Almennt um náttúruefni

Náttúruvörur

  • Almennt-um-natturuefni

Lækningajurtir og önnur náttúrumeðul eru flokkuð sem "fæðubótarefni" og falla því undir annan hatt en bæði lyfseðilsskyld lyf og lyf sem eru seld án lyfseðils.

Þeim fjölgar sífellt sem nota þessi lyf í lækningaskyni og því þurfa bæði læknar og lyfjafræðingar að kunna skil á þeim.

Rannsóknir sem voru gerðar á vegum stofnunarinnar "Institution for Safe Medication Practices" leiddu í ljós að minna en helmingur sjúklinga sem nota vítamín, fæðubótarefni, lækningajurtir eða smáskammtalyf, þorðu að greina lækni sínum frá því af ótta við gagnrýni hans eða jafnvel vanþóknun. Það er hins vegar brýnt að hvetja alla til þess að greina bæði læknum og lyfjafræðingum frá þeim óhefðbundnu lyfjum sem viðkomandi tekur eða notar, sérstaklega ef hann er haldinn einhverjum kvilla eða sjúkdómi. Þetta ætti að vera almenn samskiptaregla milli þessara aðila, einkum í ljósi þess að þessi efni geta hafi áhrif á virkni hefðbundinna lyfja sem eru tekin samhliða. Þá skal einnig brýnt fyrir öllum að þeir láti vita ef þeir finna fyrir einhverjum aukaverkunum. "Náttúrulyfin" geta kallað slík áhrif fram ekki síður en þau hefðbundnu.

Í kaflanum "Hvað þarf að hafa í huga" eru ráðleggingar sem auðvelda hverjum og einum að taka yfirvegaða og skynsamlega ákvörðun um hvort æskilegt sé að nýta sér þau náttúrulyf sem eru á boðstólum. Hér fara á eftir fáein ráð sem geta stuðlað að því að fólk geti nýtt sér sem best kosti bæði hefðbundinna lyfja og náttúrulyfja.

Veldu þér lyfjafræðing

  • sem þú treystir og átt auðvelt með að ræða við um málefni er varða heilsufar,
  • sem svarar spurningum þínum, gefur góð ráð og meðtekur upplýsingar um reynslu þína af þeim vörum sem þú notar og
  • sem útskýrir leiðbeiningar um skammtastærðir, hugsanlegar aukaverkanir og víxlverkanir við önnur lyf og fæðutegundir.

Þegar þú rekst á slíkan lyfjafræðing skaltu halda tryggð við hann og leita ávallt til hans og treysta tengslin við hann á sama hátt og þú tengist heimilislækninum. Skiptu helst alltaf við sömu lyfjabúðina þannig að allar upplýsingar um lyfjanotkun þína séu á einum og sama staðnum. Öll viljum við stjórna eigin heilsuvernd og upplýsingarnar á þessum síðum eiga að geta stuðlað að því að þú getir það. Þú getur hins vegar aldrei komist hjá því að eiga samskipti við starfsfólk heilbrigðiskerfisins og þú skalt ekki hika við að spyrja lyfjafræðinginn þinn hvernig þú getur sem best fært þér í nyt kosti lyfjanna sem þú tekur og fæðubótarefna.