E-vítamín

Vítamín

  • E-vitamin

E-vítamín er í hópi fituleysanlegra vítamína, skilst þar af leiðandi ekki út úr líkamanum með þvagi heldur safnast yfirmagn vítamínsins fyrir í honum.

E-vítamín er í hópi fituleysanlegra vítamína, skilst þar af leiðandi ekki út úr líkamanum með þvagi heldur safnast yfirmagn vítamínsins fyrir í honum. Fituleysanleg vítamín eru kölluð sindurvarar eða andoxunarefni (antioxidants) og eyða svokölluðum stakeindum sem geta myndast við ýmis efnahvörf í líkamanum. Í miklu magni geta stakeindir valdið illkynja frumubreytingum í líkamanum.

Heiti
E-vítamín, alfa-tocopherol, α-tocopherol.

Uppspretta
Jurtaolíur, gróft mjöl, grænmeti t.d. avókadó, hnetur, sojabaunir, egg og kjöt.

Verkun
Góð áhrif á hjarta- og æðakerfið með því að hindra oxun á fitu í líkamanum (LDL-kólesteróls).

Notkun - verkun

  • Við E-vítamínskorti. 
  • Verndar frumur líkamans gegn stakeindum. 
  • Vörn gegn krabbameini, hjarta- og æðasjúkdómum? 
  • Eykur frjósemi og kyngetu? 
  • Hamlar ótímabærri öldrun?


Ráðlagðir dagskammtar
Styrkleiki E-vítamíns er stundum gefinn upp í alþjóðaeiningum (a.e./i.u.) og jafngildir 1mg af d-alfa-tókóferóli 1,49 a.e./i.u.

Ungbörn < 6 mán  ---   ---
Ungbörn 6-11 mán 3 mg  4,5 a.e.
Ungbörn 12-23 mán 4 mg  6,0 a.e.
Börn 2-5 ára 5 mg  7,5 a.e.
Börn 6-9 ára 6 mg  8,9 a.e.
Karlar 10-13 ára 8 mg  11,9 a.e.
Karlar > 14 ára 10 mg  14.9 a.e.
Konur 10-13 ára  7 mg  10,4 a.e.
Konur >14 ára 8 mg  11,9 a.e.
Konur á meðgöngu 10 mg  14,9 a.e.
Konur með barn á brjósti 11 mg  16,4 a.e.

mg = milligrömm; a.e. = alþjóðlegar einingar (i.u.)

E-vítamín skortur
Lítt þekktur hjá fullorðnum og kemur helst fram í tengslum við sjúkdóma. Sjaldgæfur hjá börnum en lýsir sér með vökvasöfnun, sárum á húð og fækkun rauðra blóðkorna.

E-vítamín eitrun
E-vítamín eitrun er óalgeng. Helstu einkenni ofskömmtunar eru höfuðverkur, verkir í meltingarfærum, ógleði, niðurgangur og lækkaður blóðþrýstingur.

Aukaverkanir
Lítt þekktar nema um ofskömmtun sé að ræða.

Milliverkanir
Aukin blæðingarhætta. E-vítamín ætti því ekki að taka inn með blóðþynningarlyfjum. Laxerolía, paraffínolía og járn draga úr frásogi E-vítamíns frá meltingarvegi. Getnaðarvarnartöflur draga úr virkni E-vítamíns.

Frábendingar
Einstaklingar með K-vítamín skort ættu ekki að taka inn E-vítamín vegna aukinnar blæðingarhættu.

Heimildir
R. Marcus, A.M. Coulston, Fat-soluble vitamins. Goodman & Gilman´s The pharmacological basis of therapeutics 9th edition. 1996 McGraw-Hill New York. Bls. 1585-1588, 1549.

G. Samuelsson. Drugs of Natural Origin, a textbook of Pharmacognosy 4th revised edition. 1999 Apotekarsocieteten, Stockholm. Bls. 290.

H. R. Jóhannesson, S. Ó. Ólafsson. Bætiefnabókin, Handbók um vítamín, steinefni og fæðubótarefni. 1995 Mál og menning, Reykjavík. Bls. 23-27.

www.landlaeknir.is

Anna Elín Kjartansdóttir, Valdís Beck og Þóra Jónsdóttir, lyfjafræðingar.

(Ráðlagðir dagskammtar uppfærðir í febrúar 2014 skv. leiðbeiningum frá Embætti landlæknis; Jóna Valdís Ólafsdóttir, lyfjafræðingur).