Drottningarhunang

Náttúruvörur

  • Drottningarhunang

Alþýðulæknar staðhæfa að með því að neyta drottningarhunangs geti fólk öðlast sömu eiginleika og býflugnadrottningarnar: aukna líkamsstærð, meiri frjósemi og lengri ævi.

Fræðiheiti Á ekki við.

Ensk heiti Royal jelly, apilak, feng wang jiang, geleé royale, queen bee jelly.

Einkunn
4 = Rannsóknir benda til þess að staðhæfingar um áhrif þessa efnis eigi ekki við rök að styðjast, en það er einnig ólíklegt að efnið sé á nokkurn hátt skaðlegt.

Hvað er drottningarhunang?
Ungar þernur í býflugnabúum (af tegundinni Apis mellifera L.) - vinnudýr í höll býdrottningarinnar - verja öllum stundum í að fóðra drottningu sína á mjólkurhvítu efni sem myndast í munnvatnskirtlum þeirra. Þessi næringarríki blómsafi er orsök þess hversu miklu stærri, frjósamari og langlífari drottningarnar verða en ófrjóu þernurnar, en drottningar verða tvöfalt stærri en þernurnar, verpa 2000-3000 fleiri eggjum á dag en þær og lifa í fimm til átta ár. 1 Þernurnar lifa á hinn bóginn að meðaltali í fjórar til sex vikur. Býflugnabændur taka drottningarhunang úr býkúpum með sogkrafti eða með höndunum, fjarlægja óhreinindi úr því og meðhöndla það frekar þar til það er fullunnið og tilbúið til pökkunar.

Notkun
Alþýðulæknar staðhæfa að með því að neyta drottningarhunangs geti fólk öðlast sömu eiginleika og býflugnadrottningarnar: aukna líkamsstærð, meiri frjósemi og lengri ævi. Í sumum menningarsamfélögum hafa alþýðulæknar einnig notað drottningarhunang til að ráða bót á vannæringu hjá börnum, þrekleysi hjá öldruðum og kvillum eins og sykursýki, liðagigt, háum blóðþrýstingi og lifrarbólgu. Kínverskir alþýðulæknar telja drottningarhunang örvandi, styrkjandi og nærandi efni sem dregur úr öldrun. Í ýmsum vestrænum heimildum má sjá staðhæfingar á borð við að það sé meðal annars lykill að langlífi, það bæti kynlíf og dragi úr þeim einkennum sem fylgja breytingaskeiði kvenna. Margir halda því fram að það auki fólki orku og sporni gegn þreytu.

Drottningarhunangi er bætt í margar lyfjablöndur til útvortis notkunar, þ. á m. í tannkrem og heilsulyf fyrir húð, krem, áburð og sápur vegna nærandi, húðhreinsandi og hrukkuverjandi eiginleika sem það er sagt búa yfir. Drottningarhunang er jafnvel stundum innihaldsefni í vörum sem sagðar eru örva hárvöxt.

Helstu lyfjaform
Innvortis notkun: hylki, vökvi, töflur. Er einnig á boðstólum með ginsengi í samsettum náttúrulyfjablöndum sem sagðar eru auka fólki orku.
Útvortis notkun: innihaldsefni í margs konar kremi, áburði og öðrum lyfjablöndum sem bornar eru á húð.

Algeng skammtastærð
Mikilvægt að fara eftir leiðbeiningum á umbúðum afurða sem eru keyptar í heilsubúðum.

Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Ítarlegar efnagreiningar á drottningarhunangi hafa leitt í ljós að það er flókið og næringarríkt efni sem inniheldur mikið af prótínum, fituefnum, sykrum og sérstaklega mikið af B-vítamínum. Staðhæft hefur verið að það sé gott fæðubótarefni sem auki orku og þrek, en þær staðhæfingar eru langsóttar og vafasamar þegar tekið er tillit til þess að hollt og fjölbreytt mataræði tryggir sömu næringarefni, oft fyrir miklu lægra verð.

Samkvæmt rannsóknum í tilraunaglösum og á rottum er drottningarhunang sótthreinsandi og veitir vörn gegn ýmsum sýklum, svo sem Staphylococcus aureus, Escherichia coli, Streptococcus hemolyticus og Bacillus subtilis. 2 Óljóst er hins vegar hvort þessi sýklahemjandi áhrif komi fram í mönnum og hvort þau eigi þátt í að fyrirbyggja eða meðhöndla sýkingar. Tilraun sem var gerð á músum sýndi enn fremur æxlishemjandi áhrif drottningarhunangs og að það spornaði gegn vexti æxla og framgangi hvítblæðis. 3 Frekari rannsókna um þetta efni er þörf áður en hægt er að álykta um notkun drottningarhunangs til að meðhöndla krabbamein í mönnum.

Í gagnrýnu mati á drottningarhunangi komst rannsakandi að þeirri niðurstöðu að efnið hefði ekki áhrif á vöxt, frjósemi eða langlífi í dýrum og að það hefði enga estrógenlíka eiginleika. 4 Hópur rannsakenda greinir frá því að það henti ekki sem fæðubótarefni fyrir þá sem þjást af síþreytu (chronic fatigue syndrome), þrátt fyrir auglýsingar um hið gagnstæða. 5 Drottningarhunang stóð heldur ekki undir staðhæfingum þess efnis að það hefði yngjandi áhrif á húð. Í þriggja mánaða rannsókn á 24 konum með þurra húð greindu tíu konur frá bata, en tíu töldu sig ekki finna neinar breytingar og fjórar fundu fyrir ertingu í húðinni. 6

Rannsóknir benda einnig til að drottningarhunang geti haft áhrif á nýrnahettubörkinn og leitt til þess að magn blóðsykurs aukist. 7

Skaðleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Drottningarhunang getur kallað fram ertingu í húð viðkvæmra einstaklinga. Einnig hefur verið greint frá ofnæmisviðbrögðum, en slíkt er afar sjaldgæft, 8 þótt vitað sé um a.m.k. eitt astmatilfelli sem talið var stafa af drottningarhunangi. 9 Augljóst er að þeir sem eru haldnir ofnæmi fyrir býflugum eiga að forðast drottningarhunang. Í þeim læknisfræðilegu heimildum sem liggja fyrir finnst hins vegar ekkert um alvarlegar aukaverkanir af innvortis notkun drottningarhunangs.

Meginheimildir
Der Marderosian, A. og L. Liberti. Natural Product Medicine: A Scientific Guide to Foods, Drugs, Cosmetics. Philadelphia: George F. Stickley, 1988. Lawrence Review of Natural Products. St. Louis: Facts and Comparisons, mars 1992. Leung, A. Y. og S. Foster. Encyclopedia of Common Natural Ingredients Used in Food, Drugs, and Cosmetics. 2. útg. New York: John Wiley & Sons, 1996. Mayell, M. Off-the-Shelf Natural Health: How to Use Herbs and Nutrients to Stay Well. New York: Bantam Books, 1995. Tyler, V.E. The Honest Herbal. Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1993. Worthinton-Roberts, B. og M.A. Breskin. American Pharmacy, 23(8) (1983): 30.

Tilvísanir
1. A., Der Marderosian og L. Liberti. Natural Product Medicine: A Scientific Guide to Foods, Drugs, Cosmetics. (Philadelphia: George F. Stickley, 1988). 2. M.S. Blum et al., Science, 130 (1959): 452. Y.D. Xu, Zhongguo Yangfeng, 6 (1989) 28. A.Y. Leung og S. Foster. Encyclopedia of Common Natural Ingredients Used in Food, Drugs, and Cosmetics. 2. útg. (New York: John Wiley & Sons, 1996). 3. G.F. Townsend et al., Nature, 183 (1959): 1270. Leung og Foster, sama heimild. 4. A.D. Dayan, Journal of Pharmacy and Pharmacology, 12 (1960): 377-383. 5. D.H. Morris og F.S. Stare, Archives of Family Medicine, 2(2) (1993): 181-185. 6. V.E. Tyler, The Honest Herbal. (Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1993). 7. Lawrence Review of Natural Products. (St. Louis: Facts and Comparisons, mars 1992). 8. Leung og Foster, sama heimild. 9. F.C, Thien et al., Medical Journal of Australia, 159(9) (1993): 639. R. J. Bullock et al., Medical Journal of Australia, 160(1) (1994): 44.

© Þýðing: Hálfdan Ómar Hálfdanarson og Þuríður Þorbjarnardóttir

Frá bandaríska lyfjafræðingafélaginu.