Engifer

Náttúruvörur

  • Engifer

Engiferjurtin er fjölær og vex villt í suðaustanverðri Asíu og er ræktuð á öðrum hitabeltissvæðum, svo sem á Jamaíku. Jarðstöngullinn er sætur og bragðmikill og því mikils metinn bæði sem krydd í matreiðslu og til lækninga.

Fræðiheiti Zingiber officinale Roscoe og í sumum tilvikum aðrar tegundir.
Ætt: Engifersætt Zingiberaceae

Önnur heiti
Engiferjurt, engiferplanta.

Enskt heiti
Ginger.

Einkunn
1 = Áralöng notkun og víðtækar, vandaðar rannsóknir benda til þess að þessi vara sé mjög áhrifarík og örugg að því tilskildu að hún sé notuð í því magni sem mælt er með í ábendingunni (ábendingum) sem koma fram í kaflanum "Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna".

Hvað er engifer?
Engiferjurtin er fjölær og vex villt í suðaustanverðri Asíu og er ræktuð á öðrum hitabeltissvæðum, svo sem á Jamaíku. Jarðstöngullinn er sætur og bragðmikill og því mikils metinn bæði sem krydd í matreiðslu og til lækninga. Blóm plöntunnar eru fölgræn til fjólublá að lit.

Notkun
Engifer hefur verið einn af hornsteinum austurlenskra náttúrulækninga í þúsaldir. Jurtin hefur verið notuð til þess að örva meltingu og til að lækna magakveisur, vindverki, meltingartruflanir, vindgang og krampa. Einnig hefur hún verið notuð til þess að lina höfuðverk (þ. á m. mígreni), slá á bólgu og gigtarverki, meðhöndla nýrnakvilla, lina hálsbólgu og hósta og önnur einkenni kvefs svo að fátt eitt sé talið. Heitt engiferte eða heit tinktúra kalla fram svita og hreinsa þannig líkamann og sömu lyfjaform eru sögð draga úr tíðablæðingum.

Grasalæknar okkar tíma mæla með engifer í sama tilgangi og gert var fyrr á tímum, einkum gegn kvefi og inflúensu og ýmiss konar röskun á meltingu og tíðablæðingum. Margir telja jurtina auk þess geta komið í veg fyrir lifrarskemmdir og að hún hafi græðandi áhrif á magasár, vinni bug á getuleysi, gigt og þunglyndi. Jurtin hefur nýlega fengið aukna athygli vegna þess að því er haldið fram að hún geti slegið á ógleði sem fylgir sjóveiki og annarri ferðaveiki, morgunógleði og ógleði hjá konum sem þurfa að gangast undir móðurlífsaðgerð. Vitað er að kínverskir sjómenn til forna tuggðu engiferrót til þess að draga úr sjóveiki.

Lyfjablöndur af engifer til nota útvortis hafa einkum verið notaðar á minni háttar brunasár og bólgu í húð og þær þykja lina þjáningar og verki og flýta bata. Í sumum heimildum er þess getið að engifer og ólífuolía komi að góðu gagni gegn flösu og fáeinir dropar af hitaðri olíunni lini hlustarverk.

Helstu lyfjaform
Hylki, seyði, kjarni, rót (fersk og þurrkuð; sykurhúðuð, krystölluð, heil, rifin, möluð), te, tinktúra (veik og sterk).

Algeng skammtastærð
Dagskammtur er 3-10 grömm af fersku engifer eða 2-4 grömm af þurrkuðu. Engifermoli vegur 5-10 grömm og sykraður engifermoli sem er 2,5 sentímetrar á hlið samsvarar um 500 millígrömmum af engifer. Til að koma í veg fyrir ferðaveiki er 1000 millígramma hylki tekið inn hálftíma fyrir brottför og eitt eða tvö 500 millígramma hylki til viðbótar eftir þörfum. Til að bæta meltinguna skal gera seyði af tveimur teskeiðum af dufti eða rifinni rót fyrir hvern bolla af heitu vatni. Einnig má nota daglega þrjú 535 millígramma hylki af engiferrót í sama tilgangi.

Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Segja má að tíminn sem engifer hefur verið notað sem lækningajurt sé besti vitnisburðurinn um lækningamátt þess. Grikkir og Rómverjar til forna notuðu það til þess að bæta meltingu og síðan hefur það orðið mikilvægur þáttur í lækningum margra þjóða. Kínverjar hafa notað engifer sem krydd og lækningajurt í 25 aldir, hvorki meira né minna. 1

Þrátt fyrir að engifer sé aldagömul lækningajurt hefur vísindamönnum ekki tekist að finna virka efnið í því eða komast að því hvað kallar fram áhrif þess. Lengi var talið að rótin hefði áhrif á miðtaugakerfið, en það hefur ekki verið staðfest með rannsóknum, heldur gefa þær þvert á móti til kynna að svo sé ekki. 2 Niðurstöður rannsókna sýna að engifer virkar örvandi á meltingu með því að sefa meltingarveginn og draga úr meltingartruflunum og krömpum. Þýsk heilbrigðisyfirvöld hafa samþykkt opinberlega notkun engifers gegn meltingartruflunum. 3 Talið er nú að engifer örvi munnvatnsrennsli og verki á magann beint, auki spennu þarmavöðva og sjálfvirkar, taktfastar bylgjuhreyfingar vélindans, svokallaðar iðrahreyfingar, sem þoka fæðunni gegnum meltingarveginn.

Vísindamenn hafa greint bólguhamlandi efnasambönd í engifer, sem rennir stoðum undir þá alþýðutrú að gott sé að nota engifer gegn liðbólgu og öðrum bólgusjúkdómum. Víðtækar, klínískar tilraunir hafa ekki verið gerðar sem staðfesta þetta, en rannsókn á sjö liðagigtarsjúklingum leiddi í ljós að þeir fundu minna fyrir liðverkjum og hreyfanleiki liða jókst eftir að þeir höfðu gengist undir meðferð með engifer. 4 Það sama er að segja varðandi gildi engifers til þess að fyrirbyggja hjartasjúkdóma og heilablóðfall. Niðurstöður nokkurra mikilvægra rannsókna benda til þess að engifer vinni óbeint gegn þessum sjúkdómum með því að minnka kólesterólmagn blóðs og lækka blóðþrýsting, auk þess sem það kemur í veg fyrir myndun blóðtappa. Frekari rannsókna er þó þörf áður en þetta verður staðfest.

Mikill áhugi er um þessar mundir á áhrifum engifers gegn ógleði og telja sumir rannsakendur að sá dagur muni koma að nota megi engifer gegn ógleði í kjölfar skurðaðgerða í stað þeirra lyfja sem nú eru aðallega notuð, en þau hafa mörg hver óþægilegar aukaverkanir. Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum engifers gegn ferðaveiki á síðasta áratug. Í einni þeirra var 36 stúdentum, sem voru jafnan illa haldnir af ógleði á ferðalögum, gefið engifer og reyndust 940 millígramma skammtar af engiferdufti betur gegn ógleði en 100 millígramma skammtar af ógleðilyfinu Dramamine. Ferðaveikin var framkölluð með því að láta stúdentana sitja í tölvustýrðum snúningsstól. 5 Nokkrar svipaðar rannsóknir hafa staðfest þessar niðurstöður, en aðrar hafa þó ekki gert það. 6 Hafa ber í huga að oft er erfitt að bera saman niðurstöður úr slíkum tilraunum þar sem bæði skammtastærð og gæði þess hráefnis sem var notað í hinum ýmsu rannsóknum voru mismunandi. Þýsk heilbrigðisyfirvöld mæla með engifer til þess að fyrirbyggja ferðaveiki. 7 Áhrif engifers gegn ógleði eru talin stafa af innihaldsefnum sem nefnast gingeról og sjógaól. 8

Barnshafandi konur sem þjást af mikilli ógleði gætu notið góðs af áhrifum engifers samkvæmt rannsókn frá 1991. 9 Í þessari rannsókn taldi meirihluti (70,4 %) kvenna, sem þjáðust af morgunógleði, sig fá meiri bót af engifermeðferð en lyfleysu. Þær tóku inn 250 millígrömm af engifer eða lyfleysu fjórum sinnum á dag í fjóra daga. Í sumum heimildum er þó ekki mælt með því að barnshafandi konur taki engifer (sjá kaflann um skaðleg áhrif).

Getið er um fleiri læknandi eiginleika engifers. Krampahemjandi áhrifin, sem bæta meltingu, koma ef til vill einnig að gagni gegn til dæmis tíðaverkjum. Rannsóknir á mígrenisjúklingum benda til þess að engifer geti haft fyrirbyggjandi áhrif og læknað mígrenihöfuðverk, en engar víðtækar rannsóknir hafa enn verið gerðar til þess að staðfesta þetta. Niðurstöður kínverskra rannsókna gefa til kynna að engifer geti átt þátt í því að ráða niðurlögum inflúensuveiru og að 1-3 % rokgjörn olía úr engifer hamli vexti baktería í rækt. 10 Þessi olía gefur engifer einkennandi ilm þess.

Skaðleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Engifer sem er notað í læknisfræðilegum tilgangi veldur engum skaðlegum áhrifum samkvæmt þeim heimildum sem liggja fyrir. Notkun engifers sem krydd er vel þekkt um heim allan og ekki er vitað til þess að skaðleg áhrif hafi fylgt henni. Engifer er á lista Matvæla- og lyfjastofnunar Bandaríkjanna yfir skaðlausar fæðutegundir. Tilraunir hafa þó sýnt að mjög mikil neysla engifers getur dregið úr starfsemi miðtaugakerfis og valdið óreglulegum hjartslætti. 11

Öryggi engifers þegar það er notað til þess að fyrirbyggja ógleði er nokkuð óljóst. Svo virðist sem ráðlagðir skammtar gegn ferðaveiki séu skaðlausir, en í sumum heimildum er lýst yfir áhyggjum af hugsanlegum aukaverkunum þegar engifer er notað við flökurleika í kjölfar skurðaðgerðar og gegn ógleði og uppköstum sem tengjast meðgöngu. Engifer virðist hindra samloðun blóðflagna, sem er nauðsynleg til þess að blóð storkni, með því að hafa hamlandi áhrif á ensímið þromboxanlígasa og verkun þess sem gerandefni prostasýklíns. Þetta kom í ljós í rannsókn þar sem sjö konur tóku inn fimm grömm af hráu engifer og fóru svo í blóðrannsókn. 12 Þótt þessi áhrif á blóð séu eflaust háð skammtastærð hafa þau valdið talsverðum áhyggjum. Niðurstöður tilviljanakenndrar tvíblindrar rannsóknar á átta hraustum karlkyns sjálfboðaliðum sem ýmist tóku tvö grömm af þurrkuðu engifer eða lyfleysu sýndu þó engin mælanleg áhrif á blóð. Þótt þessi niðurstaða sé hughreystandi útilokar hún ekki að stærri skammtar geti haft skaðleg áhrif.

Aðrir rannsakendur eru uggandi vegna þess að engifer er öflugur hamlari þromboxanlígasa og af þeim sökum er hugsanlegt að það hafi áhrif á bindigetu testósterónviðtaka í fóstri sem gæti truflað sérhæfandi verkun kynhormóna á heila fósturs. Af þessum ástæðum er barnshafandi konum gefið það ráð í mörgum heimildum að taka ekki engifer til lækninga þar til ítarlegri rannsóknir hafa verið gerðar til þess að staðfesta öryggi þess. Þýsk heilbrigðisyfirvöld vara til dæmis við því að taka engifer við morgunógleði. 13 Engar rannsóknir á fólki eða dýrum hafa gefið til kynna að það sé varasamt heilsu fósturs að nota engifer sem krydd.

Efnafræðilegar tilraunir og rannsóknir á dýrum hafa gefið til kynna að eiginleikar engifers geti truflað verkun lyfja gegn sykursýki og blóðþynningarlyfja og lyfja sem eru notuð við hjartveiki. Nauðsynlegt er því að hafa samráð við lækni áður en byrjað er að taka engifer í lækningaskyni. 14 Þýsk heilbrigðisyfirvöld mæla einnig gegn því að fólk taki engifer gegn gallsteinaverkjum án samráðs við lækni. 15 Niðurstöður rannsókna hafa bæði sýnt fram á örvandi og hamlandi áhrif engifers á stökkbreytingar og nauðsynlegt er að framkvæma frekari rannsóknir til þess að komast að hinu sanna í þessu máli. 16

Meginheimildir
American Pharmaceutical Association. Handbook of Nonprescription Drugs. 11. útg. Washington, D.C.: American Pharmaceutical Associaton, 1966. Blumenthal, M., J. Gruenwald, T Hall og R.S. Rister, ritstj. The Complete German Commission E monographs: Therapeutic Guide to Herbal Medicine, Boston: Integrative Medicine Communications, 1998. Bradley, P.C., ritstj. British Herbal Compendium: A Handbook of Scientific Information on Widely Used Plant Drugs, vol. 1. Bournemouth (Dorset), England: British Herbal Medicine Association, 1992. Castleman, M. The Healing Herbs: The Ultimate Guide to the Curative Power of Nature´s Medicines. New York: Bantam Books, 1995. Lawrence Review of Natural Products. St. Louis: Facts and Comparisons, nóvember 1991. Leung, A.Y. og S. Foster. Encyclopedia of Common Natural Ingredients Used in Good, Drugs, and Cosmetics. 2. útg. New York: John Wiley & Sons, 1996. Newall, C.A., et al. Herbal Medicines: A Guide for Health-Care Professionals. London: The Pharmaceutical Press, 1996. Tyler, V.E. Herbs of Choice: The Therapeutic Use of Phytomedicinals. Binghamton,NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1994. Tyler, V.E. The Honest Herbal. Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1993.

Tilvísanir
1. V.E. Tyler, Herbs of Choice: The Therapeutic Use of Phytomedicinals (Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1994). 2. C.A. Newall et al., Herbal Medicines: A Guide for Health-Care Professionals (London: The Pharmaceutical Press, 1996). 3. M. Blumenthal, J. Gruenwald, T. Hall og R. S. Rister, ritstj., The Complete German Commission E Monographs: Therapeutic Guide to Herbal Medicine (Boston: Integrative Medicine Communications, 1998). 4. K. Srivastava et al., Medical Hypotheses, 29 (1989): 25-28. 5. D.B. Mowrey og D.E. Clayson, The Lancet, I (1982):655-657. 6. Newall, sama heimild. A. Grontved et al., Acta Otolaryngologica, 105 (1988):45-49. 7. Blumenthal et al., sama heimild. 8. T. Kawai et al., Planta Medica, 60 (1994):17. 9. W. Fischer-Rasmussen et al, European Journal of Obstetrics, Gynecology and Reproductive Biology, 38(1) (1991): 19. 10. S. Inouye et al., Microbial Biochemistry, 100 (1984):232. 11. Lawrence Review of Natural Products (St. Louis: Facts and Comparisons, nóvember 1991). 12. K.C. Srivastava, Prostaglandins, Leukotrienes and Essential Fatty Acids, 35 (1989): 183-185. 13. Blumenthal et al., sama heimild. 14. Newall, sama heimild. 15. Blumenthal et al, sama heimild. 16. Fischer-Rasmussen, sama heimild.

© Þýðing: Hálfdan Ómar Hálfdanarson og Þuríður Þorbjarnardóttir

Frá bandaríska lyfjafræðingafélaginu.