M Vöðvasjúkdóma- og beinagrindarlyf

Stærsti lyfjahópurinn í þessum flokki vöðvasjúkdóma- og beinagrindarlyfja eru bólgueyðandi lyf. Hérna skipast líka vöðvaslakandi lyf ásamt gigtarlyfjum, enda eru þau hvor tveggja oft notuð með bólgueyðandi lyfjunum.

M Vöðvasjúkdóma- og beinagrindarlyf

Stærsti lyfjahópurinn í þessum flokki vöðvasjúkdóma- og beinagrindarlyfja eru bólgueyðandi lyf. Hérna skipast líka vöðvaslakandi lyf ásamt gigtarlyfjum, enda eru þau hvor tveggja oft notuð með bólgueyðandi lyfjunum.

Lýsing – hvers konar lyf tilheyra þessum flokki
Stærsti lyfjahópurinn í þessum flokki vöðvasjúkdóma- og beinagrindarlyfja eru bólgueyðandi lyf. Notagildi bólgueyðandi lyfja er drjúgt, trúlega hafa flestir, ef ekki allir, þurft á þeim að halda einhvern tíma. Lyfin eru tekin inn eða eru til í kremi og hlaupi sem er borið á húð. Hérna skipast líka vöðvaslakandi lyf ásamt gigtarlyfjum, enda eru þau hvor tveggja oft notuð með bólgueyðandi lyfjunum.

Lyf við beinasjúkdómum eru líka mörg þótt hin fyrrnefndu í flokknum eigi vinninginn. Stöðugt er verið að þróa ný og betri lyf í þeim geira sem telur beinagrindarlyf.

Aðeins eitt lyf, annað en vöðvasjúkdóma- og beinagrindarlyf, heyrir til þessa flokks, lyfinu er sprautað í hné og þá aðeins af lækni. Um það lyf er fjallað síðast í kaflanum.

Saga
Gigt og verkir hefur verið reynt að meðhöndla um alda raðir þótt úrræði hafi hvorki verið eins mörg né lyfin góð og nú. Asetýlsalicýlsýra, einnig nefnd Aspirin eða Magnýl, er með sama verkunarmáta og bólgueyðandi lyfin sem kallast NSAID-lyf. NSAID stendur fyrir bólgueyðandi lyf sem eru ekki sterar. Asetýlsalicýlsýran varð fyrsta bólgueyðandi og verkjastillandi lyfið sem framleitt var í þessum flokki lyfja en það var árið 1853. Núna skipar asetýlsalicýlsýran sér ekki í þennan flokk, heldur í annan merktan N02 (verkjalyf). Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Bara á 20. öldinni urðu til þúsundir samtengdra NSAID-lyfja og mörg þeirra er að finna á íslenskum lyfjamarkaði. Indómetacín er þeirra elst, eða um 40 ára.

Síðan þá hafa enn öflugri NSAID-lyf haldið áfram að ryðja sér til rúms á lyfjamarkaðinum. Þau eru sérhæfðari og þeim fylgja færri aukaverkanir en hinum eldri. En böggull fylgir skammrifi. Nýju lyfin eru ennþá afar dýr og eins og málum er háttað nú geta flestir notað eldri lyfin með jafn góðum árangri.

Lyf við beinasjúkdómum er fjölmennur lyfjaflokkur og í hann bætast sífellt ný lyf. Fyrir áratug fundust engin lyf í þessum flokki, ólíkt NSAID-lyfjunum sem eiga sér langa sögu að baki. Óhætt er að fullyrða að í þennan flokk bætist að lágmarki eitt nýtt lyf á hverju ári.

Verkunarmáti
Lyfin eru fjölbreytt og með ólíkan verkunarmáta. Sum þeirra verka í beinum, eða á beinmerg, liði eða á beinmassa. Önnur verka í vöðvum og enn önnur hafa áhrif á virkni taugaboðefna.

Sjá undirflokka.

Algengar aukaverkanir
Algengt er að aukaverkanir fylgi lyfjum sem eru tekin inn. Þær koma fram í meltingarfærum, t.d. með kviðverkjum, ógleði og meltingartruflunum. Öllum lyfjunum fylgja fleiri aukaverkanir, misalvarlegar þó. Staðbundin lyf eru alltaf með færri aukaverkanir en lyf sem eru til inntöku eða gefin í æð.

Sjá undirflokka.

Almennar leiðbeiningar um notkun
Mikilvægt er að fylgja leiðbeiningum vel því að lyfin geta verið varasöm ef þau eru ekki tekin rétt. Hætta á aukaverkunum eykst að sama skapi og hægt væri að valda óbætanlegum skaða. Hérna má nefna sem dæmi að við það eitt að nota stærri lyfjaskammta en ráðlagðir eru við beinþynningu gæti hætta aukist á beinmeyru og beinbrotum fjölgað. Ávísi læknir lyfjunum skal fylgja leiðbeiningum hans.

Lyf seld í lausasölu eru ávallt vel merkt og þeim fylgja geinargóðar leiðbeiningar.

Hvað ber að varast
Þótt NSAID-lyf séu umsvifamikill og algengur lyfjaflokkur finnast þeir einstaklingar sem ættu ekki að neyta þeirra, eins og til dæmis þeir sem eru með maga- eða skeifugarnarsár. Þeir ættu ekki að nota NSAID-lyf vegna ertandi áhrifa lyfjanna á magann. Allir ættu að gæta þess að borða fyrir inntöku lyfjanna, þótt ekki sé nema eitthvað lítið, af því að það dregur úr hættu á aukaverkunum. Hægt er að sneiða framhjá aukaverkunum með því að bera lyfin á húðina. NSAID-lyf á ekki að nota hafi sjúklingur fengið astma, ofnæmisbólgur í nef eða ofsakláða eftir töku acetýlsalicýlsýru (Aspirin) eða annarra bólgueyðandi lyfja. Þeir sem eru með skerta lifrarstafsemi ættu ekki að nota lyfin.

Undirflokkar

M01 Bólgueyðandi lyf og gigtarlyf

Bólgueyðandi lyf er afar víðfeðmur flokkur með mikið notagildi og lyfin sem honum tilheyra eru víða útbreidd.

Efni í líkamanum sem kallast prostaglandín eiga mikinn þátt í því að valda bólgu, sársauka og hita. Bólgueyðandi lyf, svokölluð NSAID-lyf, hemja myndun á prostaglandínum í líkamanum með því að koma í veg fyrir það að ensímið cýkló-oxygenasi virki. Um leið og hömlunin á ensíminu verður, stöðvast myndun á forefnum prostaglandína. Cýkló-oxygenasi kemur því líka til leiðar að tromboxan verði til, en tromboxan hefur hvetjandi áhrif á samloðun blóðflagna. Með því að hemja ensímið fáum við ekki bara bólgueyðandi- og verkjastillandi áhrif heldur líka blóðþynnandi áhrif. Þá lækka NSAID-lyfin að auki hita. Hitalækkandi verkun þeirra er talin verða til vegna áhrifa lyfjanna á hitastjórnstöð í undirstúku, útlægar æðar víkka og það leiðir til aukins blóðflæðis til húðar, svitamyndunar, og hitataps.

NSAID-lyf er hægt að nota almennt við öllum verkjum og sem bólgueyðandi. Sem dæmi má nefna bakverk, tannverk, tíðaverk, höfuðverk, verki eftir aðgerð, mígreni, bólgu og verki vegna meiðsla, svo fátt eitt sé nefnt. NSAID-lyf eru kjörin við hita og beinverkjum af völdum inflúensu eða kvefs af því að þau lækka hita og lina verki.

Helstu og algengustu aukaverkanir NSAID-lyfja eru áhrif þeirra á meltingarveg, s.s. ógleði, niðurgangur og kviðverkir. Til að draga úr staðbundnum áhrifum lyfjanna á maga er gott að borða lítið eitt fyrir lyfjatöku. Þeim sem hættir til að fá magabólgur og magasár er ráðlagt að fara varlega í sakirnar við töku NSAID-lyfja. Þetta gildir líka um þá sem þjást af astma, en hann getur versnað við töku lyfjanna. Aðrar aukaverkanir eru höfuðverkur, útbrot og svimi.

Nýrri NSAID-lyfin eru sérhæfðari en þau eldri. Lyfin virka eins á verki og bólgur og hin eldri en nýrri lyfjunum fylgja mun sjaldnar aukaverkanir frá meltingarfærum og þau hafa minni áhrif á samloðun blóðflaga. Lyfin eru dýrari en þau eldri og eru helst notuð af gigtarsjúklingum sem þurfa á lyfjunum að halda að staðaldri.

Yfirleitt eru NSAID-lyf afgreidd út á lyfseðil, en nokkur þeirra eru seld í takmörkuðu magni í lausasölu.

Fleiri lyf tilheyra þessum flokki bólgueyðandi lyfja en NSAID-lyfin. Þau eru lítið notuð og þá einungis í þeim tilvikum þar sem ekki er hægt að koma við NSAID-lyfjum. Hérna mætti nefna iktsýki hjá fullorðnum, hafi hún ekki svarað hættuminni meðferð, en iktsýki hefur í sumum tilfellum verið meðhöndluð með lyfi sem er komplex af gulli. Lyfið hefur sýnt að það fyrirbyggi og minnki skaða í liðum, einkum ef meðferð hefst á frumstigum sjúkdómsins. Verkun lyfsins er ekki fyllilega skýrð en gull komplexinn hefur reynst vera bólgueyðandi og hafa ónæmisbælandi eiginleika. Aukaverkanir eru algengar og oft á tíðum hættulegar, og sjúklingurinn þarf að vera undir góðu eftirliti meðan á meðferð stendur.

M02 Lyf til staðbundinnar notkunar við lið- og vöðvaverkjum

Oft getur reynst vel að meðhöndla ákveðin svæði á líkamanum staðbundið. Með því móti reynist unnt að stemma stigu við hættu á aukaverkunum eða koma í veg fyrir þær.

Í þennan undirflokk skipast NSAID-lyf sem ætluð eru til notkunar beint á húð. Lyfin eru borin á aum eða bólgin svæði og nuddað inn í húðina í nokkrar mínútur. Í kjölfarið gæti fylgt roði, húðerting, kláði og útbrot en það er sjaldgæft. Um verkunarmáta lyfjanna gildir það sama og í kafla M01.

M03 Vöðvaslakandi lyf

Vöðvaspenna getur myndast af völdum álags, slysa eða bólgu og þá eiga vöðvaslakandi lyf vel við. Lyfin eru notuð til að draga úr verkjum þar sem ætla má að hin vöðvaslakandi verkun hafi góð áhrif á líðan. Lyfin eru líka verkjastillandi og þau hafa róandi verkun sem þykir kostur sé um mikla verki að ræða. Oft finnast lyfin í blöndum með öðrum verkjastillandi lyfjum og það eykur enn frekar mátt þeirra.

Vöðvaslakandi lyf eru líka notuð af þeim sem eru með spastískar hreyfingar til að mýkja hreyfingarnar. Lyfið hefur þá hamlandi áhrif á taugaboð í miðtaugakerfinu. Vöðvakrampar af þessu tagi geta komið fram vegna ýmissa sjúkdóma, mænuskaða og af völdum margra heilasjúkdóma eða heilaskemmda.

Vöðvaslakandi lyf eru mikið notuð á sjúkrahúsum við skurðaðgerðir, t.d. ef opna þarf kviðarhol. Lyfin sem eru notuð núna við aðgerðir þykja mun öflugri og hafa víðtækari verkun en lyfin til að meðhöndla verkina. Hin fyrrnefndu valda öndunarlömun og þau er eingöngu hægt að nota þar sem fullkomin svæfingaraðstaða er fyrir hendi og hægt að setja sjúklinginn í öndunarvél.

Helstu aukaverkanir vöðvaslakandi lyfja eru sljóleiki, syfja og ógleði. Þau sem eru notuð við svæfingar geta valdið blóðþrýstingsfalli og berkjusamdrætti, ásamt öndunarlömun eins og fyrr er getið.

Svæsna krampa í hálsi, andliti og augum er hægt að meðhöndla með lyfi sem veldur vöðvaslökun. Taugaboð frá taug til vöðva eru hindruð og lamar það vöðva staðbundið og inn í hann er lyfinu síðan sprautað. Lömunin gengur yfir á þremur mánuðum og er það einungis á færi sérfræðinga að fara með lyfið.

Aukaverkanir eru margar og geta orðið alvarlegar, enda á sjúklingur að vera undir góðu eftirliti læknis meðan á meðferð stendur.

Öll lyf í þessum flokki eru merkt með rauðum þríhyrningi sem segir það að varúðar eigi að gæta við stjórnun ökutækja.

M04 Þvagsýrugigtarlyf

Þvagsýrugigt er gigtarsjúkdómur sem orsakast af þvagsýrukristöllum sem falla út í liði. Þvagsýra er aukaafurð sem myndast við niðurbrot á kjarnsýrum í líkamanum. Að öllu jöfnu getur líkaminn losað sig við niðurbrotsefnið með þvagi, en hjá þeim sem þjást af þvagsýrugigt safnast þvagsýran fyrir í blóðinu. Hjá sumum verður uppsöfnunin svo mikil að þvagsýrukristallar falla út í liði og stundum í húð. Lyf við þvagsýrugigt keppir um ensím í líkamanum sem nauðsynleg eru til að framleiða þvagsýru. Samkeppnin leiðir til þess að það dregur úr þvagsýruframleiðslu og styrkur þvagsýru í blóði og liðum minnkar. Lyfjaskammta þarf að stilla eftir mælingum á þvagsýru í sermi, sérstaklega hjá sjúklingum með nýrnabilun. Lyfið er einnig hægt að nota við þvagsýrusteinum.

Helstu aukaverkanir eru í húð og lýsir sér í kláða og útbrotum. Lyfið getur líka haft áhrif á blóðmynd og lifrarstarfsemi en það er þó sjaldgæft.

M05 Lyf við sjúkdómum í beinum

Við beinþynningu tapa beinin kalki og þau verða stökk og brothætt. Orsaka beinþynningar er víða hægt að leita. Algengust er beinþynning hjá konum eftir tíðahvörf þegar kvenhormónamagnið í líkamanum minnkar. Karlar geta líka fengið beinþynningu þótt óalgengara sé. Langvarandi notkun á barksterum eykur hættu á beinþynningu og krabbamein í beinum getur valdið beinþynningu svo að eitthvað sé nefnt. Verkunarmáti lyfjanna er ekki að fullu skýrður en vitað er að þau hamla áhrif beinæta (osteoclasta) sem brjóta niður beinvef og koma þannig í veg fyrir flæði kalks og annarra steinefna úr beinum.

Helstu aukaverkanir eru óþægindi frá meltingarvegi, ásamt ýmiss konar öðrum verkjum eins og vöðva-, lið- eða höfuðverk. Mikilvægt er að fara eftir leiðbeiningum um notkun lyfjanna. Lyfin þarf að taka inn á fastandi maga með glasi af vatni og að morgni. Ekki má neyta fæðu eða annarra lyfja fyrr en 30-60 mínútum eftir töku lyfjanna. Auk þess má ekki leggjast útaf í minnst 30 mínútur eftir inntöku. Þetta er nauðsynlegt, annars eykst hætta á bólgum eða sárum í vélinda. Ef fæða inniheldur ekki nægjanlegt kalk og D-vítamín, er mikilvægt að taka það inn aukalega.

Beineyðing af völdum krabbameins er meðhöndluð á sjúkrahúsum með innrennslislyfjum. Fylgjast þarf náið með sjúklingi meðan á gjöf lyfjanna stendur og rannsaka blóðhag. Auk sömu aukaverkana og geta komið af inntöku lyfjanna þá er algengt að líkamshiti hækki og að sjúklingur fái flensulík einkenni.

M09 Önnur vöðvasjúkdóma og beinagrindarlyf

Slitgigt er sjúkdómur í liðamótum og hefst með því að brjóskið í liðunum þynnist og eyðist að lokum alveg. Hýalúrónsýra finnst hjá mönnum í liðbrjóski, liðvökva, naflastreng og í auga. Hún er mikilvæg fyrir uppbyggingu liðbrjósksins og gefur liðvökvanum seigfljótandi eiginleika. Við slitgigt minnkar hýalúrónsýran í liðvökvanum. Henni er hægt að sprauta í hnjáliði við slitgigt og dregur það úr verkjum, bætir hreyfanleika liðsins og veldur því að frumur liðsins auka framleiðslu á hýalúrónsýru. Árangur varir í nokkra mánuði eftir 5 innspýtingar í liðinn. Aukaverkanir eru staðbundnar í liðnum, eins og sársauki, eymsli á stungustað, hitatilfinning og bólga í liðum. Hýalúrónsýra er unnin úr hanakömbum.