A-vítamín

Vítamín

  • A-vitamin

A-vítamín tilheyrir hópi fituleysanlegra vítamína og skilst því ekki út úr líkamanum með þvagi heldur safnast yfirmagn þess fyrir, er lengur að skiljast út úr líkamanum sem aftur leiðir til aukinnar hættu á eitrun.

A-vítamín tilheyrir hópi fituleysanlegra vítamína og skilst því ekki út úr líkamanum með þvagi heldur safnast yfirmagn þess fyrir, er lengur að skiljast út úr líkamanum sem aftur leiðir til aukinnar hættu á eitrun.

Heiti
A-vítamín, retinóíðar, beta-karótín.

Uppspretta
Lifur, mjólkurvörur, fiskur, lýsi (unnið úr fiskilifur), gult og grænt grænmeti, s.s. spínat og gulrætur og ávextir.

Verkun

  • Stuðlar að eðlilegri sjón, er nauðsynlegt fyrir nethimnu augans.
  • Gott við ýmsum húðsjúkdómum svo sem bólum, psoriasis, ertingu og sýkingum (lyfseðilsskyld lyf), stuðlar líka að heilbrigði húðar og slímhúðar.
  • Viðheldur eðlilegum vexti beina.

Notkun - verkun

  • Við A-vítamínskorti. 
  • Þegar líkaminn hefur aukna þörf fyrir A-vítamín, eins og hjá þunguðum konum og mjólkandi mæðrum. 
  • Styrkir ónæmiskerfið og hraðar græðslu sára. 
  • Dregur úr hættu á myndun ákveðinna tegunda krabbameins í slímhúðum öndunarfæra og meltingarvegs.


Ráðlagðir dagskammtar
Ráðlagðir dagskammtar (RDS/Recommended Intake, RI) eru dagleg meðalneyslanæringarefna sem nægir til að mæta þörfum nær allra (venjulega 97,5%) einstaklinga á ákveðnu aldursskeiði meðal almennings. RDS er venjulega notað til að skipuleggja mataræði fyrir hópa fólks og einstaklinga. Einnig er hægt að nota RDS sem ráðleggingar um dagleganeyslu fyrir einstaklinga.

Ungbörn <6 mánaða  ---
Ungbörn 7-11 mánaða 250 mcg
Börn 1-3 ára 300 mcg
Börn 4-6 ára 350 mcg
Börn 7-10 ára 450 mcg
Karlar 11-14 ára 700 mcg
Karlar 15-17 ára 750 mcg
Karlar 18-70 ára 800 mcg
Karlar >70 ára  750 mcg
Konur 11-17 ára 650 mcg
Konur 18-70 ára 700 mcg 
Konur >70 ára   650 mcg
Konur á meðgöngu 750 mcg
Konur með barn á brjósti 1400 mcg

mcg = míkrógrömm (µg)

A-vítamín skortur
Skortur á vítamíninu kemur helst fram hjá einstaklingum með langvarandi sjúkdóma því að við slíkar aðstæður skerðist upptaka fitu frá meltingavegi. Helsta einkenni A-vítamínskorts er náttblinda. Önnur einkenni eru augnþurrkur, húðskemmdir og sýkingar.

A-vítamín eitrun
Eitrun er sjaldgæf hjá fullorðnum einstaklingum sem taka minna en 30 mg á dag en hefur gætt hjá einstaklingum sem neyttu 10 mg á dag í 6 mánuði. Í ungabörnum hefur eitrun komið fram eftir neyslu 7,5-15 mg í 30 daga. Hætta eykst á fæðingargöllum taki barnshafandi konur inn stærri skammta af A-vítamíni en ráðlagðir dagskammtar segja til um.
Einkenni eitrunar: Þurr og flagnandi húð, hárlos, kláði og þroti í húð og slímhúð, sprungnar varir, verkur í beinum, höfuðverkur, þyngdartap og fleira.

Aukaverkanir
Óþekktar nema um ofskömmtun sé að ræða.

Milliverkanir
Sýrubindandi lyf, laxerolía og paraffínolía geta dregið úr frásogi A-vítamíns í þörmum. - Xenical®, Questran® og önnur lyf sem auka útskilnað fitu úr líkamanum geta um leið tekið fituleysanleg vítamín með sér sem aftur veldur skorti á þeim í líkamanum.

Frábendingar
Engar þekktar.

Heimildir

Ráðlagðir dagskammtar og nægjanleg neysla af vítamínum og steinefnum 2024.
www.landlaeknir.is. Uppfært í júní 2025.

R. Marcus, A.M. Coulston, Fat-soluble vitamins. Goodman & Gilman´s The pharmacological basis of therapeutics 9th edition. 1996 McGraw-Hill, New York. Bls. 1573-1582, 1549.

H. R. Jóhannesson, S. Ó. Ólafsson. Bætiefnabókin, Handbók um vítamín, steinefni og fæðubótarefni. 1995 Mál og menning, Reykjavík. Bls. 46-50.

http://www.landlaeknir.is

Anna Elín Kjartansdóttir, Valdís Beck og Þóra Jónsdóttir, lyfjafræðingar.

(Ráðlagðir dagskammtar uppfærðir í febrúar 2014 skv. leiðbeiningum frá Embætti landlæknis; Jóna Valdís Ólafsdóttir, lyfjafræðingur).