B12-vítamín

Vítamín

 • B12-vitamin

Kóbalamín verður eingöngu til í sérstökum örverum sem er til að mynda að finna í meltingarvegi, vatni og jarðvegi. Helstu fæðutegundir með kóbalamín eru magurt kjöt, kjúklingur, fiskur, mjólk og egg.

Heiti
Kóbalamín, cyanocobalamine (stöðugasta form kóbalamíns).

Uppspretta
Kóbalamín verður eingöngu til í sérstökum örverum sem er til að mynda að finna í meltingarvegi, vatni og jarðvegi. Helstu fæðutegundir með kóbalamín eru magurt kjöt, kjúklingur, fiskur, mjólk og egg. Grænmeti þarf að hafa komist í snertingu við þessar örverur til þess að það innihaldi kóbalamínið og grænmetisætur ættu að hafa í huga að oft er ekki nægjanlegt magn kóbalamíns í fæðu þeirra. Rúmlega helmingur kóbalamíns í fæðunni getur farið forgörðum við suðu. Kóbalamín er eina vítamínið sem inniheldur málm (kóbalt) en hann er nauðsynlegur líkamanum.

Verkun
Þrátt fyrir margar rannsóknir hefur enn ekki tekist að finna hver verkun kóbalamíns er í smáatriðum. Vitað er að kóbalamín tekur þátt í einu efnahvarfi í myndun erfðaefnisins (DNA). Til að blóðmyndun sé eðlileg er mikilvægt að nægjanlegt magn kóbalamíns, fólínsýru og járns sé fyrir hendi. Kóbalamín er einnig mikilvægt fyrir frumuvöxt og frumuskiptingu og eflir taugakerfið.

Notkun - verkun
Við kóbalamínskorti.

Ráðlagðir dagkammtar

Ungabörn < 6 mán   ---
Ungabörn 6-11 mán 0,5 mcg*
Ungabörn 12-23 mán 0,6 mcg
Börn 2-5 ára 0,8 mcg
Börn 6-9 ára 1,3 mcg
Karlar >10 ára 2,0 mcg
Konur >10 ára 2,0 mcg
Konur á meðgöngu 2,0 mcg
Konur með barn á brjósti 2,6 mcg

*mcg = míkrógrömm (µg)

B 12-vítamín skortur
Helstu ástæður fyrir kóbalamínskorti eru þær að ekki er nóg af því í fæðunni eða líkamann vantar svokallaðan innri þátt (intrinsic factor) en það er efnisþáttur sem tekur þátt í frásogi kóbalamíns. Skortur á kóbalamíni kemur aðallega fram í þrennu:

 • Einkenni frá blóði og blóðmyndun
  Frumuskipting er hvað örust í blóðmynduninni og áhrif kóbalamínskorts á blóðið eru því mikil. Fækkun rauðra og hvítra blóðkorna leiðir til þreytu og aukinnar sýkingarhættu. Minnkað framboð á blóðflögum getur dregið úr storkugetu blóðsins, marblettir verða því tíðari svo og blæðingar úr sárum. Truflanir í blóðmyndun geta þó bæði stafað af kóbalamínskorti og fólínsýruskorti og því er þýðingarmikið að greina hvort sé. Stafi blóðleysi af völdum kóbalamíns en er meðhöndlað sem um fólínsýruskort væri að ræða gætu orðið varanlegar taugaskemmdir vegna áframhaldandi skorts á kóbalamíninu.
 • Einkenni frá taugakerfi
  Um er að ræða andlegar og líkamlegar afleiðingar af kóbalmínsskorti, svo sem skert hreyfigeta handa og fóta ásamt trufluðu titrings- og stöðuskyni, minnistap, sjóntruflanir og rugluð hugsun, ofskynjanir og rangskynjanir.
 • Einkenni frá þekjuvef (húð og slímhúð)
  Frumuskipting er mjög hröð í þekjuvef og því gætir skorts þar fljótt sem kemur fram í særindum á tungu, magaslímhúð rýrnar sem aftur leiðir til niðurgangs og skerðir myndun á innra þætti. Hið síðasttalda leiðir aftur til frekari kóbalamínskorts. 


Aukaverkanir

Litlar sem engar þótt skammtar séu tiltölulega stórir.

Milliverkanir
Nokkur lyf geta kallað fram skort á kóbalamíni:

 • Neómýcín 
 • Getnaðarvarnartöflur 
 • Asetýlsalisýlsýra (magnýl) og afleiður hennar
 • Krampastillandi lyf s.s. fenóbarbítal, fenýtóín og prímidon 
 • Metýldópa 
 • Kólesteróllækkandi lyf, s.s. kólestýramín og clófíbrat 
 • Einnig geta risaskammtar af C-vítamíni valdið skorti á kóbalamíni.


Frábendingar

Ekki þekktar.

Heimildir
H. R. Jóhannesson, S. Ó. Ólafsson. Bætiefnabókin, Handbók um vítamín, steinefni og fæðubótarefni. 1995 Mál og menning, Reykjavík. Bls. 51-54.

R. Marcus, A. M. Coulson. Ch 53, Hematopoietic agents: Growth Factors, Minerals, and Vitamins. Goodman & Gilman´s The pharmacological basis of therapeutics 9th edition. 1996 McGraw-Hill, New York. Bls. 1328-1332.

www.landlaeknir.is

Anna Elín Kjartansdóttir, Valdís Beck og Þóra Jónsdóttir, lyfjafræðingar

(Ráðlagðir dagskammtar uppfærðir í febrúar 2014 skv. leiðbeiningum frá Embætti landlæknis; Jóna Valdís Ólafsdóttir, lyfjafræðingur).