Almennt um steinefni

Steinefni og snefilefni

Steinefni eru ólífræn efni og gegna mikilvægu hlutverki í margþættri líkamsstarfsemi manna og dýra.

Steinefni eru ólífræn efni og nauðsynleg mönnum og dýrum. Þau verða að berast líkamanum á einn eða annan hátt frá umhverfinu eins og t.d. með fæðu.

Steinefni gegna mikilvægu hlutverki í margþættri líkamsstarfsemi. Nefna mætti að þau eru byggingarefni beina og tanna, taka þátt í samdrætti vöðva, þýðingarmikil í blóðmyndun, nauðsynlegur þáttur í myndun sumra próteina og orkuvinnslu auk margs fleira.

22 steinefni eru þekkt sem stuðla að góðri heilsu manna. Sum þeirra verða að vera til staðar í miklu magni í líkamanum því að þau eru hluti af vefjum en önnur í minna mæli (snefilefni) af því að hlutverk þeirra er í nánu samhengi við hvata. Hvatar stjórna efnaskiptum og ýmsum öðrum störfum líkamans.

Þau steinefni sem við þurfum verulegt magn af eru natríum, kalíum, kalk, fosfór, brennisteinn, magnesíum og klór.

Af snefilefnum má nefna króm, kopar, joð, járn, mangan, selen og sínk.

Heimildir
H. R. Jóhannesson, S. Ó. Ólafsson. Bætiefnabókin, Handbók um vítamín, steinefni og fæðubótarefni. 1995 Mál og menning, Reykjavík. Bls. 9.

Anna Elín Kjartansdóttir, Valdís Beck og Þóra Jónsdóttir, lyfjafræðingar.