Fjallagrös

Náttúruvörur

  • Fjallagros

Þrátt fyrir nafnið eru fjallagrös flétta - þörungur og sveppur í samlífi - ekki grös. Fjallagrös hafa lengi verið notuð við hósta, nefstíflu og slímrennsli og til að sefa óróleika í maga.

Fræðiheiti
Cetraria islandica L. Acharius
Ætt: Fjallagrasaætt Cetrariaceae (Parmeliaceae)

Önnur heiti
Consumption moss, Iceland lichen, Islandiches moos.

Enskt heiti
Iceland Moss.

Einkunn
2 = Að teknu tilliti til fjölda vel útfærðra tilrauna og mikillar notkunar virðist þetta efni vera tiltölulega áhrifaríkt og öruggt að því tilskildu að það sé notað í því magni sem mælt er með í ábendingunni (ábendingunum) í kaflanum "Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna".

Hvað eru fjallagrös?
Þrátt fyrir nafnið eru fjallagrös flétta - þörungur og sveppur í samlífi - ekki grös. Þyrpingar af þessum brúnleitu bleðlum sem líkjast laufblöðum finnast í grýttum fjallshlíðum jafnt sem graslendi og þurrum skógum víða um heim. Í Mið-Evrópu, á Íslandi og í Skandinavíu er fléttan tínd úti í náttúrunni, hún þurrkuð og gert af henni te eða henni er blandað í hóstamixtúrur. Um nokkurra ára skeið hafa fengist hérlendis töflur með fjallagrösum sem eru íslensk framleiðsla og sagðar góðar fyrir hálsinn.

Notkun
Fjallagrös hafa lengi verið notuð við hósta, nefstíflu og slímrennsli og til að sefa óróleika í maga. Nú mæla grasalæknar með fjallagrösum gegn sömu kvillum, en auk þess halda þeir því fram að grösin geti sefað ertingu og bólgu í munni og hálsi.

Þegar hungursneyð ríkti á tilteknum norðlægum svæðum í Evrópu fyrir mörgum öldum tíndi fólk fjallagrös til matar og nýting í þessu skyni var til dæmis mjög mikilvæg á Íslandi. Það er athyglivert að í sumum löndum, þ. á m. í Þýskalandi, er enn gert seyði af fjallagrösum og það drukkið gegn lystarleysi. Grasalæknar fela stundum vont bragð og lykt ýmissa annarra lyfja með því að blanda fjallagrösum saman við þau. Fjallagrös hafa ennfremur verið notuð við kvillum í nýrum og blöðru, lungum og sem smyrsl eða krem á þrálát sár til að örva gróanda þeirra.

Helstu lyfjaform
Seyði úr fjallagrasadufti. Í Evrópu er fjallagrösum gjarnan bætt í kvefmixtúrur, hálstöflur og af þeim er lagað te sem þykir gott fyrir barkann.

Gagnleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Nútímavísindi renna stoðum undir gagnsemi þess að nota fjallagrös gegn hósta, kvefi, öndunarfærakvillum og magaólgu. Uppistaðan í fjallagrösum - 40-50 % - er slímkenndar fjölsykrur. Slímið þenst út og verður að hlaupkenndum massa þegar það kemst í snertingu við vatn og sefar þannig og verndar viðkvæmar slímhimnur sem verða aumar og bólgnar vegna kvefs, hósta eða þrálátrar barkabólgu. Slímsykrurnar meltast í þörmum og það útskýrir hvers vegna eðlisávísun fólks rak það til þess að leggja sér fjallagrös til munns til að sefa og fylla magann þegar það hafði ekkert annað til að borða. Þýsk heilbrigðisyfirvöld samþykkja notkun fjallagrasa til að meðhöndla slímhúðarertingu í munni og hálsi og þurran hósta sem gjarnan fylgir henni. 1

Annað virkt innihaldsefni í fjallagrösum er beiskjuefni. Það örvar rennsli munnvatns og magasafa og verkar styrkjandi á maga og örvar matarlyst. Opinber yfirvöld í Þýslalandi viðurkenna fjallagrös sem lystauka. 2 Yfirvöld þar álíta fjallagrös einnig hafa milda, bakteríuhemjandi verkun og í ljós hefur komið að þau vinna gegn tilteknum bakteríum í tilraunaglösum.

Greint var frá athygliverðum rannsóknum árið 1995 sem bentu til þess að innihaldsefni í fjallagrösum (alífatískt alfa-metýlen-gamma-laktón) verki hamlandi á tiltekna grunnstarfsemi alnæmisveirunnar. 3 Rannsóknarniðurstöður sem voru gefnar út um svipað leyti sýndu fram á uppgötvun nýs efnis, fjölsykru, sem örvar ónæmiskerfið. 4 Þótt slíkar niðurstöður séu spennandi þarf að afla mikillar viðbótarþekkingar áður en hægt er að fullyrða hvort og þá hvernig efnið örvi ónæmiskerfið og hvort það komi jafnvel hugsanlega í veg fyrir alnæmissmit í mönnum.

Skaðleg áhrif: niðurstöður rannsókna
Öruggt virðist vera að nota fjallgrös sem lyf í stuttan tíma í senn. Þýsk heilbrigðisyfirvöld greina ekki frá neinum aukaverkunum, frábendingum við önnur lyf eða aðstæðum þar sem fólki er ráðlagt að nota þau ekki. 5 Árið 1986 vöruðu finnsk yfirvöld hins vegar við notkun fjallagrasa til langs tíma í senn - lengur en tvær vikur - vegna mögulegrar hættu á blýeitrun vegna iðnaðarmengunar sem var farið að gæta í fjallagrösum þar í landi. 6 Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna setur fjallagrös á skrá sína yfir efni sem talin eru örugg til neyslu.

Fjallagrös á Íslandi
Fjallagrös eru algeng um allt land, bæði á láglendi og til fjalla. Þau eru mismunandi að vaxtarlagi og eru ýmist dökkbrún eða nánast svört, stundum mjó og rennulaga, en geta líka verið allbreiðir bleðlar og ljósari að lit, brún- eða grænleit. Hér á landi hafa fjallagrös verið nýtt til matar um aldir og einnig til lækninga. Grösin voru seydd í mjólk (grasamjólk), höfð til drýginda í bakstur (grasabrauð) og höfð í grauta (grasagrautur). Ef mjög hart var í ári voru grösin soðin í vatni einu þar til úr varð hlaup, grasahlaup eða grasalím, sem var haft til matar, en það þótti harðindamatur. Fjallagrös voru einnig notuð til litunar og gáfu þá gula og rauða liti.

Meginheimildir
Bisset, N.G., ritstjóri. Herbal Drugs and Phytopharmaceuticals. Stuttgart: medpharm GmbH Scientific Publishers, 1994. Blumenthal, M., J. Gruenwald, T. Hall og R.S. Rister, ritstjórar. The Complete German Commission E Monographs: Therapeutic Guide to Herbal Medicine. Boston: Integrative Medicine Communications, 1998. Kramer, P. et al. Arzneimittel-Forschung. 45(6) (1995): 726-731. Tyler, V.E. Herbs of Choice: The Therapeutic Use of Phytomedicinals. Binghamton, NY: Haworth Press/Pharmaceutical Products Press, 1994. Weiss, R. F. Herbal Medicine, þýðing A.R. Meuss á 6. þýsku útg. Beaconsfield, England: Beaconsfield Publishers, Ltd., 1988.

Tilvísanir
1. Blumenthal, M., J. Gruenwald, T. Hall og R.S. Rister, ritstjórar. The Complete German Commission E Monographs: Therapeutic Guide to Herbal Medicine. (Boston: Integrative Medicine Communications, 1998). 2. Sama heimild. 3. T. Pengsuparp et al., Journal of Natural Products, 58(7) (1995): 1024-1031. 4. K. Ingólfsdóttir et al., Planta Medica, 60(6) (1994): 527-531. 5. Blumenthal et al., sama heimild. 6. M.M. Airaksinen et al., Journal of Ethnopharmacology, 18(3) (1986): 273-296. M.M. Airaksinen, Archives of Toxicology, Supplement, 9 (1986): 406-409.

© Þýðing: Hálfdan Ómar Hálfdanarson og Þuríður Þorbjarnardóttir

Frá bandaríska lyfjafræðingafélaginu.