyta, niðurgangur og vöðva- og beinverkir. Lyfin geta einnig valdið blóðflagnafæð sem þýðir fækkun blóðflagna.

Interferón eru framleidd og skilin frá líkamsfrumum í þeim tilgangi að vinna á móti veirusýkingum eða öðru áreiti. Þrír mikilvægir flokkar af interferóni eru þekktir: Alfa, beta og gamma. Þessir aðalflokkar innihalda ólíkar tegundir sameinda af interferóni. Interferón binst frumuhimnu og þá hefst flókið ferli af innanfrumu viðbrögðum sem felst í því að virkja viss ensím. Talið er að þetta ferli sé a.m.k. að einhverju leyti ábyrgt fyrir margvíslegum frumuviðbrögðum við interferón, þar á meðal að hamla veirufjölgun í veirusmitaðri frumu, bæla frumuskiptingu og tempra ónæmisvirkni eins og að auka virkni átfrumna (makrofaga). Eitt eða allt framantalið getur orðið samverkandi í læknandi áhrifum interferóns.

Interferón eru notuð til að meðhöndla lifrarbólgu B og C, sem viðbótarmeðferð við ýmsum krabbameinum og við MS sjúkdómi.

Líffræðileg áhrif interferóns alfa, interferóns beta og interferóns gamma skarast en eru samt ólík. Ólíkir undirflokkar interferóns gagnast mismunandi sjúkdómum. Ekki er fullkomlega ljóst á hvern hátt interferón verkar hjá MS-sjúklingum þótt verkun þess sé auðskiljanlegri við öðrum sjúkdómum.

Lang algengustu óþægindi í tengslum við meðferð með interferónum líkjast inflúensueinkennum. Þekktustu eru vöðvaverkir, sótthiti, hrollur, þreyta, höfuðverkur og flökurleiki. Einkenni eru venjulega mest áberandi í upphafi meðferðar og þeim fækkar við áframhaldandi meðferð.

L04 Ónæmisbælandi lyf

Ónæmisbælingar er oft þörf, einkum við líffæraflutninga og meðhöndlun á ýmsum sjálfsofnæmissjúkdómum þegar aðrar hættuminni leiðir virka ekki. Dæmi um sjálfsofnæmissjúkdóma eru gigt, rauðir úlfar, psoríasis og Crohn´s sjúkdómur. Í sjálfsofnæmi skynjar ónæmiskerfið sumar líkamsfrumur sem aðskotaefni, myndar mótefni gegn þeim sem síðan drepur eigin líkamsfrumur. Sama getur gerst þegar líffæri er grætt í einstakling, líka þótt fundinn hafi verið líffæragjafi með samskonar vefjaflokka og líffæraþeginn; líkaminn hafnar líffærinu. Ónæmisbælandi meðferð dregur úr virkni ónæmiskerfisins og um leið líkur á því að líffæri verði hafnað eða einkenni af völdum sjálfsofnæmissjúkdóms þverri.

Ónæmiskerfið er flókið kerfi ýmissa frumna sem líkaminn framleiðir til að vernda sig gegn framandi efnum. Hvít blóðkorn, blóðflögur og B- og T-eitilfrumur eru meðal þeirra. Ónæmisbælandi lyf virka á ýmsa vegu á þetta kerfi, til að mynda beint á frumur þess eða efnin sem það gefur frá sér.

Ónæmisbælingu fylgir aukin sýkingarhætta. Sjúklingar fá oftar en aðrir alvarlegar sýkingar sem krefjast sjúkrahúsvistar. Nýrnastarfsemi getur einnig skerst og verður stundum óafturkræf. Ýmsar aðrar aukaverkanir fylgja ónæmisbælandi lyfjum eins og áhrif á lifur, meltingarfæri, húð og taugakerfi.