Alvera

Náttúruvörur

  • Alvera

Bæði alveruhlaup og alverusafi hafa verið notuð í hefðbundnum lækningum margra menningarsamfélaga í árþúsundir.

Fræðiheiti
Aloe vera (l.) N.L. Burm., sem sést stundum undir heitinu Aloe barbadensis Mill., er þekktust og mest notuð til lækninga af þeim hundruðum tegunda sem til eru af ættkvíslinni.
Ætt: Liljuætt Liliaceae.

Önnur heiti
Alsanna, aloe vera, aló vera.

Einkunn
Til nota útvortis (ferskt gel notað til þess að græða áverka og brunasár): 2 = Að teknu tilliti til fjölda vel útfærðra tilrauna og mikillar notkunar virðist þetta efni vera tiltölulega áhrifaríkt og öruggt að því tilskildu að það sé notað í því magni sem mælt er með. Til nota innvortis (safi sem hægðalyf): 2 = Að teknu tilliti til fjölda vel útfærðra tilrauna og mikillar notkunar virðist þetta efni vera tiltölulega áhrifaríkt og öruggt að því tilskildu að það sé notað í því magni sem mælt er með. Fólk í tilteknum hópum ætti þó að forðast lyfið; sjá varnaðarorð í kaflanum "Skaðleg áhrif: niðurstöður rannsókna".

Hvað er alvera?
Alvera er harðgerður, fjölær þykkblöðungur með gulum blómum og stinnum, spjótlaga blöðum sem vaxa í hvirfingu. Blöðin gefa af sér tvær mjög ólíkar afurðir sem nauðsynlegt er að gera skýran greinarmun á. Alveruhlaup er þunnt, glært og gelkennt efni sem er unnið úr innri hluta blaðanna. Alverusafi er beiskur, gulleitur vökvi sem er unninn úr sérhæfðum frumum í innri húð blaðanna. Hann er oftast seldur sem duft. Alveruhlaup og alverusafi eru notuð á mismunandi hátt.

Notkun
Bæði alveruhlaup og alverusafi hafa verið notuð í hefðbundnum lækningum margra menningarsamfélaga í árþúsundir. Egyptar og Grikkir til forna höfðu mætur á alveruhlaupi og notuðu það útvortis til þess að græða sár og sem fegrunarlyf. Sagt er að Kleópatra hafi haldið húð sinni mjúkri og glansandi með því að bera á sig alveruhlaup. Kínverskir læknar eru tiltölulega nýlega farnir að beina sjónum sínum að því hvernig nota má alveruplöntuna útvortis. Þeir hafa hins vegar notað alverusafann í aldaraðir til þess að lækna kvilla á borð við harðlífi, sveppasýkingar og sníkjuormasýkingar. 1

Alveruhlaup er líklega útbreiddasta náttúrulyfið í Ameríku um þessar mundir. 2 Margir rækta alveru í potti heima hjá sér og nota hana til þess að örva gróanda skurðsára og koma í veg fyrir örvefsmyndun eða sefa bruna, einkum sólbruna, sár og minni háttar húðertingu. Hlaupið er gjarnan auglýst sem eitt af bestu rakameðulum náttúrunnar. Hlaupið má nota á ótal vegu aðra, bæði útvortis og innvortis, og það er meðal annars notað til þess að meðhöndla gyllinæð, skordýrabit, fyrirtíðaspennu, sveppasýkingu í húð, bruna af völdum geislunar, magasár, sykursýki, kýli, astma og hósta.

Alverusafinn hefur verið notaður mun lengur sem hægðaörvandi lyf en hlaupið sem áburður á húðina. Nokkrir nútímagrasalæknar mæla með inntöku safans við harðlífi, kvilla í lifur og til að örva "innri heilun". 3

Helstu lyfjaform
Hlaup: Ferskt úr plöntunni (fæst í sumum löndum í blómabúðum). Í mörgum vörum, allt frá sólbrunaáburði til rakakrems, er alveruhlaup helsta innihaldsefnið. Vörur, sem eru merktar "Aloe vera gel extract" ("alveruhlaupkjarni"), innihalda duft unnið úr heilum laufblöðum plöntunnar. 4
Safi: Algengt er að hann sé seldur í duftformi í hylkjum og töflum, oft ásamt mörgum öðrum innihaldsefnum.

Algeng skammtastærð
Hlaupið er borið beint á húðina. Duftið, eða þurrkaði kjarninn, er yfirleitt tekið inn í 0,05 til 0,2 gramma skömmtum í skamman tíma eingöngu til þess að örva hægðir. Safinn eða hlaupið er tekið inn í einnar matskeiðar skammti allt að þrisvar á dag. Margar alveruafurðir, sem eru á markaðnum, innihalda mjög lítið af alveru. Hægt er að mæla með því að innihaldslýsing varanna sé könnuð áður en kaup eru gerð.

Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Þrátt fyrir að erfitt sé að bera saman niðurstöður þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið benda flestar til þess að alveruhlaup flýti gróanda sára eftir minniháttar áverka og bruna. Dýratilraunir hafa sýnt fram á að hlaupið dregur úr vefjaskemmdum sem fylgja í kjölfar bruna og kals, 5 og í tilraunum á mönnum hefur komið fram að það flýtir gróanda tiltekinna brunasára meira en lyfleysa. 6 Einnig örvar það gróanda ýmissa gerða af sárum í húð, flýtir gróanda húðar eftir áverka og eftir bruna af völdum rafmagns 7 og örvar blóðflæði og dregur þar með úr vefjatapi vegna kals (þegar alverukrem er borið á). 8 Þegar á heildina er litið er minna vitað um gagnsemi hlaupsins við meðhöndlun minni háttar bruna en getu þess til að örva gróanda sára. 9

Þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir hafa vísindamenn frekar óskýra mynd af því hvernig hlaupið virkar. Vitað er að hlaupið inniheldur mikið af fjölsykrum og hugsanlegt er að einhver þeirra búi yfir eiginleikum sem mýkja húð. Þá hefur einnig fundist verkjastillandi og bólgueyðandi efnasamband (bradýkínínasi), bólguhemjandi efni (andprostaglandín), kláðastillandi efni (magnesíumlaktat sem er histamínhemill), 10 auk þess sem bakteríu- og sveppaeyðandi efnasambönd finnast í því. Hlaupið virðist örva gróanda með því að örva blóðflæði til skemmdra vefja. 11

Skoðið ávallt merkimiða á alveruvörum til að komast að því hvort hrein, óblönduð alvera er meðal þeirra innihaldsefna sem eru talin upp fyrst; gæðavörur innihalda gjarnan mjög hátt hlutfall (yfir 95%) af hreinni alveru. Deilt er um hvort húðgræðandi verkun ferskrar alveru haldist við geymslu og í unnum vörum, jafnvel í þeim sem auglýstar eru staðlaðar eða hreinar og óblandaðar. 12 Í að minnsta kosti einni glasarannsókn þar sem notaðar voru mannsfrumur í ræktun fékk vara, sem sögð var hrein og stöðluð, falleinkunn; vísbendingar um frumuskemmdir komu jafnvel fram. 13 Þótt bandaríska matvæla- og lyfjastofnunin hafi efasaemdir um gagnsemi alveruhlaups bætist sífellt við þau gögn sem staðfesta gagnsemi þess að nota ferskt hlaup og sumar staðlaðar vörur sem eru á markaði. 14

Öruggar sannanir fyrir gildi alveruhlaups í mörgum öðrum tilgangi eru af skornum skammti. Sveppaeyðandi verkun hlaupsins er til dæmis vel þekkt, en þó hefur ekki verið hægt að sýna fram á að hlaupið sé gagnlegt við að meðhöndla gersveppasýkingar í leggöngum. Rannsókn sem gaf til kynna að sautján af átján sjúklingum með magasár hafi fengið bata var illa hönnuð og ekki hefur tekist að fá aftur fram sams konar niðurstöður. 15

Alverusafi (ólíkt alveruhlaupi) inniheldur mjög öflug hægðalosandi efnasambönd (antrakvínon) sem gerir það að verkum að flestir grasalæknar mæla gegn notkun hans. Þessi efnasambönd erta ristilinn og því er hætta á að þau geti valdið alvarlegum ristilkrampa og niðurgangi. Evrópumenn nota safann í litlum skömmtum, gjarnan blandaðan öðrum efnum, til þess að meðhöndla þrálátt harðlífi. Þýsk heilbrigðisyfirvöld samþykkja notkun þurrkaðs alverusafakjarna sem er unninn úr blöðum plöntunnar til að mýkja hægðir sem hjálpar einkum fólki með harðlífi og gyllinæð. 16

Í einni glasatilraun virtist tiltekinn alverukjarni (aloe-emodin) geta hamlað gegn hvítblæði en af ýmsum ástæðum dæmdi bandaríska krabbameinsstofnunin kjarnann óhæfan til frekari rannsókna. 17 Vísbendingarnar eru óljósar. Í takmarkaðri kínverskri rannsókn frá 1989 komu fram verndandi áhrif alverukjarna sem var sprautað í sjúklinga með þráláta lifrarbólgu. 18 Sams konar jákvæð niðurstaða fékkst í rannsókn frá 1985 þar sem fullorðnir einstaklingar með astma tóku inn alverukjarna við sjúkdómnum. 19

Í einkaleyfi sem var veitt bandarísku fyrirtæki fyrir alveruafleiðunni ásmannani (acemannan) er fullyrt að þetta efni örvi ónæmiskerfið með beinum hætti og geti því reynst gagnlegt við meðhöndlun sjúkdóma á borð við krabbamein og veirusýkingar, þ. á m. alnæmi og mislinga. 20 Niðurstöður dýratilrauna sem fólust í því að sprauta ásmannani í bandvefsæxli og sjálfsprottin æxli lofuðu góðu. 21

Þrátt fyrir að vísbendingar um áhrif þessa efnis gegn alnæmisveirunni í mönnum séu óljósar er vert að veita því athygli að efnið hefur verið rannsakað í þeim tilgangi. Þegar því var sprautað í ketti með staðfest kattahvítblæði lengdi það líf þeirra og bætti heilsu þeirra. 22 Þetta er mjög eftirtektarvert fyrir þær sakir að orsök kattahvítblæðis er víxlveira, en veira úr þeim hópi veldur einnig alnæmi. Sumir talsmenn ásmannans halda því fram að þegar einstaklingar, sem eru smitaðir af alnæmisveirunni, og alnæmissjúklingar hafa fengið blöndur af efninu í sprautu- eða inntökuformi lofi það góðu, einkum ef það er gefið á byrjunarstigum sýkingar. 23 Glasatilraunir benda til þess að ásmannan geti reynst best við að örva önnur alnæmislyf, t.d. AZT, og geti því hugsanlega minnkað þörfina fyrir þau. 24 Niðurstöður úr fleiri vel hönnuðum tilraunum, sem hafa verið metnar af viðurkenndum vísindamönnum, þarf til að staðfesta þessar yfirlýsingar. Greint var frá mörgum þessara rannsókna í tímaritinu Molecular Biotherapy, sem kom aðeins út í nokkur ár seint á níunda og snemma á tíunda áratug síðustu aldar.

Skaðleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Alveruhlaup er talið öruggt fyrir húðina, þótt fáein tilfelli um ofnæmisviðbrögð séu þekkt. Notið það aðeins á minni háttar sár á líkamanum og hreinsið sárin ætíð áður en þið berið á þau, hvort sem notað er alveruhlaup eða eitthvað annað. Hugsanlegt er að hlaupið tefji fyrir gróanda dýpri eða flókinna sára. Í rannsókn þar sem alveruhlaup eða lyfleysa var borin á tuttugu og eina konu með flókin sár í kjölfar kviðarholskurðar eða keisaraskurðar voru sárin gróin að meðaltali eftir 83 daga í konunum sem fengu hlaupið en að meðaltali eftir aðeins 53 daga hjá þeim sem fengu ekkert hlaup. 25 Hlaupið getur valdið alvarlegum magakrampa ef það er tekið inn. Fáir grasalæknar mæla með því til notkunar innvortis og bandarískar eftirlitsstofnanir samþykkja það ekki sem lyf til innvortis nota. 26

Ef þú ákveður að nota alverusafa til þess að auðvelda hægðir skaltu alls ekki nota stærri skammt en mælt er með og rétt er að hætta notkun þess ef þú færð krampa eða önnur neikvæð einkenni. Of stórir skammtar geta valdið nýrnabólgu. 27 Ennfremur er vitað um tengsl milli langrar ofnotkunar á hægðalosandi lyfjum sem innihalda antranóíð, eins og þetta, og aukinni hættu á krabbameini í ristli og endaþarmi. 28 Barnshafandi konur ættu aldrei að nota alveru innvortis þar sem hún gæti örvað samdrátt í leginu. Líklega er einnig óráðlegt að nota það meðan á tíðablæðingum stendur. Börn, aldraðir, konur með börn á brjósti og fólk með bólgu eða aðra kvilla í meltingarveginum ættu aldrei að nota alveru innvortis.

Meginheimildir
American Pharmaceutical Association. Handbook of Nonprescription Drugs. 11. útg. Washington D.C.: American Pharmaceutical Association, 1996. Blumenthal, M., J. Gruenwald, T. Hall og R.S. Rister, ritstjórar. The Complete German Commission E Monographs: Therapeutic Guide to Herbal Medicine. Boston: Integrative Medicine Communications, 1998. Bradley, P.C., ritstj. British Herbal Compendium: A Handbook of Scientific Information on Widely Used Plant Drugs, 1. bindi. Bournemouth, England: British Herbal Medicine Association, 1992. Castleman, M. The Healing Herbs: The Ultimate Guide to the Curative Powers of Nature´s Medicines. New York: Bantam Books, 1995. Duke, J.A. CRC Handbook of Medicinal Herbs. Boca Raton, FL: CRC Press, 1985. Lampe, K.E. og M.A. McCann. AMA Handbook of Poisonous and Injurious Plants. Chicago: American Medical Association, 1985. Lawrence Review of Natural Products. St. Louis: Facts and Comparisons, apríl 1992. Leung, A.Y. Chinese Healing Foods and Herbs. Glen Rock, NJ: AYSL Corp. 1984. Leung, A.Y. og S. Foster. Encyclopedia of Common Natural Ingredients Used in Food, Drugs, and Cosmetics. 2. útg. New York: John Wiley & Sons, 1996. Mindell, E. Earl Mindell´s Herb Bible. New York: Simon & Schuster/Fireside, 1992. Murray, M.T. The Healing Power of Herbs: The Enlightened Person´s Guide to the Wonders of Medicinal Plants. Endurútg. Rocklin, CA: Prima Publishing, 1995. Tierra, M. The Way of Herbs. New York: Pocket Books, 1990. Tyler, V.E. Herbs of Choice: The Therapeutic Use of Phytomedicinals. Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1994. Tyler, V.E. The Honest Herbal. Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1993. Tyler, V.E., J.R. Brady og J.E. Robbers, ritstj. Pharmacognosy. Philadelphia: Lea & Febiger,1988. Weiner, M.A. og J.A. Weiner. Herbs That Heal: Prescription for Herbal Healing. Mill Valley, CA: Quantum Books, 1994. Weiss, R. F. Herbal Medicine, trans. A. R. Meuss, úr 6. þýsku útg. Beaconsfield, England: Beaconsfield Publishers, Ltd., 1988.

Tilvísanir 1. Leung, A.Y. Chinese Healing Foods and Herbs. (Glen Rock, NJ: AYSL Corp. 1984). 2. Leung, A.Y. og S. Foster. Encyclopedia of Common Natural Ingredients Used in Food, Drugs, and Cosmetics. 2. útg. (New York: John Wiley & Sons, 1996). 3. Tierra, M. The Way of Herbs. (New York: Pocket Books, 1990). 4. Lawrence Review of Natural Products. (St. Louis: Facts and Comparisons, apríl 1992). 5. A.D. Klein og N.S. Penneys, Journal of the American Academy of Dermatology, 18 (1988): 714-720. M. Rodriguez-Bigas et al., Plastic and Reconstructive Surgery, 81 (3) (1988): 386-389. 6. V. Visuthikosol et al., Journal of the Medical Association of Thailand, 78 (8) (1995): 403-409. 7. American Pharmaceutical Association. Handbook of Nonprescription Drugs. 11. útg. (Washington D.C.: American Pharmaceutical Association, 1996). 8. R.L. McCauley et al. Postgraduate Medicine, 88 (8) (1990): 67-68, 73-77. 9. Lawrence Review of Natural Products, sama heimild. 10. Sama heimild. 11. J.P. Heggers et al., Phytotherapy Research, 7 (1993): S48-52. 12. Leung, op. cit. 13.W.D. Winters et al., Economy Botany., 35 (1981): 89-95. 14. Lawrence Review of Natural Products, sama heimild. 15. J. J. Blitz et al., Journal of the American Osteopath Association, 62 (1963): 731. 16. M. Blumenthal, J.Gruenwald, T. Hall og R.S. Rister, ritstjórar. The Complete German Commission E. Monographs: Therapeutic Guide to Herbal Medicine. (Boston: Integrative Medicine Communications, 1998). 17. K. Kupchan, Journal of Natural Products, 39 (1976): 223. 18. Y. J. Fan et al., Chung Kuo Chung YaoTsa Chih, 14 (12) (1989): 746. 19. T. Shida et al., Planta Medica, 51 (1985):273-275. 20. Einkaleyfi veitt Carrington Laboratories,Inc. Irving, TX. U.S. Patent #5,308,838. Veitt 3. maí, 1994. 21. C. Harris et al., Molecular Biotherapy, 3 (1991): 207-213. 22. M. A. Sheets et al., Molecular Biotherapy, 3 (1991): 41-45. 23. M. T. Murray, The Healing Power of Herbs: The Enlightened Person´s Guide to the Wonders of Medicinal Plants. Endurútg. (Rocklin, CA: Prima Publishing, 1995). 24. J. B. Kahlon og M.A. McCann, Molecular Biotherapy, 3 (1991): 214-23. 25. J. M. Schmidt og J. S. Greenspoon, Obstetrics and Gynecology, 78 (1) (1991): 115-117. 26. Lawrence Review of Natural Products, sama heimild. 27. K. E. Lampe og M.A. McCann. AMA Handbook of Poisonous and Injurious Plants. (Chicago: American Medical Association, 1985). 28. C. P. Siegers et al., Gut, 38 (8) (1993): 1099-1101.

© Þýðing: Hálfdan Ómar Hálfdanarson og Þuríður Þorbjarnardóttir

Frá bandaríska lyfjafræðingafélaginu